Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

19 desember 2003

Ofsalega er gaman að versla jólagjafir
Ég fór í Kringluna og keypti og keypti en ekkert af því sem ég fór til að kaupa. Þetta er ægilega gaman. Í öllu prófstressinu var ég búin að gleyma hvað þetta er skemmtilegt. Náði ekki alveg að klára en komst langt.

Núna er ég gengin upp að öxlum og er sko svona þreytt:


Sandra kom og fékk lánaðann pönkarabúnað. Ég er hrædd um að henni finnist þetta ekki eins flott og mér haha ég hinsvegar ákvað að þegar ég kemst á elliheimilið þá ætla ég að nota þetta allt. Ég ætla að verða amma pönk. Kemst kannski ekki í þessa támjóu skó en ég ætla að raða á mig hönskunum og ólunum á úlniðina og ef beltið nær ekki utan um mig þá ætla ég að vefja því um hækjuna. Ég verð flottust. Ef ég verð ekki búin að eignast börn þannig að ég hafi ekki eignast barnabörn þá verð ég pönkaramma fyrir gítarspilarann, gullmolann og sænsku nýbúana. Ekkert þeirra sleppur. Ef þau ekki koma reglulega og heimsækja mig þar sem ég sit hlaðin pönkaradótinu mínu þá skil ég eftir dónapóst á símsvaranum þeirra. Það er ábyggilega ekki skemmtilegt að fá svoleiðis frá gamalli ömmu huh...heyrir þú það gítarspilari (þar sem þú ert sá eini sem lest þetta, því hin eru annaðhvort ólæs eða óferjandi haha) vona að snorrinn lesi ekki síðustu athugasemdina því hann gæti sent mér einhver leiðindaskilaboð, jafnvel á sænsku!

Þá er Andrea Marín Árna- og Maríudóttir búin að fá sín nöfn staðfest. Hún var ægilega sæt og heyrðist ekki í henni meðan á athöfninni stóð. Hún var í blúnduskírnarkjól alveg rosalega fín og á eftir hjálpaði hún til við að taka utan af pökkunum sem hún fékk. Nokkuð skondið.

Nostalgía
Annars er ég í nostalgíukasti við að rifja upp gamla tíma. Sandra er nefnilega að fara í eitthvað heljarins partý og þar á að vera pönkþema í gangi. Þær mæðgur hringdu því í mig til að athuga hvort ég ætti enn einhverjar leifar frá þessum tíma. Ég sit með tárin í augunum og skoða gamla dótið mitt ohhhhhhhhh ég vildi að ég kæmist í eitthvað af þessu.... Ég á nefnilega enn þá alveg slatta sem ég tími ekki að henda. Kannski ekki mikið af fötum en því meira af skóm og fylgihlutum.

Allskonar hanskar og belti og armbönd. Þetta er svoooooo flott. Skil ekki af hverju þetta datt upp fyrir og fólk (þar á meðal ég) hætti að vera pönkarar. Skór með svo mjóum tám að ég varð að kaupa númeri of stóra til að geta gengið í þeim. Ásdís kynnti mig fyrir svona skóm og í síldinni á Hornafirði kom upp úr henni fræg setning þegar hún var spurð af því á einhverju ballinu af hverju hún væri í svona skóm. Hún leit illilega á viðkomandi og sagði: "Það er mjög gagnlegt. Þegar leiðinlegir karmenn bögga mig get ég sparkað í rassgatið á þeim og við það fer skíturinn upp í heila". Viðkomandi karlmaður lét hana alveg í friði eftir það haha Þetta var skemmtilegt tímabil

18 desember 2003

Jólagjafir
Í dag og á morgun er jólagjafadagur fyrirtækisins. Pökkum og sorterum allar gjafir. Um það bil 500 talsins. Er svo einhver hissa þó ég komst ekki í mínar örfáu heimagjafir haha

Skírn
Í dag klukkan fimm að íslenskum tíma verður síðan litla prinsessan skírð. Hún verður skírð á Seltjarnarnesi heima hjá ömmu sinni og afa. Pabbi hennar er líka 25 ára í dag:
TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ ÁRNI


HMMMM mikið ofsalega er langt síðan ég var 25 ára.. hmmmm ég man ekki einu sinni svona langt aftur í tímann. Man ekki einu sinni hvað ég gerði til hátíðabirgða.. Ég hlýt að hafa gert eitthvað þar sem ég er afmælisglaðasta kona í heimi... ég verð hreinlega að reyna að hugsa...plís ef einhver man það er sá hinn sami vinsamlega beðinn að hjálpa mér að rifja upp...

Grafarvogur útkjálkabær?
Í gærkvöldi lagði ég bíl undir fót og yfirgaf Hafnarfjörð um stundarsakir. Ég ætlaði að heimsækja þau systkinabörn sem ég á ennþá á landinu (Gullmolann og Vélskóladrenginn). Þeir búa báðir á þeim útkjálkastað GRAFARVOGI. Ekki á sama stað, ó nei, og ekki einu sinni nálægt hvor öðrum. Ég er ekki það heppin.

Ástæða heimsóknargleði minnar var einföld; mig langaði að óska vélskóladrengnum gítarspilandi til hamingju með að vera búinn með fyrstu framhaldsskólaprófin og svo langaði mig að sjá hvort Molinn væri ekki örugglega óðum að ná sér.

Ég sem sagt bruna sem leið liggur og upp í Grafarvogu, ákvað að byrja á gítardrengnum þar sem ég ætlaði að stoppa stutt þar. Þegar ég var búinn að keyra um brekkur og hæðir í um það bil hálftíma, upp og niður, til vinstri, til hægri, u-beygja hér og aftur til baka hér. Þá rann upp fyrir mér að ég var villt. Nú skal ég viðurkenna að ég er um það bil áttavilltasta manneskja sem sögur fara af. Held að þetta orð hafi verið búið til um mig. En þetta var samt rídikilus og gott betur en það. Þarna sveimaði ég fram og aftur og ef ég hefði ekki verið búin að segja öllum að vænta mín þá hefði ég verið löngu farin heim aftur. Á tímabili var ég ekki farin að sjá fram á að ég kæmist tímanlega í vinnu morguninn eftir (í dag).

Á endanum fór ég aftur á byrjunarreit og byrjaði upp á nýtt. Keyrði hægt og las á öll skilti sem ég sá, heppin að það var ekki kallað út löggulið til að athuga hvaða fáviti væri að keyra. En ég fann þá báða. Báðir voru hressir. En ég spyr: Hvernig dettur nokkrum með fulla almenna skynsemi til hugar að BÚA þarna?????? Hvernig RATAR fólk heim til sína á kvöldin? Má ég þá frekar biðja um Hafnarfjörðinn ylhýra.....

17 desember 2003

Molinn er vaknaður og kominn heim. Hann vaknaði ekki vel kallskömmin. Hann barðist um og hóstaði blóði. Aumingja mamman var í sjokki og bar hann öskrandi út og barðist við hann alla leiðina heim í bílnum. En núna sefur hann og líður vonandi betur þegar hann vaknar. Læknirinn sagði kirtlana haf verið mjög illa frana og hann var með mikla sýkingu í eyrunum. Hann spurði hví barnið væri ekki á sýklalyfjum en það hefur hann aldrei fengið því fyrri læknar hafa aldrei fundið neitt annað að honum en óþekkt. Læknar eru hálfvitar (fyrirgefðu kæra mágkona þetta er auðvitað ekki meint til þín).

Ég fór einu sinni sem oftar til augnlæknis. Ég var ung að árum og mamma vildi að ég heimsótti góðan lækni. Ekki einhvern gamlan skottulækni og þar sem ég hafði fengið fyrstu greiningu á Húsavík þá vildi mamma vera alveg viss um að greiningin væri rétt. Læknisbjálfinn skoðaði mig og tilkynnti móður minni síðan að það væri allt í lagi með mig og ég væri með 100% sjón. Þá var ég búin að vera með kíkinn fyrir augunum í tæp tvö ár. Hann sagði mig ekki þurfa gleraugu, þetta væri bara aumingjaskapur.

Ég tók ofan kíkinn og sá ekki mikið, þrjóskaðist við í smátíma en setti síðan kíkinn fyrir aftur því dr.sauður hafði rangt fyrir sér. Síðan hef ég verið lítið fyrir sérfræðinga, það er eiginlega kaldhæðni að ég skuli vera upp á þá komin í dag. Lífið er fáránlegt og ég er enn með kíkinn og sterkari en nokkru sinni fyrr. Og Molinn er ekki óþekkur heldur sárkvalinn af eyrnabólgum og með of stóra kirtla og asma. Óþekkur mæ ass!!!!!!!

Nú er einn og hálfur tími síðan gullmolinn fór í aðgerðina og ég er ekki búin að heyra neinar fréttir hvernig gekk

Nú syng ég eins og Birna Rebekka vinkona mín gerði forðum:
"Með bros í hjalta og sól á völu"
og það meira segja komu nokkrir geislar þegar ég keyrði upp að HÍ. Sól, sól skín á mig og allt það.

Harpa á mína samúð að vera ekki búin fyrrr en á föstudag, hvaða kennara dettur í hug að láta mann fara í próf 19 des????? Þetta flokkast undir pyntingar, ekkert annað!


Og takk fyrir að bjóða fram aðstoð með sprauturnar, aldrei að vita nema ég hringi í stresskasti af því ég er búin að gleyma leiðbeiningunum varðandi hverju átti að blanda saman og hverju mátti henda og allt það. Á örugglega eftir að blanda einhverju saman sem ekki á að fara saman haha ekki efni í góðan dópista....


Verkefnaskil
Ég er hætt að vinna meira í þessu verkefni. Setti síðasta punktinn fyrir hálftíma, raðaði í möppuna og klukkan 12.59 ætla ég að liggja á hurðinni hjá kennaranum og heimta að mér verði hleypt inn. Ég ætla að taka 2 mínútur í að raða möppunni fallega á sófann hjá henni og vona að hún gefi mér eitthvað fyrir þá viðleitni að ég er með falleg milliblöð. Klukkan 13.02 stundvíslega brestur jólaskapið á:


Mikið ægilega verður gaman í kvöld. Ég ætla að elda góðan mat handa hauknum (af því ég var að klára verkefnið, hefur þetta ekki eitthvað snúist við??). Síðan ætla ég að spila fyrir hann jólalagið sem gefur mér jólafílingu: Marys Boychild með Boney M. Held að vísu að hann hafi ekkert gaman að því en það er allt í lagi því hann á að vaska upp meðan ég set upp jólaljósin haha Þetta verður skemmtilegt. kannski finnst honum það ekki eins skemmtilegt en hvað er að fást um það, jólin eru að koma nebblefa.

Í gær fór hann fram á það að ég skrifaði óskalista fyrir jólin. Uss það var ekkert á listanum mínum nema eitt og það getur enginn gefið mér.


Þess vegna skrifaði ég af skyldurækni nokkrar bækur og blandara. Langar að vísu meira í bækurnar heldur en blandarann. En ég er að ímynda mér að ég komi til með að nota svoleiðis apparat til að búa mér til skyrdrykki. Nú hef ég aldrei smakkað skyrdrykk þannig að ég veit ekki af hverju ég hef fengið þá hugmynd að þetta sé það eina sem verði til bjargar mínum sálarháska. Ætli ég sitji ekki bara með blandarann í fanginu þegar niðurstöðurnar koma í febrúar og klappa honum. það er að segja ef ég eignast svoleiðis.

Bækurnar eru kannski bara betri eftir allt saman. Ég setti líka skó á listann. Mér er hinsvegar sagt að ég eigi nóg af skóm en það er ekki rétt. Ég á nóg af ELDgömlum skóm sem mig langar ekkert að vera í en ég á enga nýja, nema auðvitað þessa sem ég keypti í Rotterdam. Þeir eru hinsvegar ekki til "gangs". Þeir eru frekar svona, núna er "meinvill pæja" skór. Ég var í þeim á sunnudaginn þegar ég barðist við bílinn minn og tapaði. Þegar ég kom í foreldrahús þá beið mín heitt súkkulaði. Tærnar á mér voru hinsvegar freðnar alveg inn að hjarta. Nú veit ég vel að hjartað er ekki neitt nálægt tánum en á þeirru stundu fannst mér það. Daginn eftir varð ég fyrir þeirri undarlegu reynslu að ég var með harðsperrur í lærunum (það er undarlegt hjá mér því ég geri ekki neitt til að framkalla svoleiðis sperrur). Eftir mikla pælingar fattaði ég að þetta er auðvitað nýju Rotterdam skónum og frosna bílnum mínum að kenna. Ég nefnilega sat á hækjum mér og blés í skrárgatið og hitaði lykilinn og blótaði: allt á hækjum mér. Ég er sem sagt í svo slæmu formi að ef ég húki svona við bílinn minn í 35 mínutur á háum hælum, þá bara fæ ég harðsperrur. huh

16 desember 2003

Jólaskap
Á morgun klukkan tvö ætla ég að fara í jólaskap. Ég ætla að byrja að syngja jólalög og þegar ég kem heim klukkan fimm ætla ég að skreyta kofann. Jamm það fer bara alveg að koma að þessu. Ég held hinsvegar að blokkin sem ég bý í sé verst skreytta blokkin í öllum bænum. Þegar ég segi verst þá meina ég auðvitað minnst. Það þarf ekki endilega að vera svo mikið en að hinsvegar bara ein eða tvær íbúðir í allrir blokkinni séu með skreytingu, það er soldið lítið. En kannski eru bara allir að klára próf og ætla að klára þetta á morgun (að vísu er meira en helmingur þeirra sem búa í húsinu að nálgast löggiltan aldur en þau geta nú samt verið í skóla hvað veit ég)

Á morgun fer Vittorio gullmoli í aðgerðina og á fimmtudag verður skírn hjá Árna og Maríu. Það er bara vitlaust að gera. Og jólakortin eftir líka. Úff ég verð eiginlega að fara í hraðgír hehe eins og það virki ;)

15 desember 2003

Jólahlaðborð
Það var nú aldeilis fínt laugardagskveldið hjá okkur hjúunum. Við fórum nefnilega á Rauðará á jólahlaðborð. Við vorum átta sem fórum saman og það var mjög gaman. Maturinn rosafínn að sjálfsögðu og á eftir fengum við að sitja í mafíuherberginu og drekka kokteila. Að vísu drukkum við gleðispillarnir ekki marga svoleiðis því haukurinn var að fara í vinnu á sunnudeginum og ég auðvitað í fullri vinnu við að skrifa ritgerð. En það má venjast því öllu líka ;)

Þjónninn var að vísu soldið ofvirkur, kom fljótt og vel með ákavíti fyrir annan leigubílstjórann (jamm vorum með okkar eigin leigubílstjóra en neyddumst svo til að keyra þá heim því þeir neituðu að keyra okkur) en kom seint og illa með coke fyrir frúnna. Eflaust af því ákavítið er dýrara en cokið haha en svona er lífið, ef maður drekkur ekki ákavíti og svoleiðis óþverra þá situr maður þurrbrjósta og engist af sárri kvöl. Nei þetta er nú hrein og klár lygi hjá mér, held að ég sé kannski bara orðin ofvirk í pennafingrinum eftir ritgerðarskrifin um helgina. Ég var nefnilega vöknuð klukkan 8 báða dagana til að skrifa og nú sit ég uppi með lélega ritgerð sem þarf að STYTTA hehe svona er lífið eintómt strit og basl. Hef tvo daga til að stytta hana og svo ætla ég að fara að undirbúa jólin. Það er sko alveg kominn tími á það. Við erum ekki einu sinni búin að setja upp aðventuljós því ég hef ekki haft tíma til að setja nein ljós upp og haukurinn nennir því ekki ;(( en á miðvikudag fer þetta ALLT upp hjá okkur.

Fór í kökur til pabba í gær út af afmælinu hans og það tók mig nákvæmlega 35 mín að gefast upp á að reyna að opna bílinn minn. Helv. frost. Sem betur fór kom haukurinn heim einmitt þegar ég var búinn að gefa upp alla von um að þessi bíll yrði opnaður nokkrun tíma framar og ég farin að búa mig undir að taka strætó það sem ég ætti ólifað (smá drami). Hann sem sagt renndi að húsinu og ég tók hans bíl. Hef sjaldan verið eins glöð að sjá hann því ég var viss um að kökurnar væru BÚNAR þegar ég loks kæmi á staðinn haha (as if)

Vittorino var veikur eina ferðina og við fórum með kökur í fjalllendið sem þau búa. Uss það er bara vetur í sveitinni ojbjakk. Það er nóg að það sé frost í Hafnarfirði það er þó ekki skafrenningur og snjór JAKK. En sem sagt kallrófan er veikur og nú er loks búið að ákveða að hann fari í aðgerð. Hann þjáist af kæfisvefni segir nýjasti sérfræðingurinn. Mér finnst það mjög trúlegt því ég man þegar ég ætlaði að verða sálfræðingur einu sinni fyrir mörgum árum, þá var partur af náminu að fylgjast með fólki með svefnvandamál og við fengum að fylgjast með einhverjum aumingjans manni sem þjáðist af kæfisvefni. Það var ekki gaman og ég get tengt þetta við Torino því ég held hann hafi vaknað á 40 mín fresti alla nóttina sem hann var hjá mér um daginn. En nú ætla þeir að laga hann ;)) Ég vona að það takist því krakkagreyið er örmagna, hann sofnar í hvert skipti sem hann er settur í bílstólinn því þá situr hann uppréttur og ekki eins erfitt að sofa. Grey kallinn.


Powered by Blogger