Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

12 júní 2004

Ég er búin að hafa hárið venjulegt í marga, marga daga. Alveg frá 21 maí. Það eru margir dagar fyrir venjulegt hár. Áðan fór ég með mömmu í litaleiðangur og þegar ég sá úrvalið af litunum sem voru til vissi ég ekki fyrr en ég hélt á bleikum lit og var komin í röð til að borga. Það var eins og einhver hefði tekið af mér völdin og ég gat ekki gert neitt við því. Ég borgaði og fór með bleika litinn heim. Horfði á pakkann í nokkrar mínútur en svo tók litapúkinn aftur völdin og reif upp pakkann. Ég gat ekki spyrnt á móti. Það var hetta í pakkanum en þegar ég á fimm mínútum hafi náð tveimur hárum í gegnum gat á hettunni tók litapúkinn aftur völdin, reif af mér hettuna og lét mig maka bleikum lit í hárið á mér. Nú er toppurinn bleikrauður og fallegur. Hliðarnar eru að vísu soldið skritnar en.. en.. ég er eins og regnbogi! Glæsileg alveg. No more miss venjuleg um hárið.. no more miss a la natural.. oh... ég brosi í hvert skipti sem ég fer fram hjá spegli.. veit að vísu ekki hvort yfirmaður minn verður hrifin en henni fannst a la natural smart!

Best að koma sér í partýfötin fyrir útskriftina hennar Sólrúnar.. tralala.. kreppan lifi.....

Í dag er gleðidagur hjá vestubæjarnorninni því hún er að útskrifast úr Háskólanum í Reykjavík. Til hamingju með það
Smiley University

11 júní 2004

Linsumálin
Einhvern veginn tekst mér alltaf að fara fram úr sjálfri mér með reglulegu millibili. Eitt af þeim skiptum var í gær og þá verð ég að sletta á ylhýrri enskunni og segja eins og var "Æ átdid mæself þis tæm".

Málið er sem sagt að eftir að ég kom brunandi úr höfuðstaðnum með listamanninn og nýja sjónvarpið hans (sem hann bæ þe vei ætlar að horfa á FÓTBOLTA Í en það er önnur saga) þá þurfti ég að drífa mig og skipta um föt til að mæta galvösk á golfnámskeiðið. Þar má nefnilega ekki vera í gallabuxum og einhverjar fleiri svona reglur sem miserfitt er að muna. Ég var að setja í mig linsið eftir kúnstarinnar reglum en nú er ég búin að stunda slíkan verknað með reglulegu millibili í nokkra tugi ára. Ég set alltaf fyrst í hægra auga og síðan set ég í vinstra augað. Alltaf eins og yfirleitt gengur það vel. Stundum þarf að vísu að gera nokkrar tilraunir með annaðhvort augað ef mar er þreyttur eða hefur ekki opnað nógu vel, en yfirleitt gengur þetta eins og í lygasögu.

Nema í gær!

Ég sem sagt setti í hægra augað og síðan í vinstra augað. Síðan blikkaði ég nokkrum sinnum því þá renna linsudruslurnar á sinn stað ef þær hafa ekki lent nákvæmlega á miðju auganu. NEMA, vinstra augað var eitthvað ekki alveg að gera sig. Ég blikkaði nokkrum sinnum eins og drengur á fyrsta stefnumóti. Hmmm, enn var eins og ég sæi ekki neitt. Ég færði mig að öðrum spegli og setti puttann á miðju augans og reyndi að skaka linsunni aðeins til. Ekkert gekk, ég sá jafn illa.

Blótandi fór ég að öðrum spegli. Ég var nú ekki alveg með tíma í þetta! Ég setti tvo putta í augað og reyndi strjúka augað yfir augasteininn (er alltaf hálfhrædd um að halda á auganu þegar ég geri svona). Ekkert gerðist. Ég reyndi að skaka augnlokininu til (það er til í dæminu að linsur renni þar upp undir og hálf festist þar og mar þarf þá að skaka öllu til). Ekkert gerðist. Þá kíkti ég í augnbotninn, því stundum lenda þær hálfkrumpaðar þar ef eitthvað hefur gerst þegar mar er að djöflast þetta.

Ekkert! NADA! Ekkert!

Skakklappi var farinn því hann fékk einhvern hroll þegar ég var að reyna að ná augasteininum út.

Það voru ekki önnur ráð en rífa upp nýjar birgðir af linsum og taka eina þaðan. Og svo var það golfið!

Þegar ég kom heim spurði Skakki hvort það gæti verið að týnda linsan hafi lent ofan á bláa lokinu (linsin eru missterk eftir augum þannig að lokin eru lituð svo hægt sé að muna hvor sé hvað). Ég horfði á hann með fyrirlitningu. Heldur maðurinn að ég sé hálfviti. Ég trítlaði samt inn á klósett að skoða þetta og viti menn! Lá ekki lítil krumpuð linsa ofan á lokinu!

Ég hafði sem sagt ekki hitt í augað heldur á lokið á boxinu og af því ég er hálfblind þá sá ég ekki drusluna! Og augnlæknirinn minn heldur því fram að það sé pjatt í mér að vilja litaðar linsur en ég hef aldrei týnt svooleiðis því það er ekki hægt að missa þær án þess að sjá þær aftur strax.. og hana nú!

10 júní 2004

Þegar ég var lítil (minni) þá fannst mér vorið vera komið þegar mátti fara að tína kríuegg. Síðan flutti ég til Reykjavíkur og fyrsta vorið var hörmung því Reykvíkingar tína ekki kríuegg og fá einhvern hroll í augun þegar á þau er minnst. Svona "þú ert meiri morðinginn" svip. Ég hætti því að tala um kríur og kríuegg. Í mörg ár á eftir fannst mér vorið ekki koma. það var bara vetur og svo allt í einu kom sumar. MJÖG skrítið. Þetta breyttist að vísu í menntaskóla því þá kom vorið um leið ég byrjaði aðlesa undir prófin.

Þegar ég hætti í skóla, hætti vorið aftur að koma. Bara vetur og sumar. Kennarinn sem ég er með núna hefur e-ð misskilið þetta með vorið. Kannski hefur hann tínt kríuegg í æsku og ekki fengið vor síðan? En alla vega, þá ætlar hann ekki að hætta að kenna fyrr en í júlí... geri aðrir betur!

09 júní 2004

Ástríða í matargerð
Ég hef alveg gleymt að minnast á þessar frábæru auglýsingar frá ORA. Þessar sem segja að ORA sé ÁSTRÍÐA Í MATARGERÐ. Ég hef aldrei tengt ORA baunirnar við ástríður. Þetta eru greinilega mín mistök því hvað er ástíðufyllra en sjá þessar litlu grænu baunir þeytast um diskinn, lenda á gafflinum og berast í munninn? Ég tala nú ekki um fiskibollurnar. Þvílík ástríða! Bæði í bleikri sósu og grænni. Við skakklappi höfum lifað á ORA dósamat síðan við uppgötvuðum þetta. Fólk er farið að forðast heimili okkar vegna gegndarlausra ástríðna sem þar ráða ríkjum....... bauuuunnniiirrrrrr.......Veit ekki alveg með fiskbúðinginn.. er hann ástríðufullur líka?

Golf
Í gær var fyrsti dagur á golfnámskeiðinu. Við ÓRÓ mættum með bakpoka með tvær kylfur hvor. Þetta vakti fögnuð vinnufélaga okkar sem héldu að við hefðum misskilið momentið eitthvað og haldið okkur vera að fara á skátamót. Bara fjellreven og skátasöngvarnir með hárri raust!

Við náðum hins vegar fram sætum hefndum þegar einn karlmaðurinn í hópnum mætti með svaka flotta tösku og skellti henni stoltur á jörðina. Stóð bísperrtur þar til kennarinn benti honum á að taskan snéri öfugt. Það var samt ekkert, því þegar hann dró upp fyrstu kylfuna var hún enn í plastinu haha Við ÓRÓ höfðum þó pikkað plastið af okkar áður en þeim var stungið í bakpokana!

08 júní 2004

Ég þori ekki að telja hvað það eru margir dagar þar til ég fer í sumarfrí. Held nefnilega að þeir séu mikið fleiri en margir!

Annars gerðist ég dugleg í gærkveldi og settist við skriftir. Ég sat í tvo tíma og skrifaði og skrifaði og afraksturinn er heilar níu (NÍU) blaðsíður. Mér finnst það nú bara ágætis afrakstur. Ástæðan fyrir þessu geypiandríki er einföld: Ég þarf að hitta liðið í hópnum mínum og segja hvernig mér gangi. Það eru að vísu tveir með fyrirlestra og ef þetta eru langir fyrirlestrar þá verður enginn tími fyrir mig að segja frá, auðvitað vonum við að svo sé!

Best að hunskast á fund og síðan er það bara a la ritgerðartími!

07 júní 2004

Það eru undarlegir svona sólardagar. Það er eins og maður gleymi öllum rigningardögunum sem á undan hafa komið og eiga eftir að koma. Held þetta hljóti að kallast að lifa í núinu!

Á morgun ætla ég að fara á námskeið í golfi. Fer með kylfurnar mínar og reyni að hitta boltaskömmina. Ég á svo margar kúlur að ef ég dreifi þeim bara fyrir framan mig þá hlýt ég að hitta á eina í hvert skipti sem ég slæ niður. Veit samt ekki alveg hvort námskeiðið er á svona flottum stað:

06 júní 2004

Karnival
Ég og molinn fórum á karnival í gær. Þetta var svona karnival fyrir börnin enda varð molinn svo þreyttur að hann sofnaði í miðjum íspinna. Þá var hann búinn að vera á staðnum í tvo tíma og með augu á stærð við undirskálar. Í fyrstu þorði hann ekki að hreyfa sig úr kerrunni og hélt í hendina á mér lika, en það lagaðist fljótlega og hann fór að labba um og dást að gocart bílunum og eldgleypunum. Þetta var nokkuð gaman þó það vantaði allar svona kellur sem er að finna á öllum alvöru karnivölum í heiminum:
Carnaval

Nornakvöld
Það var nornakvöld í Hafnarfirðinum á föstudagskvöldið. Enda loftið lævi blandið og örlögin að spinna allskyns vefi. Skakklappi hafði staðið við eldavélina svo sólarhringum skipti og bruggað ýmsa seiði eftir uppskriftum úr erlendum tungumálum. Ég hafði haft mikið við og legið í leyni við kirkjugarðinn í þeirri von að um miðnættið færi hjá svartur köttur sem ég gæti gripið og sett í seiðinn! Mér varð ekki að þeirri ósk og ég náði heldur ekki neinum froskalöppum. Hinsvegar er nóg af köngulóm í Hafnarfirði og við notuðum þær bara í staðinn, versta við þær er að þær þurfa svo mikla suðu!

Keflavíkurnornin lagði spá fyrir okkur hinar því ég hafði staðið mig illa í undirbúningi við að finna spár (enda á fullu við köngulóarveiðar). Ég fékk fína spá þar sem fram komu peningar og ný tækifæri. Uss hvað ég er orðin spennt! Þegar þær voru farnar dró ég eitt spil til að reyna að finna út hvenær ég gæti átt von á þessu öllu og þá voru spilin með leiðindi og sögðu mig eiga til að vera óhemju þrjósk og segja hluti sem stundum væru betur ósagðir. Hmmmmmmmmm Veit ekki til þess að ég hafi átt það skilið en beygi mig undir þetta með þeirri þolinmæði sem ég er þekkt fyrir!


Powered by Blogger