Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

01 janúar 2005

Allir vinir nær og fjær
Gleðilegt ár
Flower

31 desember 2004

Eigi þýðir að gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna!

Það er síðasti dagur ársins og mér er orða vant en þarf að finna hefnd svo skjótt sem unnt er því tímarnir tifa og stutt er til loka ársins. Svo er mál með vexti að fyrir jólin var mér gefinn þessi forláta skeinipappír. Þetta var rándýrt afbrigði af annars nauðsynlegum hlut og ég gladdist mjög að eiga svona fallegt fyrir jólin. Á pappírnum voru englar (englar dauðans þessir sem sitja á kistunni) afskaplega fallegir. Skakka fannst þetta nú húmbúkk enda ekki von að karlmenn skilji fegurðina sem getur legið í skeinipappír:



Þar sem þetta var dýr pappír þá var hann geymdur til jóla og síðan gleymdi ég honum auðvitað. Ég er ekki vön að eiga svona fínerí fyrir þetta herbergi sveitasetursins. EN Skakki gleymdi þessu ekki og á öðrum degi jóla tók hann að sífra um pappírinn. Af hverju hann væri ekki settur upp svo hann gæti prufað svona fín blöð. Ég sagðist ætla að geyma þetta fyrir gesti (samanber hellisbúann og punkthandklæðin). Skakki lét sig ekki og var alltaf að minna mig fársjúka konuna á englana. Í gærkveldi þegar ég þurfti að ganga örna minna hafði skyndilega dregið til tíðinda. Stríðsfáninn var kominn á loft og vel það. Þar sem ég sat í sakleysi mínu og dreymdi drauma um betri tíð varð mér litið á pakkann sem geymdi pappírinn góða og þar sem ég er bæði hálfblind og lengi að fatta þá starði ég lengi á þá ögursýn sem við mér blasti:


Í gegnum huga minn þaut hótun Skakka, "Ég skít í boxið ef ég fæ ekki að nota pappírinn" ég sá þó að hann hafði ekki verið svo djarfur heldur látið þarna eitthvað ógeð sem hann hafði dregið með sér í sambúð vora frá bernskudögunum. En pappírinn var hann búinn að fela. Í morgun kom hann fram sigri hrósandi og sagði stundarhátt: "Afskaplega er þetta góður pappír, mjúkur og góður".

Hann er núna úti í bæ að draga inn vistir og ég er búin að fara eins og stormsveipur um húsið og finna pappírinn og sit nú og brugga hefndaráætlun! Toungue Out

29 desember 2004

Svona er dagurinn í dag:
Sickly

Enda eru flutningar í vinnunni. Ég mætti þar eldsnemma í morgun og þá leit skrifstofan mín svona út:


Ég fór því bara heim aftur og ætla að mæta á morgun og sjá hvort eitthvað hafi gerst!

28 desember 2004

Ég er komin í vinnuna til að pakka ofan í síðasta kassann. Lá veik heima í gær og veit að ef ég hefði látið samstarfsfólkið pakka í síðasta kassann fyrir mig þá hefðu þau núið mér því um nasir það sem eftir væri: Að þau hefðu pakkað ÖLLU fyrir mig. Ég hefði alla vega gert það. Svo ég bruddi nokkrar verkjatöflur og hunskaðist í vinnuna. Sit nú og stari stjörfum augum á skjáinn og reyni að skilja hvað fram fer.

Jólin voru annars fín. Molinn uppgötvaði pakka og reif utan af þeim í miklum móð. Mikið stuð. Skilst þó að sænska prinsessan hafi þó slegið hann út því hún ruddist í gegnum pakka fjölskyldunnar eins og roadrunner, skildi ekkert eftir í slóð sinni nema skæðadrífu af bréfum. Bróðir hennar viðurkenndi að það hefði nú verið gaman að fá að opna fleiri en einn pakka sem hann átti sjálfur en hann var ekkert að síta það.

Ég er með hausverk og vondan hósta og er að hugsa um að fara aftur heim um hádegi.


Powered by Blogger