Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

31 ágúst 2006

Í gær brá ég mér í Hagkaup að kaupa lopapeysublað (sem ég fékk ekki því í garnadeildinni var verið að telja görnin) og þegar ég var á fullu spani um búðina sá ég út undan mér pínulítinn hund sem ég gjörsamlega og algerlega féll fyrir. Ég er ekki mikil svona loðdýrakona en sumt verður maður bara að eiga:














Á þessari mynd sést svo ekki hver ástæðan fyrir gífurlegri löngun minni þannig að ég tók líka mynd af fötunum hans:


Já hann er í kínverskum jakka þessi elska. Sætum bleikum kínajakka og hann fór með mér heim. Í gærkvöldi klappaði ég honum fram og aftur og sá að hann yrði flottur sem fyrsta dót handa unganum þar til ég uppgötvaði að á honum var varúðarmiði (sem ég klippti í burtu því ég vil ekki rusla á hundinum mínum) að hann sé ekki fyrir yngri en 36 mánaða því hann fari úr hárum. OH mæ GOD hann er sem sagt algerlega minn. Ég þarf ekki einu sinni að þykjast hafa keypt hann fyrir Ungann því Unginn á ekki að fá neitt sem hann getur meitt sig á eða setið með fullan munn af hárum. Ég er því stoltur hundaeigandi og hundurinn minn er í bleikum kínajakka...

30 ágúst 2006

Já fjandans útvarpið sendi einhverja njósnara sem hvísluðu einhverju fyrir utan dyrnar hjá mér svo ég varð að fara fram á gang og marg segja "HA" til að heyra hvað þeir sögðu. Andskotans "árna hyski" já þeir hétu báðir árni..veit ekki alveg hvað mér kom það við en annar kynnti þá báða. Ég hélt þetta væru mormónar og var með setninguna tilbúna "nei, ég hef ekki áhuga".

Skil ekki alveg tilhvers þarf að borga þetta sjónvarp. Fékk einu sinni niðurfellt og konan sem ég talaði við tapaði sér þegar ég kallaði þetta "skatt". Sagði að þetta hefði ekkert með skatt að gera og blablabla. Sem er kjaftæði. Ég borga fyrir útvarpið af því við notum það. Og Skakki notar það mikið. Sjónavarpið hinsvegar. Ég gæti hent því á morgun og ekki saknað neins. Kannski geri ég það bara því nú senda þeir mér ábyggilega humengous reikning. Spurning að fá Þór lánaðann hjá MAb, mér skilst að hann sé frábær í að tala við njósnarana.

29 ágúst 2006

Það er komið haust og í tilefni af því reif ég fram tjullpils og keypti mér nýja blómaskyrtu. Ég er svo haustleg og fín að ég er að springa. Vantar bara að losna við fáein aukakg sem veita mér ljótuna og þá verð ég svo ánægð með mig.

Ég er svo spennt af því ég var að skoða myndir af kínverskum tvíburum og var að uppgötva að stundum fær fólk tvíbura án þess að hafa sótt um það. Hey það er lítill séns en það er líka lítill séns að vinna í happdrætti (reyndar ofsa lítill af því ég kaupi ekki happdrættismiða). Tvíburarnir eru því aðeins meiri séns af því þar er ég með miða haha. Nei svona án gríns, þá er ýmislegt sem getur glatt litlar sálir svona á þriðjudags haustmorgnum.

Skólarnir eru greinilega byrjaðir því það tók lengri tíma en venjulega að komast í vinnuna. Ég er að hugsa um að fara að setja kínverskudiskinn og læra nokkur orð á leiðinni í og úr vinnu. Mér er sagt að það sé góð aðferð til að láta tímann líða. Ef þið sjáið bláan flottan bíl með æðislegum grænum afturljósum og konu sem talar við sjálfa sig alveg á fullu... þá er það ég að læra kínversku...

27 ágúst 2006

Í gær var góður dagur. Ég fór í grillveilsu með gullmolanum og Axel Benny og Ásdís voru með okkur. Við Skakki fórum einnig í matarboð til foreldra hans þar sem bornar voru fram hinar frábærustu veitingar. Kvöldið áður vorum við á Carusuo í góðum hópi því þar hélt hópur fólks upp á stofnun nýs félags: Foreldrafélags ættleiddra barna. Hér er smá klausa úr fréttatilkynningunni: "Gengið hefur verið frá stofnun Foreldrafélags ættleiddra barna, sem opið verður öllum kjörforeldrum og verðandi kjörforeldrum. Foreldrafélaginu er ætlað að bæta úr brýnni þörf fyrir að kjörforeldrar á Íslandi eigi sér málsvara, svo að sjónarmið þeirra komi fram í opinberri umræðu og gagnvart stjórnvöldum. Jafnframt er Foreldrafélaginu ætlað að vera almennt hagsmunafélag sem vinna mun að hagsmunum kjörforeldra og barna þeirra í sem víðustum skilningi. Ennfremur er félaginu ætlað að standa að fræðslu til félagsmanna og almennings um málefni tengd ættleiðingum almennt. Því má segja að Foreldrafélaginu sé ætlað það hlutverk að vera bakhjarl foreldra og ættleiddra barna þeirra eftir að ættleiðingarferlinu er lokið. Félagið mun hins vegar ekki sinna þjónustu eða milligöngu um ættleiðingar". Restin af fréttatilkynningunni og upplýsingar um þetta nýja félag er að finna á heimasíðu félagsins http://www.aettleiding.is/


Powered by Blogger