Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

27 febrúar 2004

Um daginn gerðust þau undur og stórmerki að Meinvill ákvað að bregða sér í leikhús. Hún hafði fengið boð um að koma á sýninguna 5.stelpur.com og átti þetta að vera ókeypis því um æfingu var að ræða. Greip um sig geypimikil eftirvænting og ætlaði múgurinn að skella sér (Star). Daginn fyrir sýningu var koma Meinvills og félgaga hinsvegar aflýst þar sem kom í ljós að FM hafði pantað allan salinn fyrir sína hlustendur og var ekki pláss fyrir okkur enda vorum við sko alveg sex talsins.

Star er hinsvegar ekki á því að deyja ráðalaust og í hrifningarvímu voru pantaðir fimm miðar (einn sem ætlaði með upphaflega var ekki í star og þessvegna datt hann (hún) uppfyrir í tilraun númer tvö). En sem sagt til að gera langa sögu stutta þá fengum við afhenta miða á sýninguna og erum að fara í kvöld EN þá kom babb í bátinn:

Austurbæjarbíó er búið að tvíselja miðana okkar.

Það eru sem sagt einhverjar aðrar konur líka búnar fá sömu miðana með sömu númerunum. Er þetta klaufaskapur eða helber aulaskapur?

Þetta komst upp þegar bíóið hringdi til að spyrja forsvarskonu Star að því hvort hún ætlaði ekki að sækja miðana sína sem biðu alltaf í bíóinu "hvaða miða? ég er löngu búin að sækja þá" Fum og fátur og þá kemur í ljós að fimm miðar bíða okkar í bíóinu og 10 konur eru búnar að fá aðra fimm miða.

Er þetta ruglingslegt?

Nei þetta er bara eins og líf mitt og tilvera er vant að vera. Þetta verður spennandi. Ef ég væri ekki búin að borga þá væri ég orðin illa fúll út í þessa rugludalla. Þau eru greinilega ákveðin í því að við eigum ekki að koma á þessa sýningu. En við berjumst á móti...

Hr. Meinvill var ekkert í Photoshop í gær. Nei hann var að setja upp ný ljós með hjálp pabba síns. Eitthvað klúðraðist það nú smávægis því það vantaði auðvitað eitthver stykki í pakkann, samt var þetta ekki frá IKEA. Huh Nú er sem sagt hálfmyrkur (eins og hálfmáni) á ganginum og Sebastian og Jósafat halda að það sé eilíf nótt.

26 febrúar 2004

Meinvill er eins og aðrir dvergar því sem næst sjónlaus. Þetta háir henni ekki í dagsdaglegum störfum því hún er með þennan fyrirtaks kíki sem hún bregður fyrir augun þegar enginn sér til. Núna vill svo til að kíkirinn er eitthvað að bila! Meinvill er búin að prufa að þrífa hann vel og vendilega, pússa og þurrka með til þess gerðu fíneríi. Ekkert virkar og Meinvill er búin að færa lata-drenginn alveg að sjónvarpinu svo hún sjái þá örfáu þætti sem hún hefur gaman af því að horfa á. Hún er líka farin að sitja fremst á stólnum í vinnunni sem þýðir að ekki er neinn stuðningur af til þess gerðu stólbaki og kemur það niður á örþreyttu baki Meinvills. Nú er svo komið að Meinvill verður annað hvort að kaupa nýjan kíki eða nýjan tölvuskjá (sstóóóran) og nýtt sjónvarp (stóórt). Niðurstaðan verður þó örugglega nýr kíkir því hann er eflaust ódýrari en skjáirnir tveir eða hvað?

25 febrúar 2004

Fríksjóv
Sögusviðið er heimili Meinvill í litlum útkjálkabæ í nágrenni Reykjavíkur. Meinvill kemur gangandi að sjónvarpinu sem þau eru ekki með og kveikir á því. Henni til undrunar er að hefjast þáttur með hommunum fimm á Skjá einum. Meinvill rekur upp gleðióp og hendir sér í Lata-drenginn. Hr. Meinvill lætur sé fátt um finnast og heldur áfram á gera hvað það nú er sem hann er að gera í tölvunni.

Meinvill horfir andaktug á þáttinn og tekur virkan þátt í samtölum hommanna fimm við manninn sem þeir eru að breyta. Hún samþykkir og mótmælir. Þetta er eiginlega eins manns sjóv þarna á stofugólfinu en eins og áður lætir Hr. Meinvill sér fátt um finnast. Þátturinn klárast og um leið segir Hr. Meinvill með ánæjuhreim í röddinni:
"Sjáðu hvað ég er búin að gera"

Meinvill lítur á skjáinn og fær hjartastopp á staðnum, eins gott að hún situr í Lata dreng og hefur tækifæri til að láta sér líða vel meðan hún nær andanum aftur.
Á skjánum blasir við kunnugleg sýn sem samt er alls ekki eins og hún á að vera. Þetta er mynd frá jólunum af Skjaldbökunni systur Meinvills og Gullmolanum syni hennar. Hr. Meinvill er búinn að svissa um haus á þeim og þau líta út eins og tvö skrípi frá gullöld fríksjóvanna á þriðja áratugnum.

Þegar Meinvill hefur náð hjartslættinum aftur fær hún hláturskast. Það er fullkomlega eðlilegt, þetta eru oft fyrstu viðbrögð við ótta og skelfingu. Hún hlær duglega eða þangað til Hr. Meinvill segir:
"Ég ætla að senda Skjaldbökunni þessa mynd"

Aftur fær Meinvill hjartastopp og núna andarteppu með. Þegar hún nær loks andanum aftur æpir hún að það megi hann ekki gera, hún eigi bara eina systur og hún vilji eiga hana áfram. Hvort hann átti sig ekki á því að ef Skjaldbakan opni þessa mynd í póstinum sínum að morgni vinnudags þá verði hún lögð á hæli. Meinvill hefur ekki tíma til stunda heimsóknir á sjúkrahús borgarinnar.

Hann samþykkir en fær Meinvill til að lofa að senda myndina þegar Skjaldbakan er vel vöknuð og búin að ná úr sér mestu morgunólundinni!

Kæra skjaldbaka, ég tek fram að myndin er eingöngu frá honum, ekki mér og hann er vondur tengdasonur!

24 febrúar 2004

Frú Meinvill tók að sér aftur að hafa nema. Þrátt fyrir að hafa svarið fyrir að það mundi hún aldrei geraaftur. Neminn sem hún fékk á að vera í nálægð frúarinnar í 80-100 tíma. Ekki slæmt hlutskipti það!

En þessi tiltekni nemi var alla síðustu viku við borð Meinvills og vann og vann. Hún vann svo mikið og hratt að stóri ógnvekjandi bunkinn á borði Meinvill byrjaði að skreppa saman. Hann var ekki svipur hjá sjón eftir vikuna. Hann er hinsvegar kominn aftur en neminn kemur líka aftur. Á morgun. Jibbí. Ég sé fram á það að þegar hún verður búin að vera í dásemdarumsjón minni í alla þessa tíma þá verður skrifborðið mitt tómt, öll verkefni búin og Meinvill farin að vinna hálfan daginn! Hvílíkt dásemdar líf er þetta

Hr. og frú Meinvill eru að læra á photoshop þessa dagana. Það þýðir að nú er af miklum móð skipt um hausa á fólki, þurrkaðir út bakgrunnar og svona gerðar smávægilegar breytingar á flestum myndum. Þetta er í anda kaldastríðsmyndanna frá Rússlandi. Ef hr. Meinvill finnst ólíklegt að einhver maður hafi nokkuð inni á hans mynd að gera, þá hreinlega þurrkar hann þann aðila út. Þetta finnst hr. Meinvill mjög skemmtilegt og segir hann að ekki sé um sögufalsanir að ræða heldur "fíneseringu". Jamm einmitt það. Frú Meinvill hefur verið að birtast í ýmsu líki inn á hinum furðulegustu stöðum. Suma staðina man hún hreint ekki eftir að hafa nokkurn tíma séð fyrr. Þetta minnir um margt á garðdveginn í myndinni Amalie en hann ferðast um ýmsa staði í veröldinni og sendi myndir af sér til eigandans sem skildi lítt í þessu uppátæki. Frú Meinvill er þannig farin að minna á garðdverg, hana vantar að vísu húfuna en vöxturinn og vinkið er til staðar...

23 febrúar 2004

Í nótt fór ég að heimsækja Dísu. Hún var flutt til New York og hún var með ýmsar nýjungar í matreiðslu. Hún til dæmis var með einhverjar pillur með bragðefnum þannig að hún þyrfti ekki að vera steikja beikon og svona ógeð sem fyllir húsið af lykt. Ég sagði henni að á Íslandi værum við enn svona gamaldags að við notuðum fæðuna sjálfa sem bragðefni, engar pillur og hún fékk sjáanlegan hroll. Ég er sammála henni, það er óþolandi að það skuli ekki vera seldar svona pillur hér!

Einhver stal líka ísskápnum mínum meðan ég flutti og ég varð að kaupa nýjan. Hann var fínn nema að það var engin hurð á frystihólfinu þannig að það var soldið kalt að standa fyrir framan ísskápinn. SM fannst þetta alveg ótækt og var reið þjófnum sem stal gamla skápnum og pirruð að ég skyldi ekki hafa látið hana vita svo hún gæti hjálpað til við að leita, en ég leitaði ekkert, ég fór bara og keypti nýjan. Sólrún hinsvegar hafði gert kjarakaup með svona ísskápa hátalara, mjög litlir og sætir, það voru strákar í skólanum hjá henni að selja þá og ég fór og keypti tvo í viðbót og var þá komin með surround á ísskápinn, er það ekki alveg nauðsynlegt? MAB var í göngu meðan á þessu stóð og vildi endilega hafa mig með, ég lét það eftir henni þó ég hefði nú meiri áhuga á að finna nýja hurð á ísskápinn minn. Í göngunni gengum við fram á Siddý og Hödda sem voru í tjaldútilegu með Önnu Jónu og Bigga og Biggi pirraðist út í Hödda sem var búin að taka besta tjaldstæðið alveg við vatnið. Okkur MAB leist ekki á þetta vesen og drifum okkur til baka og mættum þá Sólrúnu í kraftgöngu. Það er ekkert smáræðis sem þær eru duglegar að æfa.

Ég var dauðþreytt þegar ég vaknaði. Enda ekki á hverri nóttu sem mar skýst til Ammeríku og til baka og fer í gönguferðir og tengir græjur svona í þeim stundum sem losna á milli.

22 febrúar 2004

Í gær fórum við Gullmolinn í göngu. Hún hófst með bílferð niður að Læk þar sem við ætluðum að gefa öndunum brauð. Það var ægilega spennandi þangað til við sáum endurnar og þær sáu okkur. Væg lýsing er að segja að þær hreinlega trylltust. Trilluðu sér upp úr vatninu og hlupu í áttina að okkur. Okkur leist ekki á það og ákváðum að þetta biði seinni tíma. Það skal tekið fram að ég var jafnfegin og barnið að við hættum okkur ekki í þessa iðandi andarhrúgu, mitt hjarta er ekki mjög hugað þegar kemur að svona kvikyndum. En við ákváðum að fara bara heim aftur og labba þar á gangstéttinni.

Við löbbuðum rólega af stað, skref fyrir skref. Molinn tók lítil skref og ég stillti minn gífurlega gönguhraða að hans. Eftir smástund tók ég eftir því að skrefin urðu minni og minni, eiginlega var varla hægt að segja að við hreyfðumst. Síðan datt hann utan í fætur mína. Ég beygði mig auðvitað í snarhasti niður til að reisa hann upp aftur en verð að viðurkenna að ég fékk algert hláturskast þegar ég uppgötvaði afhverju Molaskinnið datt. hann var nefnilega SOFNAÐUR.

Við í minni fjölskyldu erum þekkt fyrir mikinn áhuga á allri hreyfingu og það virðist sem barnið hafi fengið sinn skammt

Systir mín er dásamlegur kokkur og flink að bera fram. Hún eldaði mat á laugardagskvöldið fyrir fullt af fólki og það var eins og að vera á fínasta veitingahúsi. það er sama hvað hún gerir, hún gerir það vel


Powered by Blogger