Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

13 ágúst 2004

Fimmtudagskvöld í miðri hitabylgju
Ég ligg í rúminu og les "lesið í snjóinn" sem er mjög viðeigandi bók í þessum hita. Ég ætla bara að klára kaflann og svo ætla ég að slökkva. Ég heyri útundan mér að Skakki er að sofna. Allt í góðu.

Ég fletti blaðsíðunni og þá gerist það!

Við vinstra eyrað (sem snýr að glugga) heyrist skelfilegt suð. Viðbrögð mín eru ósjálfráð: Ég skelli aftur bókinni og þýt lárétt einn metra upp í loftið, tekst með lagni að lenda hálfan metra til hægri en þar er fyrirstaða: Ég lendi á skakka og æpi hástöfum.

Hann vaknar á svipstundu, hrindir mér af sér og öskrar "HVAÐ?"
Ég öskra til baka "GEITUNGUR!!"

Hann má eiga það að hann bregst skjótt við. Hann horfir í allar áttir með morðsvip en fellur svo niður á koddann aftur: "HVAR???"

Ég: "Ég veit það ekki. Ég var önnum kafinn við að forða mér en hann öskraði í eyrað á mér, þannig varð ég vör við hann!!"

Skakki horfir á mig með þessum svip. Þetta er sami svipur og hann setur upp þegar hann sér einhverja aumingja í sjónvarpinu. Ég trúi ekki að hann sé að senda mér þennan svip.

Skakki: "Var þetta ekki bara hrossafluga?"

Ég trú ekki mínum eigin eyrum: "HROSSAfluga?" (hvæsi ég) "Síðan hvenær suða þær eins og geitungar???"

Hann glottir.

Ég: "Hvað trúir þú mér ekki? Kannski hefur hann flogið inn í eyrað á mér og er nú önnum kafinn við að búa til bú í heilanum á mér, eignast svo unga og ég verð lögð á klepp því það suðar svo í hausnum á mér. Ekki viltu ÞAÐ????"

Hann horfir einu sinni enn í kringum sig og byrjar svo að hlæja. Hann hlær og hlær. Ég er næstum því farin að hlæja líka en þori ekki alveg að sleppa mér með í gleðskapinn því ég hef ónotalega tilfinningu að hann sé að hlæja að mér!

Ég með óvissu í röddinni: "Hvað er svona fyndið? Er fyndið að ég var nærri stungin í eyrað af risa geitungi? Eins gott að ég var vakandi og gat brugðist rétt við"

Hann hlær enn og bendir á ljósið á náttborðinu: "haha Fíflið þitt! Sérðu geitunginn?"

Hmm þetta virkar ekki rétt. Hann á ekki að vera að hlæja að mér. Hann á að sýna mér samúð og drepa geitunginn og taka svo utan um mig og segja að þetta komi aldrei fyrir aftur. RÆGHT????

Nei, ekki svo gott!

Ég rýni í ljósið (wow flott setning hjá mér) og sé ekki neitt. Ég held að hann sé að gera grín að ótta mínum og er að spá í hvort ég eigi að láta fjúka í mig en nenni því ekki því það er eiginlega komin nótt. Hann sér að ég sé ekkert og bendir aftur. Og þá sé ég hann!!!!

Geitunginn með risaröddina!

Þetta er ekki geitungur!

Þetta er oggu, pínulítil fluga. Svo lítil að hún sést varla. En röddin bætir það nú alveg upp. Þessi fluga ætti að fara í söngskóla hún yrði fræg á svipstundu.

Skakki (leggst niður aftur): "Fíflið þitt! Ég sem var alveg að renna inn í fyrsta drauminn. Núna missi ég af honum og verð örugglega andvaka"

Ég sendi honum fingurkoss um leið og ég slekk ljósið (þar sem pínkulitla flugan með geitungsröddina er enn að rolast): "Nei nei þú sofnar strax aftur.

Ég legg höfuðið óttalaus á koddann og sofna um leið. Ég veit ekki hvenær skakki sofnaði enda svo sem ekki rétt að hann sofni á undan því karlmenn eiga að gæta fjölskyldna sinna fyrir utanaðkomandi hættum!




12 ágúst 2004

Krem brúllei er alveg eins gott og ég var búin að ímynda mér mmmmmm. Á miðnætti í gærkvöldi stóð Skakki með logsuðutæki og bræddi sykur ofan á tvær krembrúllei, síðan settumst við og átum. Þetta var gott miðnætursnarl mmmmmm

Nú veit ég hvað Amalie var að tala um... að brjóta sykurskurnina á krem brúlllei...

11 ágúst 2004

Laugavegurinn á síðustu öld
Leigubílstjórarnir eru á Hornströndum að labba, eða svo sögðu þau mér. Ég vona að það sé gott veður hjá þeim svo þau sjái allt sem þarf að sjá svo þau séu ekki að ana þetta aftur! Einu sinni labbaði ég með kvenleigubílstjóranum laugaveginn umtalaða. Það var nokkuð erfitt því umræddar konur höfðu ekki kynnt sér ferðina mjög vel.

Við vorum þrjár í för (frú Vestmannaeyjar var með okkur) og með tjald á bakinu ásamt nesti og nýjum skóm. Það voru í mínu tilfelli mjög bókstaflega nýir skór því ég keypti þá mánuði fyrir ferðina eingöngu til að brúka í þessari ferð. Ég var líka með nýjan bakpoka!

Gangan var með því erfiðara sem ég hef gert um ævina (af líkamlegu erfiði meina ég). það var ekkert mál að skokka af stað á morgnana með bakpoka sem var ekkert svo þungur en þegar leið nær kvöldi var létt skokkið orðið að þunglamalegu "setja annan fótinn fram fyrir hinn og hvíla eftir tíu skref" og fjandans bakpokinn sem virkaði svo léttur var farinn að skera í axlirnar. Og svo þurftum við auðvitað að tjalda á hverju kvöldi, gjörsamlega örmagna.

Til marks um góðan undirbúning okkar þá vissum við ekki að við þyrftum að vaða einhverjar lækjarsprænur upp í mitti með reglulegu millibili. Við héldum að það væru brýr! Við sáum fljótt að svo var ekki! Þetta var óþverra upplifun og við rifum upp kortið við fyrstu sprænuna og reyndum að sjá hvar við hefðum gengið af leið og farið fram hjá brúnni. Við höfðum ekki gert það!

Við sváfum eina nótt í tjaldinu á Landmannalaugum. Það var fínt, soldið hart því tjaldstæðið er á möl en það var í lagi. Næstu nótt vorum við á Hrafntinnuskeri! Það var fallegt og við vorum þeyttar. Eitt örlítið andartak spáðum við í því hvort við ættum kannski bara að sofa í skálanum. Ég opnaði hurðina og á móti mér streymdi þung bleytulykt af fötum sem reynt er að þurrka í gluggalausum kofa! HJ'ALP! 'Eg datt afturfyrir mig í fang leigubílstjórans og sagði ákveðnum rómi (ég man þetta eins og það hefði gerst í gær): "Við tjöldum"

Ég er ákveðin kona og hef vit á öllu milli himins og jarðar og skiptir þá engu hvort ég hef vitið eða ekki! Ég sagði því samferðakonum mínum að í svona ferðum tíðkaðist að fara snemma að sofa. SNEMMA! Mjög snemma. Þær hlýddu því enda auðveldara að hlýða mér þegar svona gáll er á mér, ég hef nefnilega marga bókina lesið og vitna óspart í það!

Um eittleitið var ég orðin dofin af kulda, svo dofin að ég var komin í einn kuðung í pokadruslinni og gjörsamlega á barmi örvæntingar um hvort ég mundi verða úti þarna um nóttina! Ég var búin að troða mér svo langt ofan í pokann að ekkert stóð upp úr og annað slagið opnaði ég öndunarrifu svo ég kafnaði ekki. Ég var samt alvarlega komin á þá skoðun að það væri kannski bara best að kafna því ég frysi þá ekki í hel á meðan!

Það er á þessarti stundu sem ég stundi upp fyrir mig "Mér er svo kalt að ég er að dauða komin" og það var eins og við manninn mælt, bæði leigubílstjórinn og Vestmannaeyjafrúin voru helfrosnar í sínum pokum en þær höfðu ekki þorað að æmta neitt því ég hafði bannað þeim að tala (sem er auðvitað algjört kjaftæði því það vita allir sem mig þekkja að ég mundi ekki banna svoleiðis, þær hljóta að hafa misskilið mig eitthvað þarna í rökkrinu)!

Við risum úr pokunum og fundum spil og fórum að spila kana. Það var svo kalt að í minningunni missti ég spilin hvað eftir annað úr krókloppnum höndunum en það er eflaust misminni! 'i minningunni svaf ég ekki neitt!
frh síðar

Mikið afskaplega er gaman að búa með manni sem finnst gaman að baka og gera tilraunir! Vigtinni minni finnst það líka gaman en nú er ég búin að hlaða ofan á hana ýmsu dóti svo hún sést ekki og getur því ekki truflað samvisku mínu með eilífu ásökunaraugnaráði (hafa vigtir annrs ekki augnaráð?? Mín hefur grimmt augnaráð).

Skakki fékk glæsilega bók í afmælisgjöf. Þetta er einhver svona desertabók, alveg hreint glæsileg. Hann er búinn að binda bókina við sig og er alltaf að lesa hana. Ég les hana líka en lengra nær okkar samanburður ekki. Hann nefnilega er að gera rétti úr bókinni. Ég borða þá!

Hann er búinn að prufa þrjár gerðir af ostakökum. Ein er stórkostlega góð, svo góð að ef MS kæmist í hana þá þyrftu þeir sko ekki að hafa áhyggjur meir. Önnur er alveg mjög fín en sú þriðja (var gerð fyrst) fannst mér ekki mjög góð en það er ekki alveg að marka því ég vil ekki kaffibragð af neinu sem ég borða. Borða ekki einu sinni kaffisúkkulaðimola (hrollur).

Nú er ostakökusísonið búið og það næsta tekið við. NAMM! Núna er hann að gera tilraunir með krem brúllei. Það er nú aldeilis gott að eiga von á einhverju svona góðgæti er maður kemur heim þreyttur úr vinnunni. Krem brúllei

10 ágúst 2004

Fyrsti dagur eftir sumarfrí! Það ættu að vera til nöfn fyrir þessa daga! Ég hefði alveg getað dólað mér heima lengur og með minni heppni þá verður slegið hitamet fyrsta daginn eftir sumarfrí. Lífið er undarlegt og ég geri það sem ég vil tralalala

Er að reyna að mana mig upp í að hringja í leiðbeinandann minn og fá úrskurð um hvort ritgerðin mín er glötuð so far eða hvort eitthvað vit er í henni. Ætla að gera það á eftir.

Fór í sjoppuna áðan og þá er búið að loka henni. Ég vissi ekki að viðskipti mín skiptu svona miklu haha Þrjár vikur án mín og búllan er búin að loka!

09 ágúst 2004

Þetta er búið að vera afkastamikill morgunn (klukkan er sko 8.36 þegar þetta er skrifað)! Ég er búin að sitja við tölvuna og leita að ferð til Danmerkur og fékk hana. Ég veit að ég ætlaði ekki að fara til útlanda neitt í bráð en komm onn þegar manni stendur til boða miði á 18 kr þá er bara ekki hægt að sleppa þessu. Miðinn til Köben kostar þá 2548 kr. Það er ekki mikið eða hvað? Er sem sagt búinn að græða heilmikið í morgun (skot á Skakka).

Í dag er fyrsti vinnudagur systurinnar á nýjum vinnustað. Aumingja hún. Það er nefnilega soldið erfitt að byrja á nýjum stað að vinna við eitthvað sem mar hefur ekki gert áður. Úff. Gangi þér vel!

Úti er sól og flottheit svo nú ætla ég að bruna á golfvöllinn og nýta þannig síðasta frídaginn minn!


Powered by Blogger