Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

13 júlí 2007

Við Skakki erum orðin léttari!!!!!! Við eignuðust dóttur ;))))))))))

Símtalið kom í gær eftir að ég hætti að reikna með því þann daginn. Ég sem hef ekki lagt símann frá mér í 4 daga, hef jafnvel farið með hann á klósettið og hann hefur setið við hliðina á baðinu þegar ég hef þorað að skjótast í bað... Í gær ákvað ég að skúra (eins og það sé eitthvað sem ég geri oft eða þannig) og sem ég klára þá hringir heimasíminn og Skakki segir undarlegri röddu: "Af hverju svarar þú ekki í símann þinn?"

Ég missti úr slag og það er ekki lygi. ÍÆ var búið að vera að reyna að ná í mig og þar sem þær náðu ekki í gegn þá var hringt í Skakka. Þannig að hann fékk símtalið langþráða. Hann gat sagt mér að við ættum dóttur í Kína en ekkert meira því hann spurði ekki. Ég sagðist sækja hann í vinnuna en hann afþakkaði það og sagðist HJÓLA af stað eftir 5 mín þegar hann væri búinn að KLÁRA verkið sem hann var í. Ha???? Klára? Hjóla??? What the ****????????????? Ég hljóp um allt hús, sá allt með öðrum augum en áður. Byrjaði að gráta. Byrjaði að hringja í mömmu og systur mína og fór aftur að gráta. Hvernig er hægt að gráta svona mikið þegar maður er svona hamingjusamur? Þetta voru langar mín þangað til Skakki kom hjólandi heim en hann setti nýtt hraðamet og var næstum tekinn fyrir ólöglegan hraða!

Á skrifstofunni fengum við myndir og upplýsingar af dóttur okkar. Hún er svoooo yndisleg. Svo alvarleg og sæt, gjörsamlega ómótstæðileg.

Hún heitir Xue Fu Yun og er fædd 24. mars 2006, næstum upp á dag ári eftir að við giftum okkur ;). Hún er á fósturheimili í borginni Wuxan í Hubei héraði í Kína og við erum svo hamingjusöm að við erum að springa. Við færum á morgun að sækja hana ef við gætum ;) En það bíður þar til í september.

Já hún er svaka dugleg, farin að labba fyrir löngu síðan (í apríl) og veit hvað hún vill og hvað hún vill ekki (haha skal nokkurn undra að ég fái kannski barn sem á til þvermóðsku????) haha En henni er samt lýst sem "happy baby"

Ég klappa myndunum og brosi og fæ aftur kökk í hálsinn ;)

12 júlí 2007

Sól sól skín á mig. Golfsveiflan batnar með hverjum biðdegi!

11 júlí 2007

Þetta ætlar að verða erfiðari vika en ég reiknaði með. Ég er að verða eins og pottur sem er alveg að sjóða uppúr. Það liggur við að ég þurfi bara að leggjast fyrir áður en ég móðga einhvern alvarlega með hvæsi. Ætti kannski bara að draga sængina upp fyrir haus í nokkra daga meðan við fáum þessi mál á hreint. Ég þoli sem sagt afskaplega lítið tuð þessa dagana og bít puttana af fólki sem kemur of nálægt mér.

Þá er búið að vara ykkur við!

10 júlí 2007

Ég á voða fínan gemsa. Þessi gemsi er núna í hleðslu eftir að ég svaf með hann í hendinni alla nótt. Ég meina ef maður bíður eftir símtali þá bíður maður ALLAN sólarhringinn! En svona án gríns þá hefur þessi sími aldrei verið jafn sýnilegur í mínu lífi eins og núna. Hann nær varla að hringja einn tón áður en það er svarað. Hann hringir sem sagt ekki út eins og venjulega og símtali síðan svarað eftir 4-5 tíma. Ó nei!

Núna ætla ég að halda áfram að horfa á símann og BÍÐA!

09 júlí 2007

Ekkert frést ennþá af upplýsingunum okkar. Vægt til orða er sálarlífið að verða nokkuð brenglað. Ímyndunaraflið fer á flug og fær allskonar útkomur sem ekkert eru í tengslum við raunveruleikann.


Powered by Blogger