Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

10 september 2004

Ég er komin heim úr sveitinni en ég var síðustu tvo daga í sumarbústað að vinna að verkefnum sem kröfðust þess að ekki væri sími á staðnum og enginn gæti kíkt inn og truflað. Varðandi símaleysið þá vorum við fimm og vorum með sex síma með okkur. Það var því alltaf hægt að ná af okkur ef stórslys hefði borið að höndum. Ekkert slíkt gerðist!

Ég brunaði heim úr sveitinni og beint í skólann að læra um spurningakannanir. Núna get ég slett um hugtökum eins og áreiðanleika og innra réttmæti, hentugleikaúrtaki og einhverju fleira svona huggulegu. Afskaplega spennandi hreint út sagt.

Í sveitinni var rigning, það var svo mikil rigning að við héldum á tímabili að við mundum hreinlega rigna niður og drukkna. Við vorum hinsvegar á hárri hæð þannig að kannski var ekki nokkur möguleiki á því haha maður veit samt aldrei. Ég var með hattinn góða þannig að þó ég hefði drukknað þá hefði hárið samt verið þurrt. Það er nú mesti munur!

Við unnum skipulega því verður ekki neitað, við borðuðum hinsvegar af enn meira skipulagi og þannig var alltaf einn að undirbúa næsta matmálstíma meðan hinir unnu. Það kom vel út nema fyrir magann sem stækkaði þannig að ég koma bara í náttbuxunum heim því þær voru þær einu sem voru nógu víðar. Samnemendurnir í HÍ voru nokkuð hissa á svipinn þegar ég mætti í rósóttum blúndunáttbuxum með hvítan sjóhatt. Ég lét augngotur þeirra ekkert á mig fá.

07 september 2004

Það rignir og rignir. Ég gleymdi fína hattinum mínum heima. Þetta er veður fyrir sjóhatt! "er´etta minn eða þinn sjóhattur" sungið með hárri raust....

Ég er komin með rugluna held ég, oj bara sko. Annars er ég að verða búin að klára tvo svona svaka fína bæklinga þannig að ég er tiltölulega ánægð með mig bara. Alltaf gott að geta sett punkt við verkefni og byrja á nýju. Annars langar mig svo mikið í nammi núna að ég er að springa. Ætla meira segja að leyfa mér að hunskast í búðina og versla smá nammi. Verst að búið er að loka sjoppunni (ég fæ svo sjaldan svona nammidillur að ég held ekki neinni sjoppu uppi)

Mikið óskaplega er ég fegin að þurfa ekki að keyra á hverjum morgni úr sveitasælunni minni yfir til Reykjavíkur og nota til þess Reykjavíkurveg. Þetta er bara eins og að vera í útlöndum, stappa af bílum og allt í hæga gangi. Tók mig hálftíma að keyra leið sem ég fer á 12-15 mín svona á öðrum tímum.

Í kvöld ætla ég að fara að borða fyrir fyrirtækið með útlending á þess vegum. Alltaf gaman að eyða kvöldunum í vinnunni enda hver þarf svo sem á frítíma að halda... onkel Sam needs you. Eins gott að ég fái góðan mat!

06 september 2004

Viktor Gullmoli er 2 ára í dag og Gummi á stórafmæli í dag

Til hamingju báðir tveir

Og takk fyrir veislurnar í gær. Annar grét þegar við Skakki fórum heim en ég segi ekki hvor...


Powered by Blogger