Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

28 september 2006

það er ekki bara að drengurinn minni mig á mannasiðina, hann syngur líka vitlaust. Gæti hann verið óbeinn afkomandi konunnar umræddu?

hann syngur hástöfum:
Komdu niður, komdu niður, komdu niður syngja þau öll í kát

kát? kór?
Hallormstað? Hatt og staf?
Jack og Josh?

Þegar upp er staðið er þetta bara framburðurinn og ekkert annað!

27 september 2006

Það er gott að eiga góða nágranna. Sumir nágrannar geta hins vegar verið soldið dularfullir svo ekki sé nú meira sagt. Í mínu húsi búa m.a. tveir karlar sem eru skrítnir hvor á sinn einstaka hátt og ekkert nema gott um það að segja. Annar hefur gripið í sig að ég viti allt um gamla íslenska málara og tekur mig reglulega á eintal til að segja mér frá hinum og þessum málverkum sem hinn og þessi málari hafa málað (Kjarval og svona kallar sem ég þekki ekki neitt). Hinn hefur til þess bara svona heilsað og starað á mig þegar ég bruna fram hjá honum í hraðgöngu þess sem ekki vill tala við nágranna sína. Í gær hinsvegar breyttist samband okkar.

Ég var að lesa Gosa fyrir Molann (Gosi kemur sögunni ekkert við, ég er hinsvegar viss um að þið viljið heyra hvaða bækur við lesum saman) þegar það er hringt á bjöllunni, ekki dyrahnappsbjöllunni heldur hinni. Hmmm hugsa ég.. voru ekki fjandans útvarpskallarnir á ferðinni fyrir nokkru, varla eru þeir komnir aftur til að reyna að grípa mig við það saknæma athæfi að horfa á sjónvarp sem ég á ekki til. Ég skeiða til dyra full forvitni og á eftir mér trítlar Molinn með Gosabókina sína. Fyrir framan stendur Nágranninn með dunk í plastpoka og lítinn pendúl í hinni hendinni. Hann horfir lengi á mig og segir svo hægt..."má ég trufla þig augnablik?". Ég held það nú og býð manninum inn, en hann tvístígur á dyraþrepinu, skýtur svo hausnum inn og horfir á draslið (þrjár íþróttatöskur því ég og Molinn er MJÖG latabæjarleg þessa dagana) og dregur sig svo til baka og umlar eitthvað. Biður mig svo að rétta sér vinstri höndina, sem ég geri og er inni í mér farin að flissa soldið en þori ekki fyrir mitt litla leiti að sýna kallinum það. Á meðan slökknar ljósið á ganginum þannig að þarna stöndum við á dyraþrepinu, kallinn í myrkrinu og ég og molinn í ljósinu fyrir innan. Kallinn starir á mig meðan hann sveiflar pendúlnum af miklum móð og umlar eitthvað.. "ég vissi það, ég vissi það" ...
hmm hvað vissuru? Er ég að missa af einhverju?
Nema kall byrjar að stara á molann og segir, "þarna ertu með lítinn dreng". Ég var nærri búin að missa út úr mér "no sjitt sherlock" en passaði mig á síðustu sek og kinkaði bara kolli. "Hvaða drengur er þetta", spyr kall og ég svara að þetta sé systursonur minn og við það virðist karlinum verða rórra og hann spyr hvort hann megi prófa litla drenginn líka. Já, já prófaðu okkur bæði í guðanna bænum. Hann byrjar að sveifla pendúlnum yfir vinstri hendi Molans og ég er ekki frá því að sveiflurnar hafi verið aðeins öðru vísi en ég skal vísu viðurkenna að ég var svo mikið að reyna að hemja mig við að fara ekki að flissa að ég sá ekki alveg allt. Nema kallinn er svakalega ánægður með Molann, kinkar kolli mörgum sinnum og umlar "ég vissi það", síðan snýr hann sér við með baukinn og pendúlinn og býst til við að hverfa í myrkrið á ganginum. Ég spyr hvað hann hafi verið að prófa og þá fer að færast líf í karlinn. Hann snýr sér aftur að mér og sveiflar bauknum: "sko í sumar las ég grein um þetta lyf sem hjálpar fólki að glíma við minnisleysi og margt fleira og þú þyrftir að taka þetta lyf en ekki litli drengurinn. Hann framleiðir nóg sjálfur. Nú þarf ég bara að finna einhverja samkynhneigða og sjá hvort þeir séu eins".

Nú lá við að ég missti mig. Samkynhneigðir, hvernig ættu þeir að vera öðru vísi? Ha, ha ég þorði ekki að sýna svipbrigði því ekki ætla ég að fara ræða við nágranna mína um mögulega fordóma þeirra, ég sagði því bara "en spennandi, þú leyfir mér kannski að fylgjast með!" Ó nei um leið og ég sleppti þessu út vissi ég að ég væri komin á hættulegar slóðir því nú er hætta á að kallinn fari að banka upp á aftur til að segja mér niðurstöðurnar... hann fór og ég lokaði hurðinni og þá sagði Molinn fyrstu setninguna frá því ég opnaði hurðina: "hvað var maðurinn að gera?.. " "ég bara veit það ekki" svaraði ég og svo byrjaði ég að flissa og flissa og drengurinn náttúrulega skellihó með mér þó hann vissi ekkert af hverju ég væri að hlægja. En ég á þá bara von á að hinn nágranninn banki upp á í kvöld og haldi smá fyrirlestur um Kjarval kallinn...

En mig vantar lyf við minnisleysi!

26 september 2006

Í gær komu mánaðarlegar upplýsingar frá Kína. Núna náðu þeir "alla leið að 9.ágúst". Það er alltaf að verða ljósara og ljósara að við förum ekki neitt fyrr en fer að nálgast næsta sumar. Mikið andskoti getur þetta verið erfitt!

Annars til að létta þunga lund þá mun Gullmolinn dvelja hjá aldraðri móðursystur sinni og halda henni skemmtun fram að helgi. hann hefur þegar minnt mig á að þegar ég sæki hann í leikskólann þá verð ég að muna eftir að segja "Gaman að sjá þig, hvernig líður þér?"... Eins gott að minna aldraðar frænkur á svona kurteisisreglur.

25 september 2006

Í sakleysi mínu ákvað ég að fara og fá mér að borða í hádeginu. Fór ásamt hinum bootcamp íþróttaálfinum og við ákváðum að fá okkur eitthvað pínulítið óhollt, ekki mikið en soldið. Sem við sitjum þarna svo ánægðar með lífið og tilveruna og okkar "ekki svo mikið fitandi" hádegismat rekum við augun í stórstíga konu sem var að eta gulrót. Áður en við gátum dregið gluggatjöldin fyrir (já við sátum auðvitað út í glugga) kemur konan auga á okkur og upphófust nú miklar skammir í gegnum glerið. Ég heyrði ekkert hvað hún sagði en af látbragðinu var það ljóst að henni var mikið niðri fyrir. Hún benti a diska okkar, benti á okkur og blés svo út kinnarnar og lék feita konu (jæja kannski aðeinum orðum aukið en sagan er betri svona). Ég og bootcamp íþróttaálfurinn sátum eins og dauðadæmdar og reyndum að horfa eitthvað annað en það þýddi ekki neitt. Við brostum því og ýttum diskunum frá okkur og þá virtist konar ánægð. Hún stikaði á brott. Þegar við töldum okkur vera óhætt þá drógum við diskana að okkur og héldum áfram að hakka í okkur okkar ekki svo óholla hádegismat. En hvað gerist, birtist konan ekki aftur og nú með liðsstyrk. Nú voru tvær hneykslaðar konur á á glugganum veifandi gulrótum. Ég er mest hissa á að eigandi staðarins hafi ekki rekið þær í burtu fyrir að fæla burtu alla feitu kúnnana (hehe). Við bárum okkur samt vel og þóttumst hvergi bangnar en þegar þær voru farnar gúffuðum við í okkur matnum og hlupum út og litum ekki til hægri eð vinstri svo við sæjum þær ekki einu sinni enn í einhverri heilsugöngu með gulrótirnar sínar!!!!! Ég veit að kunnugir geta ómögulega giskað á það hvaða kona þetta var en ég gef það hint að hún var í grænni úlpu.

24 september 2006

Nýjustu fréttir af Bootcamp tímanum sem ég rétt lifði af þarna um daginn. Einn af félögum mínum (háttsettur í fyrirtækinu sko) lifði armrétturnar ekki af og það leið yfir hann haha ég var ekki svo slæm þó ég viðurkenni að ég var alger hryggðarmynd. Og það skal tekið fram að ég átti svo gjörsamlega nóg með mig og mínar æfingar að ég tók ekkert eftir því að einn af vinnufélögum lá þarna í dauðateygjunum. Segið svo að maður geti gert tvennt í einu!


Sit UpOg í gærdag (laugardag) var ég varla með réttu ráði vegna þess að harðsperrur miklar og ógurlegar höfðu heltekið líkama minn. Ég var með verki í neðri OG efri maga, lærvöðvum framan og aftan, upphandleggjum, brjóstvöðvum og einhverjum fleiri sem ég veit ekki hvaða gagn gera en ég fann til í þeim öllum. Því miður komst ég ekki tímann á laugardeginum þar sem það var vinnuferð sem stóð allan daginn (en við vorum í leikjum í tvo tíma sem komu smá í staðinn fyrir þetta) en laugardagstíminn var víst það versta sem menn höfðu lent í leikfimilega séð.


Powered by Blogger