Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

17 ágúst 2007

Þetta gekk allt vel, þeas flugið frá Flórens. Þau fengu voða fína þjónustu í París en þar kom lyftari og lyfti þeim út úr flugvélinni þannig að þau þurftu ekki að taka stigann og svo transportaði lyftaramaðurinn með þau um allan völlinn. Að vísu svo hratt að þau sáu búðarglugga bara í móðu þegar þau skutust framhjá. Systur minni fannst það synd, ekki á hverjum degi sem mar kemst til Parísar og þá er farið um á hraða ljóssins! Pabbi er hinsvegar mjög hress en þreyttur. Vill ekki meiri "pollo" og "ministrone". Bara farinn að slá um sig á ítölsku eftir ferðina!!!!

Við erum hinsvegar á fullu við að undirbúa Kínaferð og þá ekki síður heimkomu. Heimili okkar hefur til þessa ekki verið mjög öryggisvænt þar sem við Skakki höfum ekki þurft á neinu svoleiðis að halda. En núna er öldin áður. Nú má frúin hafa sig alla við að detta ekki í stiganum, bæði uppi og niðri því það er komið hlið á báðum hæðum. Það er til þess að viðkomandi frú hleypur ekki svo glatt niður og tekur sko alls ekki stigann í tveimur eða þremur stökkum. Nei núna er bara lúsast áfram! Síðan eru komnar öryggislæsingar á skápa og skúffur og nú getur þessi sama frú varla opnað neitt. Það er mikið að eiginmaðurinn læsi ekki ísskápnum líka en það endar kannski með því haha. Sem minnir mig á það að karl faðir minn missti 12 dýrmæt kg í ferðinni, ég er að hugsa um að skrá mig á hótelið sem hann var á og koma heim hoj og slank!!!

15 ágúst 2007

Þá eru Flórensfarar loksins á leiðinni heim. Læknarnir voru orðnir æstir í að losna við pabba og voru búnir að setja auka rúm í stofuna til hans til að ýta á að hann gæfist upp. Það stóð svo sem ekki á honum heldur á þessu SOS apparati sem gat ekki sagt af eða á. Þeir rönkuðu samt loksins við sér og fundu flug fyrir þau frá Flórens til Parísar og frá París til Keflavíkur. Fyrst fundu þeir að vísu allt annað flug þar sem þurfti að taka einni flugvél meira og ekki flogið á Saga class. Skil ekki alveg hvernig þeir reiknuðu með að maður sem getur lítið hreyft sig eftir uppskurð ætti að troðast í þessi pínu litlu ræfils sæti sem eru á almennu fararrými. Þetta eru asnar að mínu viti! En þau eru sem sagt lögð af stað og við reiknum með þeim heim í kvöld.

13 ágúst 2007

Jæja þá fer spennan í hönd. Fá þau að koma heim eða ekki? Í dag eiga þau að fá að vita hvort þau fá að yfirgefa Flórens, hina fögru borg eða hvort þau eiga að vera þarna fram að jólum (smá ýkjur auðvitað). Gunz er alveg að gefa upp öndina og er meira segja orðin svo ævintýragjörn í pastanu að hún er farin að prufa pasta með sardínum! Hljómar spennandi haha

Pabbi er orðinn hundleiður enda löngu búinn með allt lesefni og búinn að setja síðasta stafinn í síðustu krossgátuna. Ég stakk upp á því við Gunz að hún keypti sér diktafón og tæki upp efni í ævisögu föður síns sem síðan væri hægt að birta í jólabókaflóðinu. Hún hnussaði við því en taldi það þó ekki alvitlausa hugmynd ef þau myndu neyðast til að vera lengur. En það er sem sagt vonandi að verða komið nóg af þessu!


Powered by Blogger