Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

13 nóvember 2004

Í dag fór ég að gefa öndunum á Læknum. Þær voru aðgangsharðar og létu Molann ekki í friði en honum virtist sama. Mér var hinsvegar ekki sama. Ég viðurkenni hér með að mér finnst þessar druslur óþolandi og er skelfingu lostin þegar þær koma of nálægt mér reyndi hinsvegar að sýna stillingu þar sem herrann minn var ungur að árum og ekki víst að barnsálin hefði þolað það að öldruð móðursystir hans hefði breikað þarna í andskítnum og tekið áköf flogaköst.

Eftir lækinn fórum við á róló, ég var orðin hrædd um að ég mundi gera út af við krakkann en það rann fljótt upp fyrir mér ljós. Hann var að gera út af við mig en ekki öfugt. Ég hljóp og hljóp og prufaði öll tækin (á róló) og var að fá hjartastopp af áreynslu. Krakkamolinn var rjóður í kinnum og ljómandi af gleði meðan ég frænskutetrið var rauð og andstutt og held ég alls ekki ljómandi af gleði. Ég reyndi annað slagið að benda honum á bílinn en hann þóttist ekki taka eftir þeim tilraunum og veinaði stöðugt.."Meia, meia" Og hvað gera frænskur þá? MEIA

12 nóvember 2004

Brrrrr kalt.. brrrrrr... Í morgun þurfti ég aftur að nota spreyið góða til að opna bílinn minn, Gaddfrosinn alveg. Annars þarf ég að fara og láta rífa þennan skítamiða af sem löggan tróð á bílinn í skjóli nætur. Ands, hyski. Ég fer að verða eins og Olíufélögin og eyði löngum tíma í að skíta lögguna út og mjög litlum tíma í að útskýra að auðvitað átti ég að keyra öðlinginn til skoðarans í júní. Þeir eru samt hyski og hana nú. Eftir hádegi ætla ég að taka rúnt með bifvélavirkjanum til að athuga hvernig honum lítist á handbremsuna sem er ekki alveg að gera sig. En það kemur bara í ljós. Annars er fyndið hvað þessi bíll fer í taugarnar á mér því þetta er tvímælalaust besti bíll sem ég hef öðlast. Held kannski að það sé vegna þess að þegar mar er á druslu þá er mar ánægður bara að komast á milli staða í hvert skipti. Það er því stöðug gleði. Þessi bíll hinsvegar er ægilega fínn en alveg óþolandi... Held að hann hafi kannski ekki sál, er það ekki bara málið? Það er ekki nóg að hafa falleg, græn afturljós ef mar er sálarlaus!

11 nóvember 2004

Afskaplega er gott að vera á námskeiði hjá SKÝRR. Ég er með matarást á þeim eftir að hafa dvalið í tvo daga innan veggja þessarar stofnunar. Einhvernveginn hef ég alltaf haldið að þarna ynnu eintómir tölvunördar, ekki spyrja mig afhverju. Ég hef haldið þetta í mörg ár, eða alla vega síðan ég var hjá BÍ í gamla daga. Sá hinsvegar engann sem ég gat beinlínis flokkað þannig en það er kannski ekki að marka þar sem ég sá flesta í matartímanum og þá kannski missa þeir nördalúkkið? hah nei ég er sem sagt komin með allt annað álit á þessari ágætu stofnun, álit sem byggir á upplýsingum og góðum mat en ekki fordómum og fáfræði! Púff mín bara háfleyg í dag.

Heppin að eiga nýju færeysku þæfðu vettlingana í kuldanum, verst að þeir eru svo stórir um sig að ég flautaði í tíma og ótíma. Fyrst varð ég hálfreið yfir þessum æsta ökumanni en áttaði mig brátt á því að þetta var ég sjálf. Tók þá annan vettlinginn af mér og keyrði handköld áfram en án þess að flauta!

10 nóvember 2004

Langur dagur í dag en ágætur samt. Ég er nefnilega búin að vera á kynningu í allan dag og er núna komin upp í skóla að flytja enn einn fyrirlesturinn. Í gær sendi ég fyrirlesturinn minn til samnemanda minna og það tókst nú ekki betur en svo að ég felldi niður tímann! Það verður því spennandi að sjá hvort einhver mætir. É g veit að vísu að MAB mætir og það væri nú bara fínt ef við værum bara tvær haha

Rosalega er annars búið að rigna mikið. Ég var viss um á tímabili að þetta væri Nóaflóðið hið síðara (ég hafði tíma á kynningunni til að mæna út um gluggann).

Ég sit núna í HÍ í einni kennslustofunni og blogga. Það var enginn þar þannig að ég henti mér í kennarasætið og ákvað að nýta tímann meðan ég biði eftir hinum. Skjaldbakan hringdi og ég svaraði fljótt og vel en meðan hún var að flissa að því hvað ég er flott að sitja hér og blogga þá dó auðvitað á símanum. Ég er nú ekki svo séð að ég sé með hleðslutækið á mér til að skella mér aftur í símann haha verð því að tala við hana síðar ;)

09 nóvember 2004

Um helgina var mér sagt að ég þyrfti ekki að léttast heldur þyrfti ég að lengjast! Það er spurning hvort þessi setning er jákvæð í þeim skilningi að viðkomandi hefur greinilega litla trú á að ég geti lést en þeim mun meiri að ég geti lengst! Flókið? Spurning ef mar fer í strekkjara á hverju kvöldi hvort það hafi einhver áhrif? Ég held hinsvegar að aldurslega sé ég komin yfir þann möguleika. Ég átti eiu sinni vinkonu sem var lítil vexti og hafði af því nokkrar áhyggjur. Foreldrar hennar voru mjög lágvaxin þannig að hún var fullviss um að hún yrði ekki há. Hún fékk því hormónapillur til að auka lengd en henni til mikillar hrellingar þá virkuðu þær þannig að hún bætti á sig þyngd. Þessum töflum var sturtað í klósettið eftir mánaðarnotkun og hún ákvað að sætta sig við hæðina. Hún var á þessum tímapunkti 15 ára. Þannig að ef hún var of gömul 15 ára hvað telst ég þá?????

Ég hefði kannski ekki átt að hrósa flughæfileikum Skakka í síðasta pósti. Í gærkvöldi flögraði hann aftur frá Íslandi í átt að Klakksvík í Förojarna en það vildi ekki betur til en hann lenti í Bergen í Noregi. Huh er það eitthvað svipað? Kannski var tilhlaupið of langt?


Powered by Blogger