Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

18 maí 2007

Fólkið sem átti íbúðina á undan okkur var nokkuð hærra í loftinu en ég. Og þá meina ég nokkuð hærra. Þau voru með svona rosa fínan snyrtispegil á baðinu á háu baðinnréttingunni sinni og mér fannst það brilljant og við fórum og keyptum líka svona spegil og Skakki setti hann upp fyrir mig. Á sama stað og hinn hafði verið. Fínn staður. Mjög fínn. En... það munar greinilega mikið á hæðinni á mér og konunni sem sem setti upp þessa innréttingu því þegar ég stend fyrir neðan spegilinn með snyrtigræjurnar mínar í hendinni þá sé ég ekki neitt. Ég er nefnilega hálfblind og allt að því dvergur að auki. Skakki komst að þessu fyrir tilviljun í gær þegar hann sá mig nota allt annan spegil heldur en þennan fína sem ég var svo ánægð með (það er þetta með að biðja um að loka glugganum ef mér er kalt...) og hann fór í það að laga spegillinn. Núna er hann flottur og nothæfur... á hvolfi á skápnum, þeas nú snýr hann niður en ekki upp eins og hann á að gera. En mér er sama því ég næ alla vega upp í hann núna. Það er ekki alltaf gott að vera hálfblindur dvergur sem ekki kann að biðja um hjálp!

16 maí 2007

Ég varð svo reið í gær að ég titraði inni í mér. Það snéri ekki að mér en ég varð samt rosalega, rosalega reið og datt eitt augnablik aftur til örlagadagsins 8. jan 2007. Það sem ég skil ekki er að konur skulu ekki geta sagt að þær geti ekki faglega starfað með einhverjum þá er um leið lagt allt kapp á að losna við þær. Er ekki eðlilegra að reyna að vinna í málunum og athuga hvað er í boði í stöðunni? Sérstaklega ef um er að ræða konur sem hafa unnið í mörg, mörg ár hjá sama fyrirtæki og hafa fram til þessa dags sem þær lýsa yfir óánægju sinni ekki átt í neinum samskipta örðugleikum. Og svo er verið að tala um að við séum komin með fullt jafnrétti? MÆ ASS!! Það er langt í land ennþá því við eigum enn að vera stilltar og góðar og láta okkur hafa það ef við erum ekki ánægðar með stöðu mála á okkar vinnustað. Ég hef ekki heyrt um marga karlmenn sem lenda í svona aðstæðum eftir margra ára starf á sama vinnustað. Kannski eru þeir flinkari að koma sínum málum að, eða kannski eru þeir flinkari að berjast eða kannski eiga þeir kannski auðveldara með það vegna þess að það sem er kallað kvennatuð af hálfu kvenna sem eru ósáttar er litið á sem alvöru vandamál ef karl á í hlut.

13 maí 2007

Í gær voru kosningar ef einhver skyldi hafa misst af því. Úrslitin komu mér svo sem ekkert á óvart þó ég hefði vonað að þau yrðu aðeins öðruvísi en það er erfitt að kenna gömlum hundum að sitja. Við kusum ekki fyrr en seinni partinn þar sem við fórum í bæinn með Molann að horfa á risessuna. Voða skemmtilegt og VOÐA kalt. Hinsvegar þegar við fórum svo að kjósa þá uppgötvaði ég fyrir utan skólann að ég var ekki með skilríki. Ég fór í smá panik og meðan ég var að dusta töskuna við leitina heyrði ég hláturstíst við hliðina á mér og ég leit við með morðsvip og spurði: "HVAÐ er svona hlægilegt?" Skakki var eldrauður í framan og tautaði að ef hann væri fyrir það að nudda salti í sárin, þá myndi hann hlægja dátt núna en eins og alþjóð vissi þá væri hann ekki svoleiðis. Ég horfði áfram á hann með grimmdarsvip sem sagði að hann skyldi ekki voga sér að hlægja og sagði honum stuttarlega að snúa við heim til að ná í skilríkin. Þau lágu auðvitað á gólfinu þar sem ég skildi þau eftir en eiginmannsónefnan var eins og sól í heiði þegar ég koma aftur út í bíl. Ég nefnilega margspurði hann áður en við lögðum af stað hvort hann væri ekki örugglega með skilríki. Lífið er grimmt!

Annars er ég komin í Kínarússibanann með fyrra móti þennan mánuðinn. Í gær voru nefnilega þær fréttir á Kínaslúðursíðunni að Kínverjar gætu náð heldur lengra með upplýsingar næsta mánuðinn sem mundi þýða að við værum með. En þetta er jú allt óstaðfest ennþá og þetta verður langur mánuður þar til þetta verður ljóst. Ég hef hinsvegar sagt frá því í janúar að ég ÆTLi og ég MUNI fá upplýsingar í júní. Átti bara eftir að segja Kínverjunum það líka. Ég ætti kannski að senda þeim email og minna þá á mig og mína?


Molinn tók þessa fínu mynd af mér, er ekki eitthvað dularfullt við að hann tekur ekki efri hlutann eða er þetta svona listrænt?


Powered by Blogger