Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

30 desember 2005

Þá er komið að síðustu færslu ársins. Hún verður ekki löng því ég þjáist af skrifleti í augnablikinu og þarf líka að koma mér af stað út í lífið (í Sorpu) þennan síðasta dag ársins. Að öllu jöfnuðu ætti að gera lista yfir hitt og þetta sem hefur farið vel eða illa á árinu. Lista yfir það sem líkað hefur vel eða illa eða bara eitthvað allt annað. 'Eg ætla bara að gera eitthvað allt annað núna því ég þjáist af leti eins og áður sagði. Mig langar samt að óska öllum nær og fjær gleðilegs árs og friðar og allt það sem því fylgir. Meira síðar. Adios. Ciao (er ekki búin að læra að segja þetta á kínversku en get næstum talið upp á tíu)

Meinvill

28 desember 2005

Síðasti vinnudagur ársins 2005 er í dag. Í rauninni er örstutt síðan síðasti vinnudagur ársins 2004 rann upp. Árin eru eitthvað svo fljót að líða að fyrr en varir verður runninn upp síðasti vinnudagurinn. Hmmm kannski aðeins of snemmt að vera að hugsa um hann núna en ég vildi samt að það væri kominn maí á næsta ári. Mig langar nefnilega í sól og sumaryl og laaaangt frí. Ekki svona langt helgarfrí heldur alvöru frí. Ég nefnilega nenni ekkert að vinna núna enda ekki skrítið, í gærdag hringdi hvorki hjá mér síminn né heldur fékk ég tölvupóst. Sem er auðvitað lygi því ég man núna að ég fékk eitt eða tvö bréf en ég nennti varla að lesa þau. Hvað gerir maður (kona) í svona stöðu nema leggjast í enn meiri leti?

27 desember 2005

Jólin eru nú dásamlegur tími. Frí og góður matur og góðir vinir og fjölskylda. Jájá nóg um það. Nú er hverdagsleikinn byrjaður aftur og vinnan á fullu. Skakki er að vísu í fríi og sökum öfundar þá lét ég honum eftir heimaverkefni eða þannig. Ég ætla bara að vinna í tvo daga á milli jóla og nýárs, hina ætla ég að vera í fríi ætla meira segja að vera í fríi frá ræktinni. Ég fór í morgun og var bara nokkuð góð með mig. Það eru nefnilega mörg persónuleg metin sem ég hef verið að slá síðustu átta vikurnar. Ég er að hugsa um að setja mér fyrir nokkuð erfitt prógramm á komandi ári, er ekki alveg búin að úthugsa það en það kemur svona með kalda vatninu.

Mig langar heim á nýja koddann minn. Það er svo ógeðslegt veður að það eina sem mann langar að gera er að fara heim og kúra og lesa. Það er hinsvegar ekki í boði þannig að best að halda bara áfram að vinna (eða byrja kannski bara)!


Powered by Blogger