Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

30 desember 2006

Þá erum við búin að fara í borgarferð til Reykjavíkur. Ég gaf Skakka óvissuferð í jólagjöf og það reyndist vera borgarferð! Við fórum og vorum eina nótt á Hótel Sögu. Þar notuðum við gufuböðin og nuddpottinn á MeccaSpa. Fórum svo út að borða að Caruso og sáum síðan Mýrina en hana áttum við eftir að sjá. Vorum svo eins og hinir túristarnir í bacon og eggjum á morgunverðarhlaðborðinu. Þarf ekki alltaf að fara langt til að upplifa sanna borgarstemmingu!

Svo langar mig bara til að segja:

Gleðilegt ár og gott 2007!

27 desember 2006

Spurning hvort við nornir séum að fara á ráðstefnu á næsta ári, Mér finnst við eiga fullt erindi:
Vísir, 27. des. 2006 15:06
Nornir fá uppreist æru
Um 100 nornasérfræðingar alls staðar að úr heiminum munu koma saman í Vardø í Noregi á næsta ári til að ræða nornaveiðarnar í Finnmörku, Norðvestur-Rússlandi og Mið-Evrópu. Norræni menningarsjóðurinn styrkir þessa ráðstefnu. Nornaveiðar í Vardø á 17. öldinni voru þær verstu í heimi, tillitslausar og grimmar. Árásir á mannréttindi, grimmdarverk og vöntun á trúarlegu umburðarlindi áttu eins við þá og í heimsmálum nútímans. Nornaveiðar hafa vakið áhuga margra og um þær verður fjallað frá mörgum sjónarmiðum á ráðstefnunni. Til að mynda vinna vísindamenn frá nokkrum háskólum að því að skoða ástæður nornaveiða og nornabrenna og á Íslandi er rekið nornalistasafn, sem mun taka þátt í ráðstefnunni í Vardø næsta sumar.

það eru ljótu veikindin allstaðar núna. Fólk hrynur niður allt í kringum mig. Molinn búinn að vera alveg að drepast með mikinn hita (hann kallar það hansbongu) og litli Flosi búinn að vera svakalega veikur en er allur að koma til og þá tók pabbi hans við. Eins gott að leggjast ekki núna því ég er að fara í sprautu á morgun til að fá 10 ára ónæmi fyrir allskonar ógeði og svo ætla ég í óvissuferð með Skakka mínum. Við verðum bæði nýsprautuð og fín í þessari óvissuferð.

26 desember 2006

Úff hvað það er gott að vera í svona jólafríi. Ég nenni ekki einu sinni að lesa fínu jólabækurnar mínar og er þá mikið sagt. Kannski eins gott að ég þarf að skrattast í vinnuna á morgun.

24 desember 2006

Gleðileg Jól

Þá er jólaundirbúningi lokið og búið að mála piparkökur eða "pönnukökurnar" eins og bakarinn kallaði þær: "Anna hranka komdu og hjálpaðu mér að mála pönnukökurnar". Þetta var mikið gaman og mikið stuð enda í fyrsta sinn sem ég baka með einhverjum sem vildi vera "allsber á fótunum" meðan hann bakaði. Á fyrstu myndinni er hann "allsber á fótunum", á annarri myndinni leybir einbeitingarsvipurinn sér ekki við málningarvinnuna og á þriðjumyndinni er hann með afraksturinn og sést á munninum að búið er að bragða á kræsingunum, sérstaklega málningunni:




Powered by Blogger