Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

30 júní 2006

Það er heimahöfn hjá Skakkinum þessa helgi. Vonandi verður veðrið aðeins oggulitið skárra. Fer nú ekki fram á mikið..kannski bara svona 2 tíma í sól yfir helgina ha? Er það mikið? Fór og keypti nýjan kjól í gær. Ekki handa mér. Ekki handa Skakka. Jess það er rétt handa unganum síkáta sem enn er í Kína og verður þar allavega fram á næsta ár en þegar hann kemur á hann fullt af kjólum. Ef unginn er kk þá fer í verra en þá verður hann yngsta dragdrottning Íslands haha. Og svo er það náttúrulega spurning um stærðina á unganum. Þess vegna eru til kjólar í skápnum í nokkrum mismunandi stærðum. Þetta fer að líta út eins og sæt barnafatabúð hehe

29 júní 2006

Syndum og syndum og syndum.. hitti Skjaldbökuna og Molann í sundi í gær og hann vildi endilega sjá frænku synda. HUH er barnið að efast um sundhæfileika mina? Að vísu kann ég bara bringusund en langar soldið til að kunna skriðsund. Spurning hvort ég ætti að fara á svona námskeið fyrir fullorðna og læra að synda svoleiðis? Annars verð ég bara að fara að komast í frí. Ég er gjörsamlega að deyja drottni mínum hér, get ekki vaknað á morgnana og er síþreytt. Byrjaði í morgun að éta vítamín aftur til að reyna að hressa mig við. Spurning hvort það virki.

28 júní 2006

Fór aftur í sund í gær og bætti 100 metrum við þannig að nú synti ég 600 metra. Þá var ég orðin nokkuð þreytt og fór í pottinn smá stund. Það var notalegt. Ég var með nýju sóllinsurnar mínar og ég segi nú bara mamma mia hvað þetta er notalegt. Að vera með sólgleraugu í augunum, þetta er náttúrulega bara hrein snilld. Þarna sat ég eins og fín frú og mændi á sólina án þess að blikna, ó já, án þess að blikna! Um kvöldið rölti ég svo einn hring um miðbæ sveitaþorpsins sem ég bý í bara svona til að fá á mig smá meiri sól og notalegheit. Ég segi nú barna eins og lítil sem ég þekki, ég eellska bleikt..nei sorry ég ætlaði að segja ég ellska sumar!

27 júní 2006

Fyrsti dagurinn í nýja lífsstílnum í gær og hann leið bara nokkuð vel. Ég fór í sund og synti í fyrsta skiptið í 10 ár eða meira. Það hefur nú ýmislegt breyst síðan ég fór síðast en ég kann þó alla vega enn að synda. Nú fær maður ekki lengur lykla og klefarnir eru svaka flóknir fyrir blindingja. Og í sturtunum er einhver pottur sem vindur sundfötin haha mér var farið að líða eins og geimveru sem er nýlent á jörðinni ;) Held samt að ég verði að fara með linsurnar næst því það rak einhver kona andlitið framan í mig og ég var að spá hvað væri eiginlega að þessari kellu þegar ég uppgötvaði að þetta var ástkær móðursystir mín hehe Ekki gott að vera blindur á ferðinni! En þetta var samt fínt. Ég synti 500 metra og var bara mjög ánægð með mig. Í dag er ég með smá strengi hér og þar. Mjög gott bara!

26 júní 2006

Ég hefði ekki átt að vera svona ánægð með verðið á gleraugunum. Það er búið að hringja í mig spyrja hvort ég geri mér grein fyrir að þetta séu kókbotnar sem ég pantaði í staðinn fyrir gler. Jæja aðeins orðum aukið en það hringdi samt kona og spurði hvort ég gerði mér grein fyrir að glerin væru mjög þykk sem ég valdi. Ég valdi?? 'Eg valdi ekki neitt, ég treysti gaurnum sem seldi gleraugun og ég sagði henni það (plús það að ég sagði honum að ég vildi EKKI kókbotna). Hún sagði..."oh það hefur bara verið svona mikið að gera" og ég sagði "nei, við vorum tvær í búðinni og sölumaðurinn" ... hmmmm er þetta traustvekjandi? Konan var voða vandræðaleg og sagði að hún vildi bara vera viss um að ég vissi hvað ég hefði valið..næsta gler fyrir neðan væri bara 2000 krónum dýrara en það sem ég "valdi". ASNAR!!! Þau verða búin að hækka gleraugun upp í það sem ég sem öll hin hafa kostað áður en ég verð búin að snúa mér við! Og sjáið mig bara í anda staulast um með kókbotnana og kannski plástur til að halda þeim saman!

Það eru uppi stóvægileg áform um breytt líf! Nýr lífsstíll og betri kona (eða verri). Skrítið samt hvernig þessi plön eiga það til að flækjast í einhverju bulli og verða aldrei að veruleika. Er að hugsa um að stofna fyrirtæki sem býr til plön handa öðru fólki. Þannig fæ ég útrás fyrir þessi eilífu plön mín og þarf ekki að framfylgja þeim sjálf heldur mun fólk borga mér fyrir að búa til plön fyrir sig (sem það ræður svo hvort það framfylgir)! Hljómar vel, sérstaklega þetta með borgunina!

Annars pantaði ég mér ný gleraugi af algerri rælni á laugardag. Ég var stödd í gleraugnabúð með Ásdísi sem var eitthvað að erindast og þá sá ég útundan mér gleraugun mín (það á aldrei að líta útundan sér í svona búðum því þá endar maður með að kaupa eitthvað). En sem sagt þarna lágu gleraugun MÍN á gleraugnastæði og ég vissi ekki fyrr en ég var búin að ganga frá pöntun. Mannauminginn varð fyrir þeirri opinberun að afgreiða konu sem fannst gleraugun ÓDÝR svo ódýr að hún var að hugsa um að kaupa önnur í leiðinni. Hann sagðist ekki vanur því að fólk óskapaðist yfir því hvað gleraugu kostuðu lítið heldur frekar hið gagnstæða. Ég hef náttúrulega aldrei verið eins og annað fólk en á mér þó þá afsökun að fram til þessa hef ég verið að borga tvöfalt meira fyrir gleraugu heldur en hann ætlar að rukka fyrir mig. Ég er svo hamingjusöm að það nær bara engu lagi og nú sit ég og læt mig hlakka til að setja upp þessar forkunnarfögru lonníettur!

25 júní 2006

Gærdagurinn reyndist erfiðari en ráð hafði verið gert fyrir. Umhverfisfræðingurinn og listmálarinn ætluðu í brúðkaupsveislu og við Flosi ætluðum að eyða kvöldinu saman. Byrjunin var fín. Drengurinn borðaði eins og honum væri borgað fyrir það (sannur sonur föður síns), fór þegjandi og hljóðalaust í náttfötin og brosti almennt allan hringinn til mín... En Adam var sko ekki lengi í Paradís áður en honum tókst að gabba Evu til að éta eplið (eða var það öfugt) og hið sama átti við Flosa. Hann var sko ekki sáttur við að fara að sofa og áður en leið á löngu var andlitið orðið rauðara en hárið og mér ekki farið að standa á sama. Ég var viss um að einhver færi að hringja á barnaverndarnefnd ef ég gerði ekki eitthvað drastíkst þannig að ég kippti honum bara aftur úr rúminu og bað hann afsökunar á því að hafa ætlað að láta hann fara að sofa. Hann samþykkti afsökunarbeiðnina og var farinn að hjala inni í stofu mjög glaður með lífið og tilveruna þegar við heyrðum í lykli. Listamaðurinn var mættur og bað mig að skipta um sæti (ekki fara í brúðkaupið mér datt það fyrst í hug) og skutlast með frúnna á læknavaktina því henni liði ekki vel. Við brunuðum því þangað og fórum þaðan beint á Slysó þar sem hún var í rannsóknum allt kvöldið. Allt virtist þó vera fínt þannig að eftir fjóra tíma vorum við sendar aftur heim með ströng fyrirmæli um að hún myndi hvíla sig og gera allt til þess sem hún mögulega gæti. Úff þetta var ekki eins skemmtilegt kvöld fyrir þau hjónin eins og lagt hafði verið upp með. Ég viðurkenni að félagsskapur minn er einstaklega skemmtilegur en ég er þó ekki á við heila brúðkaupsveislu þó ég hafi reynt að gera mitt besta þarna í biðinni.

Mér hefur hinsvegar ekki orðið mikið af verki í dag. Ætlaði að þrífa alla íbúðina um helgina en hef einhvern veginn bara komist í að þrífa eldhússkápana... að utan.. haha mest áríðandi verkefnið!


Powered by Blogger