Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

08 ágúst 2003

Um daginn og veginn
Þá eru það tíðindi dagsins: Bíllinn minn er kominn á götuna aftur! Að vísu er hann ekki alveg tilbúinn en hann er ökufær. það á eftir að setja á hann einhverjar drulluhlífar en þær eru bara í aftursætinu á meðan, reikna ekki með að hann verði skítugur að neðan á meðan þær eru þar. Hann er hinsvegar hættur að hita sig, ég þarf vísu að fara einn Laugaveg til að sjá hvort það virki og ég get svo sem alveg gert það ;)
Haukurinn er seigur, svo seigur að ég leifði honum að fara að veiða með pabba sínum í dag. Ég er góð kona.

Í gær fórum við til Guðnýar og Sævars og létum þau hafa brúðargjöfina en hún var á sýningu þegar brúðkaupið var (gjöfin). Við gáfum þeim mynd eftir Jóhannes, eina af tækniteikningunum hans. Okkur fannst það eiga vel við þar sem í grunninn eru þau vélvirki og bifvélavirki (eru að vísu komin í allt annað í dag). Þau voru ánægð með myndina og buðu okkur í mat (gerðu það að vísu áður en þau sáu myndina). Verí næs!

Hef heyrt af því öruggar fréttir að mágkona mín sé komin til landsins með dótturina. Þær ætla að stoppa í viku. Hún kom við á verkstæðinu í gær og þar sem hún stóð og hélt á Rönnsu Spönnsu kom haukurinn aðvífandi (enn að gera við bílinn) og spurði hvort þær vildu kerruna núna?
Hvaða kerru?
Nú kerruna sem þú skildir eftir í október í fyrra í bílnum!
Og hann opnaði bílinn með glæsibrag og dró upp umrædda kerru. Sjáið bara hvað það kemur sér vel að hafa reglu á öllum hlutum og vita nákvæmlega hvar hlutirnir eru. Þarna var kerran búin að vera í skottinu á bílnum mínum í tæpt ár og bíða eiganda síns. Held þetta sýni líka hvað skottið hjá mér er lítið notað hehe

07 ágúst 2003

Geitungadruslur
Þar sem ég er í vinnudeifð ætla ég að skrifa meira hér. Það sem liggur mér mikið á hjarta eru geitungar. Í nótt vaknaði ég klukkan 2 við suð í þyrlu yfir rúminu mínu! Eftir smá barning við að opna augun og hreinsa heilann þannig að ég væri í ástandi til að hugsa sá ég auðvitað að þetta var ekki þyrla heldur einhver flugudrusla. Hún druslaðist eitthvað í burtu og í svefnrofunum gerði ég mér ekki grein fyrir því hvert hún fór. Það varð til þess að ég var að vakna í alla nótt við suðið og vesenið í henni. Ég veit ekki hvort þetta var geitungur eða eitthvað annað en í nótt var ég sannfærð um að svo væri. Ég hata geitunga.

Fór með systurinni og barnunganum í húsdýragarðinn í boði VR á mánudaginn var. það var svona útlanda stemming, gott veður, fullt af fólki, skrækjandi börn (ógeð) sem sagt allur pakkinn. Það sem meira var og ég hafði ekki reiknað með (heimska ég) var að þarna var eiginlega svipaður fjöldi af geitungum og mannfólki. Ég meina auðvitað eru þeir í húsdýragarðinum, en ekki hvað? Þetta er dýragarður og geitungar eru dýr (held ég) með vængi!

Systirin samúðarfulla fékk eitt hláturskast þar sem ég breikaði með kerru gullmolans alllangan spotta. Hún hálfkafnaði af hlátri en hætti því þegar ég sagði henni að ég hefði ekki verið að hlaupa mín vegna heldur hafi verið geitungabú að myndast við höfuð gullmolans í kerrunni! Ég hefði að vísu hlaupið mín vegna líka en bara ekki í þessu tiltekna tilfelli. Gullmolinn er svo lítill enn að hann fattaði ekki neitt, fannst bara gaman þegar gamla meinvill frænka var að hlaupa. Systirinn hefði ekki átt að hlægja því hún brokkaði fljótlega um allan garðinn líka á flótta undan þessum aðgangshörðu "húsdýrum". Við stoppuðum ekki lengi!

Ég þoli ekki geitunga! Og það að þeir skuli rolast inn í mína íbúð hleypir í mig illsku. Afhverju geta þeir ekki bara verið í sínu geitungabúi? Ekki reyni ég að stinga mér þangað inn (as if), læt þá alveg í friði og kem til með að láta þá í friði.

Ég er sannfærð um að ég gleð samborgara mína reglulega þegar ég tek þessi breikköst á flótta undan geitungsræfli (stundum eru þeir tveir) en ég orga samt ekki, ég bara breika!

Úff hvað þetta er erfiður dagur eitthvað. Ég er búin að vera að sofna í fleiri tíma og gott betur en það. Mér skildist á póstinum að það væru allir svona sljóir uppi. Hún gekk fram hjá hverri skrifstofunni á fætur annarri þar sem fólk sat og annað hvort geispaði stórum eða starði sljóum augum á skjáinn. Ég er viss um að það er hænunni að kenna!

Við Armour ætluðum að fara með hæstvirtum yfirmanni okkar að kíkja á skessueitthvað á Akranesi. Við erum reyndar það miklar skessur stundum að það er svo sem nóg að vera hér, þurfum ekki til Akraness að leita að solleis. En aníveis við ætluðum að skoða þetta fyrir fund sem á að halda í september einhvern tíma en þar sem yfirmaðurinn okkar virðulegi lenti á "stuttum" fundi sem tók nærri tvo tíma þá runnu þau áform út í sandinn. Í staðinn verðum við bara að halda áfram að vinna (kannski að reyna að minnka listann sem við fengum í fyrradag) en sökum sljóleika er það ekki auðvelt.

Bíllinn
Það á nú ekki af þessari bíldruslu að ganga, ég fer að verða eins og leigubílstjórinn og vera með comment dagsins um helv. bílinn. Nú er ég farin að skilja hvernig henni leið í 9 vikna stoppinu því þetta er að verða fyndið.

Það vantaði pakkningu (gosh ég er að verða eins og bifvélavirki) í varahlutapakkann og þegar haukurinn var búinn að hringja í allar varahlutabúðirnar og standa í röð í tveimur sem sögðust eiga það til en reyndist svo vera bull þá fór hann að leita að efni til að smíða sjálfur og þar var sama sagan. Hann fékk efnið að lokum en þá var dagurinn næstum búinn! Það vantaði líka hitanema í vatnskassann (?) og hann fékk síðasta nemann sem til var í þessa gerð á bílum. Bíllinn er sem sagt enn í henglum og ég held að bráðum verði búið að smíða nýjan bíl fyrir mig eða þannig!

Við mætum því saman á morgnana í vinnuna mína, ægilega hugljúft og sætt. Í gær labbaði ég síðan úr vinnunni upp á verkstæði og var það nokkuð næs nema auðvitað var í 2 metra háum skóm sem eru ekki alveg gerðir til langra gönguferða um borg og bý. Í dag eru því sætar litlar blöðrur búnar að búa um sig á tánum. Hégómleikinn kostar sitt. Beauty is pain eins og Armour vinkona mín segir með miklum þunga þegar hún hefur þurft að æða um allt svæðið með nýja menn í flottu stígvélunum sínum sem heldur eru ekki gerð til langra gönguferða.

06 ágúst 2003

Haukurinn er svo duglegur að ég er hálfklökk (hljómar eins og ég sé að grínast en mér hefur sko aldrei verið meiri alvara í huga). Hann er nefnilega núna í sólinni að raða saman bílnum mínum. Hann stendur þarna úti í horni á verkstæðinu og lætur sem hann viti ekki að það er sól úti og raðar saman planaða heddinu mínu í þreytta bílinn minn. Ég verð ægilega glöð að fá bílinn minn aftur. Mér finnst eins og ég sé búin að vera bíllaus í heila öld og einn dag!

Við armour borðuðum SKYR í hádeginu. Við erum duglegar! Við erum rosalega duglegar! Við höfum ábyggilega lést um 2-3 grömm í hádeginu. Hinsvegar töluðum við um mat og meiri mat, ætli mar þyngist á því? Ég nefnilega tala heilmikið um mat og hugsa enn meira um hann. Yrði ekki hissa þó það teldi sem öll mín aukakíló og hana nú!

Verkefni
Það besta við að koma til baka úr sumarfríi er að mar er hálf verkefnalaus, þá er ég ekki að segja að það sé ekki nóg að gera heldur frekar að mar kemur sér ekki almennilega að verki. Yfirmaður minn sá hins vegar í gegnum þetta og í gærdag fékk ég einn af þessum hræðilegum tölvupóstum þar sem boðað er á fund með yfirskriftinni: Fara yfir verkefnalista

Komm onn veit hún ekki að fyrsti dagur eftir sumarfrí er heilög framlenging á sumarfríinu? Hver er í ástandi til að fara yfir verkefnalista?

Armour var einnig boðuð á fundinn og hann hófst með því að okkar kæri yfirmaður rétti okkur kílómetra langan verkefnalista og bað okkur að lesa hann yfir og segja álit á honum. Ég var svo aðframkomin af þreytu eftir lesturinn að ég gat ómögulega sagt annað en “þetta er fínt..lítur bara vel út ha”

Og þá hófst skemmtunin. Við Armour sátum og horfðum í skelfingu á hvor aðra meðan verkefnum var skipt bróðurlega (systur) á milli okkar. Heillangur listi og endadagsetnignar þar sem skila á viðkomandi verkefnum (í lok ágúst eða fyrr). Hvaða yfirmaður er vaknaður til að gera svona lista fyrstu daga eftir að elskulegir undirmennirnir koma til vinnu? Hún hefur eflaust verið að vinna að honum allt sumarfríið okkar því hann er svo langur!

En svona okkar á milli sagt þá eru þetta verkefni sem gaman verður að vinna ;) og er best að bretta upp ermarnar og byrja að vinna þannig að hægt verði að klára eitthvað af þessu!

05 ágúst 2003

Það heitir systir
Auglýsingarnar hans Þorsteins eru alveg brilljant, eða það er alla vega skoðun okkar á mínu heimili. Besta auglýsingin er auðvitað þessi með íslensku kúnna og sérstakar gáfur hennar (hún lætur ekki gabba sig til að sækja spýtur). En það er samt ein auglýsing sem gleður haukinn enn meira og minnir hann á marín. Auglýsingin hljóðar einhvern veginn svona:
"Það er ekkert til sem heitir Kýrlingur!
"það er til Kiðlíngur, en ekki kýrlingur!
Það heitir Kálfur...Það HEITIR kálfur"
Af einhverjum ástæðum er hann mjög kátur með þessa auglýsingu og heldur að marín sé að verða fræg!
"Það heitir SYSTIR!"

Nú er bara moldviðrið framundan. Sumarið búið og vetur framundan! Þetta er kannski óþarflega mikil svartsýni en mér finnst samt komið haust þegar verslunarmannahelgi er búi.
Ég er líka mætt í vinnuna og búin að lesa póstinn minn og eyða öllu því sem berst og ekki þarf að lesa (oj bara). Haukurinn er farinn að leita að vinnu og í dag kemst hann kannski að á verkstæðinu til að setja saman bílinn minn, hann er nefnilega enn í frumeindum. Þar sem það er rúmlega þingmannaleið í vinnuna þá get ég ómögulega verið án bílsins og þar sem haukurinn þarf að vera á jeppanum til að endasendast milli fyrirtækja og minna menn á það hvað hann er klár þá er þetta alveg ómögulegt. Stendur samt til bóta!


Powered by Blogger