Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

23 desember 2004

Gleðileg Jól

Í gærkveldi fórum við Skakki í Smáralindina að kaupa föt fyrir hann. Eða sko hann fór í búðir og ég trillaði með af því mér finnst svooooo gaman að kaupa föt og þar sem ég á engan péning þá fer ég bara með einhverjum öðrum og horfi á þá eyða sínum péning. Þetta var rosa skemmtilegt. Við fórum inn í þessar tvær eða þrjár búðir sem selja mannaföt í Lindinni og ég skemmti mér konunglega. Togaði í skyrtur, boli og buxur og sagði reglulega "oh finndu hvað það er gott í þessu" Skakki hefur af einhverjum undarlegum ástæðum ofnæmi fyrir þessari fínu setningu þannig að mér finnst hún vel við hæfi. Það undraði mig samt að eftir að hafa rölt í þessar búðir var ekkert komið í poka fyrir Skakka. Ég hefði getað verið komið með 2-3 poka ef ég hefði verið að versla. Síðasta búðin sem við fórum inn í seldi JÓLAKÖTTINN. Ég skildi þá að aumingja Skakki var orðinn viss um að hann færi í köttinn og hann vildi skoða hann til að sjá hvernig hann liti út svo hann væri viðbúinn og gæti varið sig. Hann fer samt ekki í jólaköttinn þetta er allt í lagi. Ég tek nefnilega ekki sénsinn á því að jólakötturinn éti manninn sem ég var svo lengi að finna og keypti því handa honum einar undirbuxur til að skvera sér í yfir jólin. Ég er höfðingi!!!! En ekki segja honum frá þessum brókum því þær eiga að koma honum skemmtilega á óvart þegar hann situr tilbúinn með sverðið að höggva köttinn!!!!!

22 desember 2004

Við erum orðin stórfjölskylda. Í gær bættist nefnilega sjötti meðlimurinn við! Þvílík gleði. Núna samstendur heildin af mér og skakka, þremur fiskum í stórmennskukasti og einni uppþvottavél!!!! Skakki laumaðist til að kaupa eina slíka og var búinn að setja hana í bílinn þegar hann kom að sækja mig í vinnuna. Oh mæ god hvað ég varð yfir mig ánægð. Gleðin minnkaði ekkert þó hann tjáði mér að hann hefði því miður bara getað keypt eina. Draumur minn er nefnilega að eiga tvær uppþvottavélar og henda eldhúsinnréttingunni. Í annarri vélinni væri hreint og í hinni væri óhreint. Er til betra kerfi en það?

En við erum búin að stíga fyrsta skrefið og sú fyrri er komin í hús.

21 desember 2004

Nornirnar mættu til mín í gærkveldi og lögðu kortin að venju. Ég er alveg í sjokkið því í mínum spilum er bara nám og aftur nám! Ég er búin að láta alla vita að ég sé komin með þvílíkan námsleiða en kannski er það bara tölfræðin huh!

Skakki er ægilega glaður yfir að vera kominn heim og ég líka. Það ríkir því gleði á litla heimilinu okkar.

Og meira nenni ég ekki að skrifa!

20 desember 2004

Þá er Skakki væntanlega á heimleið. Nema auðvitað Föröjingarnir vilji eiga hann og neiti að sleppa honum. Það gæti skeð! Ég fór að versla jólagjafir á laugardag og í gær líka. Ægilega gaman og gekk vel. Samt var betra að versla í gær því þá fór ég fyrr af stað og var því ein af örfáum að rolast í Kringlunni í gærmorgun. Í kvöld ætla ég að hafa nornaboð og elda heilmikinn hátíðamat. Ekki samt íslenskan. Þessar nornir eru svo alþjóðlegar að þær verða örugglega glaðar að fá útlenskan hátíðarmat. Síðan ætlum við að leggja seið og og gala inn nýja árið. Æi það er kannski heldur snemmt, enda held ég að nornir gali hvort eð er ekki. Voða komst ég í mikið jólaskap þegar ég vaknaði í morgun. Samt var ekkert í skónum. Ekki einu sinni kartafla. Enda fór ég frekar seint að sofa í gær það skal viðurkennast. Núna ætla ég að fara að pakka svo fyrirtækið geti flutt sómasamlega með mig innanborðs!


Powered by Blogger