Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

24 september 2004

Það er nú meira skítaveðrið úti. Held þetta sé Skakka að kenna. Hann sendi mér SMS í gær um að það væri BRJÁLAÐ skiítaveður í Föreyjarna. Ég hló. Ég hló ekki þegar ég vaknaði í nótt til að loka öllum gluggum. Nær lagi væri að segja að ég hefði blótað. Mest blótaði ég þegar ég rak tærnar í saumakistuna mína sem öllum til undrunar liggur á miðju gólfi. Hún var á sama stað þegar ég staulaðist til baka og þar af leiðandi blótaði ég aftur. Hvernig kemst þetta dót alltaf út á mitt gólf? Ég er bara ekki að skilja þetta, kannski er saumakistan þarna eftir Skakka?

23 september 2004

Ok, hann fann leið til að keyra af landi brott. Hann keyrði bara og keyrði, lokaði svo augunum og keyrði út í sjó og honum til mikillar lukku reyndist vera skip sem tók við honun og bílnum og sigldi hið snarasta á brott. Í nótt sat hann því með hendur á stýri um borð í einhverju skipi og ímyndaði sér að hann væri að keyra yfir hafið. Sem hann auðvitað var.

Ég horfði hins vegar á Sirrý í gær. Þátturinn var undirlagður einhverri stúlkukind sem vissi ekki að hún væri ólétt fyrr en hún fór með magaverkinn sinn á spítala og þeir tilkynntu henni að hún væri að fæða. Þetta er ótrúlegt! Spáið bara í því. Þarna veit hún varla af því hvernig börnin verða til, veit alls ekki hvernig það er að ganga með eitt og er allt einu orðin mamma (aðeins einföldun ofkors). Svo er það fólk eins og ég sem veit allt um það hvernig börnin verða til, hvenær þau verða til, veit að vísu ekkert um meðgönguna þar sem þrátt fyrir allan fróðleik ekkert er hægt að gera. Þetta er nú bara hreinlega ósanngjarnt svo ekki sé nú meira sagt! Lífið er undarlegt það er alla vega á hreinu!

22 september 2004

Mikið afskaplega var ég dugleg í gærkvöldi. Skakki er nefnilega fluttur að heiman og er að keyra einhverstaðar um landið í leit að útlöndum. Í tilefni af því breytti ég sveitaheimili mínu í vinnustofu dauðans. Ekki misskilja mig, ég var ekki með neinar líkkistur eða þannig heldur frekar að ég vann af baki brotnu. Ég sat í 8 tíma eftir að ég kom heim í gærkvöldi og kláraði þessar rosa fínu leiðbeiningar fyrir tölvuna. Síðan ætlaði ég að prenta þetta en þá fór gamanið að kárna því litli prentarinn minn er ekki gerður fyrir stóriðnað. Ég fór því að sofa og á meðan dúllaði prentarinn sér. Einhverntíma um miðja nótt kláraðist pappýrinn. Ég vaknaði klukkan hálfsjö og hélt áfram að prenta. Núna sit ég bara í kæruleysi og nenni ekki neinu!

21 september 2004

Á leiðinni heim í gær fékk ég áfall mikið. Ég var rétt lögð af stað í fína sporteðalvagninum mínum þegar hið skelfilega gerðist: Ég gat ekki sett hann í gír! Um mig fór hræðsluhrollur og ég leit í bakspegilinn til að sjá hvort nokkur væri alveg að verða búin að keyra á mig, svo reyndist ekki vera. Ég djöflaðist við gírana og komst loks í næsta gír. Síðan tók við leiðin heim full af gírskiptingum. Rosalega þarf maður oft að skipta um gír. Ég hef bara aldrei tekið eftir því fyrr! Bíllinn minn er ekki bilaður. Það er ég sem er biluð ;( Það er hendin á mér sem hefur ekki afl til að þrykkja gírnum á sinn stað. Skakki segir að þetta sé vöðvabólga en ég held því fram að ég sé að breytast í öryrkja! Ég var í huganum farin að semja bréf til Tryggingastofnunar þar semég sæki um styrk til að kaupa sjálfskiptan bíl! Skakki kippti mér niður á jörðina aftur og ég náði mér í heitan poka á axlirnar. Ég þarf sem sagt ekki að kaupa nýjan bíl en ég gæti þurft að kaupa nýjan handlegg. Veit einhver um útsölu á solleis????

Skakki er að fara úr landi. Hann ætlar að keyra! Held hann hafi ekki lært landafræðina sína nógu vel. Við erum nefnilega á eyju og það þýðir ekkert að keyra. Hann hlustar ekki á mig og er lagður af stað. Mikið hlakka ég til að sjá svipinn á honum þegar hann er kominn hringinn og staddur aftur heima hjá sér en ekki í útlöndum haha

19 september 2004

Mig dreymir ekki! Eða kannski dreymir mig en ég bara gleymi draumunum áður en ég vakna. Þeir stoppa stutt við. Í nótt dreymdi mig hinsvegar draum sem var athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Ég var nefnilega með þann hæfileika að geta gert mig ósýnilega. Til þess að ég yrði ósýnileg átti ég hvíta blúnduslæðu sem ég festi í efstu tölu á skyrtu sem ég var í og voila enginn sá mig lengur. Ég var á ferð um einhver ókunn lönd og þar kom að ég fann búð sem mig langaði mjög mikið að skoða. Vandamálið var hinsvegar að það var ekki ætlast til að hvítingjar væru að þvælast þar inni. Ég setti því upp klútinn góða og sveif inn. Þarna voru dýrindis gersemar til sölu, bæði föt og hlutir til að skreyta hýbýli (eins og allir vita þá er ég ekki minimalisti þannig að ég komst í feitt). Vandamál mitt inni í þessari búð var hinsvegar að þegar ég var komin með fangið fullt af fínum klæðum þá sást fatabunkinn hreyfast um búðina en enginn vera með þar sem ég var auðvitað ósýnileg. Ég reyndi því að láta lítið fara fyrir mér og tróð mér bak við fatarekkana og slárnar þannig að ég væri minna áberandi. Þegar ég fór að skoða hýbýlaskrautið lagði ég fatabunkann frá mér á borð svo aðrir í búðinni tæku ekki eftir mér. Í gleði minni yfir öllum þessum vörum lagði ég líka blúnduslæðuna góðu í bunkann. Fór síðan að skoða eins og mér einni er lagið en þegar ég leit næst við var ein afgreiðslukonan komin með blúnduslæðuna mína og var að spyrja hvort einhver hefði týnt slæðunni. Það kom heilmikið fát á mig því ef ég vildi verða sýnileg aftur varð ég að fá slæðuna en ég gat ekki náð henni nema koma upp um að ég væri að þvælast þarna í leyfisleysi. Ég fór því að elta afgreiðslukonuna með von um að ég sæi hvar hún legði slæðuna og í því vaknaði ég. Í draumnum kom hinsvegar ekki fram hvernig ég ætlaði að greiða fyrir vörurnar án þess að gera mig sýnilega aftur. Og fyrir hverju er þetta? Finnst mér ég vera svona ósýnileg að enginn taki eftir mér? En í draumnum var það mitt val að vera ósýnileg til þess að ég kæmist inn á stað sem var mér annars lokaður. Samferðamenn mínir í draumnum biðu fyrir utan en gátu ekki komist inn því þeir áttu ekki svona fína slæðu og það kom ekki fram hverjir það voru sem eg var með. En landið var eitthvað Afríkuríki með fallegum skærum litum og dökkum feitum konum sem allar brostu í hringi hver við annarri.


Powered by Blogger