Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

06 febrúar 2004

Það er að koma helgi ligga ligga lá og á morgun ætla ég að fara í kellingaparty hjá frænku minni. Þar eiga mæta konur sem hún hefur kynnst á lífsleiðinni og fagna með henni nokkurra tuga afmæli. Makar eru ekki velkomnir

Þetta gæti orðið hin besta skemmtan

05 febrúar 2004

Það eru ákveðin verkefni sem fara meira í pirrurnar á manni en önnur. Ég hef eitt svona verkefni sem ég er búin að þurfa að gera með reglulegu millibili í þau fimm ár sem ég hef starfað hjá fyrirtækinu. Þegar tíminn fer að nálgast fæ ég byrjunareinkenni að stressi sem magnast síðan upp þar til síðustu tvo dagana er ég svo stressuð að hægt væri að nota mig sem skólabókardæmi um stress og stresseinkenni. Mér finnst ömurlegt að líða svona og það versta við því er að ég hef nákvæmlega enga stjórn yfir þessu. Það er eins og ýtt sé á takka og voila, stressið byrjar.

Ég er búin að setjast niður og reyna að kryfja þetta mál og gera þetta þannig að ég stressist ekki upp en utanaðkomandi áhrif eru svo mikil að ég hef litla stjórn og sit því og bíð með skelfingu hvað gerist næst. OK kannski er þetta aðeins orðum aukið en ekki er það mikið. Nú þegar eru þrír stafsmenn sem áttu/eiga að koma að þessu verkefni að þessu sinni algerlega trompaðir yfir því að þurfa að taka þátt. Mér persónulega líður eins og ég sé með eitthvað einka prívat verkefni sem ég er að reyna að troða inn á fólk. Mjög skrítið ef satt skal segja. Suma daga langar mig bara til að hætta og fara að gera eitthvað allt annað. Svona uppákomur gera ekkert annað en styðja það. Djöfull hata ég suma daga!

04 febrúar 2004

uss hvað þetta líf er undarlegt. Við vorum fimm sem fylgdumst að í þessu ferli; fjórar gamlar og ein ung. Það er ein sem á eftir að fá niðurstöður en hjá okkur hinum fjórum er staðan svona:
Nr. 1 gekk ekki
Nr. 2 engin egg (moi)
Nr. 3 Fullt af eggjum en er búin að vera á spítala í viku vegna oförvunar, fékk vatn í lungun og alls konar ógeð
Nr. 4 gekk ekki
Stundum finnst manni lífið svo undarlegt og hreinlega furðulegt af hverju maður er að leggja þetta á sig. Ég komst yfir ritgerð sem einhverjir hjúkrunarfræðinemar skrifuðu fyrir fjórum árum. Þær gerðu eigindlega rannsókn á svona biluðum konum (pörum) og ég fékk svona hroll þegar ég las niðurstöðurnar. Það er nefnilega ferli sem allflestir fara í gegnum og ég sá sjálfa mig á flestum stigunum. Mjög skrítið ef satt skal segja. Mér finnst t.d. rosalega pirrandi þegar fólk segir við mig að það skilji alveg að þetta sé sjokk og ég hef verið að pirra mig á þessum viðbröðfum mínum. En samkvæmt þessari rannsókn þá eru þetta víst viðbrögð sem flestir upplifa. Við mannfólkið erum skrítnar furðuskepnur!

Síðasti sunnudagur var kaldur dagur en fallegur. Við hjúin ákváðum því að bregða okkur að Kleifarvatni til að svona komast aðeins út. Það endaði með því að úr varð fyrirtaks dagur með mikilli útiveru. Vatnið var ísilagt og við brugðum okkur þangað út og skemmtum okkur fyrirtaks vel. Ísinn var svo tær að víða sást til botns. Ég er auðvitað með músarhjarta og tók því lítil og varnfærnisleg spor meðan haukurinn söng og trallaði og renndi sér fótskriðu. Við tókum um 130 myndir og sumar þeirra eru hreint alveg brilljant. Við fórum líka að lauginni og þar var rosalega fallegt og enduðum með að keyra niður að bjargi en þar var svo kalt að við stoppuðum ekki lengi. Á leiðinni til baka tókum við einn aukakrók til að skoða hverina og þar beið Olli Polli eftir hauknum. Þetta er þeirra fasti "hittumst" staður. Það eru ófáar helgarnar sem við höfum rekist á polann akkúrat þarna án þess að þeir hafi mælt sér mót fyrirfram.

En ég hef sem sagt ekkert að segja í dag!

03 febrúar 2004

Við erum illa innrætt í Hafnarfirðinum. Það er að segja við sem búum á þriðju hæð í blokkinni minni: þriðju hæð í miðjunni. Það sem gleður okkar litlu hjörtu þessa dagana er þessi flutningur fréttamanna af ríkisstjórninni og forsetanum. Að þeir "gleymdu" að bjóða honum á fundinn sem hann hefði átt að stýra. Mér finnst þetta bráðfyndið. Ég nenni hinsvegar ómögulega að leggja það á mig að hafa skoðun á því hvor hefur réttara fyrir sér en fyndið er þetta.

Skattholið ku vera komið í ný föt. Mikill assgoti er það. Nú ku það vera eins og nýtt. Ég hefði kannski ekki átt að reka það að heiman?

Voðalega langar mig eitthvað til að breyta til þessa dagana. Fara eitthvað eða gera eitthvað. Til útlanda eða flytja eða eitthvað. Bara breyta til. Held að vísu að þetta sé eitt af því sem flokkast undir leiða og hverfur eflaust á nokkrum vikum. Stend mig samt að því að skoða fasteignablaðið en það er nokkuð sem ég annars geri aldrei og stend mig líka að því að skoða allar auglýsingarnar frá flugfélögunum sem þau senda í massavís. Yfirleitt eyði ég þeim án þess að lesa þau. Verð farin að skoða atvinnuauglýsingar í útlöndum áður en ég veit af.

02 febrúar 2004

Já það er rétt að hin umrædda kind stóð á brottflutta skattholinu mínu. Sómdi sér vel þar. Hún fylgdi mér í mörg ár og ég get ómögulega munað hvenær leiðir okkar skildust. Hún hlýtur bara að hafa lent í kassa hjá mér. Sóley, Sóley.. Það fylgdi henni miði sem á stóð að hún héti Sóley. Ég var líka búin að gleyma þessu. Ég held ég hljóti að vera að missa minnið í kjölfarið á öllu hinu sem ég er búin að missa.

Annars er heilsan fín, þakka þér fyrir það Hrönn. Frúin er að vísu óvenju hvassyrt og skjót til svara þessa dagana og er það nú ekki krankleiki sem hrjáir hana dagsdaglega (haha). Að vísu skal viðurkenna að þetta er í óvenju slæmu magni og frúin er sjálf ekki viss um að hún eigi vini eftir þegar þessu skeiði lýkur. En svona er lífið bara. Staðan er sú að ef eitthvað slugs er í gangi eða ef einhver svarar einhverju sem frúnni gegnast illa þá fær viðkomandi gusu yfir sig og það er bara ekkert sem stoppar það. Bara ekki neitt. Ætti ef til vill að fá mér hjálm? Svo ég geti lokað þetta af? það er einungis eitt sem er öðru vísi en svona venjulega. Dagsdaglega þá fær frúin nefnilega samviskubit ef hún sleppir einhverju skapillu frá sér en ekki er um það að ræða þessa dagana. Nú bara gýs það upp og brýst síðan út.

Ég veit sem sagt ekki hvort það verða einhverjir vinir eftir eða hvort ég hef vinnu þegar þessu tímabili lýkur. En það er seinni tíma vandamál.

01 febrúar 2004

Ég er búin að vera að hugsa um kindur. Hvítar kindur og svartar kindur. Kindur með horn og kindur með engin horn. Þessar hugsanir hafa rekið mig fram úr rúmi mínu fyrir allar aldir á sunnudagsmorgni. Ég meira segja reyndi að telja kindur til að sofna aftur en það gekk ekki.


Í gestabókinni fyrir nokkrum vikum minnstist Hrönn á forláta kind sem hún og ÁsaPjása gáfu mér í einhverju bríaríi og í heiðarlegri tilraun til að vera fyndnar. Kindin var foráttuljót. Svona loðinn gæruhlunkur með 4 fætur og bjánalegan haus. Mér þótti hinsvegar alltaf vænt um þessa kind og hafði hana upp á við. Kannski líka í og með til að ergja gefendurna sem ætluðust held ég ekki til að hún væri uppi á við svona lengi. Mér fannst hún hinsvegar fallega ljót. Þessi kind var hvít.

Ég hef ekki hugsað um þessa kind í mörg herrans ár og var ekki einu sinni búin að átta mig á því að þessi tiltekni gæruhlunkur væri horfin af hillunni minni fyrr en Hrönn minntist á hana. Síðan hef ég varla getað hugsað um annað. Þetta er orðið að þráhyggju. Skyldi ég hafa hent kindinni? Ég sem er þekkt fyrir að henda ALDREI neinu? Ég minntist á þetta við SM og taldi hún það afar ólíklegt að ég hefði hent kindarskömminni, það væri frekar að hún hefði týnst í flutningum (sem er er fræg afsökun fyrir að týna ýmsum hlutum sem mar vill losna við).

Þetta er svo sem gott og blessað nema þegar ég fer til SM með afmælispakkann hennar og til að sníkja veitingar, hvað sé ég þá á hillunni hennar? Já einmitt KIND! Þetta er ALVEG eins kind og ég átti nema allt öðru vísi á litinni. Þessi er flekkótt og alveg eins hallærisleg og mín var og núna hef ég ekki tekið á neinu alla helgina því ég er alltaf að hugsa um kindina mína. Hvar er hún?


Powered by Blogger