Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

11 nóvember 2005

Það er að nálgast loka þessa ágæta vinnudags og þá er komin helgi. VEI. Ég er búin að bíða heillengi eftir þessari helgi. Nóvember ætlar nefnilega að vera jafn lengi að líða eins og október var fljótur. Furðulegt.

Ég er að búa mig andlega undir nornakvöld, er búin að pressa fjólubláu slánna og dusta af hattinum og prikið er tilbúið uppvið fiskabúrið. Þeir vita náttúrulega ekkert hvaðan á þá stendur veðrið enda er ekkert veður hjá þeim heldur alveg kyrrt og hreint vatn því ég hreinsaði helv. búrið í gær. Með miklum harmkvælum. Þeir voru svo hissa að þeir gleymdu að kvarta. Voru samt orðnir hressir aftur í morgun. Af framasögðu er augljóst að ég hef ekki nógu mikið fyrir stafni, ég er farin að hugsa um fiskadruslurnar eins og ..ja ég segi nú ekki börnin mín því þá ætti ég frekar vanhirt börn en svona næstum því...

10 nóvember 2005

Ég þarf eiginlega að fara að finna aðra mynd til að hafa hér til hliðar. Það er eiginlega að detta úr móð að vera með brúðartertuskrautið í marga, marga mánuði eftir atburðinn sjálfan. Annars var ég að fatta það að við erum að verða búin að vera gift í sjö mánuði. haha geri aðrir betur en það! Þetta krefst hátíðarhalda eða það er kannski einum of mikið átak í þessum mikla átaksmánuði.

09 nóvember 2005

Mér til stuðnings í keppninni um júlefrúkostinn ákvað ég að birta átaksbloggið mitt hér til hliðar. það veitir ekki af öllu aðhaldi sem hægt er að finna...

Mig vantar nýja vinnu! Ef það er einhver þarna úti sem veit um skemmtilega, vel borgaða vinnu sem hentar konu eins og mér þá vinsamlega réttið upp hendi. Hún verður að vera skemmtileg og krefjandi og allt það. Svona þá get ég haldið áfram að vinna. Það er nornafundur á föstudagskvöldið og ég hlakka ægilega til að fá góða spá um komandi tíma. Ég er að spá í að fara í þessa nýju nornabúð og kaupa mér einn nornabolla bara svona fyrir tilefnið.

Hvernig er það með saumaklúbbinn er hann dáinn? Ég bara svona spyr.

08 nóvember 2005

Um daginn fór ég og fjárfesti í hlut sem mig hefur lengi langað í, nefnilega sléttujárni. það er mjög skrítið að ég sem er með hárbrjálæði og hef verið í mörg mörg ár, ég á engar græjur til að sinna þessu brjálæði mínu. Þetta er fyrsta hártækið sem ég kaupi um æfina.. nei ég lýg því. Einu sinni í kaupmaníu í London með leigubílstjóranum þá keypti ég klippigræjur til að geta sparað á klippingu þegar ég kæmi heim með Euro reikninginn minn. það virkaði ekki betur en svo að ég hef aldrei notað þær græjur. Hvorki á mig eða aðra. En sléttujárnið nota ég. Fólk er að kommentera á hárið um allan bæ. Furðulegt. Flest kommentin snúa að því að ég sé bara búin að greiða mér. Ég er sem sagt búin að vera ógreidd í öll þessi ár en nú er lífstilsbreyting!

07 nóvember 2005

Dagur að kveldi kominn og brátt get ég lofað hann.

Dag skal að kveldi LOFA

og ég lofa...

06 nóvember 2005

Oh mæ Oh mæ.. það er búið að vera mikið að gera hjá Meinvill. Nýtt líf hófst nefnilega 2. nóvember (veit ekki númer hvað þetta líf er en ég er löngu komin fram úr köttunum með sín níu líf). Það er sem sagt enn eitt átakið í gangi og í þetta sinn er það keppni við 25 kellur og sú vinnur sem tapar mestu af líkamsþyngdinni fyrir 20.des. Ömurlegt að láta plata sig út í svona en þannig er ég bara. Alltaf svo leiðitöm eða þannig!

Í gær fór ég því í óvenju harðan leikfimitíma (fyndið orð ég sé fyrir mér Meinvill dansandi með bláa borða sveiflandi í kringum sig) og er því í dag að drepast úr harðsperrum. Andsk. og allt hans hyski!
Rhythmic

Stofnaði líka svona átaksbloggsíðu þar sem baráttan fer fram fyrir opnum tjöldum í landi Internetsins. Ég ætti kannski að hafa link inn á síðuna hér þannig að allir sjái hversu illa ég er haldin? Það yrði kannski til þess að ég hundskaðist til að gera eitthvað af alvöru. Eða hvað? Ég get ekki ákveðið mig...

Fór og hitti forsetann og fleira lið á föstudagskvöldið. Get glatt ykkur öll með að hann (forsetinn) leit vel út og virtist líða nokkuð vel. Mér leið líka ágætlega sérstaklega þegar ég var búin að sjalla lengi við Önnu sem var með mér í virðulegum Norðulandafélagsskap hér um árið. Hún sagði mér að hún hefði farið á einhver fund í fyrra og þar hefði einhver Norðurlandaskarfur fallið fyrir henni og síðan fengi hún pósta í sífellu frá honum. Ég gat þá ekki stillt mig um að minna hana á þegar ég varð vitni að því að Bretaskarfa (kvk af skarfi) féll fyrir henni á ráðstefnu. Haha ég er enn að hlæja að þessu. Aumingja Anna, ekki getur hún gert að því þó hún sé svona flott að lið af báðum kynjum fellur fyrir henni í hrönnum. Og skemmtileg er hún líka. Henni finnst þetta ekki eins fyndið. Svona er það misjafnt hvað skemmtir fólki. Fyndast við atburðinn sem ég varð vitni að var þó þegar við félagarnir vorum allar búnar að segja Önnu að hún væri ímyndunarveik og við morgunverðarborðið næsta dag birtist ástsjúka konan og bað afsökunar á ástleitninni um kvöldið. KODAK moment, alveg óborganlegt.


Powered by Blogger