Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

25 júní 2005

Mérfinnst verst að ég skuli ekki fá svona hatt en ef ég væri í HR þá fengi ég svona huh
GraduationSvona er gæðunum misskipt. Ég er hattafrík án hatts sem minnir mig á það að ég hef ekki keypt mér hatt í langan langan tíma. En núna ætla ég að fara að baka. Molinn er á leið yfir í sveitina til að hjálpa mér þannig að það er eins gott að ég búin að kaupa það sem til þarf.

24 júní 2005

Meinvill og Skakki áttu þrjá bíla í vetur. Geri aðrir betur en það! Uppáhaldsbíllinn var ekki á númerum því hann var að detta í sundur um miðjuna (segir sérgiltur skoðunarmaður sem við þurftum að borga offjár fyrir að opna munninn og kveða upp dóminn sem við vorum ekkert að leita eftir). Bíllinn minn er glæsivagn fjölskyldunnar, fallega blár með grænum ljósum. Annar bíll af tveimur á landinu sem lítur svona út og er það til bóta því Meinvill á það til að gleyma útliti bíla sinna og annarra samferðamanna. Fyrir henni eru allir bílar "lancer"... staðreynd sem pirrar skakkfættann bóndann á köflum en Meinvill hefur reynt að segja honum að hann eigi að gleðjast yfir því að spúsa hans sé ekki röflandi um bíla daginn út og daginn inn, heldur segi bara "lancer" ef hún er spurð að bílategund. Þriðji bílinn er bíll Skakka sjálfs. Hann er hvítur og kemst leiðar sinnar. Og afhverju er ég að fjasa um bíla okkar? Nokkur atriði sem urðu til þess:
1. Mér leiðist í vinnunni
2. Ég hef ekkert til að blogga
3. Ég tel að þið viljið vita um bílaflotann og núverandi ástand hans,

Staðan er sem sagt sú að uppáhaldsbíllinn var dreginn af stað í því sjónarmiði að gera við hann. Það er að segja áður en miðjan léti undan síga og legðist í götuna. Svoldið aumur bíll sem þannig lítur út. Eftir að hafa safnað að sér miklu smíðaefni kvað suðumaðurinn (Skakki sjálfur) upp þann útskúrð að þessi jeppi væri dauðvona og ekki til mikils að flagga honum sem hluta af bílaeign okkar hjóna. Það var og!

Glæsibíllinn hinsvegar hefur síðustu vikur látið æ hærra í sér heyra. Hann hefur haft svo hátt að þegar frú Meinvill (er ekki lengur fröken Meinvill eins og alþjóð veit) brunar um götur bæjarins þá færa aðrir bíla sig frá. Þessi glæsivagn er líka með ákveðinn neikvæðan eiginleika sem Meinvill hefur reynt að horfa framhjá en getur ekki gert lengur: Hann drepur á sér upp úr þurru! Þar sem frú meinvill er góður bifvélavirki þá hélt hún í fáfræði sinni að bíllinn væri olíulaus og flýtti sér á næstu stöð að kaupa olíu. Þetta gerðist nokkrum sinnum og hún sagði ekki nokkrum manni frá þessu því Skakki og háæruverðugur faðir hennar hafa verið að kvarta undan því að hún sinni ekki bílnum rétt..***skotans kjaftæði sko. NEMA.. þetta er farið að gerast oftar en nokkrum sinnum.. eiginlega svona einu sinni í viku og þá er þetta farið að pirra frúnna sem er kannski að keyra í sakleysi sínu á tæplega hundrað kílómetra hraða eftir brautum borgarinnar þegar..daddaradda da..

bílinn drepur á sér.. frekar óskemmtilegt. En Meinvill deyr ekki ráðalaus.

Hún skiptir við Skakka um bíl.. fær að vera á fína hvíta bílnum hans undir einhverju yfirskini sem nú er gleymt. Hann fær að vera á fína bílnum með fallegu grænu ljósunum. Hann fer auðvitað að kvarta eftir smá tíma..að dekkin séu lek, bíllinn skítugur og drasl á gólfunum. Hvað er þetta maður svarar Meinvill fullum hálsi, ert þú ekki á bílnum núna, þú verður bara að vinna úr þessu! Sem hann auðvitað gerir og fer með bílinn á dekkjaverkstæði og hvað gerist? Jú elskulegur bílinn neitar auðvitað að fara í gang og Skakki verður að ýta honum inn gólfið..eða var það út..alla vega þurfti hann að ýta. Hann var svipþungur í símann þegar hann hringdi og talaði um "DRSLUNA ÞÍNA". Ég heyrði allaleið niður á höfn hvað hann var svipþungur. Ég þóttist auðvitað vera hissa á þessu skyndilega bileríi og nú er komið í gang eitthvað ferli til að laga bílinn. Gleymdi ég þó að minnast á það að ég fór sjálf..já segi og skrifa SJÁLF með bílinn á pústverkstæði áður en ég plataði honum inn á Skakka.

Ég er enn á hvíta bílnum. Ég get svarið að það er helv. hávaði í pústinu. Ég þarf að muna að skipta aftur þegar búið er að laga glæsivagninn!

Ég vaknaði í morgun tilbúin að takast á við sólina, en.. þá var rigning og ég var alls óviðbúin henni. Ég veit bara ekki hvernig ég á að snúa mér þegar veðrið sýst svona í höndunum á mér. Held samt að það sé ekki á mínu færi að breyta þessu. Leigubílstjórinn vinkona mín, þekkti eitt sinn manninn (kannaðist við er kannski réttara sagt) sem stjórnar veðrinu. Hann stjórnaði með aðstoð kústskafts. Ef kústurinn lá á hliðinni kom rigning og ef hann stóð uppréttur var sól. Spurning hvar kallkvölin er niðurkominn þannig að hægt sé að aðstoða hann með kústskömmina. Ég mundi alveg vilja taka að mér að hjálpa honum ef það tryggði mér sólarglætu þegar ég á frí..ég er að vísu að vinna núna þannig að það má svosem rigna en ég verð í fríi á morgun og þá er betra að kústurinn standi. Á morgun er nefnilega stór dagur. Ég ætla að útskrifast í 1000asta sinn og Svíanýbúaranir koma til landsins. Mikil tilhlökkun yfir því seinna ekki eins mikil yfir hinu fyrra því ég nenni ekki að taka þátt. Svona er mar orðinn mikill lúser, hættur að taka þátt í útskriftum. Ætla næst að taka þátt þegar ég verð orðin doktor haha ég sem sagðist vera hætt að læra, kannski var ég bara að skrökuljúga?

23 júní 2005

Klukkan hálffimm í dag ætla ég að fara í frí, það er að segja ég ætla ekki að gera NEITT þangað til ég fer að sofa um kvöldið. Ekki elda og sérstaklega þá ætla ég ekki að ÞRÍFA. Mitt heimili er hreint aldrei slíku vant enda kemur kona á eftir til að taka þrifnaðinn út. ÚFF og aftur ÚFF. Í næsta lífi ætla ég að verða minimalisti. Held að það sé miklu auðveldara heldur en vera svona maxi eins og ég er..alltof mikið af dóti og drasli. En sem sagt, í gærkvöldi stóðum við á haus og ég hélt áfram smá í morgun. Mikið agalega verð ég fegin þegar þessi dagur er búinn!

22 júní 2005

Getur einhver frætt mig um það hversvegna allir miðar í fötum eru gerðir til að meiða mann? Eða er ég ein um að vera svona viðkvæm? Ég get gjörsamlega farið á tauginni þegar ég fæ nýja flík og skiptir þá engu máli hvort miðinn er í hálsmáli eða hliðinni. Pyndingartæki og ekkert annað.

Baráttan við kortið heldur áfram. Það hefur runnið upp fyrir mér að ég er bækluð þegar kemur að því að lesa á kort og ekki er leigubílstjórinn vinkona mín neitt betri. Samanlagt gerum við næstum því plús, ekki þó alveg en við nálgumst plúsinn. Við fórum vopnaðar tveimur kortum að leita að Valabóli í gærkvöldi og eftir að hafa gengið tvo hringi í kringum Höfuðborgarsvæðið þá fundum við slotið. Ánægðar með okkur. Mjög ánægðar. Skakki skildi samt ekki hvað það var sem tók allan þennan tíma. Huh...

21 júní 2005

Æm bakk.. alla vega í dag. Það er búið að vera geðveikt að gera hjá mér við að gera ekki neitt. Að vísu skundaði ég með Auði og Sigrúnu á Þingvöll til að sýna samstöðu með okkur konunum. Það var bara nokkuð skemmtilegt. Fór líka göngu-ökuferð með Skakka mínum um Suðurlandið og með leigubílstjóranum að finna merki í ratleiknum. Þetta er bara all nokkuð sko eða þannig. Um næstu helgi er útskrift og sænsku nýbúarnir streyma til landsins. Að vísu ekki út af útskriftinni heldur til að ferma drengstaulann sem þar býr og er vaxinn mér löngu yfir höfuð. Synd alveg því það var gott að hafa hann svona lítinn. Veit ekki hvað þessir frændur mínir eta því þeir vaxa eins og illgresi eða baunagrös. Ég hef aldrei séð baunagras en sá á mynd að það náði til himins. Þeir eru að verða komnir þangað!


Powered by Blogger