Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

06 janúar 2006

Á morgun ætla ég að leggja fram smá skerf til að bjarga náttúru Íslands. Það má að vísu segja að ég sé búin að leggja fram skerfinn minn þar sem ég er löngu búin að borga miðana en ég er sem sagt að fara á Náttúrutónleikana. Held það verði ofsa gaman.

Ég er líka loks að verða búin að koma smá lagi á svefninn aftur, það var sem sagt aðeins minna mál að vakna í morgun og druslast í leikfimi. Fyndið orð leikfimi. Er ekkert orðin fimari í leikjum þrátt fyrir rúmlega tveggja mánaða stanslausa leikfimi. Hvenær ætli ég verði fim? og hvenær ætli mér fari að finnast gaman í leikjum? Haha á ekki von á að það verði neitt í bráð en hver veit, það átti heldur ekki nokkur maður vona á að ég hefði nennu og orku til að mæta daglega í leikfimi í meira en tvo mánuði og still going. Huh þarf ekki lengur að nota vasana þegar ég set hendur í vasa því buxurnar eru orðnar svo víðar að ég sting bara höndum niður með hliðunum. MJÖG smart haha

05 janúar 2006

Í gærkvöldi fékk ég ágætis viðbót við fiskabúrið, nefnilega tvo snigla sem eiga að sjá um að éta þörunga sem safnast í búrið. Ægilega flottir kuðungar sem djöflast um allt búr. takk fyrir þetta Ragga ;)

Var annars með smíðanámskeið í gær og þar mætti fríður hópur kvenna og sat við kertaljós og ræddi lífsins gagn og nauðsynjar. Aðallega þó bleika græðlinga og skóhlífar í stígvélalíki með hestalykt. MJÖG skemmtilegt. Næsti fundur verður hjá Hjartanu í nýrri íbúð hennar. Ég var að fatta hversu margar eru (eða eru að fá) nýjar íbúðir: Hjartað, MAB og bráðum lafði Munda. þetta er skemmtilegt. Alltaf gaman að flytja á nýja staði. Og svo er ég búin að senda fyrirspurn á sumarbústað um miðjan mars. Það er því hin víðræmda orlofsferð þreyttra húsmæðra sem fallið hefur niður í tvö ár sökum þess að við vorum ekkert þreyttar og þurftum ekkert orlof EÐA HVAÐ???? En allavega þá er pöntun farin af stað og ef enginn kemst með þá fer ég bara ein og hvíli mig fyrir allar hinar:
Hammock

04 janúar 2006

Ég ætla að ákveða hér með að við Skakki ferðumst yfir heiminn að ná í barnið okkar þann 15 september á þessu ári. Þetta er auðvitað tilbúin dagsetning því ég veit ekkert um það og það gæti því orðið fyrr eða seinna en ég ætla að ganga út frá þessari dagsetningu í dag og þá lítur þetta svona út:

Það er hægt að hlakka til minna en þessa. Það er bara ekkert svo langt þangað til...

Nú eru vinnufélagarnir að rumska eftir jólaátið og nú ætla greinilega allir að fara að koma sér í form. Í morgun voru margir í salnum sem er ekki alveg nógu gott því þá endar með að ég þarf að fara að slást um pláss..hmmm Þetta er eins og á dýru stöðunum þar sem allir ætla að ná sér í form í janúar. Vonandi þarf ég ekki að breyta neinu hjá mér því ég er komin með ágætis reglu á þetta. Ég er nefnilega steingeit og við geiturnar viljum hafa reglu á hlutunum.

03 janúar 2006

Í morgun hlustaði ég á prestinn minn tala um trúarbrögð (þetta hljómar vel "prestinn minn") og mér fannst eitt soldið athyglisvert. Hann varpaði fram þeirri kenningu að kannski væru þeir sem segðust vera trúlausir þeir sem í rauninni væru trúaðastir! Og ástæðan? Jú þeir sem segðust vera trúlausir væru oft með mjög ákafar skoðanir á trúarbrögðum annarra. Og hvað er það annað en ákveðin trú? Mér fannst þetta skemmtileg kenning og var bara ánægð með sérann. Þarna er enn einn kostur við að vera mættur í salinn fyrir allar aldir á morgnana. Þetta hefði ég ekki heyrt hefði ég verið heima hjá mér í rúminu á þessum tíma!!!

02 janúar 2006

Gleðilegt ár og takk fyrir það liðna!!!
Í heildina séð var árið 2005 bara hið bærilegasta. Það sem stendur upp úr hjá mér pesónulega er giftingin í mars og ættleiðingar umsóknarferlið sem byrjaði í apríl já og svo útskrifaðist ég einu sinni enn í júní og nú með meistaragráðu. Þetta verður því að flokkast sem all sæmilegt ár svona í það heila.
Árið 2006 gæti orðið all furðulegt ef allt gengur eftir sem lagt var af stað með 2005 því ef allt gengur að óskum verðum við orðin þrjú í lok árs. Þetta er nefnilega eins og tæplega ein fílsmeðganga. Hófst með innlögn pappíra 19 apríl 2005 og verður kannski lokið með jákvæðri útkomu í september eða október 2006, kannski fyrr en vonandi ekki seinna. Við vitum á þessari stundu að þetta verður stór hópur sem ætlar að fara saman á Kínaslóðir til að sækja börn sem þar bíða. Hópurinn er ca. 20 manns og samanstendur af eftirvæntingarfullum tilvonandi foreldrum, tilvonandi systkinum og öðrum ættingjum. Spennandi ekki satt?

Great Wall Of China

Hjá mér mun því árið ganga út á þetta og verð ég eflaust orðin óþolandi þegar fer að nálgast júlí en þá ættu að fara að koma upplýsingar til okkar um framvindu mála. Fram að þeim tíma ætla ég að verða óþolandi íþróttaálfur og búa mig undir mikla reisu og mikla göngur.


Powered by Blogger