Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

30 september 2005

Ég er hálfefins um það hvað Skakki er að gera sínum vinnustað á daginn. Ég held að það sé ekki það sem hann er að segja mér. Í gærkvöldi þegar hann var að skipta um föt sé ég áverka á öxlinni á honum. Ég spurði auðvitað eins og hver önnur forvitin eiginkona: "hvað kom fyrir þig?". Hann vildi ekki meina að neitt hefði komið fyrir sem gerði mig auðvitað totryggna og ég gekk að honum og skoðaði áverkann og kvað upp úrskurð á staðnum: "Þetta er sogblettur". Hann varð auðvitað hálfhvumsa við og reyndi að skoða sjálfan sig í speglinum og þegar hann var nærri búin að snúa sig úr lið sá hann sogblettinn "ahhh þetta, ég rakst á frosthreinsivél" eða það heyrðist mér hann segja. Nú er það spurning, hvað er frosthreinisvél? Er það til að hreinsa frost? Ég held að hin skýringin sé MIKLU líklegri, að um sé að ræða sogblett. Hann vildi meina að hann fengi aldrei svona bletti heima hjá sér og því yrði hann að koma með hann heim..Æ rest mæ keis...

En ég er komin með miða á árshátíðina og forstjórinn er í hátíðarskapi og lækkaði miðana þannig að þetta verður bara skítódýr árshátíðDancing

29 september 2005

Ég verð að viðurkenna ákveðinn löst í fari mínu. Þegar mér leiðist þá dett ég ofan í sjónvarpið og horfi liggur við á hvað sem er. Núna t.d. finn ég að ég er að verða húkkt á Americas Top Model. Ég ligg í sófanum og gjörsamlega tapa mér yfir þessum þætti. Það sem mér finnst merkilegast er hvernig stelpurnar virðast gjörsamlega tapa sér í þessu og þá er ég ekki að meina í keppninni heldur frekar í einhverjum tittlingaskít og rifrildi. Ég hef líka verið stelpa og þannig hef ég tilheyrt nokkrum hópum en ég man ekki til þess að þetta hafi verið svona. Eða er ég bara svona gleymin? Auðvitað kemur það inn í að ég rekst mjög illa í hópi þannig að ég er yfirleitt úti að aka þegar eitthvað gerist, kannski er það bara málið? Að ég taki ekki eftir þessu í mínum hópum? Eða eru amerískar stelpur svona miklu meiri tuðarar en íslenskar? Ég veit það ekki, á ekki von á að íslenski peppersvennen (þetta er nýyrði yfir barchelor en það orð fer svo í taugarnar á Skakka að ég bjó til nýtt) verði svona dramatískur. Ég sá einhvern þátt í síðustu viku þar sem verið var að kynna liðið í þáttunum og annan eins aumingja þátt hef ég ekki séð lengi. Þetta var svo hægt og langdregið að athygli mín var horfin innan 5 mínútna, ég var því á fjarstýringunni allan þáttinn. Fannst eiginlega mest athyglisvert hvað allir telja sig góðar manneskjur. Úff en spennandi sjónvarpsefni að horfa á allar góðu stelpurnar "slást" um góða piparsveininn. SPENNANDI eða ekki, mér sýndist alla vega að ég myndi ekki missa svefn yfir þessum þætti. Hinsvegar horfði ég á Sirrý í gærkvöldi þar sem efni þáttarins stendur mér nærri (nei ég er ekki verkfræðingur eða jarðfræðingur og ég er ekki í hjólastól og ég á ekki hunda). Mér fannst liðið í salnum komast mjög vel frá sínu en mér fannst Sirrý sjálf soldið óundirbúin, æi ég veit það ekki. Kannski er það alltaf þannig ef mar getur samsamað sig með efninu að manni finnst að spyrillinn hefði átt að vita meira og spyrja öðru vísi. En svona er þetta bara. Ég fékk hinsvegar svona flassbakk í þennan tíma hjá okkur Skakka og er afskaplega fegin að við meigum ekki lengur vera með. Þetta er slítandi ferli og drepur mann að innan. Félagsráðgjafinn sem við töluðum við í sumar var afskaplega upptekin af þessu og hvaða áhrif þetta hefði haft á okkur og á okkar samband. held hún hafi ekki trúað okkur þegar við reyndum að segja henni að þetta hefði ekki haft mikil áhrif á sambandið. Það er nefnilega kannski ekki rétt að segja "engin áhrif" því auðvitað hefur sorg alltaf áhrif á mann og fyrir mér er þetta sorglegasta tímabil ævi minnar. Það var stundum svo erfitt að halda haus og halda áfram og reyna að halda áfram í vonina. Og um leið er þetta frekar niðurlægjandi því stóran hluta tímans er ókunnur maður með tæki að skoða mann að innan og maður liggur á bekk með útglennta fætur og reynir að vera bjartsýnn. ÚFFFFFFF Og svo segir fólk þessar setningar eins og "slakaðu bara á þá kemur þetta" eða "passaðu bara að vera ekki stressuð því stress hefur svo mikil áhrif" eða "vinkona mín fékk sér hund og þá kom þetta" besta setningin er reyndar "vinkona mín ættleiddi barn og þá kom þetta hjá henni". Ef sú vinkona hefur t.d. ekki haft neina eggjastokka þá skil ég ekki alveg hvernig hundur eða ættleiðing hefur farið að því að koma öllu af stað. En þetta eru bara svona hugleiðingar eftir þáttinn í gær.

28 september 2005

Ég ákvað að snúa til baka til vinnu. Mér var farið að leiðast svo mikið heima að ég var alvarlega að hugsa um að fara að taka til..og þá er mar orðinn frískur held ég bara. Annars var ég að fatta það í morgun að þegar þessi vika er liðinu bara tvær og hálf vika þar til við förum til Madrid. Rosalega er tíminn fljótur að líða, við verðum komin heim áður en við erum farin út bara.

Ég held að virðulegur tengdafaðir minn eigi afmæli í dag, til hamingju með þaðCake

26 september 2005

Ég er ennþá lasinn! Og það sem meira er, ég er gjörsamlega raddlaus. Get talað í hvíslingum. Er verið að hegna mér fyrir eitthvað? Ég bara spyr. Ég tók smá hlé á veikindum (fannst ég sem sagt orðin skratti góð) á laugardag og fór með vinnunni á Stokkseyrarbakka þar sem fundað var fram eftir degi en síðan farið í róður á kajak. Mikið afskaplega er það skemmtilegt. En ég held samt að ég hefði kannski átt að sleppa því þar sem röddin fór þegar líða tók á kvöldið. Og þegar ég fór heim (ætla ALDREI aftur í rútu heim af sviðsfundi) varð ég að fá samstarfsfélaga minn til að hringja í Skakka til að sækja mig því það heyrðist ekkert í mér. Sunnudagurinn var svo án orða og dagurinn í dag so far er þannig líka. Að vísu hringdi ég í ÓRÓ til að athuga hvort vinnan hefði ekki örugglega fengið mailinn frá mér þannig að allt gengi sinn vanagang þó ég væri ekki á staðnum (er ekki sagt að enginn sé ómissandi en öll höldum við það ehmm) og hún þekkti mig ekki. Hélt ábyggilega að ég væri einhver perrinn að hringja í hana og hvísla einhverjum dónaorðum. Varða að brýna raustina til að segja nafn mitt hahaha Þetta er eiginlega fyndið. En það fylgir þessu samt hósti og höfuðverkur þannig að ég vil fá samúð og hananú!


Powered by Blogger