Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

22 maí 2004

Í gærkvöldi fór ég með MAB og Hrefnu á endurfundamót Breiðholtsskóla. Það var ægilega gaman. Mest gaman var þó þegar tiltekin vinkona mín sem aðhyllist konur frekar en kalla hallaði sér að mér og hvíslaði
"Hér eru allir gamlir nema þú!"

Hehe, þetta var fallegt af henni sérstaklega miðað við að ég var með þessum glæsikonum sem ég var með. Músíkin á staðnum var þó ekki mjög spennandi því af miskilinni hollustu við tiltekið tímabil var nær eingöngu spilar diskó:
Disco Dance

Úff, þau lög voru ekki mjög skemmtileg á sínum tíma og það verður að viðurkennast að þau hafa ekki elst vel, sérstaklega ekki ef ekki er spilað neitt annað.

Þetta var þó mjög skemmtilegt. Einn skólafélaginn var fjölþreifinn við allar konur sem hann komst nálægt (ekki mig og mínar því við komum ekki nálægt svona puttaköllum jakk). Ég var spurð af allflestum eins og venjulega í þessum teitum (þetta er þriðja sem ég fer í) hvort ég hafi verið með þeim í skóla. Og í hvaða bekk. Tek það fram að það eru ekki bara þeir sem voru í hinum bekkjunum sem spyrja, það eru líka þeir sem voru með mér í bekk. Veit ekki alveg hvort það þýði að enginn tók eftir mér þá, eða hvort ég hafi breyst svona mikið eða eitthvað allt annað.

Fannst samt fyndið þegar Dóri Lady sem kom í bekkinn á eftir mér spurði hvort ég hefði verið honum í bekk og hvenær ég hefði komið. Fólk er fífl!

Bára sagði okkur þær fréttir að hún er að flytja á Akranes og mun því ekki lengur vera hægt að heimsækja hana á Hvammstanga (ég er búin að vera leiðinni í þessi þrjú ár sem hún bjó þar) hehe en það er styttra á Akranes (held ég)!!!!!!!!!!!

Nú eru liðnir tveir heilir dagar af fjögurra daga sumarleyfi mínu (löng helgi).

Ég fór og hitti hægasta klippara í heimi. Hann klippir svo hægt að ég var orðin viss um að ég væri með miklu meira hár á hausnum en mér fannst ég hafa þegar ég leit í spegilinn um morguninn og var ég þó eins og gilitrutt um hausinn. Þessi hægi klippari heitir Ásgeir og er svaaaaakalega flinkur þó hann klippi hægt.

Ég sagði honum að ég vildi ekki þurfa að koma með neina hugmynd um klippinguna, þetta væri í hans höndum. Ég var þó nærri búin að gleyma mér þegar hann vildi lita hárið í upprunanlegum lit. HAAAAAAAAAAALLÓ til hvers lætur mar lita á sér hárið? Jú til að losna við ljóta hárið sitt og fá nýtt og glamúruslegt hár. Ég leyfði honum þó að ráða og útkoman er sú að nú er ég með pönkaralega klippingu (mjög flott) og næstum því minn eiginn háralit (veit ekki enn hvort mér finnst það flott) og er það í fyrsta sinn í nokkra áratugi sem minn litur hefur fengið að koma fram. Svona er ég meðfærileg!!!!

Til merkis um það hversu hægur klipparinn er þá tók þessi athöfn 3 klukkutíma og þar af var liturinn hálftíma í hárinu! Jamm segi og skrifa 3 tíma og þá er tekið með í reikninginn að ég var stuttklippt og er núna stuttklippt og með rakaðann koll að hluta. Það tók sem sagt 2,5 tíma. Og síðan tók hann í hendina á mér, þakkaði fyrir sig og skrifaði nafnið mitt í tölvuna með upplýsingunum um háralitinn!!!!! Einmitt, nú er músarliturinn minn kominn í tölvuna sem varanlegur litur (hrollur).

19 maí 2004

Tæpir tveir tímar eftir og þá verð ég komin í frí í fjóra daga. Heila FJÓRA daga. Uss hvað það er gaman. Er að fara með MAB og Hrefnu á rejúníon á föstudagskvöldið. Það er nefnilega farið að hleypa á einhverjum tugum síðan við kvöddum Breiðholtsskóla (ekki með tárum). Við ætlum að fagna þessum merka áfanga í lífi okkar með almennri drykkju og skrípalátum. MAB er búin að liggja í kokteilabókum til að geta bruggað okkur einhverja ódáinsveigar sem hænuhausar eins og við getum drukkið og kvaðst í síðasta samtali okkar vera komin með þetta skipulagt.

Í síðasta hófi sem var fyrir sex árum síðan gengum við MAB eitthvað fram af fólki en við höfum nú ekki áhyggjur af því. Viðstaddir voru eitthvað að furða sig á því að við værum vinkonur því þeir minntust okkar ekki með sama hætti: MAB var þekkt sem íþróttaálfur skólans, spilaði handbolta með einhverjum meistaraflokki og sparkaði bolta þess á milli. Hún fékk því oft að velja í liðið í leikfimi. Éf fékk ALDREI að velja í liðið! Ég fékk varla að vera með í liðinu. Ég var þessi sem var eftir þegar aðeins tveir voru eftir; þessi feiti sem ekkert gat og þessi grindhoraði sem gat enn minna (á þeim tíma var ég þessi seinni, það er sko ekkki fyrr en á seinni árum sem Sanasólið fór að virka og ég að bæta á mig kg). Við þóttum því ekki líklegar vinkonur!

En hinsvegar þá lentum við í því (elska þetta orðalag) að vinna í fiskinum (með Hrönn) og þar upphófst gagnkvæm aðdáun á kostum hvor annarar (líka göllum)!

Í síðasta hófi tilkynnti ég því fólki sem var að undrast vináttu okkar að ef við værum lesbíur þá værum við giftar hvor annarri! Þetta sjokkeraði fólk, ég skil ekki af hverju. Kannski hefur þeim fundist að við mundum passa enn verr saman sem Hjón/ástkonur heldur en vinkonur? Hvað veit ég.

Ég veit hinsvegar að ég er að fara í fjögurra daga frí. Og ég ætla að fara á RÁNdýra klippistofu og fá nýjan haus. Er búin að skipta við sömu stofuna í 10-12 ár (með óléttuhléum klipparans en þá hef ég leitað annað). Núna langar mig til að kíkja aðeins eitthvað annað. Bara að sjá hvort þessi getur gert mig að töffara sumarsins!

Sumarbústaðakonan mætti í gær og náði í nýja (gamla) skápinn sinn. Hún var greinlega hrædd við að ég mundi hætta við því hún stakk skápnum í bílinn sinn á methraða og spændi burtu.

Annars horfði ég á Völu Matt aldrei slíku vant og þar var einhver vitringurinn búinn að taka alla ofnana úr íbúðinni hjá sér og þau voru búin að reikna út að íbúðin stækkaði um 10-12 fermetra. Ég er að hugsa um að gera þetta líka, henda öllum ofnum og fá aukaherbergi. Vissi ekki að þetta væri svona auðvelt. Maður hreinlega Á að horfa á sjónvarpið reglulega því mar lærir svo margt nytsamlegt!

Annars eru auglýsingarnar alveg að gera sig þessa dagana. Það er sérstaklega ein sem höfðar svakalega til mín: AIR WICK eða eitthvað slíkt (einhver dós með lykt í). Konan í auglýsingunni hangir allan daginn inn á klói eftir að hún setti svona dós þar inn. Það er nú einmitt það sem mig hefur langað svo svakalega að gera: Húka þar inni allan daginn með nýju lyktinni minni. Er í lagi með fólk?

18 maí 2004

Um daginn hélt ég langa ræðu um að ég væri að breytast í elskulega móður mína Tilvitnun

Ég reikna með að einhverjum hafi flogið í hug að ég væri að grínast og jafnvel ýkja aðeins þegar ég nefndi að hún ætti það til að hringja í mig og falast eftir hinum þessum hlutum sem ég notaði lítt því hún ætlaði að gefa það einhverjum sem vantaði þetta meira en mig.

Í gærkvöldi komu háæruverðugir foreldrar mínir í örstutta heimsókn og gáfu mér bækur (því eins og pabbi sagði, þá eru bækur það eina sem vantar á þetta heimili). Aníveis, ég er þarna í miðjum klíðum við að að klára að umstafla húsgögnum og pakka niður bókum sem ekki komast í hillurnar (eins gott að ég fékk strax nýjar til að fylla upp í).

Móðir mín lítur í kringum sig með áhuga og ég átta mig ekki á því augnabliki að hún er að skanna hvað ég sé tiltölulega hætt að nota. Nei ég sit hin rólegasta og býð þeim upp á ódrekkandi kaffi með fullt af korgi í sem þau drekka af mesta rólyndi.

Þegar þau eru farin þá dáist ég að bókunum og fer síðan að sofa. Þá byrjar síminn. Klukkan er rétt orðin 23.30 og maðurinn á hækjunum horfir á mig undrunar- og skelfingaraugum og segir "hver hringir svona seint?" og svo hleypur hann (þetta er ekki grín, hann fór handahlaup að símanum). Hann kemur til baka með undrunarsvip og réttir mér símann:
"þetta er mamma þín"

Hmm, svona seint? Ég tek símann og þar er móðir mín óðamála:
"Hvað ertu að safna svona í geymsluna þar sem er ekkert pláss?"

Ég: "Ha?"

Móðir mín: " Já, hillurnar þarna, ég þekki konu....

ahhhhhh ég skil...

"...sem á sumarbústað og hana vantar hillur eða eitthvað í bústaðinn. Hún á ekki neitt. Ekki einu sinni innréttingu. Á ég ekki bara að spyrja hana hvort hún vilji eiga þetta? Þú hefur ekkert að gera við allt þetta drasl"

Æ rest mæ keis.....

17 maí 2004

Annars er ég með allskyns furðuverki í dag. Mig virkjar í einhverja vöðva í síðunum, í upphandleggjunum og aftan á lærunum:


Nei, nei það er alls ekki svo að ég hafi verið að gera einhverjar æfingar, allavega ekki það sem flokkast undir íþróttir. Nei sko málið er að ég á auðvitað að vera að skrifa ritgerð. Mér finnst það ekki skemmtilegt og í gær fann ég það út að ástæðan fyrir því að ég get ekki sest við skriftir er að uppröðun húsgagna í sloti mínu er ekki rétt. Það var því ekki annað að gera en byrja að fær húsgögn.

Þeir sem mig þekkja vita að það er ekki auðvelt að flytja neitt til í þessu fína sloti þar sem ekki er um minimaliska uppröðun að ræða heldur frekar það sem kennt er við "chaos allt í kerfi" uppröðun. Ég þurfti því að bera skápa og hillur fram og til baka. Sumt var svo þungt að ég varð að tína bækurnar úr fyrst. ÚFFFFFF Þetta var erfitt.

Hr. meinvill lá í rúminu á meðan og dáðist að mér (not). Hann flissaði og tautaði til skiptist og mér var orðið skapi næst að taka hækjurnar og fleygja þeim þar sem hann næði ekki í þær (hann hefði ekki hlegið svo hátt þá haha).

Aníveis, þrátt fyrir þessar truflanir tókst mér að skipta um uppröðun húsgagnanna (á að vísu eftir að klára aðeins) á mettíma en skrokkurinn ber þess merki. Hann kveinkar sér við hverja hreyfingu og það eru skrámur í fótum og höndum. En lúkkið er fínt!

Og ég endaði þetta með því að pota 3 plöntum í pott og ímynda mér að ég ætti garð:
Þemað er blátt að venju.

Blogger er búinn að setja upp eitthvað einfalt kommentakerfi. Ég ákvaðað prufa það en ég veit ekki hvort það er komið til að vera því mér finnst það ljótt og frekar skrítið lúkk á því....

Hrönn átti afmæli í gær:
TIL HAMINGJU
og í dag á Unnur afmæli
TIL HAMINGJU


Powered by Blogger