Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

03 janúar 2004

Jólabækurnar
Ég er búin að lesa svolítið, ekki mikið því ég er eitthvað hálfþreytt en samt er ég búin að klára þrjár. Da Vinsi lykilinn var alveg frábær. Gat ekki hætt fyrr en hún var búin. Mér finnst hugmyndirnar alveg brilljant sem þar koma fram. Að vísu var ég hálfsvekkt yfir endinum því bókin var búin að vera svo þétt alveg til síðasta kafla. En það er bara það sem gerist því auðvitað er kannski ekki auðvelt að ljúka svona dæmi eins og þarna er skrifað um.

Ég las líka bókina hans Flosa í einum grænum í gær. Hún er ekki seinlesin því þetta eru bara stuttir pistlar um þetta og hitt. Ábygglega pistlar sem hann hefur áður birt í dagblöðum, lengdin var þannig. Bókin er ekki merkileg finnst mér en skemmtileg samt. Mér finnst nefnilega Flosi skemmtilegur þegar hann kemst á flug sem hann gerir í sumum köflunum.

Ég las líka Á villigötum eftir Henning Mankell. Hún var sprennandi og mátulega löng. Ég þoli ekki suttar bækur. Finnst ég alltaf vera svikin ef bókin er styttri en 400 bls í kilju. Bæði Mankell og Vinsi lykillinn eru langar. Alvöru bækur.

Núna er ég að lesa Anne Rice Blackwwod farm. Ég er löngu búin að fá leið á Önnu Ræs en ég verð að lesa hverja bók sem hún skrifar. Þetta er svona skyldulesning. Sem betur fer þá virðist þessi ætla að vera alveg sæmileg, ekki þetta sama helv. guðslepjuvæl sem hún er búin að vera í síðustu bókum sínum. Það er nefnilega tvennt sem getur gert mig virkilega pirraða varðandi bækur. Það er ef bókin er stutt (nema ef hún er leiðinleg þá er það auðvitað mikil gleði) og svo hitt ef höfundar eru að skrifa um guð og helgislepju. Ég verð svo pirruð að ég gæti heinlega hætt að lesa. Ræs var á tímabili kominn í þetta bull. Það voru heilu doðrantarnir um það hvernig Guð og hans fylgilið hegðar sér og á hvað mar eigi að trúa. Sagan í hverri bók var kannski ca. tveir kaflar, restin var helgislepjubull. Bókin sem sagt lesin á geypimiklum hraða, sama sem, ekki lesin heldur skönnuð og það á ekki að gera við góða bækur.. bara skólabækur.

Ég er að bíða eftir að fá að lesa Love Story eftir Andra Snæ. Var búin að gleyma að ég var líka að bíða eftir henni í fyrra en nú er hún komin á borðið hauksins megin. Mig dauðlangaði til að hrifsa hana af honum en kann eigilega ekki við það því hann segir að ég sé frekja. Moi??? Frekja???? Það er bara ekki rétt. Ég er hinsvegar mjög ákveðin og mér finnst gaman að lesa.

Svo eru tvær bækur um e-learning á boðrinu mínu. Báðar mjög skemmtilegar en ég get ekki lesið þær því þær eru fyrir ritgerðina mína og mér finnst ég vera að læra þegar ég les þær. Er mar klikk eða hvað?

ÓRÓ ætlar að lána mér Fallegu beinin einhvern tíma í janúar. Ég hlakka ægilega til að lesa hana. Og svo á ég eftir að tékka hvort SM hafi ekki fengið einhverjar bækur sem ég get lesið. Hún fær yfirleitt mjög spennandi bækur.

Að spila á spil
Þá er búið að spila spilið sem mín ástkær systir og Einsi kaldi er búin að æfa sig fyrir allan desembermánuð.


Þeim til mikillar skapraunar þá vann hvorugt þeirra heldur öllum að óvörum meinvill sjálfur! Já það er rétt, talandi um meistara og allt það. Þau eru svo sjúk að þau gátu ekki unnt mér þess að vinna heldur fékk ég illt augnaráð frá Einsa og systirin sagði "huh, þetta er svosem í lagi, bara heppni því hún vinnur ALDREI í spilum, ALDREI"

Jamm berin eru súr!

01 janúar 2004

og þá er það yfirlit ársins. Ákvað að gera eitt svoleiðis bara til að minna mig á að það er ýmislegt að gerast hjá manni þó það virðist alltaf vera eins.

Litið yfir árið
Svona í heildina séð og í tölum talið þá var árið 2003 bara nokkuð gott ár. Ýmislegt sem gerðist og líka ýmislegt sem gerðist ekki.

Janúar
Þá átti ég stórafmæli. Var búin að velta fyrir mér í lengri tíma hvernig ég ætti að halda upp á það og endaði með því að bjóða öllum í kaffi (eins og venjulega). Same old same old. Fékk ferð til London í ammilisgjöf frá hauknum og átti það að vera páskaferð. Hélt áfram í skólanum. Alveg vitlaust að gera í vinnunni því þennan mánuð fóru yfir 200 manns á námskeið og ég sem hafði reiknað með rólegum tíma eftir áramótin.

Febrúar
Rólegur mánuður.

Mars
Húsmæðraorlof sem eins og venjulega var mjög skemmtilegt. Held við séum búnar að fara í þetta orlof í hátt í 15 ár?? Getur það verið? Hittum Dr. Gumma sem sagði okkur að engin biðröð væri í meðferðir. “Bara að hringja og þá svarar einhver og segir góðan dagainn”. Maðurinn er soldið dularfullur og auðvitað kom það á daginn að þó það sé ekki biðlisti í víðasta skilningi orðsins þá eru bara teknir inn 3 á dag þrjá daga vikunnar. Og í minni kokkabók heitir það biðlisti.

Apríl
Fórum í ammilisferðina. 10 dagar í London. Algjört letilíf en löbbuðum samt svo mikið að á tímabili hélt ég að haukurinn værir að reyna að drepa mig. Svona með hægvirku aðferðinni. Hittum Sólrúnu og Sigþór á Leifsstöð og voru þau líka á leiðinni til London. Við ákváðum að borða saman. Það var úr hið ágætasta kvöld þó í ljós kæmi að við haukurinn höfðum ekkert í þau er kom að því að innbyrða matinn hratt og örugglega. Þau stóðu uppi sem öryggir sigurverarar. Hittum líka tengdaforeldrana og borðuðum með þeim líka. Veit ekki hvort það hefur nokkurn tíma komið fram en okkur þykir gaman að borða. Það sést að vísu ekki á hauknum en ég sýni greinileg merki þess.

Maí - júní
Skilaði verkefni í skólanum sem var nærri orðið mitt síðasta því ég lagði svo mikla vinnu í það. Var komið á mastersstig þegar ég loksins setti punktinn. Náðum loks í gegnum kerfið þar sem enginn biðlisti átti að vera og hófum sprautuferil eitt. Í byrjun júní kom í ljós að ekkert hafði gerst. Allir farnir í sumarfrí og mér sagt að fara í rauðuhunda sprautu. Það gekk ekki stórslysalaust því ljós kom að það lyf er í einhverjum flokki þar sem þarf að sækja sérstaklega um að fá sprautu og bla bla bla. Mér fannst þetta fyndið svona eftirá því allar 12 stelpur á landinu fá þessa sprautu og ég fékk hana á sínum tíma þó virknin væri búin. Ég hélt að þetta væri æfilöng ábyrgð, en svona er lífið. Hjúkunni sem sprautaði mig fannst þetta dularfullt að kona á mínum aldri væri að fara í svona sprautu. Mér fannst það líka.

Júlí
Árni og María eignuðust Andreu Marín.

Fór til Svíþjóðar að heimsækja nýbúana. Fór í foreldrafylgd og Einsa kalda fylgd. Tókum bílaleigubíl á Kastrup og keyrðum yfir, vopnuð korti úr Auto route sem sagði allt niður í mínútu hvað við ættum að keyra lengi áður en við tækjum næstu beygju. Alveg imbaprúft þangað til við föttuðum að af einhverri ástæðu vorum við ekki að keyra til Svíþjóðar heldur að hjarta Köben. Okkur tókst að leiðrétta þetta og finna réttan veg og þegar kom að Rödeby tók Einsi við sem gæd því við vorum nokkuð lost. Þetta reyndist hin besta ferð þrátt fyrir að það rigndi allan tímann og nýbúarnir reyndu að sannfæra okkur um að þetta væri ÓVENJULEGT. „Hér er alltaf sól allt sumarið, veit bara ekki hvað er að gerast núna”. Já, já mar hefur heyrt svona fyrr. Alltaf sól hvað.

Þegar ég kom heim aftur fórum við haukurinn í sumarbústað í Borgarfirði. Skoðuðum þar allt sem við gátum og það var rosalega fínt.

Ágúst
Hér var komið að því að byrja aftur að lifa normal lífi eftir sumarfrí og aðra vitleysu. Skipuleggja haustið með tilliti til vinnu, skóla og meðferða. Gekk vel að skipuleggja vinnuna og skólann. Meðferðir?? Hmmmmm

Haukurinn skipti um vinnu því fyrri vinnuveitandinn reyndist ekki hafa staðið sig varðandi greiðslur á opinberum gjöldum. Allt í vanskilum en hann “gleymdi sér”. Jamm sumir gleyma í marga, marga mánuði að borga svona hluti en muna samt alltaf eftir því að draga það af starfsmanninum. Haukurinn fékk samt aðra vinnu eins og skot og var ægilega happý að hafa skipt því þarna er miklu fleira fólk og flestir á hans aldri á hans starfsstöð.

September
Byrjaði í eigindlegum aðferðum í skólanum. Úff kennarinn hræddi alla í byrjun og þar á meðal mig. Reyndist svo ágætasta kona þegar til kom. Vinnur greinilega eftir þeirri aðferð að hræða alla nógu mikið í byrjun og þá haga menn sér vel það sem eftir er annarinnar. Sem stóð heima.

Áhrif rauðuhundasprutunnar enn að virka þannig að ekki mátti fara í meðferð.

Október
Engin meðferð og haukurinn brá sér til Danmerkur að heimsækja Andreu (og kannski Árna og Maríu líka). Hann fór líka á tónleika með MUSE og kom uppnuminn til baka því það var svo gaman. Andrea reyndist vera sætasta frænka ever og hann kom alsæll tilbaka.

Nóvember
Eitthvað var sálarlífið að gefa sig af því að hugsa bara um meðferðir. Brjálað að gera í vinnunni og viðtölin sem átti að taka fyrir eigindlegar aðferðir farin að taka sinn toll. Fór til heimilislæknis sem skammaði mig fyrir að vera ekki komin með annan lækni í Hafnarfirði en ég sagði honum eins og var að þar sem ég hefði síðast komið fyrir sjö árum til hans þá hefði ég ekki sett það efst á forgangslistann minn að skipta um lækni. Það hefði eiginlega ekki komið upp fyrr en núna og það er þremur árum eftir að ég flutti.

Læknirinn sagði mig þjást af svefnleysi og gaf mér örfáar svefnpillur í poka. Ég hló að honum í gegnum tárin og tautaði fyrir munni mér þegar ég kom út “að allir gætu nú orðið læknar nú til dags. Kunna bara ekki neitt. Svefnleysi hvað”. Tók samt eina svefnpillu og fann út að hann hafði rétt fyrir sér. Lá eftir það eins og ormur á þessum örfáu pillum mínum og er búin að leiðrétta svefninn aftur og á tvær pillur eftir. Svona til öryggis.

Fór til Rotterdam með Armour að setja erlendu starfsmennina inn í starfsmannakerfið. Það var ægilega gaman. Hittum Arnór í Leifsstöð og hann lóðsaði okkur frá Amsterdam til Rotterdam og síðan á veitingastaði. Sigga í Rotterdam lóðsaði okkur síðan um búðir. GAMAN. Mér finnst gaman að fara í búðir.

Desember
Þá er komið að skilatíma fyrir verkefnið í eigindlegum og það var ekki smá erfitt að byrja á því. Ég þóttist hafa um svo mikið að hugsa að ég bara hefði ekki tíma fyrir þetta. Kom því samt af mér á réttum tíma og hef sjaldan verið jafn fegin að skila nokkru. Nema auðvitað síðast þegar ég skilaði og þar á undan og.. ok.ok. you get þí picture. Nú eru bara 5 einingar eftir og svo auðvitað ritgerðin sjálf. ég er farin að sjá fyrir endann á þessu öllu.

Byrjuðum loksins í meðferð aftur. Og nú er það alvöru dæmi. Margar sprautur á dag. Fullur poki af lyfjum og allt sem því fylgir. Ægilega gaman.

Gleðilegt ár

31 desember 2003

Síðasti dagur ársins
Í nótt vakti haukurinn mig með látum. Hann svaf með eyrnatappa og ég vaknaði þegar hann dró þá úr! Ég veit ekki af hverju hann þurfti tappa því ég heyrði engin læti. En þvílikur hávaði þegar svona tappar eru dregnir út haha.

Við erum að undirbúa gamlárskvöld því við ætlum að fá forledrana og molafjölskylduna í mat. Síðan ætlum við til foreldra hauksins þar sem haukurinn ætlar að skjóta upp gamla árinu og skjóta sig inn í það nýja.

Ef líf okkar væri bók þá væri þetta túlkað sem táknræn athöfn fyrir það sem við erum að gera núna. Ég sprauta mig inn í nýja árið og hann skýtur sér með flugeldum. Wow er ég ekki góð að túlka?

30 desember 2003

Það eru tveir sem eiga afmæli í dag:
Kristín Jóns er 20 b til hamingju með það ;)

og Benny litli Danmerkurbúi er 2 ára, líka til hamingju með það

Spámenn á netinu
Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég tilboð í tölvupóstinum mínum um framtíðarspá frá einhverri spákellu á netinu (Söru). Sara bauð mér þá upp á ókeypis spá og síðan gæti ég fjárfest í einhverri dýrari spá hjá henni ef mér líkaði við það sem hún hefði fram að færa (sem sagt góð spá).

Ég er auðvitað alltaf til í góða spá (hvaða kona er það ekki?) og sendi henni mail og fékk þessa fínu spá til baka þar sem mér var spáð ást, hamingju og peningum (held samt að peningar hafi verið fyrst). Mér fannst þetta fyndið því ekki oft sem spáfólk leggur mesta áherslu á að gera fólk ríkt, það gerist svona meira í framhjáhlaupi.

Nema. Frú Sara er búin að taka ástfóstri við mig. Hún sendir mér eitt til tvö bréf á viku þar sem hún ýjar að því að ýmis óhamingja sé um það bil að falla mér í skaut. það eina sem geti bjargað mér er að ég kaupi hennar þjónustu og gefur hún mér alltaf ca. 2 vikur til að bjarga mér úr þessari óhamingju. En hún er sannur vinur því þótt ég hafi aldrei svarað einu orði (og eytt sumum bréfunum ólesnum) þá gefst hún ekki upp á mér. Síðasta bréf inniheldur m.a. þessar upplýsingar:
******
Be Careful and Cautious
Yes, dear Anna, BE CAUTIOUS,... I must warn you immediately, while there is still time....

...I must take very substantial risks if I am to continue. But I am willing to accept them because I want to save you (það er mér) from the traps you could fall into if you do nothing about the decisive mysterious events shaping up ahead of you...

...When it comes to the happiness of the people who are dear to me, I never hesitate to do whatever it takes (finnst ykkur þetta ekki sætt og þetta er ókunn kona spáið í því)

...Indeed, I have commenced especially for you this long string of Mystical Ceremonials (hljómar spennandi)

...The danger with this kind of ceremonials, besides demanding intense concentration and a tremendous amount of energy, is that I may find myself stuck in your past or in your future and never be able to return to the present. .. (oh mæ god aumingja konan, vill hún eiga það á hættu að festast í minni fortíð? framtíðin gæti verið spennandi þarf ég þá að þvælast með hana með mér?)

...But now, all danger seems to have gone away... (oh takk, takk mér léttir svo mikið)

...Yes, Anna I can tell you the exact cause of your present problems and, above all, I can say that we are able to act so that luck, love, and money triumph in your life...(ég get varla beðið, þetta er allt sem ég hef óskað mér og það er alveg að koma fram)

...But before saying anything else, I must absolutely tell you something else about yourself and reveal certain hidden aspects of your past that led you to the difficult life you are living today, for it is true that all your hardships today come from your past...(bíddu, bíddu, hvaða rosa erfiðleika er hún að tala um? Ég lifi held ég ekkert neitt rosalega erfiðu lífi)

...I have perceived that this negative event occurred on the day of your 13th birthday. I don’t know whether you can recall it. ..(nei ég man ekki eftir neinu í sambandi við 13 ára afmælið mitt, ekki einu sinni hverjir komu)

...But it never went away; it left a deep imprint in your memory and it is very likely one of the main reasons behind your problems today! ...(assgotinn, ég verð að muna hvað þetta er)

...Indeed, since your 13th birthday your personality has changed. Today you are a different person than before... (þakka skyldi nú að ég hálfrar aldar gömul sé ekki nákvæmlega eins og ég var 13 ára)

...Moreover, today I sense that you are even more vulnerable and isolated from everyone. I perceive a high level of stress and a lot of apathy. You are filled with doubts and you are convinced you will never find a way out.... (hvernig veit hún þetta? ég hélt að ég væri að fela þetta svo vel)

...Yes, Anna tremendous opportunities have been offered to you in those proposals you chose to refuse...(Hmmmm ætli ég verði að borga til að fá að vita restina?)

...Yes, Anna this path genuinely exists, I have seen it, and I will be able to show it to you... (já ég þarf að borga)

...But to do that, we must act together now, otherwise you may take the wrong turn and lose sight of love, luck and Happiness... (nei, nei ekki fara ekki fara ég vil fá þetta allt)
...It is true: as I traveled through your past, I became aware that often in your life you took the wrong course, especially during these latest years, when you have accumulated a lot of failures and deceptions.... (bíddu, bíddu er hún að spá fyrir réttri Önnu?)

...But remember, Anna if indeed you wish to escape from this wicked place, you must not let your hesitations and doubts take the upper hand in your life again..(nei, nei ég lofa ég vil komast frá þessum wicked place)

...Your repeated failures ..(hey, hey hver vill borga fyrir að fá að heyra svona????)

svo kemur eitthvað meira bla bla en svo kemur þetta:
...Just weeks afterwards, I would encourage you to buy a lottery ticket to test your new LUCK. But don’t do anything within the first 15 days, because it is then that I am going to perform something very special for you.. (jamm ég kaupi miða)

...What I am going to do is to channel towards you a substantial amount of money so you can pay off your most immediate debts.... (úuuuuuu er þetta virkilega hægt og hvar á ég að standa svo ég fái örugglega peningana?)

...But remember, Anna
it is NOW that we must act
...
...Yes, I am prepared to do anything for your happiness, provided that you truly want it... (takk takk ég er með tárbólgin augu)

...You must know that I don’t make this kind of offers to just everyone. Indeed, you must realize that I can only take charge of very few people during this brief period...(oh nú fæ ég samviskubit, hún er að eyða öllum sínum tíma í að hjálpa mér og ég er ekkert nema vanþakklætið)

... have chosen YOU, Anna because I truly believe that you deserve better than the life you are leading now, and because I think you deserve A NEW START IN LIFE! ...(já já já ég geri það, veit að vísu ekki hvað er svona ömurlegt í núverandi lífi en spákonan veit það greinilega)

ég verð að fara að svara konunni. hún er greinilega minn sanni vinur og mig langar sérstaklega mikið að vita hvað gerðist á 13 ára afmælinu mínu sem gerði mig bitra og vansæla og hefur stjórnað öllu mínu lífi fram að því.....

Meira um sængur
""Svo viðheldur þetta rómantíkinni í samböndum. En fyrst þú vilt ekki hafa Haukinn undir sænginni, viltu þá ekki kaupa handa honum dúnsæng líka?"""""

Nei, nei ein sæng hefur ekkert með rómantík að gera. Flokkast undir ergelsi og pirring. Við höfum reynt að finna önnur ráð til að viðhalda rómantíkinni. Þegar við sofum þá sofum við, ekkert rómantískt við það. Og svo erum við stórt fólk (eins og alþjóð veit) og getum ekki notað sameiginlega sæng og viljum ekki svona hrelli sem er risa sæng þar sem tvær eru gerðar að einni. Hvar er nú rómantíkin þar? Fólk liggur í rúminu með heila hellu af sæng yfir sér. Úff, ég vil bara fá kerti eða eitthvað svona gamaldags rómantískt.

Haukurinn hefur ekki þurft á dúnsæng að halda því hann notar mína þegar ég skipti yfir í lak. Þegar ég verð hætt að þurfa að nota lakið þá þarf hann kannski að fá dúnsæng, kallgreyið. Við sjáum til með það.

Dóni
Hrönn dóni spyr: Til hvers þurfið þið tvö sængurver?
Til hvers?
Á ég að sofa undir sömu sæng og sama sængurveri og einhver maður úr Hafnarfirðinum?
Eða á önnur sængin okkar að vera með engu sængurveri? Nei frú Ingibjörg ól mig betur upp en það. Hjá okkur eru það sko tvær sængur og tvö sængurver.

Annars er ég svo skrítin að ég sé gjörsamlega enga rómantík við það að sofa undir einni sæng. Mér finnst það ljósár frá rómantík. Ég vil geta vafið um mig minni dúnsæng og ég vil líka geta séð haukinn vefja að sér sinni sæng (að vísu ekki dúnsæng hehe). Og ef mar er reglulega þreyttur þá vil ég að hægt sé að dekra við mann með því að pakka sérstaklega vel inn í sængina (svona eins og gert var þegar mar var minni) og einhvern veginn þá missir það marks ef hinn aðilinn skríður svo undir á eftir.

Dæmi:
Haukurinn er ægilega þreyttur og leggst í rúmið. Meinvill kemur og pakkar honum inn í sængina, pakkar henni þétt upp að honum og strýkur honum og allt það sem á að gera svo vel sé. Dregur svo sængina af honum og treður sér undir: "Svona esskan, er þetta ekki fínt?"
????

Praktíska hliðin
Og ef við horfum á praktísku hliðina á þessu öllu saman, þá er búið að setja frúnna svo oft á breytingarskeið með lyfjum að haukurinn væri frosinn í hel ef hann þyrfti að búa við hitaduttlungana sem ég er búin að ganga í gegnum. Þar gildir það að kasta af sér sænginni og henda sér undir hana aftur með sama ákafanum. Nokkra mánuði var mín megin lak að enskum sið, hans megin dúnsængin mín og sængin hans. Ég lá undir lakinu og henti því af mér með reglulegu millibili þegar svitinn draup af mér og glugginn galopinn. Og enn er svona tími að ganga yfir. Tveggja sængna tími sko. Og tvö sængurver. Og þá er nú skemmtilegra að þau séu í setteringu...

28 desember 2003

Ritstuldur
Ég er bókaormur frá ***víti og ekkert gleður mitt auma hjarta meira en vel skrifuð bók. Ekkert fær mig til að skammast mín meira en hroðvirknisleg vinnubrögð við heimildir og heimildavinnu. Ég er búin að vera að fylgjast með umræðunni um Hannes Hólmstein og meintan ritstuld hans. Þetta kemur mér ekkert rosalega mikið á óvart. Bókin er rúmar 600 blaðsíður og unnin á 8 mánuðum. Það er ekki langur tími til að skrifa stóra og vandaða bók.

Ég er hinsvegar mjög hissa á Hannesi að láta nappa sig svona. Stúdentsprófið mitt var tekið frá FB og hefur ekki alltaf þótt fínn pappír. Það hefur oftar einu sinni komið þær aðstæður þar sem einhver hefur bent mér á það að það væri nú betra að hafa tekið stúdentspróf frá MR. Hinsvegar var mér kennt í FB að nota heimildir og nota þær rétt og síðan klikkt á þessu í HÍ. Hannes er með próf úr MR og próf úr HÍ og próf frá OxfordHáskóla. Allt flottir og fínir skólar og hann með prófessorstitil.

Það sem fram hefur komið um ritstuldinn og lélega heimildanotkun finnst mér vera eins og þarna sé einhver á fyrsta eða öðru ári í menntaskóla. Lætur maður eins og Hannes virkilega svona efni frá sér fara. Og hvað með yfirlesarana? Eiga þeir ekki að þekkja þau verk sem verið er að vitna í? Eða eru þeir hræddir við að leiðrétta mann eins og Hannes? Og af hverju eru yfirlesararnir ekki gefnir upp? Og þegar haft er samband við Hannes segist hann ekki haft tíma til að skoða þessar ásakanir.

Komm onn, hversu heimsk heldur Hannes að íslenska þjóðin sé? Mér finnst öllu líklegra að hann sé búinn að liggja yfir þessu öllu og sanka að sér hverju orði. Ástæðan fyrir því að hann svarar þessu svona seint er eflaust sú að 15 janúar þá heldur hann að allir verði búnir að gleyma þessu. Sem gæti alveg verið því við Íslendingar erum svo gleymin að það er ekki fyndið. Við æsum okkur yfir málum í eina til tvær vikur en svo kemur eitthvað nýtt og við snúum okkur þangað.

Þetta er hinsvegar eitthvað sem ekki má gleymast. Ritstuldur er háalvarlegt mál. Það alvarlegt að mönnum hefur verið vísað úr skóla ef upp um slíkt hefur komist. Hvað er hinsvegar gert við menn sem eru jafn framarlega í háskólaheiminum og Hannes? Sem eru búnir að klára sinn skólatíma og halda sig geta leyft sér svona vinnubrögð. Þetta er spennandi..

Jólakveðjur
Þetta eru fyrstu jólin sem ég sendi bara nokkur jólakort. Ég nefnilega einhvernveginn gleymdi tímanum og allt einu voru komin jól. Það er nefnilega svona þegar mar er að skrifa ritgerð alveg til 17 des. Einhvern veginn þá fer lífið alveg úr skorðum við það. það er svo langt síðan ég var síðast í skóla á þessum tíma að ég var búin að steingleyma þessu (og það eru ein jól eftir áður en ég klára).

En ég fékk eina jólakveðju sem að öðrum ólöstuðum er sú besta sem ég hef fengið. Þetta er frá snænsku nýbúastelpunni Rannveigu. Kveðjan hljóðar mjög einfaldlega: "Gleileg jul anna hranka" og með því fylgir myndbrot þar sem téð stúlkubarn situr í rauðum jólasveinakjól og er búin að toga kjólinn alveg upp að höku. Alveg hrikalega sætt.


Powered by Blogger