Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

02 júní 2006

Svakalega geta jólin verið skemmtileg! Í gær tók ég forskot á sæluna og fór í þetta flotta jólaboð í boði nýju kaupmannanna, SM, Hjarta og hjásvæfu SM. Ofsalega var þetta skemmtilegt og flott boð. Ofsalega var ég glöð að eiga vini sem geta haldið svona flott boð og boðið mér með hehe. Ég sá strax að ef ég vendi komur mínar inn í þessa búð yrði ég fljótt öreigi! Ég skil vel að félagar mínir skyldu hafa keypt þessa búð því þau hafa pottþétt ekki getað hamið sig og þetta hefur hreinlega verið ódýrara heldur en vera alltaf að kaupa 1 og 1 stykki.

Hjartað ætlar að setja upp nýja reglu í búðinni. Þeir sem koma verða að leggja inn kortið sitt, það er skannað og þeim sagt í framhaldi af því hvaða muni þeir meigi snerta.. þeas hvaða muni þeir muni geta borgað ef þeir brjóta eitthvað..haha brilljant regla alveg! Sumt er alveg offlimit fyrir alla nema Jón Ásgeir, spurning hvort hann hafi komið þarna inn og viti að það sé hlutur þar sem hann meigi snerta því hann geti borgað þó hann missi hlutinn?

Ég fjárfesti í sérstökum jólakúlum sem eiga að hafa minningargildi fyrir 8 litlar konur. Fyrsta jólaskrautið sem sé... en það verður ekki afhent strax...

Og á morgun fer ég til Sweden að heimsækja nýbúana. Og í kvöld kemur Skakki heim til sín eftir tveggja vikna fjarveru. Það er bara gaman að vera til!

31 maí 2006

Í gær fórum við í Laugar í dekur. Í dag var bloggerdruslan biluð og hleypti mér ekki inn þannig að ég gat ekki skrifað hárrétta og raunsanna lýsingu á upplifuninni. Í gær gleymdi ég sundbolnum mínum í Laugum. Í dag fór ég og leitaði að sundbolnum mínum í óskilamunum hjá Laugum og komst að því að þeir eiga safn af gömlum og hræðilegum sundfötum sem fólk hefur gleymt en einhver hefur tekið ástfóstri við bolinn minn og hirt hann ARG ARG Nú á ég engan sundbol og ég þoli ekki að kaupa mér svoleiðis flíkur. Tók mig langan tíma að finna þennan og ég var svo ánægð með hann að það var engu lagi líkt. Andskotans hyski sem stelur annarra manna sundfötum! Hvernig á ég að finna annan svona gamaldags sundbol sem löngu er kominn úr tísku? Ég vil bol með skálmum og þessi var með svoleiðis. Hann var allt sem einn sundbol getur prýtt fyrir utan að hann var ekki vafinn um neitt sérstaklega vel vaxinn skrokk. Ég vona að nýji eigandinn sé með ljótari skrokk en ég hef. HYSKI!

þar fyrir utan var upplifunin fín. Mér leið eins og ég væri í forgarði helvítis þar sem ég sveimaði um í gufunni frá böðunum og demdi mér annað slagið í heitan pott með nuddi á bakið. Þarna sveimuðu allir um í hvítum sloppum og pössuðu sig á að líta ekkert rosalega vel hver á annan (ég veit ekki af hverju það var.. kannski bara móða á gleraugunum). Síðan var sest í leizyboy og þar hrutu karlar hver í kapp við annan. Hin óþroskaða ég varð fljótlega að standa upp því mér fannst þetta svo yfirmáta fyndið: Haugur af letingjum sofandi í leiziboy stólum, allir í hvítum sloppum og helmingurinn hrjótandi. Tek það fram að ég hraut ekki! Síðan fengum við að borða og það var kærkomið. Þar sátu líka allir í hvítum sloppum eins og alkar á Vogi nema tveir drengir (menn) sem gengu um á sundskýlunum og fettu brjóstkassana og gutu augunum á okkur hin til að sjá hvort við tækjum eftir þeim. Við gerðum það en því miður ekki af aðdáun heldur af hreinri illgirni. Lífið er dásamlegt!

Nuddið sjálft var vont. Það er að segja stúlkan var flink og boraði sig inn í bakið á mér þar til hún fann fitukirtil sem hún reyndi að toga út. Ég grét ofan í gatið á bekknum! Er ég þó með marga fitukirtla. Í dag er ég aum í öxlunum og bakinu. Og ég á engan sundbol! En þetta var skemmtilegt! Hvet alla til að prufa þetta alla vega einu sinni en passið vel upp á sundfötin ykkar að gleyma þeim ekki ARG

30 maí 2006

Í kvöld er ég á leið í dekur í Laugum. Það verður nú ekkert smáræði. Þetta eru verðlaunin sem deildin fékk fyrir að vinna fyrstu verðlaun í hreyfingarmánuðnum mikla, mars. Við höfum bara ekkert komist fyrr en nú. Ég get varla beðið, þetta á að verða svo ljúft!

29 maí 2006

Já er málið.. er það ekki? Kosningarnar búnar og allir voða glaðir nema þeir sem töpuðu. Mér r slétt sama því mér finnst ekki koma neitt nýtt fram og allir voru að blaðra um það sama. Sömu loforðin og sama framkvæmdaleysið. Svona er gott að vera ekki í framboði því þá getur maður gagnrýnt alla hina!

Skakki er í Færeyjum að vanda og er sérstaklega ánægður með kokkinn sem gefur honum að borða. þetta er samai kokkurinn og síðast er hann fór nema núna er hann búin að eignast konu, tælenska konu. Og það er punkturinn yfir i-ið að mati Skakka því maturinn gerði ekkert nema batna. Ég borða hinsvegar kókopuffs og ristað brauð því ég nenni bara alls ekki að elda fyrir mig eina, en það er að vísu ekki komin nógu löng reynsla á það. Ég verð kannski farin að elda þegar hann er búinn að vera í burtu í mánuð!

Ég er búin að fá boð í fyrsta jólaboðið á þessu ári. Það verður næsta fimmtudag. Það verður að dreifa þessum boðum þegar það eru svona fáir jóladagar og mörg boð sem þarf að mæta í og þá er eins gott að byrja snemma!


Powered by Blogger