Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

03 desember 2004

Ég reyni að horfa á fréttir svona annaðslagið bara til að fylgjast með umræðunni og stundum horfi ég á Kastljós líka. Það er að vísu afar sjaldan sem ég geri það og helst ekki ef Kristján er stjórnandinn. Málið er að hann hummar alltaf undir þegar menn eru að tala. Gefur svona samþykkjandi hljóð um að hann sé að hlusta. Þetta truflar mig svo mikið að ég get ekki horft á þessa þætti. Þetta er að gera mig brjálaða. Hljóðið sem hann gefur frá sér er nefnilega langt í frá að vera jákvætt eða "vinsamlega haltu áfram að tala" hljóð. Mér finnst alltaf ég heyra frá honum "ég veit miklu betur en þú" hljóð. Djöfull getur það farið í taugarnar á mér. Ef kastljósið væri textað þá mundi ég lækka alveg niður í hljóðinu og horfa það þannig. Alveg synd því stundum langar mig að hlusta á þá sem hann er að tala við, ég hins vegar nota OFF takkann á sjónvarpinu mínu alveg óspart þegar hann er með viðtöl.

Og víst ég er að ræða um Kastljósið. Mér fannst hann ægilega fyndinn þessi miðill sem kom í vikunni og var spurður út í tilfinninguna sem svo margir fá að þeir séu að detta. Hann glotti og sagðist hafa heyrt skemmtilega kenningu um að þetta væri minning sem við hefðum fært með okkur frá því við vorum apar. Að aparnir hefðu alltaf verið að detta niður úr trjánum. Ástæðan fyrir því að maður hrykki alltaf upp væri sú að við hefðum ekki dottið. Þeir apar sem hefðu dottið væru að öllum líkindum dauðir. Við hin hefðum lifað af en færðum minninguna með okkur einhverstaðar í heilabúinu. Þetta er eiginlega sama kenningin og Skakki er með. Að maður hrökkvi upp þegar apinn sem er tvífari manns er að detta en nær á síðustu stundu að grípa í grein.

Brilljant kenningar

02 desember 2004

Ég hef áður nefnt það hér að ég er alveg úti að aka í tölfræðiverkefni ársins. Til að kóróna allt er félagi minn í ökuferðinni jafn mikið út að aka. Við mætumst ekki einu sinni í miðjunni. Við erum á sitt hvorum endanum og vitum lítið hvað við eigum að gera til að geta skilað verkinu á sómasamlegan hátt. Við ætluðum að hittast í dag eftir vinnu en hún hringdi og afboðaði og vildi frekar fara í jólagjafainnkaup, ég vildi það líka frekar og ætla því að gera það þegar ég hef lokið við að heimsækja MAB og ræða við hana um lífsins gagn og nauðsynjar. Ökufélagi minn er hinsvegar að fara í annan vinnuhóp á morgun og hún ætlar að taka útprentun úr SPSS með sér á þann fund og leggja hana á áberandi stað í þeirri von að þeir séu í hópnum reki upp vein af aðdáun og segi t.d. "wow hvað þetta er hátt p sem þarna kemur út" eða "hvað er að sjá marktæknistuðulinn" og þá ætlar hún að stökkva inn og skrifa allt niður sem viðkomandi segir. Ég sagði henni að þetta væri flott plan og við ákváðum að hittast á laugardag til að fara yfir öll góðu ráðin sem hún fær á morgun! Ég tel að verkefninu sé borgið!

Geimveran sem hefur flutt til mín í óþökk minni er farin að lesa bloggið mitt! Og hvernig komst ég að því? Jú þegar ég fór í morgun í vinnuna sá ég að það er búið a sópa saman afklippunum sem voru um allt og líka ganga frá þvottinum! Ekki gerði ég það! Nei..

Molinn hringdi í mig í gærkvöldi. Það er nú skemmtilegt þegar frændbörn manns eru farin að hringja til að spjalla. Ég skildi að vísu ekki mikið en held að það sé kannski bara af því hann hafi brugið fyrir sig ítölskunni en ég kann hana ekki. Einu orðin sem ég skildi í þessu samtali voru Sófa (sofa) og ljesa (lesa) pabbi (maður). Gott samtal!

Mér skilst að unglingurinn í Grafarvoginum verði mikið á ferðinni næstu daga og kvöld. Hann tók nefnilega bílprófið í gær við mikla gleði ættingja sinna. Ég hef hinsvegar hugsað mér að vera bara í sveitinni meðan það versta gengur yfir og hann nær valdi á þessu öllu (glott, glott)

01 desember 2004

Jæja!
Og jæja!

Skakki var að biðja mig um jólagjafalista. Það er alveg sérdeilis undarlegt að eini tíminn á árinu sem mig langar ekki í neitt er þegar hann segir þetta orð: Jólagjafalisti, óskalisti! Alla aðra mánuði, vikur, daga og jafnvel klukkutíma langar mig í allan heiminn. Bara ekki rétt á meðan ég á að skrifa einhvern lista. Þetta er alveg sérdeilis undarlegt.

Heimili mitt hefur orðið fyrir innrás einhverrar undarlegrar veru utan úr geimnum. Eða það er alla vega eina skýringin sem ég hef á öllu þessu drasli sem er út um allt. Það hefur einhver verið að klippa og skilið klippidrasl út um allt gólf (ekki er það ég því ég er að læra undir próf og ekki er það Skakki því hann er enn að vinna í Föröjarna). Þessi sama vera getur heldur ekki skilið að ég er með kerfi í fataskápunum og hefur skilið eftir sig samanbrotinn þvott um allt. Hvað er til ráða? Verst að þessi geimdrusla skuli ekki hengja upp fyrir mig jólaljósin því ég hef auðvitað engan tíma í svoleiðis próflesandi konan. Annars er þessi próflestur minn að verða að einni stórri martröð. Ég held ég sé hætt að skilja ensku það er alla vega eina skýringin sem ég hef á því að ég les og les og svo loka ég bókinni og það er eins og ég hafi eytt tímanum í að glápa út í tómið. Það er sem sagt EKKERT sem situr eftir.

30 nóvember 2004

Ég heyrði í fréttunum þegar ég var á leið í vinnu. Þar kom fram að sökum hálku hefðu þrír bílar í Hafnarfirði lent í árekstri í gær. Mér finnst nú gott að ekki skuli vera meira í fréttum en svo að þetta teljist fréttnæmt. Það er líka gott að ekki skuli hafa orðið fleiri árekstrar um landið í gær en þessir þrír. Assg. erum við landar orðin flink að keyra, þurfum samt að kenna fólkinu í sveitinni að keyra líka svo við fáum árekstrarlausan dag. jáhá

Fór í Bónus um helgina með Skjaldbökunni og Gullmolanum. Ég keypti súkkulaðispæni og íslenskt rjómabúsmjör. Ekkert annað. Ástæðan var sú að ég notaði sömu körfu og skjaldbakan og þegar ég leit í hana var hún full (karfan ekki Skjaldbakan hún var merkilega ófull sé litið til þess að það var miður laugardagur). Ég sem sagt ruglaðist aðeins í ríminu við að sjá fulla körfuna og hélt að ég væri búin að kaupa svona mikið. Það segir sig sjálft að ekki var mikið eldað á laugardagskvöldið með rjómabúsmjörið og súkkulaðispænina hið eina í pokanum. Að vísu gerði ég mig líklega til að kaupa einn uppþvottabursta en Gullmolanum leist ekki á það og skilaði honum aftur í hilluna. Ég prufaði að skipta um lit og þá sagði hann hvasst "NEI". Kunni ekki við að slást við smábarn um einn uppþvottabursta þannig að ég sleppti honum. Skilst að Skakki ætli að koma með einn frá Föröjum í staðinn. Hefði frekar viljað að hann keypti uppþvottavél en OK burstinn er svo sem fínn, sérstaklega ef hann notar hann sjálfur.

Annars er það af Skakka helst að frétta að hann fór í bað í síðustu viku. Það væri nú ekki svo merkilegt nema fyrir þær sakir að hann baðaði sig upp úr heitu lýsi. Hann er alltaf að kvarta yfir verðinu á þessu hákarlalýsi sem hann tekur að hraustra manna sið og nú ákvað hann að reyna að minnka kostnað og hreinlega baða sig upp úr því. Gott fyrir fjárhag okkar en mikið afskaplega gladdist ég yfir því að Atlandshafið er á milli okkar. Ég fann nefnilega lyktina af skjánum á símanum mínum þegar ég las GSMið um þetta atvik. Lýsisfnykinn! Kannski verður lyktin farin að minnka þegar hann kemur heim, ef ekki þá sefur hann í skúrnum sem við erum ekki búin að kaupa.

29 nóvember 2004

Ég er með harðsperrur í vísiputta!
Ég hef samt ekki verið að benda neitt rosalega mikið.
Ég var að klippa með pínulitlum skærum.
Ég klippti rosamikið.
Það skilaði sér í harðsperrum!

28 nóvember 2004

Ég er búin að búa hér í sveitinni í þrjú og hálft ár. Megnið af tímanum er ég búin að blóta eldhúsinnréttingunni því hún er komin til ára sinna og orðin allþreytt á köflum. Stundum t.d. dettur hurð í fangið á mér osfrv en það er nú bara smámunir. Ég er hinsvegar kona, mjög utan við mig á köflum og sé ekki alltaf það sem er beint fyrir framan mig. Ég verð hinsvegar að viðurkenna að ég varð MJÖG hissa í gær þegar ég rakst á þetta í innréttingunni minni:



Þetta er sem sagt útdraganlegt bretti. Afskaplega þægilegt ef maður veit að maður á eitt svoleiðis í innréttingunni sinni. Ég sendi Skakka í hraði eitt SMS til Föröja og spurði hví hann hefði ekki sagt mér af þessu tækniundri síðast þegar ég kvartaði yfir litlu borðplássi og hann svarði "úps, ég gleymdi því, ætlaði alltaf að segja þér það en ákvað svo að leyfa þér að finna það sjálfri. Viltu svo leita að uppþvottavélinni sem ég veit að er þarna einhversstaðar!"

Já já, hann vissi sem sagt ekki af þesu heldur. Ég mun segja ykkur stax og ég finn þessa uppþvottavél, ég er núna að fara með vasaljósi yfir innréttinguna!


Powered by Blogger