Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

13 janúar 2007

Það er kominn tími til að halda áfram. Í dag er fimmti dagur frá þessum atburðum sem settu tilveru mína á hvolf og nú er sorgin að dvína en heiftarleg reiði að taka við og reiðin þarf að fá útrás á einhvern hátt. Þórólfur Árnason var sá eini sem var látinn gjalda fyrir samráð Olíufélaganna á sínum tíma er hann varð að hætta sem borgarstjóri. Ég er enginn Þórólfur og get ekki gert mjög mikið en ég neita að sitja þegjandi og láta þetta ganga yfir. Flest fyrirtæki sem eru vönd að virðingu sinni vilja forðast slæmt umtal eins og heitan eldinn. Það er versta auglýsing sem hægt er að fá. Það sem er erfiðast fyrir þessa aðila er að ég hef siðferðislega réttinn allan mín megin þó lagalega virðast þeir mega gera það sem þeir vilja. Eitt af því sem mér finnst erfiðast að kyngja er að ef yfirstjórn hefði ekki beðið mig um að bíða með uppsögn mína í september meðan ýmis samskiptamál voru athuguð þá væri ég hætt í dag og ekkert af þessu hefði þurft að koma til. Ég væri með bráðabirgðavinnu fram að mínu barneignarleyfi og allir væru glaðir. En ég hlustaði og samþykkti að bíða eftir lausn og núna finnst mér eins og þeir hafi beðið mig um að bíða eingöngu til þess að mín persónulega staða yrði erfiðari. Það er nokkuð ljóst að ég verð launalaus síðustu vikurnar fram að barneignarfríi og í stað þess að nota sumarleyfið til ferðarinnar þá hefst barneignarleyfið að um leið og ferð hefst. Þarna er því verið að taka dýrmætan tíma af barninu mínu en ekki mér. Ég kem til með að eyða 2 vikum af dýrmætu fæðingarorlofi í ferðalög til að ná í barnið í stað þess að orlofið hefjist við heimkomu.

12 janúar 2007

Síðasta bölbæn:
Megi lygar Hennar flækja Hana í svo þéttan vef að Hún geti sig varla hrært. Megi dagar Hennar dimma og framtíðin visna. Megi Hún fá yfirmann sem hatar hana og vill Henni veg hennar verstan. Megi Hún lenda í sömu aðstæðum og Hún beitir en án hreinnar samvisku.

Þetta var síðasta bölbænin í bili. Mér líður betur og í gær eftir að hafa gleypt hræðsluna fór ég í fyrirtækið og fékk mín persónulegu gögn og gekk síðan um kvaddi fólk. Með þeirra stuðning á bakinu eru mér allir vegir færir en ég skal viðurkenna þetta voru þung og erfið spor og á tímabili hélt ég að ég mundi ekki klára það. En ég bar höfuðið hátt og veifaði drottingarlegu veifi og var föðmuð og kysst eins ég væri að fara á sjúkrahús til að deyja. Örugglega mjög hallærislegt en mér leið betur og ég vona að fyrrverandi samstarfsfólki sem fékk hluta af þessu höggi hafi líka liðið betur. Ég var nærri farin að gráta þegar nokkrir grúfðu társtokkin andlit að öxlinni að mér og sögðust ekki getað talað. En ég var töffari og það var auðvitað bara húfunni minni að þakka. Sá sem á svona töffarahúfu getur farið í gegnum allt. Á þriðjudaginn ætla ég síðan að skella mér til Svíþjóðar til að ná áttum. Og síðan þarf ég að fara að finna mér verkefni fram að barneignarfríi því það er ljóst að ég sæki ekki um vinnu því ekkert fyrirtæki ræður konu á leið í barneignarfríi eftir 4-5 mánuði. Ég fékk tvö heilræði í faragjöf í gær og þau byrjuðu að virka strax í gær: Eldri maður: Mundu það dúllan mín að það er líf eftir xxxxxxx og yngri kona: þegar einar dyr lokast opnast tvær aðrar. Og ein er byrjuð að opnast.

11 janúar 2007

Ég er búin að eiga mjög erfiða daga þessa viku. En það er eitt sem ég verð að láta koma fram. Stuðningur allra í kringum mig hefur verið ómetanlegur. Vinir og fjölskylda hafa gjörsamlega þjappað sér í kringum mig og stappað í mig stálinu og fyrrum samstarfsmenn hafa hringt einn af öðrum og látið í ljósi reiði og stuðning. Sá sem á svona marga vini er ríkur maður og þá skiptir minna máli þó einhverjir örfáir séu með mannorðsmeiðandi aðgerðir. Ég þakka ykkur öllum kærlega fyrir og þó það sjáist ekki þó met ég þetta mikils
An now the show must go on....

Þriðja bölbæn:
Megi hár Hennar falla af í flygsum og þynnast sem gamalmenni væri. Megi hendur Hennar og andlit steypast í kýlum og kviður Hennar þenjast út eins og hjá barni frá Afríku. Megi fótaóeirð og almennur slappleiki herja á Hana á ólíklegustu stundum og hugur hennar fyllast óróleika.

And***** líður mér vel með þessar bölbænir. Prjónarnir eru líka að verða tilbúnir þannig að það er ekkert af vanbúnaði. Ég hefði átt að byrja fyrr í mínu lífi að hugsa svona ljótt

10 janúar 2007

Mér líður eins og ég hafi gengið á vegg og á meðan ég stoppaði til að ná mér kom einhver og snéri mér í 90°og barði mig bylmingshögg í magann þannig að ég datt niður öll í keng með hendurnar um magann. Þegar ég lenti á jörðinni byrjuðu spörkin og gleraugun flugu af þannig að ég sé enga heildarsýn. Hvað fær fólk til að haga sér svona? Af hverju sögðu foreldrar mínir þegar ég var að alast upp að maður ætti að koma fram við aðrar manneskjur af virðingu og muna að allir eru einhvers virði þegar þetta eru svörin? Ég get ekki borðað og hjartað berst svo mikið að það heldur fyrir mér vöku. Hvernig getur eitt hjarta haft svo hátt að maður heyrir ekkert annað í þögninni en dump dump dump.

Það góða við þetta allt saman er að með þessum hraða verð ég komin í kjörþyngd um mánaðarmótin og jafnvel fyrr. Er að reyna að hugsa um gott nafn á þennan kúr og allar ábendingar eru vel þegnar.

Næsta bölbæn:

Megi öll Hennar störf verða vegin og marklaus metin. Megi siðleysi Hennar koma henni um koll og naga Hana á löngum, svefnlausum nóttum. Megi yfirmenn Hennar fjarlægjast hana og sjá í henni þá skepnu sem bak við falskann svipinn býr!

09 janúar 2007

Megi Hún rotna í helvíti og allt hennar hyski.

Sko mig.


Powered by Blogger