Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

27 apríl 2007

Það er að koma helgi og það rignir. Ég kláraði eitt námskeið í dag og það næst hefst eftir viku. En það verður auðveldara þar sem ég þarf bara að laga námsefnið núna en ekki skrifa það allt upp. Sem sagt bjartir tímar framundan. Skakki er að fara að kaupa hjól held ég svo hann geti hjólað í vinnuna. Ég er að hugsa um að hjóla líka (nota bene.. er að hugsa). Annars er ég nær örmögnun því nýja rúmið er ekki alveg að gera sig, Skakki sefur hins vegar eins og sá prins sem hann er. Ætla að reyna að skipta um dýnu og athuga hvort ég lagist ekki. Er að verða farlama svo ekki sé meira sagt. En það hlýtur að lagast.

26 apríl 2007

Ég var svo búin á því í gær að ég gerði varla handtak eftir fyrirlesturinn um morguninn. Við hjúin fórum þó á aðalfund húsfélagsins og þar var mikil skemmtun (NOT) og auðvitað komumst við að því þar að framkvæmdir eru rétt byrjaðar við húsið. Þetta verður eins og með hina blokkina. Þegar allt er tilbúið pökkum við saman og förum á annan stað sem þarf að gera við.

Ég er orðin æst í að reyna að finna hvað við eigum að gera í sumarfíinu. Ég ætla ekki í sumarbústað á Íslandi í skítaveðri og kulda, það er alla vega á hreinu. Ég vil sól og sumaryl á stað sem krefst ekki mikils af mér annað en ég sé á staðnum. Það er ennþá svo kalt úti að mér finnst ekki að það sé komið neitt vor. Bara flísið sem gildir (ég get ekki verið í lopapeysu af því ég er þessi típíski Íslendingur sem klæjar og klæjar) og regnstakkur ;(

Annars gaf pabbi mér nornakúst eða nornastaf um daginn. Hann fannst þegar garðyrkjuálfarnir voru að klippa trén í garðinum. Þetta er eitthvað afbrigði í náttúrunni og finnst ekki oft eða það fullyrtu álfarnir. Og hann á að virka miklu betur en þeir sem eru handgerðir og bundir saman og svoleiðis vesen. Ég þarf því ekki lengur að vera upp á náð og miskunn flugfélaganna heldur tek bara kústinn minn og sveifla mér léttilega (eða svo léttilega sem afarfimur líkami minn leyfir) á bak og þeysist um loftin blá. Þar sem Skakki er ekki þungur get ég haft hann með og þannig er það ef þið sjáið fólk á sveimi þá má reikna með að það séum við á nýja kústinum!


25 apríl 2007

Nú fer ég alveg að komast í frí. Ég er að vísu með eitt Excel námskeið í maí en að öðru leyti er ég að komast í frí. Flutti fyrirlestur í morgun um viðskiptaáætlunina mína og það gekk alveg rosalega vel og ég fékk góða dóma. Og þegar ég kom út var sól í heiði og bros í hjarta.

Það lítur ekki vel út með Kína í augnablikinu. Þeir eru komnir í fyrsta lága og eru að reyna að torka upp brekkuna en held að þeir séu fastir. Hefðu kannski ekki átt að vera að kaupa sér þennan jeppa... okok ég skal hætta að bulla en sannleikurinn er sá að þeir eru með allt í næstum því stoppi eins og reikna má með þar sem það er alveg að koma að mér í röðinni. Svona er það líka þegar ég fer á kassa í Hagkaup (þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla) þar gengur röðin alveg glimrandi alveg þangað til það eru svona tveir á undan mér... þá gerist eitthvað og það þarf að hlaupa út um alla búð og leita að verði á hinu og þessu. Við sem vorum nokkuð bjartsýn fyrir tveimur mánuðum um að við fengjum upplýsingar um barnið okkar í þessari viku eða næstu erum núna komin á þann stað að við erum heppin ef við fáum upplýsingar í júlí. Svona er lífið undarlegt. Aldrei hægt að reikna raðirnar út. Á meðan heldur lífið áfram og við erum að spá í hvað við eigum að gera í sumarfríinu okkar. Við ákváðum að gera sem minnst síðasta ár af því þá vorum við á leið til Kína um haustið. Ég vil ekki bíða lengur með allt á hold og því ætlum við í skemmtilegt sumarfrí. Verst að ég missi af Flórensferðinni með stórfjölskyldunni sem ætlar að heimsækja mafíósana (af því þá ætlaði ég að vera í Kína... hljómar þetta ekki kunnuglega?)

24 apríl 2007

Veðrið er gott og allt leikur í lyndi. Er það ekki eins og best verður á kosið? Bara einn dagur eftir af algjöru brjálæði og svo er ég sloppin fyrir horn að sinni og taka við önnur verkefni. Finnst bara nokkuð gott að vera komin þetta langt án þess að vera lögð inn á klepp. Meira segja fyrirtæki í burðarliðnum, en það á bara eftir að hnýta nokkra lausa enda og svo er það tilbúið. Þetta er því búinn að vera afkastamikill vetur þó ekki hafi hann litið vel út í janúar. Það er þetta með einar dyr og aðrar, eða er það ein hurð og önnur?

Við lentum hinsvegar í rökræðum í gærkvöldi við Skakki. Erum sammála um að skrifborð heitir skrifborð en af hverju heitir skrifborðsstóll skrifborðsstóll? af hverju heitir hann ekki skrifstóll? Eða eitthvað annað? Af hverju heitir eldhússtóll þá eldhússtóll en ekki eldhúsborðstóll? Svona er gaman hjá okkur á kvöldin!

23 apríl 2007

Við erum flutt tralalal loksins. Búin að hreinsa gömlu íbúðina en það gerðum við í gær og þurfum núna bara að koma henni af okkur. Við erum ekki alveg búin að koma okkur fyrir en það kemur svona smátt og smátt. Þessi vika er ansi hektísk í vinnu þar sem ég á að skila viðskiptaáætluninni og verja hana og einnig klára eitt stykki Excel þar sem ég er að reyna að búa til lokaverkefni handa nemendum mínum á sama tíma og klára áætlunina. En þetta hefst allt saman að lokum.

Nýja íbúðin lofar góðu, við höngum enn úti í glugga og dásömum útsýnið en það hlýtur að venjast. Mig er farið að langa til að spila golf en hef ekki haft eina aukastund aflögu í lengri tíma en sé fram á að um næstu helgi verði rólegri tími og þá ætla ég að draga fram settið mitt.


Powered by Blogger