Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

12 ágúst 2005

Ég sit í vinnunni og er að svíkjast um. Ég er að skrifa blogg og háma í mig eitthvað víðáttu vont súkkulaði sem ég fékk gefins. Ég hefði aldrei keypt það sjálf en ét þar sem það var ókeypis. Svona er ég hyskin og nísk. Með þessu drekk ég diet coke en vinnustaður minn selur ekki diet pepsi sem er nú venjulega minn eðaldrykkur, en ég læt mig hafa það svo ég þurfi ekki að fara út úr húsi. Ég er búin að skipuleggja tvö námskeið í september og leggja upp með einn fyrirlestur í október. Mér finnst þetta bara þokkalegt vikuverk. En svo mundi ég eftir því að ég var einhvern tíma byrjuð að skipuleggja lyftaranámskeið og þyrfti eiginlega að fara að staðfesta það en ég nenni því ekki. Skakki var að enda við að hringja í mig og segja mér að sumarið sé komið aftur og þá ákvað ég að fara bara í frí... aftur. það er enginn hér til að banna mér að fara því hinir eru í fríi. Yfirmaður minn er meira segja á hinum enda landsins á hinni ísköldu Melrakkasléttu. Armour lagði af stað í Öxarfjörð á svipuðum slóðum og ÓRÓ er komin í langþráð sumarfrí. Eftir sitja ég og karlgarmarnir tveir sem vinna að baka brotnu. Ekki þjakar letin þá eins og mig! En mig langar heim. Á svalir mínar eða bara í mjúkt rúm mitt. Er eitthvað svo syfjuð eitthvað eftir sumarlanga vöku sem stendur til bóta því hávaxni læknirinn sem mistókst að búa til barn handa okkur Skakka hann gaf mér einhverjar voða fínar pillur sem eiga að laga allt sem að mér gengur: svefnleysi óróa og aðra hörmung. Ku samt ekki lækna fitu sem mér finnst frekar óréttlátt en svona er það bara. Þessi sami læknir sagði mér þó að til þess að mjókka væri sko ekki nóg fyrir mig að skokka svona um hraun og hlíðar Hafnarfjarðar. Ó nei ég þarf sko að breyta fæðuinntöku. HuH afhverju eru allir alltaf svona leiðinlegir? Finnst ekkert ósanngjarnt að mjókka án þess að hafa nokkuð fyrir því en held að það eigi ekki fyrir mér að liggja. Held ég gangi heim, held ég gangi heim...
PS finn ekki nokkurn mann sem getur sagt mér hvert projectorinn fór eftir að skápnum okkar var lokað... hmmm

11 ágúst 2005

Ekki veit ég hvað ég gerði á kvöldin fyrir daga lopapeysunnar!!!

Annars var frábær smáfrétt í Fréttablaðinu í gær:
Gleymdi eiginkonunni
Makedónskur maður skildi eiginkonu sína eftir á ítalskri vegamiðstöð og uppgötvaði ekki að hann hefði ekið af stað án hennar fyrr en sex klukkustundum síðar.

Hjónin voru á ferð ásamt fjögurra ára dóttur sinni og stöðvuðu ferð sína til þess að taka bensín, að því er segir á fréttavef CNN. Þar fór konan út úr bifreiðinni til þess að fara á salerni án þess að eiginmaður hennar tæki eftir.

Konan hafði hvorki á sér fjármuni né persónuskilríki og hafði því samband við lögreglu, sem tókst loks að finna manninn í Mílanó. Hann gaf þá skýringu að kona hans sæti alltaf í aftursætinu og hann yrði hennar því ekki var.


Alveg finnst mér þetta brilljant. Þau talast ekki mikið við og hann er ekki einu sinni að gjóta til hennar augunum í baksýnisspeglinum annað slagið. Og hvað með krakkann? Var hún ekkert að kvarta í sex tíma að mamma hennar væri ekki á staðnum? Og þegar kallinn er kominn til Mílanó þá er hann ekkert að minnast á það við konuna, nei, nei löggan þarf að grafa hann upp og þá er hann bbara hissa. Ha? Konan mín? Mér finnst þetta ekkert annað en brilljant!

10 ágúst 2005

Það var heimsendingarþjónusta af bílaverkstæðinu í gær og fékk ég fallega bílinn minn í hendur um átta í gærkvöldi. Bifvélavirkinn faðir minn vonar að hann sé kominn í lag en veit annars ekkert um það. Traustvekjandi ha? Hann skipti um eitthvað og bíllinn hefur ekki drepið á sér síðan en það er ekki vitað hvort það sé bara tilfallandi eða hvort þetta stykki hafi valdið biluninni. Ég mun keyra úti í kanti þangað til annað kemur í ljós! En hann fékk líka skoðun haha

Annars sit ég heima hjá mér á kvöldin þessa dagana og get ekki nógsamlega þakkað fyrir að vera EKKI að fara í skólann í haust. Ég finn það núna að ég var gjörsamlega komin með upp í kok af þessu streði. Í vetur er það því bara vinna hjá mér og einhver önnur gleði sem alls ekki tengist skóla.

09 ágúst 2005

Ég er mætt til vinnu aftur. Búin að svara og eyða pósti og þarf nú að fara að vinna aftur. Úff. Mætti samt á brettið í morgun. Fannst ég merkilega dugleg sé litið á þá staðreynd að ég var að koma úr fríi.

Náði samt ekki að klára markmiðin mín í fríinu, það skal viðurkennast. Lopapeysan sem átti að klárast er næstum búin en ekki alveg. Á eftir að prjóna hettuna og ganga frá. Held það sé samt ágætis árangur þó ég hafi ekki náð að klára alveg.

Síðan ætlaði ég að ganga 100 km en samkvæmt fína tækinu mínu þá eru það 77, 52 km sem ég gekk. Ég var 31, 5 tíma að labba þetta og eyddi við það 9364 kaloríum. Spáið í það ef ég hefði ekki eytt þeim, væri ég þá ekki með þær kaloríur utan á mér ennþá? Ég hef þá verið að ganga að meðaltali 3,23 km á dag og mest allt í hrauni, mér finnst það nú bara fínt. Hef held ég sjaldan verið eins virk í útiveru í nokkru sumarfríi.

Núna er ég að hugsa um að skella mér í mat til að reyna að éta þessar kaloríur á mig aftur!


Powered by Blogger