Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

20 janúar 2006

Ég er að hugsa um að vera í fríi eftir hádegi.. ég ætla að sitja hjá veikum Mola og reyna horfa kisumynd á ítölsku okkur til mikillar skemmtunar eða lesa bók um Skytturnar sem er okkur ekki til eins mikillar skemmtunar (öðru okkar þó). Mikið afsakplega finnst mér þessar disney bækur leiðinlegar (sígild ævintýri klössuð upp með mikka og andrési í aðalhlutverki). Ég læt mig samt hafa það að lesa þær af miklum móð þar sem Molanum þykja þetta afburða bókmenntir.

Á morgun erum við að fara á spennandi fund. Við ætlum að hitta tilvonandi ferðafélaga okkar í fyrsta sinn og okkur hlakkar mikið til og mér skilst að hið sama sé að segja um ferðafélagana. Allir voða spenntir að hittast Chinese Flag Sumir koma langt að en aðrir styttra eins og gengur og gerist. Held samt að helmingurinn búi úti á landi en allir ætla að koma eftir því sem ég best veit.

19 janúar 2006

Ég á svo góðan mann. Og nú á ég mp3 spilarara til að hafa í salnum þegar ekki má stilla músikina hátt (á laugardögum þegar það er námskeið). Það verður ekkert smá gaman að forrita hann með lögum sem mér finnst skemmtileg. Tóm gleði og hamingja bara.

Mér skilst ég eigi vona á spiderman húfu frá Molanum. Auðvitað á að gefa gjafir sem manni finnst sjálfum vera flottar.
Super

18 janúar 2006

Gunz sendi mér kveðju:
Hin dæmigerða kona í steingeitinni er ekki til. Kona í þessu stjörnumerki getur verið safnvörður, sem gengur um með ömmugleraugu sem engum finnst falleg, eða hún getur verið dansmey, sem klæðist gegnsæjum flíkum, sem enginn önnur þorir að klæðast.

Svona kvenmaður getur verið í forsvari fyrir samtök kennara og foreldra í einhverjum barnaskóla í úthverfi borgarinnar, hún getur unnið við að steikja hamborgara á skyndibitastað, eða verið að undirbúa stærstu góðgerðasamkundu sem sögur fara að.

Kona í steingeitinni getur skreytt slúðurdálka dagblaðanna, brosað ljúflega við hlið eiginmanns síns á stjórnmálafundum eða hellt dularfullum vökvum í lítil tilraunaglös.
En hvað sem hún gerir og hverju sem hún klæðist þá stjórnar Satúrnus athöfnum hennar og hennar leyndu áformum.

Hún getur verið kvenleg fram í fingurgóma, daðurdós og nægjanlega töfrandi til að láta karlmönnum finnast þeir vera stórir og sterkir birnir sem geta varið hana fyrir hinni kuldalegu og grimmu veröld.

Hún getur líka verið köld og róleg og afskiptalítil, þar sem hún situr sem fastast á marmarafótstalli sínum og manar þig til að reyna þitt ýtrasta til að vinna hið stórkostlega hjarta hennar á þitt band. Hvort sem þessi kona notar kvenleg hrekkjabrögð eða læst vera hagsýn og skynsöm þá er takmarkið eitt og hið sama. Hún er harðákveðin að ná sér í RÉTTAN eiginmann. Eiginmann sem hún getur verið hreykin af, sem verður merkur maður og sem verður börnum hennar góður faðir.

haha þá er það eins gott að þessi ódæmigerða steingeit þjáist ekki af ófrjósemi thihihi

Í minningunni er mjög oft snjór og snjóhríð þennan dag. Suma daga var hreinlega ófært. Ég er því með góða tilfinningu gagnvart deginum í dag þar sem það var skafrenningur þegar ég vaknaði. Ég þurfti samt ekkert að skíða í vinnuna því það var ekkert að færðinni Skiing 2

17 janúar 2006

Ég skil ekki hvernig nokkrum manni dettur í hug að vilja frekar svona ógeðisfærð og vesen í staðinn fyrir rigninguna sem var í allt haust. Ég er búin að vera að þvælast í umferðinni í allan morgun..fyrst á leið í vinnuna og svo fór ég á fund. Ég er náttúrulega á undan allri umferð á morgnana þannig að vesenið er í lágmarki en það þýðir líka að það er ekki búið að skafa allar götur og gatan heima hjá mér er algjört ógeð.

Ég bíð eftir sumrinu. Fuglasöngur og grænt gras ohhhhh held ég geri eins og forsetaframbjóðandinn fyrrverandi stakk upp á en það er að flytja erlendis þegar maður verður löggilt gamalmenni. Grasið væri alstaðar grænt og allstaðar hægt að glápa á kindur sagði hann.

16 janúar 2006

Ég er öll lurkum lamin eftir síðustu nótt. Ég hef legið eitthvað vitlaust því mér er svo illt í vinstri öxlinni að ég er að kálast. Ekki skrítið þó ég lægi vitlaust því mig dreymdi svo ömurlega að ég ætlaði bara ekki að komast fram úr. Mig dreymdi að ég væri að eignast barn og það var alveg komið að fæðingu þegar Skakki þurfti að fara til Póllands. Við höfðum áhyggjur af því að þá myndi hann missa af þessu sem auðvitað varð því um leið og hann fór þá þurfti ég að fara á deildina og eiga barnið. Það var drengur og hann var dáinn þegar hann fæddist. hann var svo fallegur með brúnt slétt hár eins og lítill bítill. Ég sá Báru og hún hafði eignast stelpu og ég var að reyna að samgleðjast henni (af því hún á 4 stráka fyrir og ég vissi að hana langaði að eiga stelpu) um leið og ég grét yfir dána barninu mínu. Þegar búið var að taka hann í burtu fattaði ég að ég gleymdi að taka mynd til að senda Skakka því hann mundi kannski vilja sjá hvernig drengurinn hefði litið út. Ég fór á eftir vagninum og þegar ég smellti af þá opnaði drengurinn augun og var þá með stór blá augu sem virtust sjá og skilja allt. Mér brá alveg svakalega og ég reyndi að kalla á hjálp og segja að það hefðu orðið mistök hann væri ekki dáinn hann væri lifandi. Þau hefðu gleymt að mæla hjartað. En þá lokuðust augun aftur og hann var aftur dáinn. Ég vaknaði full af sorg og ég get ekki almennilega hrist hana af mér. Þetta er örugglega fyrir einhverju helvítis basli sem er framundan.


Powered by Blogger