Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

12 maí 2007

Í gærmorgun fékk hæstvirtur eiginmaður minn, Skakki, heilahristing við morgunmiguna. Þetta var alvarlegt tilvik þar sem handklæðaslá réðst á hann af fullum þunga og skildi eftir sig greinileg örmerki í andliti hans. Hann reiddist og ég þorði ekki að hlæja enda hlær maður ekki að fólki sem verður fyrir slysi við svo alvarlega athöfn sem þessi er. Nema hvað, heilahristingurinn hafði ýmsar afleiðingar en þær helstu voru að þegar hann hafði lokið við að útbúa hina mjög svo einföldu 10 treasure súpu (3 tímar) og við borðað hana í sameiningu þá kvað hann upp úr eins manns hljóði (ég þegi nefnilega þegar maturinn er búinn því ég er svo hrædd um að ef hann heyri í mér þá lendi ég í uppvaskinu). Ég var sem sagt að laumast burtu þegar ég heyri: "Eigum við að skella okkur á tónleika?"

Ég stoppaði, hlustaði og hristi svo hausinn og bjó mig undir næstu tröppu þegar hann heldur áfram: "Það er mjög spennandi afrísk hljómsveit að spila í Hafnarhúsinu. Eigum við að skella okkur?"

Það þarf ekki að orðlengja það neitt frekar, ég klæddi okkur bæði í skó og jakka og við stóðum við bílinn áður en mínuta var liðin (ég klæddi hann líka svo honum næði ekki að snúast hugur). Við fengum miða og enduðum á frábærum tónleikum með kongósku hljómsveitinni Konono n° 1.

Myndavélin var orðin batteríslaus af því ég hitti risessuna á leiðinni þannig að ég tók bara eina mynd á símann, bara svona til að muna að ég var þarna.


10 maí 2007

Það er nú gott að búa svona í sveitinni. Hér er hægt að vinda sér út um dyrnar og fara í kvöldgöngu um heiðarnar án þess að hreyfa bílinn til að keyra sig að heiðunum. Að vísu fylgir þessu smá kvilli eins og td meiri flugur og svona fénaður sem mér finnst ekki skemmtilegur en maður verður bara að bíta á jaxlinn. Við fórum í svona rómatíska kvöldgöngu í fyrrakvöld og Skakki lét mig vaða einhverjar mýrar upp í mið læri til þess að hann kæmist að einhverjum runnum fullum af ógeðis randaflugadrottningum sem hann vildi mynda. Ég hef ekki fengið að sjá neinar myndir þannig að kannski var hann bara að skrökuljúga að mér og vildi bara sjá mig vaða alla þessa drullu? Hann stóð alla vega á þurrum fótum og hló og hló meðan ég bölsótaðist í drullunni. En hann hætti samt að hlæja þegar ég sagðist vera hætt að vera vinkona hans og reyndi að hjálpa mér með því að benda á misgáfulegar þúfur til að lenda á. En gönguferðin var góð þó rómantíkið hafi fokið fyrir lítið þarna í leðjunni það er nefnilega fátt órómantískara en kolmórauðir leggir og slettur upp á mitt bak.

08 maí 2007

Á sunnudaginn hringdi síminn, sem er svo sem ekkert til að segja frá, nema Skakki svaraði:
"Halló"
Á hinum endanum var þungur andardráttur og svo heyrðist lítil rödd segja "en þetta er Haukur"
og önnur rödd kallaði... "Já spurðu hvort Anna sé við"
Löng þögn, síðan heyrðist í litlu röddinni:
"Er Anna frænka heima?"
Skakki svaraði... "hún er í baði"
Löng þögn... afar löng þögn
Síðan kom litla röddin aftur
"Segðu henni... segðu henni" aftur löng þögn.... "segðu henni að fara í leikhúsið" aftur löng þögn... klukkan, klukkan.. fjögur"
Og síðan var skellt á.

Hmm þegar ég kom í leikhúsið klukkan 4 var sýningin löngu búin af því hún byrjaði klukkan 1. Maður bara spyr sig.. haha.. en svona í framhaldinu þá hringdi ég nú til baka þegar ég var búin í baðinu og Molinn svaraði og ég spurði hann hvort hann hefði verið að hringja í mig
svarið var... "Nei, ég var bara að borða hádegismatinn minn"

En sýningin var fín... svangir bræður sitja hér.. tralalalalala

07 maí 2007

Ég held bara að sumarið sé bara rétt að bresta á.


Powered by Blogger