Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

10 október 2003

Búið að vera vitlaust að gera í dag og dagurinn varla hálfnaður. Hef ekki einu sinni komist til að óska vestubæjarnorninni til hamingju með afmælið ;==

Til hamingju með afmælið Sólrún!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Og í kvöld er partý hjá þessari undranorn, svokallað tapaskvöld, það verður frábært. Nornir nær og fjær munu fjölmenna á svæðið og leyfa meira segja mökum sínum að koma með.

Annars er það svo árshátíðin á morgun og málþing klukkan 8 í fyrramálið. Hversu upptekinn er mar af skólanum ef mar er tilbúinn að mæta klukkan 8.15 á laugardagsmorgni til að gera þátttökuathugun ;((((((

Er að hugsa um að hvíla mig aðeins fyrir öll þessi átök.....

09 október 2003

það er ýmislegt sem menn gera sér til gamans. Sumt er fyndið og annað ekki. Ég sá út um gluggann að Auddi og Sveppi af Popptíví voru að bera eitthvað drasl úr bíl. Kom auðvitað askvaðandi inn og spurði hvað þeir væru að gera hér en þagnaði þegar mér var bent á að hafa hljótt. hmmmmmm...hvað er að gerast..... Jú það skýrðist fljótlega...

Það er nefnilega að koma árshátíð og þá er alltaf gert grín að mínum virðulega yfirmanni, hún liggur svo vel við höggi. Og hvað datt skemmtanastrumpunum í hug í ár? Jú þeir fengu popptíví sveppina til að skvetta á hana fulla fötu af vatni og taka það síðan upp og það á að sýna þetta á árshátíðinni. hmmmmm assgoti hef ég ekki húmor fyrir svona... ég hefði orðið nett biluð ef þetta hefði verið gert við mig. Hún er hinsvegar svo vön þessu áreiti fyrir árshátíðina að hún fór og fékk lánaðann vinnugalla því hennar föt rennblotnuðu..jætes...

Við hjúin duttum inn í Fólk með Sirrý í gærkvöldi. Ástæðan var einföld, hún Bára vinkona mín var þar í áheyrendahópnum. Helga Braga var þar í viðtali og var auðvitað afskaplega fyndin eins og vanalega. Hún vildi meina að mar gæti séð liggilegt fólk út um allt og bað liðið í salnum að ræskja sig ef það sæi liggilegt fólk af hinu kyninu í sjónvarpssalnum. Fyrst karla og svo konur. Myndavélin fór auðvitað beint á Báru og við haukurinn sáum greinlega að hún ræskti sig hátt og snjallt. Wow. Nú viljum við fá að vita hver var svona liggilegur í sjónvarpssalnum? Var það einhver tökumaðurinn eða einhver annar (hehe)

08 október 2003

Ég held að hún Hrannsa vinkona mín sé farin í honnímún til Boston. Leiðréttu mig ef ég fer með rangt mál Hrönnsulingur ;)) Hún fór þangað með kallrófuna sína og þau ætla að borða, sofa og elskast í eina viku (að hennar sögn). Ég hugsa að röðunin sé ekki endilega rétt hjá mér. Kannski frekar: Elskast, borða, elskast, sofa.

Skemmtið ykkur vel ;))

Í dag ligg ég heima í volæði og almennri eymd. Ég er sem sagt lasin. Er með hausverk dauðans og beinverki í stíl. Hálsinn er stíflaður af einhverju ógeði sem ég reyni að kingja annað slagið, frekar svona geðslegt. Ég er lasin. Ekki veik. Það er stigsmunur þar á.

Í eldgamla daga átti ég heima úti á landi en flutti við 10 ára aldur í sollinn í höfuðstaðnum (þetta vita auðvitað allir, en mig bara svona langaði að minna ykkur á það). Það kom auðvitað að því að ég yrði lasin og ég var frá í einhverja tvo daga eða svoleiðis. Ég var í Melaskólanum. Þegar ég koma til baka í skólann spurði einhver stelpuanginn hvar ég hefði verið, af hverju ég hefði ekki mætt í skólann (hefur líklega haldið að ég væri skrópari). Ég tilkynnti henni að þetta hefði átt sér eðlilegar ástæður. Ég hefði nefnilega verið lasin. "Þú meinar veik?" spurði hún. Nei svaraði ég "ég var lasin". um þetta þrættum við smá stund

Þarna kom fram munur á borgarbörnunum og sveitavargnum, sem í þessu tilfelli var ég. Ég var nefnilega ekki veik, ég var lasin. Ef maður er veikur er maður ekki mönnum sinnandi og fer jafnvel á spítala. Er frá í marga daga. Ef mar á hinn bóginn er lasinn þá er mar eitthvað slappur og ekki alveg eins og maður á að sér (veit ekki hvernig ég á að vera svo það er erfitt að finna það) og er frá vinnu eða skóla frá 1 og upp í 3 daga. Sem sagt, þarna er heilmikill munur á.

Í Reykjavík verða hinsvegar allir veikir. Sama hvaða lítilræði hrjáir þá. Ég er löngu búin að læra þetta og núna verð ég "veik" eins og hinir. Inni í mér leiðrétti ég mig hinsvegar alltaf og tauta, "lasin, ekki veik. Ég er LASIN"

07 október 2003

Ég tek að mér að minnka fætur fyrir fólk. Þetta er ekkert sárt, ég er búin að prufa tæknina á hauknum mínum. Það þarf samt að vera með góða plástra því það blæðir soldið rösklega!

Þetta með gimsteinana í sárin hljómar vel. Sumur vilja gat á naflann það er bara out, þetta verður nýtt trend!

Það er allt á fullu í vinnunni hjá mér við að undirbúa árshátið. ÓRÓ og Armour vilja hafa partý og hafa smárétti einhverja fallega á borði. ÓRÓ fór og keypti sér dýrindis melónuskeið í tilefni af þessu. Það varð til þess að ég mundi allt í einu eftir forláta áhöldum er ég keypti í einhverju bráðræðiskauðæðinu á mínum yngri árum.

Sagan er nefnilega sú að ég fór á einhverja sýningu (man ekkert hvernig, en hlýtur að hafa verið matur því það eru þær sýningar sem ég kann best við) í fylgd vestmanneyjavinkonu minnar og leigubílstjórans sem var ekki leigubílstjóri þá og vestmannaeyjavinkonan var heldur ekki í Eyjum en þetta tvennt er efni í aðra sögu.

Við sem sagt fórum á þessa sýningu og skemmtum okkur konunglega (ég man þá þó ég muni ekki hvað var verið að sýna). Sem við göngum þarna léttilega eftir sýningarsvæðinu komum við að atburði sem markaði líf mitt til frambúðar. Þarna var verið að kynna kínverska skreytingarlist og efniviðurinn var ávextir og grænmeti. Jamm einmitt. Þarna var búið að skera út þessa líka flottu hluti úr HOLLUM mat. Við stöllur urðum agndofa yfir þessu. Gátum vart tekið augu okkar af eplum sem voru í líka fallegra rósa, radísa sem voru eins og eitthvað allt annað o.s.frv.

Það var verið að selja kennslubók og verkfæri til að gera svona fínerí heima í eldhúsi og auðvitað keypti meinvillarglæsimeyjan og skreytingarsnillingurinn sér svona bók og tæki. Ég sá mig í anda sitja á kvöldin og skera út epli og rófur, jafnvel gúrkur ef ég finndi hanska svo ég fengi ekki á mig gúrkulyktina. Ég sá mig í anda halda svona sýningu eftir 2-3 mánuði þar sem allir dáðust að handbragði mínu.

Lífið er öðru vísi en mar heldur! Bókin er enn falleg og lítur út eins og enginn hafi flett henni (ég er búin að skoða myndirnar mörgum sinnum en fletti alltaf fallega svo ég skemmi ekkert). Tækin eru enn í umbúðunum! Þau hafa ekki skorið út fallegar rósir fyrir mig. Haldið þið að ég geti kennt hauknum á þetta?

06 október 2003

Ég er komin heim og er að reyna að læra eða sko já! Ég er búin að leggja svona 20 kapla, lesa allar mögulegar bloggsíður sem ég get fundið og linka inn á hitt og þetta bull. Glotta yfir árásum á Hannes H sem mér finnst rosalega fyndnar og fleira. Og ástæðan? Jú á morgun á ég að vera búin að skrifa niður helstu hugtökin sem ég kem til með að nota í ritgerðinni minni og hvað þau þýða!!!!!!

Ég er andlaus og líka orðlaus. Get varla skrifað heldur og er með hausverk af því að leggja of mikinn kapal. Get ég sagt þetta við kennarann á morgun? Og kemur hún til með að trúa mér og vorkenna? Ég held ekki (stuna)

Fór og keypti mér selskapsvesku í hádeginu í dag. Ég var send af hauknum að kaupa bol með Davíð Oddsyni í svínslíki og þá sá ég töskuna alveg óvart eftir að hafa klöngrast upp 5 tröppur og troðið mér inn í hillu aftast í búðinni sem selur ekki svona boli heldur bara kjóla! Jamm ég sem sagt sko fór inn í eina aðra búð í leiðinni, víst ég var þarna sko.

Þetta er sem sagt allt Davíð Oddsyni að kenna. Væri hann ekki sá sem hann er, þá hefði engum dottið í hug að afmynda hann eins og svín og setja hann á bol, og þar af leiðandi hefði hauknum ekki dottið í hug að hann vantaði svona bol og ég ekki þurft að bruna niður á Laugaveg að kaupann. Eða kannski er það bara vinnuveitandanum hauksins að kenna, að láta hann vinna í Helguvík af öllum stöðum svo hann kemst ekki á Laugaveginn að kaupa sér boli af DO eins og flest alminniligt fólk!!!

En hverjum svo sem það er um að kenna þá er veskan ægilega flott, meira að segja ægilega rosalega flott. Hún er svo flott að ég hreinlega roðna við að horfa á glæsilegu alheimskonuna mig bera hana!

Það er eins gott að hún er flott því ég er komin í þunglyndi yfir árshátíðarfötunum sem mér fannst svo ágæt. Þau eru enn ágæt. Þau eru ágæt sitt í hvoru lagi og líka ágæt saman. En svo klæðist ég þeim og voila.... það gerist eitthvað og þau eru ekki lengur ágæt.. þau eru eiginlega alveg hræðileg.. en veskan er flott

05 október 2003

Ég leit á klukkuna þegar ég opnaði Bloggerinn og viti mann hún er 8.01. Wow er þetta normal? Á ég mér ekki líf? Mér sýnist allt benda til þess að svo sé ekki. Þegar fólk er sest við að blogga klukkan 8.01 (þetta 0.1 er sérstaklega mikilvægt) á sunnudagsmorgni þá er mikið að lifa fyrir..huh

Haukurinn er enn sofandi, hann er slasaður. Tvöfalt! Annað er mér að kenna en hitt honum sjálfum eða vinnunni hans. Hann er nefnilega engu minni klaufi en ég þó hann mundi aldrei viðurkenna það og ég mundi aldrei segja það upphátt svo hann heyrði. En sem sagt hann gerði eitthvað í vinnunni þannig að hann fékk ofsaálag (þetta er nýyrði hjá mér "ofsaálag") á öxlina. Fyrst var álagið á allt annan stað, stað sem við viljum ekki fá neitt álag á!!!. Hann nefnilega festist einhvernveginn í vinnugallanum sínum þannig að það strektist á gallanum á MJÖG viðkvæmum stað (níd æ sei mor??). Sem betur fer gat hann losað álagið áður en mjög slæmt hlaust af en þá var komið svona ofsaálag á skemmdu öxlina hans þannig að nú getur hann ekki beitt henni að viti.

Hitt var mér að kenna. Ég á nefnilega spegil sem ég vil ekki henda af því ég hef ákveðna þörf fyrir að sjá mig alla í spegli áður en ég fer út úr húsi (þó ég sjái mig auðvitað bara hálfa þessa dagana sökum vaxtarlags sem passar ekki í spegilinn, en ég bakka bara og þá sé ég hina hliðina líka en þó ekki báðar í einu).. Já alveg rétt "slasið" hans hauksins og spegillinn minn. En ástæðan fyrir því að hann vill henda honum er að spegillinn er brotinn í neðra hægra horninu. Þetta gerðist fyrir mörgum árum og ég er rétt að verða búin að vinna af mér sjö ára ógæfuna og ætla ekki að eignast hana aftur með því að fleygja speglinum. Brotið sem sagt snertir mig lítt (sem betur fer er það það neðarlega að ég sé yfir það). Haukurinn er ekki sama sinnis varðandi þetta brot. Hann er nefnilega alltaf að sparka í spegilinn og tautar þá alltaf eitthvað ljótt í leiðinni. Eitthvað sem ég á að heyra en heyri ekki því hann vill ekki leyfa mér að heyra hvað hann getur verið orðljótur þannig að ég verð bara að giska.

En í gærmorgun var ég að reyna að sofa smá meðan hann hann var að klæða sig fyrir vinnuna og þá heyri ég stundahátt "Meinvill, þegar ég kem heim í kvöld þá hendum við þessum and******* spegli" WOW Ég bara glaðvaknaði. Þetta var samt sagt í svona samtalstón, enda ekki annað hægt því Molinn svaf líka vært og við viljum almennt ekki vekja hann of snemma. Ég reis upp við dögg til að athuga hversvegna hann vildi sérstaklega henda speglinum núna. Ástæðan var ofureinföld, hann hafði í syfju sinni gengið á spegilbrotið og skorið af sér tánna. Ok, kannski skar hann ekki af sér tánna, en blóðstreymið benti allt til þess og ég meira segja neyddist til að skreiðast fram úr og reyna að hjálpa honum áður en honum blæddi út. Síðan fór hann í vinnuna með umbúðir á tánni og blóðið vætlandi úr.

Uss þegar hann kom heim um kvöldið var hann í sokkum sitt af hvoru tagi. Öðrum hvítum (engar athugasemdir plís) og hinum rauðum. Ég ætlaði að fara að benda honum á þetta smekkleysi hans þegar ég áttaði mig á því að líklegast hafði rauði sokkurinn verið hvítur um morguninn þegar hann fór í hann. Ég lokaði bara munninum aftur og náði aðra í sokka undir ásakandi augnaráði hans. Ég næstum því skammaðist mín, en speglinum verður samt ekki hent!

Hann fær sem sagt að sofa aðeins lengur af því hann er svona tvöfalt slasaður. Svona er ég góð kona. Geri engar kröfur á manninn þegar hann er slasaður. Það væru ekki allar konur svona góðar!

Annars var Gullmolinn hjá okkur í fyrri nótt og vesalingurinn er aftur kominn með asma þannig að frænkutetrið hans svaf ekki mikið fyrir hóstaköstunum sem hann tók alla nóttina. Held samt að hann hafi sofið ágætlega. Við horfðum á DVD myndina barnalögin svona 57 sinnum og sungum með Jónsa og Birgittu. Frænkan er komin með nett ógeð á þessari DVD en barnunginn hreinlega elskar þetta þannig að hvað gera gamlar móðursystur þá? Jú þær setja á play aftur og syngja hástöfum með. Tilfærslur mínar eru öllu meiri en voru hjá Dúkklísunum í Popppunktinum í gær. Mér fannst það nú frekar lélegt atriði, uss bara. Ég ætti kannski að hringja í þær og bjóða þeim aðstoð í tilfærslum við barnalög?

Brá mér líka í Debenhams og keypti mér árshátíðarbol þar sem ég hætti við kjólinn fagra (varð að hætta við því það var svo dýrt að kaupa svona mikið efnið á hvalinn Keikó). Og mér fer fram. Ég lagði af stað til að kaupa svartan bol en kom heim með silfurlitaðann gellubol..úff verður mar flottur eða hvað?


Powered by Blogger