Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

02 ágúst 2003

Tölvuvænir
Fólk er misjafnlega tölvuvænt ég geri mér grein fyrir því! En ég held að Hrannsan fái bjartsýnisverðlaunin að þessu sinni fyrir að senda mér þessa flottu kveðju í....... gestabókina hennar Birnu ;))))
Hehe ég er ekki alveg viss um að Birna hafi skilið kveðjuna en ég skildi hana og ætla hér með að svara henni.
Við haukurinn ætlum ekki að fara að elskast í tjaldi þessa verslunarmannahelgi (við erum enn í banni vegna sprautunnar eða þannig) (as iff). Við ætlum ekki einu sinni að fara með Marín í fjallaferð, nei við ætlum að vera heima og njóta þess (enda annað okkar orðið atvinnulaust og hitt með bilaða bíldruslu sem enn er í henglum).

Þessi kveðja rifjaði hins vegar upp fyrstu verslunarmannahelgarútileguna fyrir einni mannsöld eða svo!

Þjórsárdalur 17hundruð og súrkál
Það var sem sagt verslunarmannahelgi fyrir langt um löngu sumarið eftir 9 bekk (heitir 10 bekkur í dag) hjá Hrönnsu en ég var búin með eina önn í FB. Flottur aldur og við vorum vissar um tvennt; við vildum fara í útilegu og við vorum eilífar (það kemur þessari sögu að vísu ekkert við). Við vorum að vinna í Ísbirninum (það er sem sagt voða langt síðan því Ísbjörninn er löngu dáinn) ásamt Marín (bakgrunnur sögunnar kominn).

Marín ætlaði í Þjórsárdal ásamt einhverjum krökkum sem við þekktum ekki og við vorum bara tvær að rolast, ég og Hrannsan. Við ákváðum því að við færum líka í Þjórsárdal því það virtist sem "allir" ætluðu að vera þar. Nú verður að viðurkennast að hvorug okkar vinkvennana hefur nokkurn tíma verið nokkuð náttúrubarn og borgin alltaf verið svona okkar staður en í þessa útilegu ætluðum við hvað sem hver sagði (hver vill mæta í vinnuna á mánudagsmorgninum og viðurkenna að hann hefi ekki farið neitt?) (á þessum tíma var sumarkrökkunum í fiskinum ekki gefið frí á mánudeginum)! Eina vandamálið á þessari ferð okkar var að við áttum ekkert tjald. Við höfðum áður fengið tjald foreldra minna lánað en nú voru þau að fara í útilegu með yngri systkinin mín þannig að þau ætluðu að nota tjaldið. Þetta varð nú ekki til að stoppa okkur, í versta falli finndum við bara Marín og fengjum að sofa hjá henni. Foreldrum mínum sögðum við að að við fengjum tjald foreldra hennar og öfugt. Síðan var það umferðamiðstöðin og rúta í Þjórsárdal!

Þegar við komum á staðinn var öllum sturtað úr rútinni og við stóðum þarna með svefnpokana okkar og nestið og þurftum að finna annaðhvort Marín eða einhvern annan sem við þekktum til að fá að vera hjá í tjaldi. Það skal tekið fram að við gerðum okkur enga grein fyrir því hvernig svæðið var eða hversu stórt það væri, ég held helst að við höfum haldið að um einhvers konar tún væri að ræða og þar væru allir en auðvitað var það ekki þannig. Þarna var múgur og margmenni og tjaldað allstaðar þar sem hægt var að koma fyrir tjaldi (þetta var fyrir tíma litlu kúlutjaldanna þannig að það þurfti soldið pláss fyrir hvert tjald).

Við röltum um svæðið skamma stund en sáum engan sem við þekktum, klukkan var að mig minnir komin yfir miðnætti og við vissum ekki alveg hvað við áttum að gera. Á endanum ákváðum við að við svæfum bara úti í svefnpokunum okkar og finndum Marín bara á laugardeginum. Við töltum eftir einhverjum smástíg þangað við fundum þetta fína rjóður og þar breiddum við úr pokunum okkar og skriðum í þá. Allstaðar í kringum okkur voru hróp og köll misdrukkinna ungmenna og hávær söngur. Okkur fannst við pínu yfirgefnar þarna sem við lágum tjaldlausar í svefnpokunum okkar en það stóð ekki lengi. Það leið ekki á löngu áður en hávær rödd sagði "Stelpur má ég benda ykkur á eitt? Þið hafið sko, nebbnilega gleymt að tjalda" Haha þetta var voða fyndið og eftir smá umræður hélt eigandi raddarinnar áfram en fljótlega heyrðist önnur rödd "Hey hey, þessar eru í nýja tjaldi keisarans hehe". Og svona gekk það alla nóttina, með reglulegu millibili alla nóttina komu menn og ræddu um augljóst tjaldleysi okkar vinkvenna og við vorum löngu búnar að gefa alla hugmynd um svefn upp á bátinn. Þetta reyndist hin ágætasta skemmtun en við skildum ekki fyrr en daginn eftir þegar birti aðeins meira afhverju svo margir höfðu verið að tjá sig við okkur, við höfðum nefnilega lagst niður á einum fjölfarnasta stígnum með pokana okkar. Þessi stígur tengdi saman tvö svæði og þarna var stanslaus umferð. Þegar ég hugsa til baka undrast ég samt eitt og það er að þrátt fyrir mikla umferð alla nóttina gekk enginn framhjá sem við þekktum og þeir sem gengu framhjá voru nær undantekningarlaust karlmenn. Eins gott að við föttuðum ekki að eflaust voru allir þessir að leita sér að stað til að pissa eða voru að koma frá því að ljúka því verki. Við vorum nefnilega soldið hrollgjarnar á þessum árum og þetta hefði okkur þótt í meira lagi ógeðslegt með tilheyrandi píkuskrækjum sem fylgir þessum aldri!

Þetta varð mjög skemmtilegt nótt en við vorum algerlega ósofnar og við viðurkenndum hvor fyrir annari að það hefði verið "soldið" kalt á tímabili (höfum aldrei viðurkennt það fyrir neinum öðrum). Við ákváðum því að við útilegufíklarnir tækjum rútu heim á hádegi á laugardeginum og við gátum þá allavega sagt í vinnunni á mánudeginum að við hefðum verið í Þjórsárdal. Það verður þó að fylglja sögunni að Marín leitaði okkar alla helgina (hún segist hafa leitað og leitað en ég er efins um að hún hafi nú munað eftir okkur nema af og til).

Við Hrannsan höfum ekki farið saman í útilegu eftir þetta og ég hef aldrei farið nema að hafa tjald og svefnpoka sem þolir 200° frost, til þess að vera við öllu búin! Mörgum árum seinna fór ég að vísu á eina útihátíð og það er önnur saga og varð til þess að ég hef ákveðinn hroll varðandi útihátíðir og get ekki hugsað mér að koma í meira en 200 km radíus frá einni slíkri! Mér skilst hinsvegar á gestabókinni hennar Birnu að Egill hafi ætlað að með Hrönnsuna í útilegu, við haukurinn erum heima!!!!!!

Einsi Kaldi og Amma Lóa til hamingju með afmælið í dag ;)

01 ágúst 2003

Í dag er síðasti dagur í sumarfríi og ég er ekki að verða þunglynd eins og ákveðnar konur á smíðanámskeiðinu héldu fram í gær (ekki um mig heldur sjálfa sig)! Nei ég gæti verið miklu lengur í fríi (alla vega viku) en þar sem ég er búin að klára alla frídagana mína verð ég bara að snúa aftur til vinnu með bros á vör.
Það var fugl að enda við að fljúga á gluggann hjá mér! Ég hljóp að glugganum og sá hann þyrlast í burtu greinilega alveg ringlaður. Í fáfræði minni hélt ég að fuglar væru með svo góðan radar að þeir færu ekki að klessa á heila blokk!

Armour: Til hamingju með afmælið í dag

31 júlí 2003

Skatturinn
Klukkan 16.01 í gær fór ég inn á síðu rsk til að sjá hvað ég skuldaði þeim mikið og mér til mikillar gleði var það bara tæp 40 þúsund í þetta sinn. Mikil gleði mikið gaman. Gleðin var hinsvegar ekki eins mikil þegar haukurinn fór inn. Það tók hann drjúga stund að komast inn því kerfið lagðist niður um leið og hann fór að reyna. Hann er þolinmóður maður og hætti því ekki fyrr en honum tókst að komast inn. Ég var í eldhúsinu að gera það sem góðar húsmæður gera (glápa út um gluggann á smiðina í næsta húsi) og tók ekkert eftir því að það var óeðlilega hljótt frammi við tölvuna (tölvan er komin í suðurálmuna) þangað til allt í einu heyrist svona eins og hálfkæfð stuna: "Þetta er eitthvað skrítið". Ég snéri mér við með semningi og taldi víst að hann hefði ekki skilið uppsetningu RSK á seðlinum. Ég hallaði mér yfir hann (alltaf tilbúinn að hjálpa til) en talan á skjánum einhvernveginn rann út fyrir augunum á mér. Ég blikkaði og hélt andartak að ég væri með linsudruslurnar (en ég get ekki notað þær við tölvuna því ég sé lítið með þeim) reyndi að skerpa sjónsviðið en það var sama talan 865.000. "Þú ert ekki á réttum stað" stundi ég loks upp og greip músina af óvirkum sambýlismanni mínum sem virtist hafa liðið í einhverskonar ómegin þrátt fyrr að hann sæti uppréttur. Ég tók yfir músina og djöflaðist fram og til baka á skjánum og það var alveg sama hvað ég gerði, niðurstaðan var 865.000 (gif or teik fjú thásands). Heilinn í mér fór á fullt og ég man ég hugsaði (þetta er eins og þegar fólk er beðið að hugsa til baka hvað það var að gera við jarðskjálftann 17 júní þarna um árið) wów hann er með engar rosa tekjur, ég bý með milla. Eitt augnablik tók bráðræðið völdin og í huganum var ég komin niður á fasteigasölu, búin að henda hvítu málningunni sem átti að stækka íbúðina og var að skrifa undir samning um kaup á MIKLU stærri íbúð. Stuna mannsins sem ég lá hálf yfir vakti mig aftur til raunveruleikans "Ég skil þetta ekki". Úps ég datt aftur til baka á jörðina og fyrir augnum dansaði enn þessi skelfilega tala og hún var hreint ekki í plús heldur mínus. Afborgun á mánuði fram að jólum: tæp 200.000. ÚFFFFFFFFFFF En skyndilega rann upp fyrir okkur ljós (við fyrsta sjokk dettur heilinn oft úr sambandi eitt lítið augnablik). Við skrolluðum í skyndi að því sem greitt hefði verið og hver mismunur á þessum tveimur tölum væri og VOILA engin afborgun! Hjúkkit, hjúkkit þetta var sem sagt ekki skuld (jú auðvitað skuld en ekki okkar) heldur var launagreiðandinn ekki búinn að borga skattinn hans. Við lokuðum tölvunni hljóðlega (veit ekki hvernig mar gerir það með hávaða en þetta hljómar betur) og fórum í ammæli til Auðar!

Í dag er haukurinn búinn að heimsækja RSk og biðja um leiðréttingu og hann fær meira segja til baka. Gott mál sem endar vel fyrir okkur en kannski ekki alveg eins vel fyrir launagreiðandann hans. Stundum er manni ekki ljóst hvað menn eru að hugsa, hélt hann í alvöru að með því að þegja áfram þá væri bara allt í lagi og hvorki haukurinn eða skatturinn hefðu nokkuð við málið að athuga? Æi stundum er erfitt að lifa en ég er alla vega feginn að ég rek ekki fyrirtæki (nema auðvitað sjálfa mig).

30 júlí 2003

Bækur-bækur-bækur
Aðlögunin er búin í dag og þá tekur við sumarfrísverkefnið sem er þrif þessarar ágætu íbúðar. Haukurinn heldur því fram að ég sé með þrifnaðaræði en ég sé ekki alveg hvernig hann fær það út því samkvæmt mínum útreikningum var t.d. síðast skúrað hér í apríl held ég (plús mínus einn mánuður). Þetta er eiginlega að verða eins og hjá hústökufólki (ekki að ég hafi neitt á móti hústökufólki, ég vil bara ekki búa með þeim) allt nema afrifudraslið sem er alltaf hjá þeim og dýnur á gólfinu. Það er ekki solleis hjá okkur, kannski er það bara rétt hjá honum þetta er alveg fínt!

Við bentum Corason á það að mála sína íbúð hvíta til að stækka hana og þá gætu tveir eða fleiri auðveldlega búið þar án þess að þurfa að sortera hvað á að fara í geymslu og hvað má vera. Ég ætla að fara að kaupa hvíta málningu fyrir okkur líka, kannski á Corason afgang? Mig vantar nefnilega tilfinnanlega einn vegg í viðbót (best samt ef þeir væru fjórir þannig að úr yrði eitt herbergi). Í þetta herbergi sem fæst með máluninni ætla ég að setja tölvuna og bækur! Í tiltektinni týndi ég nefnilega saman allar bækurnar sem hafa verið keyptar að undanförnu og ekki komist í hillu! Þetta fór langt yfir 14 metrana og 30 sentimetrana sem ég þurfti af hillum þegar ég flutti inn. Ég held að metrafjandarnir séu að nálgast 20 og þeir eru ekki til. Og hvað er þá til ráða? Jú fröken ráðagóð (ég) tók til í hillunum og setti í kassa bækur sem ég hef ekki lesið lengi og þurfa ekki endilega að vera í hillu. Ætlunin er að setja þær í geymsluna (í skápinn sem ég mátti ekki flytja í íbúðina og hýrist nú í geymslunni og tekur við smámunum sem ég þarf aðeins að leggja til hliðar). En það sem ég reiknaði ekki með er að þegar ég fór að fara yfir bækurnar fann ég fullt af bókum sem ég hef ekki lesið lengi, mundi satt best að segja ekki einu að ég ætti þær til, hvað þá að ég hefði nokkurn tíma lesið þær! Eftir að hafa handfjallað hverja bók sona 20 sinnum þá fóru sumar í kassa (heldur færri en til stóð í upphafi) og restin fór á náttborðið mitt (gamla fermingarskattholið tekur lengi við). Staflinn á náttborðinu er núna alveg skelfilega hár og það eina sem ég væflast með þessa stundina er...Hvar í FJANDANUM eiga þessar bækur að komast fyrir þegar ég er búin að lesa þær?

Aðlögun
Þessa morgna er vaknað klukkan 7.30 á mínu heimili. Ástæðan er ekki sú að að fríið sé búið (alltof snemmt til að vakna til vinnu) nei ástæðan er sú að við erum í aðlögun! Ja auðvitað ekki ég og þá ekki haukurinn, hann þarf svo sem enga aðlögun því hann er svo til búinn að venjast öllum mínum kenjum (get þó viðurkennt að enn get ég komið honum á óvart af og til). Nei aðlögunaraðilinn er Vittorino hinn ungi, hann er nefnilega að byrja á leikskóla (kominn tími til, barnið löngu komið á skólaaldur alveg að verða 11 mánaða). Leikskólinn vill að foreldrar eða nákomnir ættingjar (það er ég) séu með leikskólaunganum fyrstu dagana. Ég fer með hann á morgnana (eldsnemma) og gef honum morgunmat í herbergi fullu af hávaðasömum börnum og má vart milli sjá hvort okkar er forvitnara um hin börnin. Við erum eins og tveir kallar á spýtu, svona sem hægt er að toga í spott og þá hreyfast hendur og fætur, nema í okkar tilfelli er það hausinn sem hreyfist. Og þar sem við erum ekki alltaf að horfa á það sama (en höldum samt áfram að borða) þá er það hending hvert skeiðin fer; vinstri kinn, hægri kinn eða munnur. Síðan þegar þessu ævintýri er lokið þá er snarað sér yfir í gula herbergið þar sem 5 litlir guttar (púkar eins og sagt var á Ísafirði í gamla daga) skríða fram og til baka. Vittorino vill bara fá sinn bíl svo er hann hamingjusamur og ég má fara. Það er gaman að fylgjast með þessum tilvonandi töffurum Íslands. Þeir eru allir í sínum heimi og ef einhver fer að orga eða grætur af því hann hefur dottið, líta hinir forvitnir á hann, horfa smástund og halda síðan áfram að gera það sem þeir voru að gera. Ekki mikill samhugur þar! það er meira eins og þeir séu hissa á því að vera ekki einir. Einn af þessum guttum er pínulítill og mjór, ægilega sætur og hann á fóstruna með húð og hári. Það er auðvelt að sjá að seinna meir verður hann ægilegt kvennagull. Núna er komið að því að ég verði að þjóta af stað aftur því nú fer að koma hádegisverður og þá er það aðlögun númer tvö; að gefa drengnum að borða eftir að hafa velt sér um í sandkassa í klukkutíma. Ég er nú feginn að ég þarf ekki að vera með í því, þarf bara að koma á matmálstímum og aðlagast! Það væri ekki falleg sjón að sjá mig í öllu mínu veldi veltast um í sandkassa, úff ég fæ hroll við tilhugsunina ;)

Til hamingju með afmælið Auður Magg.

29 júlí 2003

Andleysi og annar þvermóðskuháttur
Uss nú eru dagar andleysis og leti að renna upp. Ég þykist vera að taka til (segi og skrifa: þrífa) en það er ekki mikil framleiðni í gangi. Framleiðnin á toppvígstöðvunum, þeas í heilanum er hinsvegar nákvæmlega ENGIN. Ég nenni ekki einu sinni að lesa blöðin því það krefst þess að ég þurfi aðeins að hugsa um það sem ég er að lesa. Nei þetta eru einfaldir dagar (allavega þar til á morgun þegar helv. skatturinn kemur og ég fæ að vita hversu mikið ég skulda eins og venjulega, held samt að ekkert slái árið í fyrra út, þar sem það var MEGAár). Mér finnst þessi árstími leiðinlegur og næstu mánuðir á eftir líka þar sem þá er verið að krukka í peninga sem ég á ekki til og heimta þá til að borga nýjar brýr og mislæg gatnamót. Það er eiginlega komið að því (finnst mér) að það sé reynt að krukka í veskið hjá einhverjum öðrum en mér en hinsvegar þá borga ég alltaf þegjandi og hljóðalaust þannig að ég skil vel að þeir (skattheimtumenn og farísearnir) haldi áfram að seilast í mitt. Held það borgi sig ekkert að halda áfram að væla á þessum nótum og halda frekar áfram að þrífa!

28 júlí 2003

Fríhugsanir og hugsjónir
Mér finnst gott að vera í fríi. Held að þetta sé að stefna allt í voða með mig og ég sé orðin afhuga vinnunni! Getur það verið? Getur það komið fyrir vinnualka á besta skeiði að þeir verði hreinlega afhuga því hugtaki og hugsjón að vinna sér til matar? Æi ég reikna nú kannski með að þegar hungrið fari að svífa á mig (eftir svona 3-4 mánuði miðað við holdafar mitt) þá kannski sjái ég að það er nauðsynlegt að vinna. Hins vegar er eitt gott sem mundi leiða af því framtaki mínu (að hætta að vinna og svelta mig þar sem ég ætti ekki fyrir mat og yrði að lifa af holdafari mínu) nefnilega að ég kæmist þá í "hlaupnu" fötin mín margumtöluðu! það verður að viðurkennast að það væri ægilega skemmtilegt og ég tala nú ekki um ódýrt því það er um heilmikið magn af fötum að ræða sem mundu virka eins og ný og ég þyrfti þar af leiðandi ekki að versla nein önnur haha þetta hljómar betur og betur.
Annars held ég að ég hafi orðið fyrir ofinntöku af súrefni.Ég hef nenfilega ekki verið svona mikið úti í mörg ár eins og ég er búin að vera þessa síðustu daga (vikur). Ég er samt núna farin að finna fyrir smá samviskubiti því ég ætlaði að undirbúa ritgerðina mína í þessu fríi en hef auðvitað varla leitt hugann að henni. Hún hefur vísu sveimað þarna í bakheilanum (einhver sagði mér að svoleiðis væri ekki til en ég get svarið að ég er með bakheila miðað við allar hugsanirnar og þráhyggjuna sem aldrei kemt alveg í framheilann). En sem sagt ritgerðin er þarna í þokunni í bakheilanum ásamt áformum um að léttast um tveggja stafa tölu í þessu sama fríi (já ég veit að þetta er ekki svona langt frí en mar má láta sig dreyma).
Bíllinn minn er ennþá bilaður og eflaust farinn að halda að ég hafi yfirgefið hann for gúdd, en það er ekki svo, ég kann bara ekki að koma þessu planaða heddi á aftur. Haukurinn reynir að vísu að segja mér að það sé ekkert erfitt, "bara að raða þessu saman" en ég bauð honum þá að sauma á mig eins og einn kjól meðan ég raðaði þessu saman. Hann svaraði bara með einhverju bulli sem ekki er hægt að hafa eftir!

27 júlí 2003

Þá eru Guðný og Sævar gift! Ég fann kjól til að vera í en er samt enn alvarlega að hugsa um þetta með jakkafötin, ætla ekki að sleppa þeirri hugsun frá mér strax. Þetta var ægilega fínt brúðkaup. Bróðir brúðarinnar söng í kirkjunni og hann söng líka í veislunni við undirspil vina sinna. Þetta var mjög flott. Gamall maður spilaði á píanó og veislugestir sungu af miklum móð öll þau lög sem í hugann komu. Við vorum að borða í fleiri tíma því þetta var svona smáréttaborð og þetta var alveg rosalega gott, bæði allskonar kjúklingaréttir, tapaz réttir, sjávarréttir og margt margt fleira. Brúðurinn hafði smíðað tertustandinn úr afturdrifi úr nissan patrol (ég sá að vísu ekki hvaða bílgerð það var en haukurinn komst að því) og stóru járnhjarta. Þetta var rosalega flott hjá henni og skreytingin á borðinu var líka eftir hana, annað hjarta en í þetta sinn með stöfunum S og G inn í. Kúl ég verð að viðurkenna það. Við skemmtum okkur alveg konunglega.

Smá viðbót varðandi dauðann og þau föt sem eru viðeigandi í þeirri för. Eftir að hafa lesið orð mín í gær um klipptu "hlaupnu" fötin mín sem ég ætla að vera í varð haukurinn alveg uppnuminn og bað mig að hafa puttana í því að hann vildi helst ekki vera í jakkafötum í sinni hinstu för. Ég lofaði að sjá til þess að hann fengi að vera í hermannabuxum og þægilegum bol þegar hann birtist fyrir skapara sínum. Við erum sem sagt komin með þetta á hreint.


Powered by Blogger