Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

26 mars 2004

Jæja, þá er bara að takast á við það næsta sem lífið skellir á mann. Þessi kafli búinn og lokaður. Takk fyrir allan stuðninginn, hann er ómetanlegur.

Ég er búin að vera að rölta um í Smáralindinni og mikið rosalega sá ég margt sem langaði í. Held þetta hljóti að vera eitt af lögmálum Murphys að ef mar ætlar ekkert að kaupa þá er fullur bær af drasli sem manni bráðvantar en þegar mar ætlar svo sannarlega að versla þá finnur mar ekkert (þetta á að vísu ekki við um útlönd því þar er ALLTAF hægt að versla). það var meira segja hægt að versla í Eistlandi, kannski ekki föt en þá bara einhver listaverk og drasl sem mar hefur ekkert að gera við þegar heim er komið.

Man ekki hvort ég var búin að segja frá því en þegar ég fór til Eistlands þá fórum við tvær saman og flugum til Stokkhólms og millilentum þar áður en við fórum til Tallin. Í vegabréfsskoðuninni fyrir Tallin rétti ég samviskusamlega fram passann minn og þá upphófst heljar mikið registur á hinum endanum:

"Þetta er nú ekki mjög líkt þér"
"Nei ég veit, ég hef breyst soldið"
"Breyst SOLDIÐ? Þetta er engin smá breyting. Er langt síðan myndin var tekin?"
"Hmm, já nokkur ár..en það er kannski ekki svooo mikil breyting ég er bara svoldið feitari..."
"Jú þetta er einna mesta breyting sem ég hef séð"

Og vegabréfskonan réttir passann til samstarfsmanns síns og hann samsinnir því að hann hafi sjaldan séð aðra eins breytingu. Hún réttir mér passann og hristir um leið höfuðið og tautar eitthvað um nýja mynd. Ég tek við passanum og ákvað að kíkja í hann og skoða myndina því ég geri mér grein fyrir að ég hef breyst síðan myndin var tekin auk þess ég mundi ekki hvaða háralit ég hefði verið með en mig minnti samt að þetta væri ekki svooo ólíkt.

Ímyndið ykkur undrun mína þegar á móti mér starði mynd af samfylgdarkonu minni. Hún er mjög grísk í útliti og dökk yfirlitum, meðan ég er eins og albínói og gæti aldrei verið mistekin fyrir annað en Skandinava. Passarnir okkar höfðu ruglast síðast er við réttum þá fram. Ég flissaði eins og fífl og rétti konunni aftur passann og núna minn líka. Það varð uppi alsherjar kátína í búrinu þegar þau föttuðu mistökin.

Það sem ég furða mig samt á er að þau ætluðu að hleypa mér í gegn á passa sem er eins ólíkur mér og hægt er..ekki einu sinni stærðin stemmdi því hún er ábyggilega 15 sm hærri en ég. Ég hlýt að vera svona heiðarleg útlits..hvort sem ég sýni mynd af mér eða einhverjum öðrum!

Ólöf til hamingju með afmælið

25 mars 2004

Í gær tóku læknar af skarið og lýstu því yfir að frekari meðferðir væru gagnslausar því ég væri ekki að svara neinum lyfjum. Við erum því officially hætt á Landspítalnum sem er auðvitað gott út af fyrir sig. Það þýðir að ekki eru fleiri sprautur en svona ykkur að segja þá var mér nú bara farið að þykja vænt um sprauturnar því ég var búin að gera þetta svo lengi að þetta var orðið partur af morgunverkunum. Í morgun var fyrsti sprautulausi dagurinn í langan, langan tíma og það olli því að ég var allt í einu með heilmikinn tíma lausan um morguninn. Var ekki á síðustu stundu eins og alltaf. Það er sem sagt alltaf eitthvað gott ef maður hugsar eins og fíflið hún Pollýanna.

Í augnablikinu er ég hinsvegar ekki í Pollýönnu stuði. Við erum nefnilega bæði í svona lofttómi og vitum ekki alveg hvað við gerum næst. Kannski gerum við bara ekki neitt en það er hinsvegar slæmt val samkvæmt Intrum sem auglýsir grimmt "Ekki gera ekki neitt" og ekki nóg með að þeir auglýsi það heldur eru ráðgjafar um allan bæ búnir að stela þessu slagorði og tauta það á hverju námskeiðinu á eftir öðru. Næs.

Ég ætti kannski bara að fara á fyllerí. Ég hef ekki farið á fyllerí mörg, mörg, mörg ár. Kannski er bara kominn tími á eitt gott svoleiðis og hreinsa út gamla drauma sem eru dánir hvort eð er. Þetta er kannski bara ekkert slæm hugmynd hmmmm

En læknar eru samt fyndnir. Þegar hann var búinn að þylja upp allt sem við átti s.s meðferð ekki að gera neitt, best að hætta núna, gætir gert þetta eða hitt og ég að reyna að meðtaka það..þá segir hann "áttu eitthvað af lyfjum eftir?"
Ég alveg dofin og get varla hreyft varirnar segi "ha, já tvo kassa af XXX og svo þetta sem ég fékk í morgun"
Og hann segir, "það er fínt, gætir þú skutlað því niður á deild við tækifæri"
Ég áfram jafn dofin "Jájá ég skal gera það"

Ég veit að lyfin eru dýr og ég veit að enginn tími er betri en tíminn í dag. En halló var þetta alveg rétti tíminn til að segja mér skila lyfjunum? Hann er t.d. með emailinn minn. Hefði hann ekki getað sent mér email eftir smátíma? En kannski var hann hræddur um að ég færi heim og henti öllu draslinu.

Eftir nokkur ár á ég eftir að hlæja að þessu öllu saman ég veit það en í augnablikinu get ég ekki sagt þetta upphátt án þess að það opnist einhverjar táragáttir. Drengirnir hérna frammi halda ábyggilega að það sé búið að reka mig því ég geng um rauðeygð og þrútin. En þetta gengur yfir eins og annað.

24 mars 2004

Suma daga er bara erfiðara að vera til.

23 mars 2004

Talandi um guð og trúmál. Mikið assgoti finnst mér Guð skemmtilegur í Famely Man. Ég get alveg samsamað mig við þann Guð, að þetta sé svona tilviljunarkennt hvað hendir hvern og einn. Gott dæmi um það er þegar dóttirin í þættinum veinaði "Ó Guð mig langar til að deyja".. Á sömu stundu er Guð með vélbyssuna sína á himnum og er kominn með rauðan miðunarpunkt á ennið á henni þegar síminn hringir hjá honum. Hann væflast eitthvað aðeins en ákveður að svara í símann og voila.. stúlkukindin fær að lifa.

Ég held nefnilega að svona sé þetta gert. Við reynum svo að skilja hvað er að gerast og komum upp með hugtök eins og karma og syndir úr fyrra lífi og breið bök og fleira. Og setningar eins og "Guð leggur ekki meira á þig en þú getur borið" komm onn hverslags dómadags þvæla er það??? Hvað með allt liðið sem er lokað inn á hæli af því það hefur gefist upp á að taka það sem bar að höndum? Og setningar eins og "Guð elskar þá sem deyja ungir". Amma mín varð næstum níutíu ára.. ein af langömmum hr. Meinvill varð miklu meira en hundrað ára. Þýðir það að Guð elskaði þessar konur ekki? Ég skil ekki svona setningar. Ég hefði eiginlega átt að velja mér guðfræði en ekki það sem ég valdi (eða álpaðist í)

Annars tekur því varla að sofa þessa vikuna. Ég þarf að vakna svo snemma að það er hrein tímaeyðsla að eyða þessum tíma í svefn. Ég var mætt svo snemma í morgun að strákarnir fyrir framan hjá mér snérust í fleiri hringi. Þeir störðu í forundran fyrst á mig og síðan á læsta hurðina (kerfið var á). Síðan tókust þeir á loft við að kveikja fyrir mig og bjóða fram aðstoð í í ýmsri mynd. Spurning hvort samstarfsmenn mínir fá almennt svona þjónustu í morgunsárið?

Mér finnst góð hugmynd hjá Auði að ég taki upp nælonsloppinn og byrji að vatnslita. Eini gallinn er sá að íbúðin er svo lítil að ég hef ekkert pláss til að þurrka listaverkin mín. kannski gæti ég verið að þessu úti á svölum? Þá færi ég bara í lopapeysuna innundir nælonið og væri þá fær í flest. Held ég yrðu upplagður sérviskur listamaður. Ég þyrfti ekki einu sinni að leggja mig neitt mikið fram, þetta er au natural hjá mér!

22 mars 2004

Bíllinn er kominn á verkstæði! Það þýðir bara eitt! Ég er komin út klukkan 7.20 á morgnana á leið í vinnu. Er þetta normal fótaferðartími? Fór til læknisins í morgun og var númer tvö, hef aldrei náð því að vera svona framarlega enda sagði blóðsugan "þú ert bara snemma á ferðinni í dag!" Huh

Bíllinn verður örugglega í meira en viku á verkstæðinu því það er svo mikið að gera þar og minn bíll ekki framarlega á forgangslista sem er auðvitað rakið svindl!

Annars er ég farin að hlakka soldið til miðvikudagsins en þá koma sænsku nýbúarnir til landsins. Þau koma að vísu ekki öll, eða bara 3/4 af þeim. Bróðir minn ástkær er fastur í vinnu og kemst ekki. Þau hin eru að koma í fermingu hjá systursyni skurðlæknisins. Ég mín fjölskylda (amman sem sagt) getum varla haldið okkur við erum svo spenntar að sjá Rönnsu Pönnsu og Snorrann.

Hitti hina tvo álfana í gær og þeir eru báðir hárprúðir vel. Gullmolinn er nú ekki að safna en hann lítur út fyrir það en gítarleikarinn er að safna og kartaði stórum yfir því að hárið væri hætt að vaxa. Ég benti honum að láta særa endana og þá kæmist skriður á þetta. Held að systir mín hafi ekki verið hrifin af þessum ráðleggingum mínum því henni finnst krullurnar hans vera orðnar helst til lubbalegar. Mér finnst hann fínn.

21 mars 2004

Ég kann ekki lengur að stunda comfort sjopping. Það er á hreinu. Fór í gær tilbúin að eyða langt umfram efni fram og hvað kom ég með heim? Tvo hallæris boli sem voru ekki einu sinni dýrir og tvær bækur. Það er af sem áður var (stuna).

Annars sá ég fullt af skóm sem mig bráðvantar en ég var bara svo heppin að ég átti ekki fyrir þeim hehe. Fann eina köflótta og mig VANTAR þá. Ég á eina köflótta sem ég hef notað reglulega síðan ég keypti þá fyrir nærri 10 árum en þessir eru allt öðru vísi og væru fínir í safnið mitt....ummmmm Þetta er komið á hugsunarstigið!

Ákvað í gær að hætta að velta mér upp úr sprautuferlinu mínu og fá mér bjór og rauðvín. Það varð til þess að eftir einn bjór var ég nærri dáin úr þreytu og þegar ég var búin að sitja og dotta í meira en klukkutíma þá "sendi" Auður mig í rúmið. OK kannski sendi hún mig ekki, en hún kom og breyddi ofan á mig teppi og sagði mér að fara að sofa haha ég er líka búin að týna niður þessari smá hæfni sem ég hafði til að drekka áfengi. Var nú svo sem aldrei há á þeim skala en kommonn þetta er að verða fyndið.

Nú kannn ég ekki lengur að versla og ég kann ekki að drekka. Hef aldrei kunnað reykja og nenni ekki lengur að horfa á sjónvarp. Hvert stefnir þetta allt?

Ferimgarveislan var samt fín.


Powered by Blogger