Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

23 ágúst 2003

Jarðskjálftapælingar
Klukkan tvö sváfum við eins og þeir sakleysingjar sem við erum þegar haukurinn hentist á mig. Hann rak upp hálfkæft öskur:
"Hvað var þetta?"
Ég svaraði því sem mér fannst fullkomlega eðlilegt á þessari stundu
"Rólegur, þetta var bara jarðskjálfti"
Smá þögn og síðan
"Nú, nú ég hélt að þú hefðir fengið eitt kastið þar sem þú hrekkur svona við"

Huh hvað heldur maðurinn að ég sé? Ég veit ég er taugaveikluð með afbrigðum en það hristist EKKI heil blokk þegar ég hrekk upp úr svefni. Bara svona rétt nánasta umhverfi!

Í nótt svaf ég samt betur en ég hef sofið í lengri tíma. Haukurinn heldur því fram að í skjálftanum hafi ég hristst ofan í einhverja fellingu í rúminu og skorðast þar föst. Hver sem orsökin er þá vaknaði ég ekki í eitt einasta skipti þegar ég þurfti að snúa mér við. Kannski snéri ég mér bara ekkert við!

Þegar ég var lítil (minni en ég er núna) var ég hrædd við allt. Ég er að vísu enn hrædd við allt en get notað einhverskonar rökfræði til að sýna sjálfri mér að oft er hræðslan ástæðulaus og óttans er bara að leita í ofvirku ímyndunarafli mínu. Eitt af því sem ég var mjög, mjög hrædd við var jarðskjálfti. Ég var þess fullviss um að ég ætti eftir að deyja (rökrétt ágiskun) en dauða minn mundi ekki bera að með eðlilegum hætti. Nei ég mundi annaðhvort deyja í jarðskjálfta eða vera étin af ísbirni (alls ekki þetta tvennt á sama tíma). Það var nefnilega sýnd einhver mynd í svarthvíta Blaupunkt sjónvarpinu okkar þar sem heila borgin var í rústum eftir jarðskjálfta. Fólk gekk kallandi og grátandi um göturnar og leitaði ættingja sinna. Ímyndunarafl mitt tók vaxtarkipp og ég sannfærðist um að þetta ætti eftir að koma fyrir mig. Það tók mörg ár að læknast af þessari fóbíu.

Hin dauðafóbía mín tengdist því að ísbjörn gekk á land í Grímsey og var drepinn þar. Ég hafði séð ísbirni í svarthvíta blaupunkt sjónvarpinu okkar og einnig læf í Hafnarfirði. þar voru tveir grútskítugir ísbirnir sem væfluðust fram og til baka í einhverri holu. Alls ekki ógnandi. Ísbjörninn í Grímsey virkaði hinsvegar ógnandi, alla vega þá var hann skotinn. Ég lokaði glugganum á herberginu mínu í mörg ár til þess að þurfa ekki að vakna við það eina nóttina að ísbjörn væri að reyna að komast inn til mín. Þessi fóbía læknaðist ekki fyrr en ég flutti til Reykjavíkur því ég taldi víst að erfitt yrði fyrir ísbjörn að finna mig þar!

Jarðskjálftinn í nótt svæfði mig það hefði hann ekki gert fyrir öllum þessum árum á Húsavík!

22 ágúst 2003

Veikindin hafa sleppt krumlum sínum af mér og ég er mætt í vinnu. Aldrei aftur skal ég hrósa mér fyrir hversu sjaldan ég verð veik!

21 ágúst 2003

Veikindi
Núna er ég orðin leið á því að vera lasin. Hausinn á mér er búinn að vera fullur af suði, nefið fullt af einhverju torkennilegu (hélt á tímabili að það væri heilinn og suðið stafaði af hægu rennsli heilans fram í nef), hendurnar eiginlega óstarfhæfar og athyglisspan á við 3 ára barn. Þetta er búin að vera síðan á laugardag, það er soldið langur tími og í dag er ég ákveðin í að klára þetta og mæta í vinnu á morgun!

20 ágúst 2003

Skellinöðrur og önnur faratæki
Vélskólaneminn er að hugsa um að kaupa sér skellinöðru.

Ég man að fyrir hundrað árum eða svo keypti pabbi hans (sænski nýbúinn) sér líka skellinöðru. Á þeim tíma bjuggum við saman, þeas í sama húsi á sömu hæð. Á milli herbergja okkar var örþunnur veggur þannig að ég komst ekki hjá því að heyra ýmislegt um skellinöðrur, kúbik, tjúna upp, knastása og svona ýmislegt fleira í þeim dúr.

Á þeim sömu árum komst ég líka að því að það er algengt að þessar sömu skellinöðrur leka stundum olíu og allskyns rusli. Það var erfitt að komast hjá ðru en fatta það þegar mar þurfti að berjast í gegnum skóg af skellinöðrum sem voru fyrir framan forstofuhurð á umræddu heimili.

Núna ætlar sem sagt vélskólaneminn tilvonanadi að feta í þessi sömu spor. Hann ætlar að koma á á skellinöðruhjólinu að heimsækja frænku sína gömlu sem býr á hjara veraldar. En ekki til að spjalla eða njóta skemmtilegheita við hana. Nei, hann kemur til að fá Pizzu!

Þetta hefði líka getað verið pabbi hans, sjitt þetta gæti enn verið pabbi hans!

Hádegisverðarfundur
Í gær þegar ég skrönglaðist í vinnuna þá beið mín boð á hádegisverðarfund. Svo sem ekkert í frásögur færandi því það kemur fyrir að ég fái svona boð. Hinsvegar kom mér efni fundarins mjög spánskt fyrir sjónir og ég veit ekki alveg hversvegna téðir aðilar töldu mig hafa sérstakan áhuga á þessu efni (boðskortið kom merkt mér). Efni fundarins er nefnilega:

Umhverfisáhrif þorskneyslu

Jamm, einmitt það!
Hljómar spennandi (NOT)!

Eftir að hafa snúið boðkortinu fyrir mér á marga vegu og rýnt á nöfn allra fyrirlesarana var ég engu nær. Hélt þá kannski að þetta væri Umhverfisfræðingurinn að senda mér þetta en fannst það samt fráleitt þar sem hennar viðfangefni eru kannski meira umhverfisáhrif á landi en ekki sjó (auk þess sem hún er í Dannmörkis að skoða nýjasta gimsteininn).

Hélt þá kannski að það væri af því að ég er feit og þetta fjallar um neyslu, þeas að borða, en nei, það gat heldur ekki verið því ég borða alls ekki þorsk. Bara alls ekki!

Fór þá og bar þetta undir minn virðulega yfirmann og hún var jafn ráðvillt og ég en hélt kannski að þetta tengdist nefndarstörfum sem ég tók þátt í í fyrra (en þar fengum við bara vínarbrauð), en ég taldi það fráleitt.

Þetta var farið að vera spennandi þegar gæðastjórinn rambaði framhjá borðinu mínu og sá hversu þungum þönkum ég var í. Hún vissi starx hvað um var að ræða og gaf ég henni boðskortið!

18 ágúst 2003

Passorð á myndirnar
Gerði loks eitthvað í því að setja passorð á myndasíðurnar. Passorðið er gælunafnið á mínum ástkæra bróður þannig að það er ekkert mál fyrir menn að komast inn sem þekkja vel til ;) Ef menn muna það ekki þá er bara að senda mér tölvupóst og ég gef upp passorðið.

Er ekki óeðlilegt að fá flensu yfir sumartímann? Að vísu er komið haust þannig að þetta sleppur svo sem. Ég hósta og hósta og er kalt og heitt til skiptis, sem sagt alveg týpísk flensa!

Held það sé búið að skrifa nóg um menningarnóttina á hinum og þessum bloggsíðum og fjölmiðlum en langar samt að vera aðeins með. Okkur hauknum finnst þetta nefnilega svo ægilega gaman. Við fórum um miðjan daginn og löbbuðum og löbbuðum og gleyptum svo mikla menningu í okkur að ég held við þurfum ekki á meiri slíku að halda fyrr en að ári!

Við byrjuðum við á því að skoða myndir Andy Warhols og ég verð að segja að ég varð fyrir þvílíkum vonbrigðum. Jú, jú þetta eru flottar myndir og allt það en mér fannst þær ekkert merkilegri heldur en þau plaggöt sem ég hef séð með þessum sömu myndum. Sem sagt fyrir mér litu þau alveg eins út og ódýr plaggöt, ég er bara ekki meiri menningarviti en það.

Við eyddum líka heillöngum tíma í Tjarnarbíói að hlusta á rafræna tónlist, fórum til að hlusta á Worm is green en það var seinkun þannig að við horfðum á fleiri atriði. Sumt þannig að það hefði eigilega bara átt að vera áfram sem hugmynd hjá þeim sem gjörninginn framkvæmdu. Ormurinn var samt góður loksins þegar hann kom.

Skoðuðum fullt af galleríum, borðuðum á Horninu og fengum okkur kaffi seint um kveldið í Tíu dropum. Þetta var fínn dagur alveg.

Já gleymdi að minnast á Krukkuborg. Ákvað í ljósi þess að ég er með ógeðistilfinningar á háu stigi að ég fengi mér bara sæti meðan haukurinn liti yfir góssið og verð að vera þakklát fyrir þá ákvörðun því hann var enn að hrylla sig á sunnudagskvöldið yfir hálfa andlitinu sem þar var í einni krukkunni JAKK.

Jamm og Smekkleysusýningin, þar var önnur sýning sem ég varð fyrir vonbrigðum með. Þetta var bara samansafn af einhverjum plaggötum og drasli..okok, þetta er ósanngjarnt ég veit það en samt, ég varð fyrir mega vonbrigðum og er þó aðdáandi Smekkleysu frá upphafi (þeas þess sem Smekkleysa stendur fyrir).

17 ágúst 2003

Samlegðaráhrif
Orð sem hagfræðingum og viðskiptafræðingum finnst skemmtilegt. Mér finnst það hinsvegar leiðinlegt og finnst það því leiðinlegra sem það snertir mig meira. Í daglegu lífi snertir það mig kannski ekki mikið nema sem eitthvað sem stjórnmálamenn eru alltaf að tuða um í sjónvarpinu. Í hinu lífinu sem er ekki þetta daglega þá snertir þetta mig meira. “Samlegðaráhrif”. Í þessu orði felst mikill kraftur, í því felst að að ef ákveðið viðfangsefni er gert aftur og aftur þá aukast líkurnar á því að það takist. “Samlegðaráhrif”. Læknirinn sagði þetta við okkur í vor og þá skildi ég hann ekki alveg, skil hann núna og er búin að vera full af depurð í langan tíma. Eitt orð, “samlegðaráhrif” getur haft geysimikil áhrif á það hvernig mar hugsar.

Í depurðinni minni hugsa ég um 20þúsundkalla, ekki einhverja 20 þúsund karla, heldur frekar 20þúsundkalla peninga. Ég hugsa um allt sem hægt er að gera fyrir þessa 20þúsundkalla og það er ekki neitt smávægilegt. Þetta virkar ekki neitt mikill peningur, 20þúsundkall, en samlegðaráhrifin geta gert hann meiri.

- Þetta eru t.d. fjórir tímar hjá sála við að reyna að vinna bug á depurðinni og fá tilvísun um að mar sé ekkert mikið öðru vísi en hinir “kom til að heimsækja Lillu, er á leiðinni heim”. Og ef samlegðaráhrifin bætast hér við þá erum við að tala um átta tíma hjá sála. Þar væri hægt að virkja heila á úr þeim tárum sem þar gætu streymt.
- Þetta eru líka þrjár til fjórar ferðir til tannlæknis. Þar er hægt að reiða fram peninga eftir að hafa látið sér líða líkamlega og andlega illa í einhvern tíma (fyrir tímann og síðan í stólnum). Samlegðaráhrif gerðu þetta að kannski átta ferðum. Ekki slæmt fyrir tannsa.
- Þetta er flugmiði til London og samlegðaráhrif gerðu það kleift að hægt væri að borga hótel líka. Depurðin læknaðist kannski ekki nema rétt á meðan á dvölinni stæði en væri þess virði.
- Tuttuguþúsund kall væri næstum því árskort í líkamsrækt ef ég væri íþróttaálfur en ég er svo heppin að vera það ekki svo ég þarf ekki að velta samlegðaráhrifum fyrir mér hér.
- Tuttuguþúsund kall væri næstum fimm tímar í nudd til að reyna að laga bakið sem er að drepa mig eina ferðina. Samlegðaráhrifin gerðu það verkum að nuddarinn kæmist glaður í sumarfrí eftir að hafa sinnt mér.
- Tuttuguþúsundkall væri líka innborgun í nýjar græjur en eins og alþjóð veit þá er yfir mér “curse” sem segir að ég geti ekki átt græjur nema 4 ár hið mesta og eftir það eru þær gjörsamlega ónýtar. Samlegðaráhrif gerðu það að verkum að komið væri hátt í innborgun á B&O græjum sem er hið næsta sem ég mun kaupa til að reyna að komast hjá bölvuninni.

Það er ýmislegt fleira sem tuttuguþúsund kall gæti gert. Hvað gerir mar hinsvegar þegar mar missir trúnna á fullkomlega góð og gild orð eins og “samlagðaráhrif”? Mar getur jú setið heima og grátið eða drifið sig út á meðal fólks og reynt að hætta að hugsa um orðið. En á endanum þarf að fara aftur heim og þá smám saman þá læðist “samlegðaráhrif” að úr öllum áttum. Getur einhver svarað mér hvað á að gera þegar maður missir trúnna?


Powered by Blogger