Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

18 febrúar 2005

Helgin hefst klukkan 16.30 í dag. Fram að því er ógnarlangur dagur með langri kynningu og svo ýmislegu smotteríi öðru. Afskaplega verður gaman að fá helgarfrí. Annars held ég að ekki verði um neitt frí að ræða því ég hef verið ofsalega slufsuleg við ritgerðarsmíðina að undanförnu og sé fram á að ef ég tek mig ekki saman í andlitinu um helgina þá verði hreinlega ekki af útskrift í júní. Það væri bömmer ha.. já alger bömmer..

17 febrúar 2005

Ég er orðin svo mikið hex að það er hrein dásemd. Ég held að ég kunni vel við mig í þessu hlutverki. Ég rexa og rífst í vinnunni og það hefur þau áhrif að verkin skotganga. Hefði átt að byrja á þessu fyrir löngu síðan.

Fór með ÓRÓ áðan og keypti ljós til að nota við myndatöku af starfsmönnum. Ægilega er þetta grand dæmi. Ég keypti í leiðinni tösku utan um myndavélina mína og taskan er eins og sígarettuveski að stærð.. þetta er brilljant myndavél. Starfsmaður Beco vildi endilega selja mér nýtt flass á vélina en hún sagði þetta vera það heitasta í bænum í dag.. úuuuuu það er hægt að kaupa svo margt skemmtilegt dót. Ég sagðist koma síðar og versla þetta því mig vantar ekki flass sko.. eða öllu heldur ef rétt er rétt þá vantaði mig ekki flass ÁÐUR en ég gekk þar inn.. en mig vantar það kannski núna!

Þá er að verða komið að árlegri endurgreiðslu á skemmtanaskattinum til LÍN. Alltaf gaman þegar að þeim tíma kemur. Í september ætla ég að halda upp á að þá mun ég borga þeirri ágætu stofnun síðustu greiðsluna af mínum skemmtanaskatti og get snúið mér að einhverju öðru. Blóðpeningar og ekkert annað! LÍN er í lagi ef menn geta lifað af lánunum en þegar þarf að vinna með til að ná endum saman og síðan vinna meira árið eftir því auðvitað lækka lán ef fólk asnast til vinna til að geta lifað.. þá er LÍN ekki að standa sig. En.. ég ætla ekki að tuða meira yfir þeim því ég er að verða laus úr þeirra viðjum...

Frændi minn elskulegur er að mála handa mér mynd. Ég get nú bara ekki beðið, ég segi nú ekki annað.. Það er gott að eiga góða að, enda vita allir að mig vantar eitthvað á veggina.. það er smá pláss laust fyrir ofan eldhúsofninn...

Í upptalningu á góðum einkaspæjurum í Regnhlífunum í gær varð ég sármóðguð þegar þeir voru ekki með Alex Delavare vin minn og bekkjarfélaga á listanum. Hvernig stendur á því? Gleymdist hann eða er hann ekki talinn vera jafn góður og hinir? Skakki sagði að þeir teldu útlendinga ekki með og ég spyr þá á móti hvað var vinkona mín Precious frá Botswana þá að gera þarna. Að vísu má hún mín vegna vera þarna því hún er skemmtileg kona á besta aldri og í besta formi (les: gömul og feit). Ég er að spá í að senda Regnhlífunum bréf og kvarta upphátt.. eða kannski ekki.

16 febrúar 2005

Jæja. Þá er ársfundi í félagi breiðfiskra frystihúskvenna lokið. Þar komu fram áhugaverðar upplýsingar um framtíð þorskstofnsins á Íslandi og mökunarvenjur karfa! Sem sagt allt samkvæmt plani... Við erum að spá í að kalla Össur á næsta fund og heyra um æxlunarvenjur laxa..

Að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang. Veðrið snarsnældubrjálað og umferðin hæg. Það þýðir að ég er svona 15-20 mín lengur að skrattast í vinnuna heldur en á góðum degi. Annars held ég að ég verði að fara að hundskast í einhverja raftækjaverslun og kaupa mér tæki til músikhlustunar. Tækið mitt er farið að hægja á sér í miðjum lögum. Þetta minnir helst á örþreyttan hlaupara sem hægir á sér í miðri brekku, dregur svo djúpt andann og gefur allt í restina. Allt í lagi fyrir hlaupara en fremur undarlegt þegar hlustað er á músík. Og sérlega óþægilegt þegar maður er kominn vel af stað í einhverjum vinnurythma og pikkar á við tíu, ekki að það komi nokkurn tíma fyrir hjá mér því það er erfitt að pikka á við tíu þegar 4-5 puttar eru notaðir á lyklaborðið..ég ætti kannski að fara á námskeið og læra fingasetningu ha?

15 febrúar 2005

Í gær sótti ég Molann á leikskólann sem er svo sem ekkert í frásögur færandi að öðru leyti en því að nú er hann hættur að kalla mig með nafni (sem hann er nýbúinn að læra því til skamms tíma var ég bara "mamma" eins og allar hinar konurnar). Nei nú kallar öðlingurinn mig "hænku".. Það er eiginlega soldið sætt að koma inn um dyrnar og heyra kallað "hænka, hænka". Það sem er hinsvegar neikvætt við það er að mér fannst ég eldast all skyndilega við þetta. Eiginlega leið mér eins og ég væri kominn langt á áttræðisaldur.

Leiðinlegasta aðgerð ársins fyrir fólk í fjölbýlishúsum (að mínu mati) held ég að hljóti að vera árlegur aðalfundur. Það er þetta eilífa streð um það hver eigi að vera formaður húsfélagsins og allt það. Skakki er svo sniðugur að hafa laumað sér í eitthvað endurskoðandahlutverk og ver hann það með kjafti og klóm. Fráfarandi gjaldkeri húsfélagsins horfði hinsvegar á mig stingandi augnaráði meðan reynt var að plata einhvern til verksins. Ég horfði á gólfið! Ég slapp því að þessu sinni.

Bæ þe vei, bíómyndin sem við Skakki sáum á laugardagskvöldið var mjög góð. Million dollar baby.. Ég sá Hilary Swank líka í myndinni Boys dont Cry og það var sama sagan þar. Þessi kona á auðvelt með að láta mig gráta! En það er líka hollt að gráta eða hvað? Eða er þetta bara mín afsökun fyrir að vera meyr eymingi? Þetta er kannski ekki alveg að marka því ég fékk líka tár í augun yfir fréttunum af barni 81 eða hvað það nú var í Tælandi sem foreldrar fengu í hendurnar í gær.

14 febrúar 2005

Nóttin hefur auga eins og fluga.. syngur Megas.. það er hins vegar ekki flugu út sigandi í þessar umhleypingar sem hafa verið að undanförnu. Til skiptist gott veður og beljandi hríð. Alveg óþolandi finnst mér. Ætti bara að vera fluga og liggja í dvala fram á vorið. Annars er það af læknamálunum að frétta að ég er búin að fá bréfið sem ég reiknaði með að kæmi í apríl eftir að ég yrði búin að reka á eftir því tvisvar. Úff ég átti ekki von á því svona snemma en svona getur fólk komið manni á óvart hrmp

Áskoruninni í vinnunni hefur verið frestað um viku tíu daga þar sem ekki reyndist unnt að klára allt á réttum tíma. Ég mætti með töskuna mína og allt.. nema skóna sem ég er ekki búin að kaupa mér, en þeir verða þá vonandi tilbúnir í næstu viku...

Annars er húsið koma með fasta sunnudagsgesti í morgunmat. Gestirnir koma fljúgandi, hlunka sér í garðinn og veina þar til einhver í húsinu sér aumur á þeim og hleypur út á svalir og gefur þeim að borða. Æði oft er það Skakki því hann hefur svona "soft spot" fyrir svöngum gestum. Hér eru nokkrir þeirra á vappi fyrir neðan svalirnar:


Powered by Blogger