Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

20 mars 2004

Klukkan er háfníu á laugardagsmorgni. Ég er búin að vara vakandi í einn og hálfan tíma. Klukkan hringdi ekki heldur var ég einfaldlega búin að sofa nóg.

ALLA aðra morgna en laugardagsmorgna þar ég að berjast við að vakna klukkan 7. Ég þarf að berja mig framúr rúminu og þarf að berjast kolmygluð í gegnum það að klæða mig og eta morgunmat. EKKI á laugardagsmorgnum!

Á laugardagsmorgnum reyni ég að berja mig til að sofa lengur sem gengur yfirleitt frekar illa. Í morgun var þó hr. Meinvill kominn enn fyrr á fætur. Hann var nefnilega að horfa á þáttinn frá Kuala Lumpur!

Ég er hinsvegar á leið í Kringluna. Núna ætla ég að fara í comfort shopping. Ég stunda nefnilega ekki comfort eating en mér finnst gott að fara í Kringluna og kaupa mér eitthvað skemmtilegt þegar almenn líðan er á lágu stigi. Þetta er ódýrara og yfirleitt endingarbetra en tími hjá sála.

Síðan ætla ég að fara í fyrstu fermingarveisluna á þessu sísoni! Björn Sævar Mundu og Bjössasonur mun fermast í dag. Mér finnst ofsalega stutt síðan hann var hjá mér í afmælisveislu og krakkarnir skildu hann eftir fyrir utan baðherbergið. Hann lagðist á hurðina og öskraði með undarlega dimmri kallarödddu "opniði hurðina krakkar". Hann var tveggja en röddin var mun eldri. Hann verður voða sætur í dag og Kópavogssysturnar (móðir og móðursystur) eru búnar að standa í stórbakstri þannig að þetta verður ægilega gaman.

19 mars 2004

Það er einfalt mál að það ríkir þunglyndi á mínum bæ. Sem betur fer hef ég bara nokkrar mín í einu sem ég get sökkt mér niður í þunglyndi því það er svo mikið að gera að ég verð að taka mig saman í andlitinu.

Málið er að aðgerð númer tvö ætlar að fara á sama veg og síðast. Að vísu er kannski aðeins of snemmt að spá fyrir um það en á þessum tímapunkti ætti að vera gerast mun meira en er að gerast. Flókið? Já lífið er flókið. En læknirinn sagði:
VIÐ skulum ekki vera svartsýn.. en Ég er ekki bjartsýnn"

Læknisfífl, hvernig á ég að vera bjartsýn ef hann er svartsýnn og hann er sá sem veit allt um þetta?

Æðarnar eru líka búnar að fá nóg. Nú eru blóðsugurnar hættar að ná blóði og enduðu í dag með "butterfly" nál og handarbakið.

Sko mig, ég meira segja veit hvað nálardruslurnar heita og ekki nóg með það held er ég farin að lesa sónarmyndina eins og ég sé bara læknir líka haha hann hélt nefnilega að ég gæti það ekki og þóttist eitthvað vera að mæla eins og þeir eiga að gera og ég spurði eftir smástund "það er nákvæmlega ekkert að gerast eða hvað?"
Þá hætti hann að þykjast og sagði "Nei" og hann sleppti því að reyna að skrifa einhver x í bókina sína því það var ekkert til að documentera.

Djöfull getur lífið verið ósanngjarnt stundum og ef einn enn segir mér að þetta sé allt í lagi og ég megi bara ekki stressa mig, það séu til önnur ráð, þá garga ég. Bara svo einfalt..

18 mars 2004

Uss myndin heitir ekkert As good as it Gets..það er víst einhver allt önnur og eldgömul mynd. Ég veit ekkert hvað hún heitir sem ég fór á haha maður er bara alltaf í bío og veit meira segja ekki hvað myndruslurnar heita...

hr meinvill er að ryksuga, hann er nú duglegur hann má eiga það. Ég er viss um Nornirnar eru sammála mér um að svona eiga menn að vera..í þessum töluðu orðum liggur hann á hnjánum með rassinn beint út í loftið og reynir að ryksuga undir hillunum..alveg hreint yndisleg sjón svo ekki sé meira sagt...meira segja soldið sætur rass..minn er ekki svona fínn haha

Hann fór út og kíkti á bílinn minn. Hann nefnilega hitar sig (bíllinn) og fór alveg nærri því á rauða strikið þegar ég var í sakleysi mínu á leiðinni heim úr vinnu. Mér varð á að nefna þetta við Hr. Meinvill og hann sagði með hneykslan í röddinni " vantar ekki bara vatn á hann??"

Hvernig í ósköpunum á ég að vita það?

Lít ég út fyrir að vera bifvélavirki? Neibb, lít út fyrir að vita ekkert um bíla og lít líka út fyrir að kunna ekki að þvo bíla því Ármour mín ástkæra samstarfskona segir að minn bíll sé sá skítugasti sem hún hafi lengi séð..sem er ekki rétt.. það er bara svo erfitt að þvo þennan því það er óvenju föst á honum drullan...

...en aníveis, Hr. Meinvill kom inn eftir að hafa verið þó nokkra stund að bogra yfir bílnum mínum, þetta tók svo langan tíma að ég vaskaði upp í fáti meðan ég beið (það mun ekki koma fyrir aftur). Hann kom inn og sagðist hafa fyllt bílinn af vatni því það hafi vantað á hann fleiri lítra

hr. Meinvill: "og ég setti á hann olíu líka"

Ég "en það var ekki farið að loga neitt olíuljós"

hr Meinvill með uppgjafarstunu: "Olíuljós logar EKKi þegar olían er búin. Olíuljós logar þegar bíllinn er að BRÆÐA úr sér af því það hefur ekki verið DROPI af olíu lengi"

Eins og ég sagði áður..þá er ég ekki bifvélavirki og öll þessi ljós rugla mig bara..bensínljósið skil ég og ljósið fyrir afturrúðuhitarann líka..og það er svo tæknilegt að það slekkur á sér eftir ákveðinn tíma..sem er kostur þegar mar er jafn utan við sig og ég því annars væri ég alltaf að spá í hvaða ljós væri NÚ farið að loga..

Hr. Meinvill er búinn að ryksuga og búinn að skammast yfir að ég dustaði óvart rykið af uppáhaldssokkunum mínum yfir nýryksugað gólfið hans... það er erfitt að gera sumum mönnum til hæfis..en núna get ég óhikað hætt í tölvunni því allt er orðið hreint....

Meinvill er líka að gera blessaða skattasýrsluna sína. Henni til mikillar gleði hafa skuldir lækkað smá. Það getur borgað sig að lifa eins og kirkjurotta. Lækkunin er kannski ekki mikil en það er samt lækkun en ekki hækkun..það er jákvætt..

Kirkjurottur geta haft það ágætt en þær eru fátækar eins og flestir vita. Eina sem kirkjurotta hefur umfram mig er að hún býr í kirkju en þar mundi ég með mína andúð á guðlegri forsjá ekki búa eða þannig.

Kom tú thínk of it..það er annað sem rottur hafa umfram mig: Þær sko fjölga sér gegndarlaust og á miklum hraða. Það hefur ekki hrjáð mig eins og flestir vita. Ætti kannski að leggjast í stúdíu um líf svona rottna í general?????

Meinvill fór og var með smáfyrirlestur um MA ritgerðina einu sinni enn.. fékk fullt af kommentum..öllum í þá átt að kannski er ég á réttri leið en ekki sjá allir hvað ég er að spá...held að á gamals árum sé ég að verða óskiljanlegri en áður.. eins gott að Anna Jóna vinkona mín (móðir leigubílstjórans) sjái þetta komment ekki.. hún nefnilega barði reglulega í bakið á mér og æpti
"Muna að ANDA Anna Kristín"... henni fannst ég tala fullhratt sko.. en það er svona ef mar hefur mikið að segja.. þá setur mar í fluggírinn og bunar út úr sér fleiri fleiri orðum á mínútu!

Meinvill fór í bíó á sunnudaginn síðasta. Síðasta bíóferð fyrir það var í febrúar 2003. Meinvill er sem sagt alltaf í bíó eða þannig. Myndin sem ég sá var As Good as it Gets og mér fannst hún alveg meinfyndin alveg. Fannst endirinn að vísu bjánalega amerískur, konan búin að vera með þessum unga í lengri tíma og svo var honum bara hent út eins og gamalli tusku ..búið að nota hann..huh

17 mars 2004

Sól sól skín á mig...ský ský burt með þig....
Svona syng ég í dag enda ekki furða..er á leið í enn einn fyrirlesturinn um þessa fjandans ritgerð mína..ég er að verða leið á þessari ritgerð og ég er varla byrjuð haha

16 mars 2004

Fór og hitti Max og frú hans á laugardaginn á Hard Rock Café. Þetta var ægilega gaman og við skemmtum okkur mikið vel. Við sögðum honum að það væri alveg eðlilegt að ég hefði lesið þetta komment á síðu anna.is þar sem það eru "bara" rúmlega 4000 Önnur á landinu.

Þau töluðu um "þungann hníf" eins og Svía er siður og það endaði með því að við keyrðum þau til að skoða hús Hrafns að utan. Fyndið þetta með þungann hníf..ég hef ekki einu séð þessa mynd Hrafninn flýgur en hef tvisvar eða þrisvar orðið fyrir því í búð í Svíþjóð að afgreiðslumanneskjan hefur sagt upp úr eins manns hljóði "thungur knífur"... vissi fyrst ekki hvaða bull var í gangi en samkvæmt Max þá horfa Svíar á þessa mynd í grunnskóla, liður í að þekkja söguna eða eitthvað svoleiðis..haha við þurfum þess ekki á Íslandi ..

Þau buðu okkur að heimsækja sig til Svíþjóðar sem fyrst og erum við auðvitað að skoða það mál. Við förum á eitthvað flakk í sumar þar sem við getum ekki farið utan um páskana eins og við höfðum gert ráð fyrir. Ferðin í sumar verður bara betri held ég.. ;)

15 mars 2004

Assgoti var blóðsugan vond við mig í morgun. Hún fór fyrst á hægri hendina en fann enga æð þar þannig að hún hjakkaði fram og til baka þangað til ég var farin að stynja ósjálfrátt af sársauka í hvert sinn sem hún hreyfði nálina. Þá sá hún að þetta gekk ekki og færði sig hinum megin og þar fór hún svo utarlega að hún mátti ekki hreyfa nálina því þá datt hún úr æðinni.

Það er gott fyrir fólk með nálafóbíu á háu stigi að lenda í svona. það endar með því að það er ekkert sem ég hræðist í sambandi við lækna. Ég lít út eins og dópisti í dag: Marblettir í báðum olnbogabótunum og margir marblettir á maganum og lítil stunguför OJOJOJ


Powered by Blogger