Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

29 ágúst 2003

Já ég er fegin að ég var ekki sú eina sem rak augun í þetta Bónusmál. En það sem ég skil ekki er afhverju enginn var búinn að segja mér af þessu svo ég gæti verið búin að stilla mér upp þarna og t.d. þykjast selja merki eða eitthvað.

Ég held að ég hætti þá bara við að fá mér svona stóran, gulan miða á póstkassann minn þar sem ég neita öllum fjölpósti. Vil helst ekki fá meira en nú þegar er, en ég sé í skrifunum frá Auði að hún fær þrjú eintök af sjónvarpshandbókinni þrátt fyrir að vera með gulan miða. Kannski vita þeir að þú ert ekki með textavarp??

Var spurð að því í hádeginu hvort ég vildi vera með í afrískum dönsum hjá Kramhúsinu ef tækist að safna í hóp. Haha ég held ekki. Íþróttaálfur eins og ég sem ekki næ að halda takti í venjulegri eróbik hefur ekki mikið að gera í afrískt þar sem þarf að nota allan líkamann í einum samhangandi takti. Held líka að það sé nóg fyrir kennarann að fá bara aðra okkar systranna á einu ári og þar sem mín ástkæra systir er búin að prufa þetta þá er það bara nóg í bili. Ég get hinsvegar komið og hvatt stelpurnar, það er ekkert mál (og hlegið að þeim líka svona kvikindishlátri þess sem veit að hann getur ekki gert hlutinn)!

Magasín
Það berst aragrúi af blöðum inn um lúguna á hverjum degi. Þau eru auðvitað öll ókeypis og uppistaðan í þeim eru auglýsingar. Flest þessara blaða eru að mínu mati afskaplega leiðinleg og illa skrifuð en ég verð að viðurkenna að ég les þau samt. Stundum verða þau mér uppspretta mikillar gleði og sú varð raunin í gærkvöldi.

Um var að ræða blaðið Magasín sem er einhverskonar angi frá DV. Alveg sérdeilis illa skrifað blað og stundum held ég að greinarnar séu ekki einu sinni þýddar yfir á íslensku áður en þær eru birtar, alla vega þá eru þær svo óskiljanlegar að ég þarf að marglesa suma hlutana áður en ég skil hvað er á seyði.

Greinin sem gladdi mig í gær var ekki þýdd. Nei, þarna var um að ræða viðtal við nýbakaða móður og birt stór mynd af henni og barninu. Þetta er eitthvað sem er í hverju blaði og ekki nema gott eitt um það að segja. Myndin með greininni í gær var af ungri stúlku með sítt slétt hár og hélt hún á mjög dökkleitu ungabarni með snarkrullað hár og undir myndinni stóð "Hún er spegilmynd af mér" Haha ég hugsaði með mér að þetta væru meiri húmoristarnir þar sem barnið var greinilega ekki neitt svipað móðurinni þar sem það var mun dekkra yfirlitum en hún.

Ég ákvað að lesa greinina og í síðasta dálkinum kom setning sem fékk mig til að orga hreinlega úr hlátri og er ég meira segja að hugsa um að sækja um vinnu í Bónus því þar er greinilega fjör á ferðum.
Dálkurinn hefst á því að segja að hún hafi mikið unnið sem þjónn en svo kemur rúsínan: ...."hún varð ólétt við afgreiðslustörf í Bónus"

Wow, hægið aðeins á ykkur. Var hún að afgreiða þegar hún varð ólétt? Ég hef alveg misst af svona fjöri í Bónus. Að vísu fer ég ekki mjög oft en held ég ætti kannski að fara að fara oftar. Skyldi þetta hafa gerst á háannatíma eða meðan það var rólegra? Vill einhver gjöra svo vel að upplýsa mig um þetta. Ég ætti kannski bara að fara í Bónus og mundi spara helv. sprauturnar sem fara að byrja aftur........

28 ágúst 2003

LÍN
Þá er runnin upp árviss viðburður en á þessum tíma á hverju ári borga ég til baka til LÍN peningana sem þeir voru svo almennilegir að lána mér meðan ég var við nám. Að vísu dugði upphæð þeirra mér ekki til framfærslu og ég varð því að alltaf að vinna með náminu sem aftur varð til þess að lán ársins á árinu sem eftir kom voru lækkuð. Þetta var eilíf hringrás og mesta furða að ég skyldi ekki vera komin með magasár þegar að náminu lauk.

Síðan er ég búin að vera að borga af láninu. Fullt af peningum og alls ekki í samræmi við upphæðina sem ég fékk lánað. Nei þessi er miðuð við tekjur mínar í dag sem er kannski sanngjarnt ég veit ekkert um það. Held samt að ég væri glaðari að borga ef ég hefði getað lifað af þessum pening á sínum tíma. Eini bjarti punkturinn í þessu öllu saman er sá að núna 1. sept. þegar ég verð búin að borga blóðgreiðsluna mína, þá eru bara tvö ár eftir og þá er skuld minni við LÍN lokið. Ég ætla rétt að vona að ég þurfi aldrei framar að vera upp á þá komin (hrollur).

Einu sinni fyrir nokkrum árum datt mér í hug að fara í Listaskóla í London. Ægilega fínn skóli og svona nokkuð erfitt að komast inn. Ég fór í viðtal við skólann og í framhaldi af því samþykktu þeir mig til inngöngu. Ég sótti auðvitað um lán til LÍN í krafti þess að ég hafði ekki fullnýtt lánsmöguleikana þar. LÍN sendi mér bréf til baka að þar sem þeir teldu að ég væri að fara aftur á bak með þessu námi þá teldu þeir ekki rétt að lána til námsins! Gamla góða forsjárhyggjan ríkir þar eins og annarsstaðar.

Hefðu þeir samþykkt námið þá væri ég líklegast búin með núna og sæi fram á ævilanga skuld við LÍN, það er mér mikið gleðiefni að svo skyldi ekki hafa farið.

27 ágúst 2003

Síðasta laugardag fórum við systir mín með Gullmolann í Kringluna. Tilefnið var m.a. að kaupa á hann loðfóðruð stígvél fyrir veturinn. Þetta var ægilega skemmtilegt og við fundum ein afspyrnu ljót stígvél sem ku vera þau bestu í bænum og afgreiðslukonan sagði okkur að þetta væri hið eina rétta.

Þar sem við erum fáfróðar og heimóttarlegar þegar kemur að stígvélum barna sem enn eru ekki farin að ganga þá ákváðum við að trúa henni. Hálftíma síðar þegar sviti rann niður í augu mín, systir mín var orðin eins og karfi í fram og undarlega sveitt að sjá og afgreiðslukonan búin að missa smá af skapstillingu sinni tilkynnti systir mín hárri röddu:
-" And*******, hann fær bara venjuleg stígvél og ullarsokka"
Og með það pökkuðum við gullmolanum aftur í kerruna og sigldum hátignarlegar í burtu!

Vélskólaneminn átti að byrja í skólanum í dag. Í gær fékk hann afhenta þá lengstu stundatöflu sem hann hafði nokkurn tíma séð og var klárlega alveg í sjokki. Greyið á að vera þrjá daga til sex í skólanum, það er ekki skemmtilegt! Þetta hljómar meira en meðal vinna, ég fæ að minnsta kosti að hætta á miðjum degi, kl. 16.30 (þeas þegar ég hef haft rænu á að mæta á réttum tíma, annars er það náttúrulega seinna).

Leigubílstjórinn vinkona mín er loksins komin frá Lundúnaborg. Þar var hún að kynna sér aðstæður varðandi akstur leigabíla á háannatíma í Lundúnum. Þar sem þetta er klárlega lýgi hjá mér ætla ég að byrja upp á nýtt:

Leigubílstjórinn vinkona mín er loksins komin heim frá Lundúnum. Þar var hún að versla og drekka bjór með Krúttinu sínu og var víst mikið gaman. Að vísu heldur heitt og var m.a. varað við því að taka undergrándið einn daginn þar sem þar væri um og yfir 40 gráðu hiti. Það þarf ekki að taka það fram að fyrir venjulega Íslendinga er það heldur heitt! Hinsvegar verður að viðurkennast að það er fínt að fá hana heim aftur :))

Í hádeginu í gær brugðum við Armour okkur í bæinn. Það er nú svo sem ekki í frásögur færandi þar sem við gerum þetta annaðslagið, svona til að stytta daginn. Það sem er hinsvegar frásöguvert er að í þessari bílferð stoppuðum við á rauðu ljósi og þá komu þrír stuttbuxnaklæddir menn skokkandi yfir götuna (endurtek þetta var í hádeginu). Ég lít svona annarshugar á þessa menn og er ekkert að pæla í þeim þegar ég uppgötva mér til sannrar gleði að einn þeirra er hann Kolli sem var í FB á sínum tíma í sama vinahóp og ég.

Þetta var stórkostleg uppgötvun. Á sínum tíma var Kolli ekki mikill íþróttaálfur. Hann fór jú á skíði og var fantagóður skíðari en ég minnist þess ekki að hafa séð hann skokka. Þarna var hann sem sagt í hvítum stuttbuxum að skokka með tveimur öðrum á Sæbrautinni um hábjartan dag. Fer verkfræðin svona í menn á gamals aldri? Nú bíð ég spennt eftir að heyra að Árni sé farinn að skokka líka og þá er síðasta vígið fallið! Hann er nefnilega bílakall og þeir skokka ekki en ég hefði líka þorað að veðja fyrir þessa stund í gær að verkfræðingurinn skokkaði ekki heldur!

26 ágúst 2003

Og sumir sofa....
Það kom til mín maður áðan. Hann er útlendingur og er á námskeiði að taka meiraprófið. Hann var búinn að kvíða ósköpin öll fyrir námskeiðinu af því hann óttaðist að hann myndi ekki skilja allt sem fram færi og hann myndi missa af einhverju mikilvægu.

Ég spurði hann auðvitað hvernig honum gengi, hvort það væri ekki allt í lagi:
-Jújú, allt í lagi
Og þú nærð að fylgjast alveg með?
-Jájá allt í lagi. Ég skilja alveg, bara ekki skrifa og ekki tala
Ok. Þá þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur
-Nei nei fullt af útlendingar, fullt af pólverjar og ungverjar..
Ok gott mál
-Jájá allt í lagi
Já þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur, þeir hjálpa þér að skrifa, það eru ekki allir Íslendingar sem kunna að skrifa
-Já og sumir sofa bara - og hann lagðist fram á hendurnar til að sýna mér að sumir nemendanna á námskeiðinu lægu bara fram á borðið og svæfu!

Ég reikna með að þessir sem liggja fram á borðið og sofi séu ekki útlendingar. Þetta eru íslenskir strákar og það er ekki furða að þeir sofi bara, námskeiðið kostar litlar 200 þúsund krónur og er tekið svo þeir geti fengið betri vinnu í framtíðinni. Ég skil vel að þeir sofi!

Læknar og önnur óaáran
Mér tókst að smita haukinn. Það var alls ekki af ráðnum hug og kom mér jafn mikið á óvart og honum. Skaðinn er hinsvegar skeður og hann fór í vinnuna með hnausþykkan trefil, strepsil og næseril. Hann vill ekki vera heima því hann er svo nýbyrjaður í vinnunni, kallgreyið!

Mér er svo illt í bakinu mínu að ég er að fara yfir um og það leiðir niður í misstuttu fæturna. Ég ákvað því að loksins skyldi ég drífa mig til læknis. Það er gott mál en er það auðvelt? Nei læknirinn er auðvitað í sumarfríi og kemur til baka í næstu viku. Svo segist fólk fullum fetum fá bót meina sinna hjá læknum! Held það hljóti að vera kjaftæði því í þessi örfáu skipti sem mér dettur í hug að sækja þá heim þá taka þeir úr mér blóð, liggja yfir því í smátíma og segja svo "'Það fannst ekkert, your are dismissed". Sem er auðvitað besta mál en það er ekki lækning!

Dr. Gummi, besti vinur minn, taldi fullvíst að ég hlyti að vera að drepast í bakinu og sagði það mundu lagast ef hann fengi að skera úr mér stærðar hnullung sem væri til óþurftar í mínu einfalda lífi. Það gekk eftir og ég var stórfín í bakinu, alveg þangað til lyfjaskammturinn kláraðist.

Núna er ég búin að prufa að bíða þetta af mér, en það versnar bara. Ég er búin að prufa að fara í gönguferðir en verð að viðurkenna að þar er ég ekki nógu dugleg því ég er svo þreytt í bakinu. Sem sagt, orsök eða afleiðing? Ég er búin að liggja á heitum poka og fara í heitt bað. Prufa að liggja meira en sitja, og standa meir en liggja en ekkert dugir. Veit ekki alveg hvað er næst!

25 ágúst 2003

Vaxtavekir frh
Haukurinn heldur því fram að vaxtaverkir mínir stafi ekki af því að ég sé að vaxa! Nei hann heldur því fram að ég sé með mislanga fótleggi. Halló, halló, mislanga hvað? Ég bað hann að mæla þá í skyndi en hann neitaði því og sagðist ekki kunna það. Af hverju kemur fólk með svona hugmyndir og neitar svo að aðstoða við að laga?

Ég held að þetta geti ekki verið rétt hjá honum. Fótleggir mínir geta ekki verið mislangir því þeir eru svo stuttir. Kannski misstuttir en það er allt annað mál!

Bálför
Stundum fæ ég skyndihugmyndir þegar ég er á vafri á netinu og skrái mig einhverstaðar á lista og gleymi því svo. Eina slíka hugmynd fékk ég á dögunum og er það nokkuð sem er búið að vera mér hjartans mál. Ég vil nefnilega láta brenna mig þegar ég dey. Nú er það alls ekki svo að ég sé neitt að fara að deyja eða sé haldin einhverjum feigðarhugsunum, hinsvegar er ég hrædd um að ef ég færi mjög skyndilega til forfeðra minna þá mundu mínir nánustu ekki hafa hugmynd um hvernig ég vil haga jarðneskum leifum mínum. Ég get nefnilega ekki hugsað mér að kistan mín yrði óvart grafin upp og eitthvað af beinunum mínum týndust eða (og það er öllu verri tilhugsun) að pöddur og maurar skriðu um mig alla.

Til þess að koma í veg fyrir allan vafa fór ég inn á Kirkjugarða Reykjavíkur og skráði þar óskir mínar. Þetta var ekkert mál en ég þurfti að skrá tvo votta, það var heldur ekkert mál og ég skráði þar mína elskulegu systur og haukinn. Og fór síðan að sofa ánægð með dagsverkið!

Í morgun hringdi mín kæra systir og spurði hver fjandinn gengi á?
Hmm..varðandi hvað? spyr ég eins og fálki.

Hún svaraði æst; "ég er að fá email frá kirkjugörðum þar sem ég er beðin að votta beiðni um bálför þína? Hver Fj****** gengur á?"

Úps stundum fer ég fram úr sjálfri mér og ég gleymdi að láta hana vita að hún ætti að vera vottur. Ég held helst að hún hafi haldið að hún ætti að standa við bálið og ýta kistunni inn en það er ekki svo slæmt, hún þurfti bara að votta skjalið og andlegt heilbrigði mitt sem hún greinilega efast um á þessari stundu!

Vaxtaverkir
Þegar ég var minni en ég er í dag og bjó á Húsavík (það kemur þessari sögu ekkert við en hljómar bara vel) þá fékk ég oft óútskýranlega verki í fæturna. Móðir mín er kona sem ekki deyr ráðalaus og sagði mér að þetta væru vaxtaverkir. Ég sætti mig alveg við þá útskýringu því ég var MJÖG lítil eftir aldri og fannst bara nokkuð eðlilegt að ef ég ætti að ná upp í hæð normal fólks mundu fylgja því einhverjir verkir.

Það sem mér finnst ekki eðlilegt er að undanfarna viku er ég búin að þjást af mjög svipuðum verkjum í fótunum og ég gerði á þessum tíma. Þar sem ég veit að þetta eru vaxtaverkir er mér nokkuð órótt. Hvað getur verið að vaxa? Getur verið að ég sé að fá draum minn uppfylltan og sé að vaxa upp í hæð viðurkenndra módela?

Ég verð að viðurkenna að mér finnst það ósennilegt, held að vöxtur minn haldi frekar áfram í þá átt að vera út frekar en upp á komandi árum. En hvers vegna er ég þá með vaxtaverki? Hef lítið getað sofið fyrir þessu (nema jarðskjálftanóttina þá svaf ég eins og saklaust ungabarn) og þetta er farið að ergja mig lítillega.


Powered by Blogger