Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

10 ágúst 2007

Þá er aftur komin helgi. Og enn er pabbi ekki kominn heim og ekki Gunz. Hinsvegar eru læknarnir að lofa að hann fái að fara heim í næstu viku. Ég vona að það standist, þetta er að verða löng útilega. Blessaður Molinn heldur því fram að mamma hans og afi séu farin í útilegu. Þau séu búin á spítalnum og hafi skellt sér í tjaldútilegu. Og ekki bara einhverja útilegu, nei þau fóru á sama stað og við vorum um verslunarmannahelgina og nú bíðum við bara spennt eftir að þau fái nóg af þessu tjaldlífi og fari að hundskast heim!

Á morgun er ferðafundur þar sem við eigum að læra allt um Kína og hvernig við eigum að ferðast þar og hvað við þurfum að taka með okkur og hvað við meigum skilja eftir heima (sem er lítið eftir því sem mér skilst).

Ferðaskrifstofan er komin með miðana okkar og ég hringdi til að fá uppgefið verð. Þetta gerir svo mikið sem ..... fyrir ykkur öll!

Okkur öll, við erum bara tvö, við Skakki... bara tvö.

Nú?? Eruð þið ekki þrjú á leiðinni heim? Hvað með litluna ykkar?


ROÐN!!!!
Við höfum alltaf verið bara tvö hvernig á ég að muna að bráðum verðum við ÖLL en ekki BÆÐI

08 ágúst 2007

Svakalega er ég ánægð með Brian May æskufélaga minn. Hann er nú að fara að verja doktorsverkefni í stjörnufræði nærri 35 árum eftir að hann hætti námi og snéri sér að Queen. Jahá þetta segir bara eitt og það er aldrei of seint að breyta um vinnu! Nú er bara að setjast niður og spá almennilega í því hvað við ætlum að gera (við=ég) þegar við verðum stór! held samt ég láti stjörnufræðina vera, hef aldrei haft mikinn áhuga fyrir henni og sé mest lítið úr stjörnunum annað en falleg ljós, en það er önnur saga.

07 ágúst 2007

Það er lítið sem ekkert að frétta af langþreyttum Flórensförum. Pabbi er miklu hressari en áður og löngu tilbúinn að koma heim. Læknarnir hafa hinsvegar ekki alveg verið sammála enda bara tvær vikur í dag síðan hann fór í aðgerðina. Tryggingarnar hafa ekkert gefið út með ferðadagsetningu eða hvernig hann verður fluttur. Við héldum að þeir ætluðu að ákveða það í gær en þeir vildu ekkert segja og segjast vera að bíða eftir svörum frá Flórens.

Við Skakki fórum hinsvegar í útilegu með litla Molann um helgina og hittum Kínahópinn okkar. Þetta var fyrsta útilega Molans og hann var voða spenntur fyrir því að sofa í tjaldi. Spenningurinn fór þó af þegar nóttin varð biksvört og það þaut í trjánum og brakaði í tjaldinu. Greyið hágrét og lýsti yfir miklum áhyggjum af skrýmslum sem hann hafði fullar efasemdir um að ég réði við. Ég reyndi að sannfæra hann um: 1. Það eru engin skrýmsli til 2. Ef þau væru til þá réði ég við þau 3. Haukur væri flinkur skrýmslabani... En allt kom fyrir ekki, barnið var með ekkasog og brúnu augun voru enn stærri en venjulega þarna umflotin tárum. Þá fékk ég eina af þessum snilldarhugmyndum sem ég fæ stundum og ég sagði honum að einn samferðamaður okkar væri lögga og hver væri betur fallin til þess að drepa skrýmsli heldur en löggumenn? (ég var ekki að ljúga því það vill svo til að það var löggumaður á frívakt) Þetta reyndist lausnarorðið og tárin stoppuðu um leið en með ekka spurði blessað barnið: "má ég sjá lögguna?" Auðvitað reyndist það auðsótt mál og við töltum okkur yfir í bústaðinn sem viðkomandi löggumaður hafði bækistöð í og þar fullvissaði hann Molann um að það þyrðu engin skrýmsli að koma neinstaðar nálægt sínum húsum (fyrst reyndi hann að segja honum að það væru engin skrýmsli til en drengurinn sver sig í ættina og hefur gífurlegt ímyndunarafl og það þýðir ekkert að segja honum slíkar sögur, hann veit að skrýmsli eru til). Við fórum svo glöð í bragði í tjaldið okkar og sváfum vært til morguns þegar við uppgötvuðum að það sem ég hafði gleymt þegar ég ákvað að fara í tjaldútilegu hafði alls ekki gleymt mér... og tjaldið því fullt af allskyns pöddufénaði en það er allt önnur saga og þá var líka orðið bjart aftur!


Powered by Blogger