Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

02 desember 2005

Sótti Molann í leikskólann í gær og átti með honum smá kvalití tíma. Mikið afskaplega geta börn haft mikið að hugsa. Ég lenti í umræðum um hnúða á kemeldýrum, börn í maga kvenna, spidermann dót og íþróttaálfinn. Og inn á milli sungum við um físifingur og mömmufingur. Ég veit ekki alveg hvaða fingur það eru því mínir heita jú vísifingur og langatöng.. en skemmtilegt var þetta. Hann hjálpaði mér að þrífa fúgurnar á eldhúsflísunum og þegar hann var búin að sulla út um allt gólf og gera flísarnar að einum haug þá horfði hann með vandlætingu á mig og sagði: "ofsalega er subbulegt hérna" Já er það? Andskotans dóni bara.. huh...

01 desember 2005

Keypti miða á tónleika áðan:
Náttúrufélags Íslands ? Viltu verða Náttúrulaus?

Nei ég vil sko ekki verða náttúrulaus þó mig gruni að það sé of seint að fara á tónleika til að bjarga því. Hefðu átt að bjóða upp á þessa tónleika fyrir LÖNGU síðan, en svona er þetta. Það er ekki verið að hugsa um náttúru manna út í bæ. En ég held samt að þetta verði flottir tónleikar, allskonar stór og smá styrni sem koma fram!

Það eru að koma jól ligga ligga lá... mér finnst desember skemmtilegur. Mér finnst jólatíminn svo skemmtilegur tími þó mér hafi nú ekki tekist ætlunarverkið þeas að vera búin með allar jólagjafir fyrir desemberbyrjun. Gengur bara betur næst. Er að vísu langt komin. Annars er þetta fyrsti deesember í manna minnum þar sem ég hef svo góða samvisku gagnvart þessari skrokkómynd minni að leitun er á öðru eins. Og ég er að bara nokkuð hress, að vísu ekki á kvöldin því til þess að geta meikað þetta verð ég að fara að sofa eins og börnin. MJÖG snemma. Sem þýðir að Skakki er einn að rolast á kvöldin við tölvuna og Guð einn veit í hvaða rugl og vitleysu hann leitar þar (haha). Ég ætti kannski að fara að setja svona vaktara á tölvuna sem sýnir hava síður hafa verið skoðaðar (hehe)

30 nóvember 2005

Miðvikudagar eru bara að verða mjög skemmtilegir dagar! Þá eru nefnilega bara tveir dagar eftir af vikunni. Það er skemmtilegt! Í kvöld ætla ég að klára eldhúsið og setja upp jólaljós í gluggann. Það er MEGA skemmtilegt. kannski getum við þá sest í sófann smá stund en það hefur ekki verið hægt í þrjár vikur held ég bara..eða allavega tvær!

29 nóvember 2005

Rosalega er eitthvað dimmt á morgnana þegar maður skreiðist út. Að vísu skreiðist ég ekki, ó nei, ég kem valhoppandi niður stigann með íþróttatöskuna á bakinu og ef ég þarf að skafa geri ég það full af gleði og lít á það sem upphitun fyrir leikfimina. Þetta er auðvitað haugalygi en hún hljómar vel. Sérstaklega þetta með valhoppið!

Annars gengur leikfimin bara nokkuð vel. Er að byrja fimmtu vikuna. Hvað þarf maður aftur að gera lengi til að eitthvað verði að lífsstíl? Einhver sagði að til þess að breyta einhverju í venju þá þyrfti að gera atburðinn í 21 dag. Í mínu tilfelli og leikfiminnar reikna ég nú frekar með 121 degi eða 221 degi. Úff það er eftir langan langan tíma. Eins gott að ég er alltaf að æfa þolinmæðina haha.

Ég er farin að laumast til kíkja á föt fyrir Kínverjann. Verst að vita ekki hvort hann er stelpa eða strákur. Er ekki viss um að hann (Kínverjinn) vilji vera í kjól ef hann er strákur. En það er nú soldið gaman að skoða svona litla og sæta kjóla, svona rauða tjullkjóla. Æ aumingjans barnið að fá pönkulínu sem yfirumsjón fatamála haha

28 nóvember 2005

Nú eru bara þrjár vikur til stefnu og mér finnst tíminn vera að hlaupa frá mér. Ég hleyp á eftir honum og sem betur fer er ég komin með aðeins meira þol þó ég hlaupi ekkert hraðar en áður. Mig langar í jólaskraut en það er svo mikið drasl í stofunni að skrautið kemst ekki fyrir. Ég ætti kannski að umstafla og gá hvort ég get ekki vafið eins og einni seríu utan um draslið. það væri allavega öðruvísi jólaskraut. Á ekki aðventuljósið að vera komið upp? Ég er svo mikill smáborgari í mér að ég bara verð að hafa svoleiðis ljós í glugganum mínum á jólunum. Eða er það kannski ekkert smáborgaralegt heldur bara normið?


Powered by Blogger