Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

04 maí 2007

Mikið ofboðslega fór ég á skemmtilegan fyrirlestur í gærkvöldi. Eða þetta var ekki eiginlegur fyrirlestur heldur uppákoma kannski frekar, eða innstilling ef ég ætla að slá um mig með listrænum frösum. Þetta var fyrirlestur á vegum Foreldrafélagsins og ræðumaðurinn var Viðar Eggertsson að ræða reynslu sína sem ungabarn. Hann gerði útvarpsþátt árið 1993 um þessa reynslu sína og spilaði hann fyrir okkur í gærkvöldi. Þetta er fléttuþáttur þar sem nokkrir aðilar segja sögu sína sem síðan tengist á furðulegan hátt í lokin. Á eftir var hann síðan með umræður um efnið og hvernig þetta allt kom til og maðurinn er bara frábærlega skemmtilegur. Umræðuefnið er auðvitað ekki skemmtilegt eða hvernig stofnun getur haft varanleg áhrif á börn en hann setti þetta mjög vel fram og reynir að sýna fram á að vonandi hafi umhverfi okkar breyst síðan hann var lítill strákur og gekk í gegnum þetta. Málið er hinsvegar að þó Ísland hafi breyst og við þykjumst vita betur þá hafa ekki öll lönd í heiminum breyst og því er það að það sem hann talar um er nokkuð sem foreldrarnir þarna könnuðust við af sínum börnum. Fimmtíu ár til eða frá. Heimurinn hefur ekki breyst mjög mikið þó það sé sorglegt að viðurkenna það. Hinsvegar það sem hefur breyst er úrræðin sem við höfum til að vinna úr og til að vinda ofan af því sem stofnunin hefur gert. Á tímabili meðan ég hlustaði á þáttinn var ég með stóran kökk í hálsinum og augun svo full af tárum að ég þorði ekki einu sinni að blikka. En svo sneri hann öllu við á eftir og lét okkur skellihlæja með sér. Viðar takk fyrir þetta og takk fyrir að deila reynslu þinni með okkur bláókunnugu fólki ;)

Þátturinn verður endurfluttur í útvarpinu á uppstigningardag klukkan 22.15 held ég og ég hvet alla til að hlusta sem geta. Þetta er áttunda skipti sem þátturinn verður sendur út síðan 1993 og efnið á við okkur í dag alveg eins og þá.

03 maí 2007

Ég er útskrifuð!!!!! Í gær var útskrift og mikið stuð. Ég verð að viðurkenna að þetta var með skemmtilegri útskriftum sem ég hef verið í og hef ég þó útskrifast þrisvar frá HÍ. Við enduðum á Tapas og borðuðum yfir okkur þar. Og þar voru stofnaðir margir klúbbar til að viðhalda tengslunum og allt það. Ægilega skemmtilegt allt saman. Nú er bara að bíða eftir því og sjá hvort ég fái styrki varðandi fyrirtækið og svo er bara að skella sér í að stofna það og þá er mér ekkert að vanbúnaði til að byrja nýtt líf.

Þegar ég lít til baka yfir tímann frá áramótum þá er þetta búinn að vera einn besti tími sem ég hef upplifað í mörg ár. Ég er búin að kynnast mörgum alveg frábærum konum og ég er búin að læra margt nýtt. Sumt hefði ég ég ekki trúað að ég gæti lært ;) og ég er alveg við dyrnar að stofna mitt eigið fyrirtæki. Það liggur við að ég þurfi að fara og þakka SKOFFÍNINU fyrir hennar þátt í þessu en held samt að ég sleppi því.

Ég setti mér það markmið fyrir maí mánuð að hreyfa mig meira en ég hef gert og er lágmarkið 30 mín á dag og ef það hefst ekki þá er refsing næsta dag. Gengur bara nokkuð vel og ég er að búa mig undir að þjóta út.

Kína er búið að afgreiða umsóknir til og með 01. nóv 2005 þannig að nú eru bara 13 dagar sem þeir þurfa að fara yfir áður en þeir koma að mér... Koma svo... Hef að vísu engan tíma fyrir Kínaferð núna en verð að reyna að "skvísa" henni inn á milli helstu annanna haha

02 maí 2007

Mikið afskaplega er ég fegin að vera ekki lengur gelgja. Úff það er erfiður tími í lífinu. Í gær brá ég mér út í búð að kaupa smotterí sem vantaði upp á matergerðina. Þegar ég tölti inn í búðina mætti ég fjórum gelgjum sem störðu á mig eins og þær þekktu mig. En ég þekkti þær ekki. Þær eltu mig inn í búðina í hæfilegri fjarlægð og hvísluðust á, ég skal viðurkenna að mér flaug í hug hvort þær ætluðu að ræna mig (haha as if). Nema ég skoða eitthvað og sný mér svo við og þá eru blessaðir angarnir komnir þétt upp við mig, og þegar ég segi þétt þá meina ég að það voru svona 5 sentimetrar á milli mín og þeirrar sem næst mér stóð. Við horfðumst í augu smástund og svo bað ég hana að afsaka og tróð mér framhjá. Það vakti mikinn fögnuð meðal þeirra og þær byrjuðu aftur að pískra eitthvað sín á milli og flissa. Ég reyndi mitt besta að muna hvort ég liti út eins og fáráður en gat ómögulega munað hvort ég væri verri en venjulega. Nema ég tölti áfram um búðina og þær í hæfilegri fjarlægð á eftir uns ein tekur sig ákveðið úr hópnum og veður að mér:
"Hæ, ertu ekki konan úr Kastljósinu?"
"Ha?"
Ertu ekki konan úr Kastljósinu?"
"Nei"
"Víst ertu konan úr Kastljósinu"
"Nei" og um huga mér flýgur að ég vona að þær séu að rugla mér við þessa sætu haha
"Ertu ekki konan úr Kastljósinu? Ertu viss? OH MÆ GOD"
"Nei ég er ekki hún"
"Þú hlýtur að vera hún, ég þekki þig"
"Nei"
"En þú finnur hjá Stöð2?"
"Nei"
"OH MÆ GOD... oh mæ god... OH MÆ GOD"
og nú flissuðu allar eins og og eitthvað mikið væri að gerast

Ég ákvað að borga og drífa mig heim, þar sem ég er hvorki konan úr Kastljósinu né vinn á stöð 2, enda er ég ekki alveg viss um að Stöð2 vilji greiða laun fyrir konur í Kastljósinu hvort eð er.


Powered by Blogger