Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

26 febrúar 2005

Ég er á lífi! Á tímabili hélt ég að ég væri að deyja en það stóð sem betur fer ekki mjög lengi yfir. Ég er hins vegar öllu þrútnari en ég var á miðvikudag og tilfinningin er sú að ef einhver kemur of nálægt mér með oddhvassan hlut þá komi gat og úr mér leki loft. Sem er náttúrulega annað og öllu erfiðara mál. Það er ekki skrítið þó mér hafi liðið hálf illa. Ég hef farið í gegnum lífið full af himnesku þingeysku lofti. Í þessari ferð á Lansann var sprautað í mig glás af sunnlensku lofti. Tilgangurinn mjög óskýr, eitthvað um að lyfta magaveggjum frá líffærum eitthvað sem mér fannst vægast sagt loðið.. ég held að tilgangurinn hafi verið sá og hinn eini að reyna að eyða mínu þíngeyska lofti. Það tókst ekki og ég finn hvernig mitt loft er að hafa yfirhöndina og hrekja hið sunnlenska aftur út. Það er kominn flótti í liðið.

Áður en ég fór í aðgerðina var mér sagt að það kæmi stundum fyrir að aðgerðir tefðust og ástæðan væri sú að það kæmu inn bráðakeisarar sem gengu fyrir öllu öðru. Ég skildi það. Umræddan morgun var ég fyrst í aðgerðaröðinni og mér var brunað upp á skurðdeild þar sem hver aðilinn kom á fætur öðrum og kynnti sig eins og við værum í kokteilboði og að einhverjar líkur væru á því að ég myndi annað hvort þekkja þau aftur eða muna nöfnin þeirra. Sem er ekki raunin, man að vísu nöfnin en ekki andlitin. Þetta er grænklædd andlistslaus fyrirbæri. En sem sagt, það er skellt á mig svartri súrefnisgrímu og þar anda ég nokkrum sinnum að mér og líður bara þokkalega, eða eins þokkalega og manni getur liðið á örmjórri spýtu með rassinn ofan í einhverri dæld, ber að neðan og ókunnugt fólk vofrandi í kring. Sem sagt alveg konunglega líðan. Það næsta sem ég veit af mér að ég heyri háan titrandi barnsgrát og fólk á þönum. Heyri konur tala um litla keisarann og að hann sé ekki ánægður með nýja lífið. Ég fyllist gleði inn í mér þegar ég opna augun og held í einfeldni minni að þetta hafi bara ekkert verið æxli sem að mér var heldur lítill keisari sem enginn vissi um. Púff, þið getið ímyndað ykkur gleðina þegar ég uppgötvaði að það var þarna önnur kona og HÚN átti keisarinn en ég var einni blöðru fátækari. Kannski eins gott, því eins og Skjalbakan sagði "þú hefðir bara þurft að koma til Sirrý og útskýra að þú hefðir haldið að þetta væri blaðra..frekar bjánalegt svo sem" Það er rétt og ég er því bara glöð að vera komin heim og get farið að snúa mér að öðru bara
Bunny Suit

23 febrúar 2005

Þá er ég búin að mæta í undirbúning á Lansanum og fá að vita að ég sé sérlega hraust kona og meira segja ekkert sérlega feit haha held þeir hljóti að hafa horft á aðra konu en mig. Ég mæti svo í fyrramálið og verð svæfð eftir kúnstarinnar reglum og blöðrudruslan fjarlægð. Ég kem til með að sakna hennar því hún minnir á sig einu sinni í mánuði með smáverkjum. Læknanemi potaði í mig og mældi mig í bak og fyrir. Þær mældu meira segja blóðþrýsting tvisvar ábyggilega af því þær trúðu ekki að ég væri svona hraust. Svo var ég spurð hvort ég reykti:

Læknanemi: Reykir þú?
Meinvill: Nei
Læknanemi: Hvenær reyktir þú síðast?
Meinvill hugsar sig um.. : hmmm, ég hef aldrei reykt en ég prufaði einu sinni að puffa eina sígarettu þegar ég var 15 ára, ertu að spyrja um það?
Læknanemi vandræðaleg á svipinn: Ó

Er ég svona reykingarleg?

Í gær fór ég á Ítalíu og hitti stelpurnar sem ég útskrifaðist með fyrir 14 árum. Við erum fimm og hittumst alltaf á þessum tíma og förum yfir stöðuna. Við erum vanafastar konur, förum alltaf á Ítalíu og pöntum alltaf hálfmána..mmmmm.. Eina skiptið sem þetta klikkaði var þegar Ítalía brann og þá fórum við eitthvað annað og keyptum þá ekki hálfmána.. Spurning hvað við gerum á 15 ára afmælinu hehe

Annars er ég eitthvað hálfeirðarlaus eitthvað.. Best að finna einhverja góða músik og spila konudagsgjöfina á fullu...

ps. ég á að fasta frá miðnætti og ég spurði hvort ég mætti drekka vatn í fyrramálið og hjúkkan sagði nei. Sagði að ef það væri vökvi þá gæti hann leitað upp í svæfingunni.. Ég kinkaði skilningsrík kolli og sagði "já og maður gæti kannski kafnað bara?" Haha sjá vandræðasvipinn á aumingja konunni...

22 febrúar 2005

Mér líður eins og fatlafóli í dag og þá með áherslu á "fóli". Göngulagið er skrykkjótt og hnén vísa til sitt hvorrar hliðarinnar. Skrefin er smá og skórnir þungir. Ég er nefnilega komin með þessu fínu innlegg frá Össur. Þau voru fokdýr eða rúmlega 11.000 og þvílíkt ljót. En kannski virka þau? Hver veit. En það er erfitt að ganga á þeim ég verð að segja eins og er. Nú kemur í ljós meðfædd "hjólbeinótta".. Kannski ekki rétt að segja meðfædd því eflaust er það sjaldan meðfætt en hún kom svo snemma fram að þetta gæti eins verið meðfætt.. ef þið sjáið einhverja litla feita konu staulast um á skökkum fótum og riðandi í hverju skrefi með útskeif hné.. viljið þið þá vinnka því því þetta er ég.. mér þætti leiðinlegt að halda að allir vinirnir hefðu horfið um leið og slegið hefði verið á meðfæddann glæsileika minn....

21 febrúar 2005

Finnst ykkur ekki vera komið sumar bara? Eða svona þokuhaust? Þetta léttir eymdarlega lundina um nokkur stig að geta skeiðað út í bíl í notalegu veðri og keyrt í vinnuna í vinalegri rigningu. Það er bara eins og það hafi aldrei verið vetur.

Við fórum ekkert í bíó þessa helgi en Skakki horfði á myndina The Man Who wasn´t There og ég svaf í stól við hliðina. Vaknaði nógu oft til að átta mig á söguþræðinum. Það er áreiðanlega rétt hjá Skakka, þetta er fín mynd. Alla vega leið mér vel meðan við "horfðum" á á hana.

Við fórum heldur ekki á ball um þessa helgi. Það var Þorrablót í vinnunni hjá mér og við héldum okkur víðsfjarri enda annálaðir antiþorristar. Þessi siður kemur ekki til með að halda velli með okkur hjúunum og það finnst ekki í okkur samviskubit þess vegna.

Ég ætla nú að súa mér að vinnu eitt augnablik því það ku vera nokkuð mikið um að vera hjá mér í dag. Hver fundurinn á eftir annann og allir jafn mikilvægir jáhá svona er það nú....


Powered by Blogger