Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

08 júlí 2005

Þá er nornafundur sumarsins yfirstaðinn. Við brunuðum til Suðurnesja í sportbíl Vesturbæjarnornarinnar og þurftum aldrei slíku vant ekki að leita að húsi nornarinnar. Við höfum aldrei fyrr rambað á rétta innkeyrslu í fyrstu tilraun enda er nornin búin að eiga heima á þessum stað í sex eða sjö ár..eða kannski lengur. Aníveis við kukluðum þarna á fullu allt kvöldið og vorum mjög hissa á niðurstöðunum. Ein er að flytja, önnur að fara að gifta sig og þriðja heldur áfram námi. Sú fjórða heldur bara áfram að bagslast við sig sjálfa sem er ábyggilega mjög gott.

07 júlí 2005

Ég komst að því í gær að ég er ekki alveg laus við fordóma huh.. Málið er að það er drengur sem vinnur með mér og hann langar til að verða kona þegar hann verður stór. Trúr köllun sinni er hann búinn að vera í ýmsum meðferðum til að breyta sér og er langt komin, þeas hann er komin með sum líffæri konu og sum karls. Útlitslega er hann meiri stelpa en strákur en talar samt með strákarödd. Þetta er sem sagt formálinn að sögunni.. Í gær fór ég að venju á brettið í vinnunni og þar sem ég var stödd í búningsklefanum að fara að skipta um föt birtist vinnufélaginn sem ætlar að verða kona (en er ekki alveg orðin). Og nú komu fordómarnir mínir í ljós.. mér fannst nefnilega ferlega erfitt að fara að afklæða mig fyrir framan hann því hann er strákur þó hann sé að verða kona. Ekki gat ég farið með fötin inn á klósett því þá hefði honum kannski sárnað.. ég vissi ekkert hvað ég átti að gera og endaði með því að skipta bara um hluta af fötunum. Og ég er konan sem hneykslaðist svoleiðis á körlunum í fyrirtækinu sem komu og sögðu að þeim þætti afskaplega óþægilegt að vera í sama búningsklefa og þessi drengur/stúlka. Og svo er ég bara ekkert skárri!

06 júlí 2005

Þriðjudagsgönguvinafélagið fór í sína þriðjudagsgöngu í gærkvöldi. Við bættust tveir áhangendur og varð af þessu hin besta skemmtun. Gönguvinahópurinn gekk út fyrir höfuðborgarsvæðið og verður það að teljast merkilegt afrek en við höfum komist að því á þessum ferðum að búið er að girða höfuðborgarsvæðið af (sjá mynd hér að neðan). Það er örugglega öruggara svo það fari ekki að þenja sig í allar áttir og kannski dreifa sér til Húsvíkur eða í sólina til Egilsstaða.

Þegar þriðjudagshópurinn hafði arkað á öræfunum í dágóða stund varð hann þess var að hann var eigi einsamall á ferð í óbyggðum sveitanna. Við og við glitti í fagurgræna úlpu og var sá hópur nokkuð á undan þriðjudagshópnum. Þegar betur var að gáð reyndist þar vera MAB og fjölskylda í sömu erindagjörðum, þeas að finna merkin góðu í skútum og hellum. Undarleg tilviljun ég verða að segja það (hehe).

Við Skakki fórum í matarboð til afmælisbarnsins og þar fór fröken Andrea á kostum eins og venjulega. Best fannst mér samt er hún var mætt með lyklabyrgir heimilisins til að reyna að opna læsta vínskápinn. Snilldarlegt alveg...


Best geymt i girdingu... Posted by Picasa

05 júlí 2005

Og ég var nærri búin að gleyma að óska tengdamóður minni til hamingju með afmælið sem er í dag. Svona getur maður verið utan við sig, en sem sagt:
Til hamingju með afmælið Sigrún!

Það er þriðjudagur og þriðjudagsgönguvinafélagið er byrjað að undirbúa ferð kvöldsins. Stuttbuxurnar eru komnar á hilluna og kortið þar ofan á. Sem sagt tilbúin í slaginn!

Minn kæri bróðir er haldinn ýmsum slæmum fordómum í garð kvenna. Hann heldur því staðfastlega fram að konur verði alltaf að láta alla aðra (hann) vera að gera eitthvað. Sem dæmi tekur hann að kona geti ekki farið og vaskað upp.. nei hún segir, "nú ætla ég að fara að vaska upp og á meðan skalt þú..." huh hver hefur heyrt svona vitleysu? Og þó svo að þetta reyndist satt þá vita allar konur að iðjuleysi manna þeirra er nóg til að skemmta skrattanum og því eins gott að sjá til þess að þeir hafi nóg fyrir stafni alla daga alla tíma. Annar er farið að styttast í að þau fari heim. Ég á eftir að sakna sænsku prinsessunnar sem gleymir sér annað slagið í íslenskunni og segir á sænsku "talar þessi eins og við mamma" haha soldið sætt. Annars hafa ýmsir fjölskyldumeðlimir mínir verið þekktir fyrir að tala hálfgert hrognamál og jafnvel verið vitnað í það á ögurstundum að langamma okkar hafi verið frönsk og þess vegna sé ekki alltaf hægt að skilja okkur afkomendurna (hún var eins íslensk og þær gerast bestar)

04 júlí 2005

Þá er Svíadrengurinn fermdur! Það var gert í útvarpsmessu í gærdag. Stuð og stemming og hann stóð sig vel, eina fermingarbarnið á þessum degi. Andrea Hauksfrænka átti líka afmæli í gær og varð sko alveg tveggja, þannig að það var nóg um veislur í gær.

Það eru tvær vikur í sumarfrí og ég er held ég bara farin að telja niður. Ég hugsa að fyrstu 3-4 dagana muni ég bara sofa. Ekkert annað. Mér finnst það gott plan. Molinn er að fara til Ítalíu að heilsa upp á mafíósana á fimmtudaginn og sama daga munu Svíarnir hverfa tilbaka.


Powered by Blogger