Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

15 október 2005

Ég var á Egilsstöðum í gær og fór líka til Reyðarfjarðar að skoða álversframkvæmdina. Nóg um það. Flugið heim var skemmtilegt fyrir margar sakir. Það var nefnilega að ókyrrast veðrið og því voru óskapleg læti í upptaki (heitir það ekki upptak þegar vélardruslan hefur sig á loft?). Við hentumst til og frá í flugvélinni. Ítalirnir fyrir framan mig (hópur) kölluðust á með æsingi í röddunum en þar sem ég skil ekki ítölsku þá veit ég ekki hvort þeiru voru að biðjast fyrir eða hvetja flugmanninn. Ég hallast þó að hinu síðara þar sem þeir voru brosandi og æptu í hvert skipti sem vélin datt ofan í holu. Stelpan sem sat hinum megin við ganginn var á góðri leið með að gera gat í gólfið með fætinum þegar allt í einu vélin skaust út úr þessu veðri og í lognið. Meðan á þessu stóð tilkynnti flugfreyjan að borið yrði fram kaffi og vatn. Konan við hliðina á mér hnussaði lágt og sagði: "hvernig ætla þær bera fram kaffið? Og hvernig á liðið að halda á því?" En svo var það allt í lagi. Svipuð læti urðu svo í lendingunni á Reykjavíkurflugvelli. Þetta truflar mig lítið að öðru leyti en því að ég er ekki með maga fyrir svona læti. Fer t.d. aldrei í tæki eins og rússíbana því maginn á mér færi á hvolf. Þetta var svipuð tilfinning reikna ég með.

Og á meðan ég er að spjalla um þessar flugvélar. Hvað er þetta eiginlega með að flugmennirnir tilkynni hvað þeir heiti. Alveg er mér andskotans sama hvort maðurinn sem flýgur vélinni heitir Jón eða Barði eða eitthvað allt annað. Mér er líka sama hvað rútubílstjórinn heitir ef ég fer í rútu í klukkutímaferð. Mér finnst þetta sambærilegt. Þar að auki þá eru flugmennirnir svo til óskiljanlegir hvort eða er, maður heyrir bara orð og orð á stangli og þessi sem flaug til Egilsstaðar hann dæsti í míkrófóninn þegar hann var hálfnaður með ræðuna sem ég heyrði ekkert í. Ég heyrði hinsvegar dæsið MJÖG vel. Þeir ættu kannski að taka námskeið hjá flugfreyjunum hvernig eigi að tala í míkrófon?
Plane 3

MAB á afmæli í dag. Nú ertu jafngömul mér í nokkra mánuði. Til hamingju með afmælið
Witch CauldronCheers

13 október 2005

Ég hata snjó! Eða vetur eða hvoru tveggja. Snjór er í lagi upp í fjöllum þannig að hægt sé að stunda ýmsar vetraríþróttir en ekki annarsstaðar! Á morgun ætla ég til Egilsstaða og þá er stormviðvörun þannig að ég kemst örugglega ekkert heim aftur. Ætti kannski að hafa með mér fallhlífina
Skydiver

12 október 2005

Ef þið viljið skamma einhvern þá skuluð þið skamma Skakka! Það var hann sem setti snjódekkin undir fyrir allar aldir og nú er byrjað að snjóa og löglega kominn vetur. Sem betur fer förum við til Spánar í næstu viku í hitann. Haha soldið gaman að segja þetta jafnvel þó ferðin sé afspyrnu stutt.

Ég fór og keypti mér garn í gær og það var upplifun. Konan sem afgreiddi mig var frekar fullorðin, svona gengu kaupin fyrir sig:
Meinvill: Góðan daginn, mig vantar mjúkt garn
Kona: Og í hvað ætlar þú að nota það vina?
Meinvill segir henni það.
Kona: Og er það á þig?
Meinvill segir henni það.
Kona: Jájá, og hvar vinnur þú vina?
Meinvill segir henni það.
Kona: Jájá hann Jói minn fór þangað að borða um daginn
Meinvill, hissa á svipinn: Já er það?
Kona: Jájá, maður fylgist nú með þó maður sé gamall. ég er sko 78 ára.
Meinvill orðinn soldið mikið hissa: Já er það?
Kona: jájá og hvar býrðu vina?
Meinvill segir henni það.
Kona: Já ég á heima.... og hef búið þar í 51 ár. Mér líkar það vel. Áður átti ég heima á xxx sem er tveimur götum frá. Ertu Hafnfirðingur góða?
Meinvill neitar því.
Kona: Já já og dóttir mín býr í xxx og hún er mamma hennar söngukonu (set ekki inn nafnið á söngkonunni svnoa inn keis) þú veist. þekkir þú hana ekki?
Meinvill: Jújú, hún syngur voða fallega
Kona: Ó já hún syngur svo vel. Ég vona að hún selji mikið af nýja diskinum sínum því hún er svo dugleg.

Þegar hér var komið sögu var Meinvill búin að fá garn, búin að borga og vissi ekkert hvort hún var að fara eða koma.
Kona: Svo kemur þú bara aftur vina og færð að skipta ef þú hefur keypt of mikið!
Meinvill: takk

11 október 2005

Ég var að átta mig á því að ég er búin að vera svakalega löt að blogga að undanförnu. það er eins og ég hafi bara ekki mátt í mér til að skrifa neitt. Bjánalegt ha! Það er heldur ekki mikið að gerast hjá mér, bara þetta same old, same old. Ég fékk í fyrsta skipti á ævinni svona gamalmennissprautu í gær. það er að segja flensusprautu, held að það séu ein fyrstu merki þess að mar sé að eldast. Æi já, ég nenni bara alls ekki að verða lasin aftur því ég var svo lengi lasin um daginn. Skakki setti sjódekkin undir í gær. Held hann sé að reikna með svaka vetri alveg. Ég ætla bara að vera áfram á heilsársdekkjunum mínum sem dugðu vel í fyrra en er ég á bíl sem keyrir bara þegar honum dettur það í hug og drepur á sér þess á milli. Óþarfi að spandera einhverjum sérstökum dekkjum á hann! Annars er ég að hugsa um að fara að prjóna, er búin að vera á leið í "garnabúðina" í nokkra daga en keyri alltaf framhjá á leiðinni heim því ég er svo vanaföst
Knitting

10 október 2005

Vesturbæjarnornin á afmæli í dag. Til hamingju Sólrún þú ferð að komast í fullorðinna manna tölu hehe
WitchBirthday


Powered by Blogger