Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

15 júní 2007

Gönguferðirnar mínar ganga mjög vel. Þær ganga reyndar svo vel að ég held að vigtin hljóti að hafa bilað. Þetta er ekki normal nefnilega. Í fyrra var ég í gymminu upp á hvern einasta dag frá 2.nóv til 2. maí og ég léttist um skitin 3 kg. Auðvitað leið mér miklu betur og ég var grennri og allt það, en skitin 3 kg eftir 6 mánaða ástundun upp á hvern einasta dag, það er gjörsamlega óviðunandi ef maður spáir í það. Núna er ég búin að labba í 1,5 mánuði og hef náð MIKLU betri árangri. Er að spá í að fara að selja þessa aðferð og verða rík, svona eins og allir þessir feitu sem birtast í einhverjum þáttum (Göji litli og fleiri).

14 júní 2007

Molinn er kominn með nýtt áhugamál og þar sem drengurinn er búinn að vera umkringdur fólki með svona áhugamál allt sitt fjögurra ára líf þá kann hann alla taktana:

12 júní 2007

Í febrúar, eða var það fyrir áramótin síðustu, fann ég tösku sem mig langaði svo mikið í að ég hreinlega missti svefn í nokkrar nætur. Þetta er skiptitaska fyrir foreldra með ung börn! og þar sem ég er ekki foreldri með ung börn (hell ég er ekki einu sinni foreldri með gömul börn) þá gat ég bara ekki alveg sleppt mér í þessi töskukaup. En taskan góða hefur ekki farið úr huga mér (eins og Kitta veit því ég hugsa að hún sé komin með ofnæmi fyrir töskunni). Nema taskan tók sig upp aftur núna í maí mánuði þegar ég sá fyrir mér að ég gæti kannski bráðum örugglega kannski orðið "foreldri með ungt barn". Ég fór því aftur á netið og lá yfir síðum sem selja þessa góðu tösku, EN upp kom smávægilegt vandamál. Taskan er nefnilega FOKDÝR og það reyndist kosta OFFJÁR að panta hana því hingað komin átti hún að kosta , já látum það bara liggja milli hluta. Ég saltaði því töskuna einu sinni enn en hún var þó svo ofarlega í huga mér að mig dreymdi hana í tíma og ótíma. Draumar mínir snérust um það hversu GLÆSILEG ég yrði með töskuna góðu á bakinu eða hliðinni. Aðeins örsjaldan komst Skakki inn í þessa drauma, en þó sá ég að líklega væri betra að leyfa honum kannski að nota hana einu sinni eða tvisvar svo hann yrði líka GLÆSILEGT foreldri með ungt barn.


Og þá kemur að móral sögunnar, nefnilega því að tengdamóðir mín fór til Osló á virðulega ráðstefnu. Með henni í för var fullt af öðrum kvinnum í sömu erindagjörðum (meira segja voru þarna kvinnor eins og Helga V. og Margét sem þó var í karlahópi í allt öðrum erindagjörðum en á sama stað og á sömu stundu)... hvert var ég komin, já ég fékk þessa svínfínu hugmynd. Nefnilega að athuga hvort Norðmenn, sem alltaf hafa verið framarlega í tískunni, já athuga hvort þeir seldu töskuna góðu. Mér til mikillar undrunar og gleði (bendi aftur á setninguna um tískuna en hún var sögð með háðslegum undirtóni) þá reyndist vera búð sem seldi töskuna, en ómögulegt reyndist vera að sjá hjá þeim hvaða gerð nákvæmlega þeir seldu (taskan kemur í mörgum, mörgum litum). Ég fór því og bað tengdamóður mina hvort möguleiki væri að hún gæti athugað svona tösku fyrir mig. Ég sagði henni jafnframt að taskan væri DÝR svo eflaust ætti þeir bara eina eða tvær týpur og því myndi ég treysta henni fyrir valinu. Bleik kæmi þó kannski síst til greina ef Skakki vildi líka geta notað hana!!!! Nema hvað, þetta reyndist auðsótt mál og í nótt svaf ég með töskuna í fanginu. Hún er ÆÐISLEG!!!! Og nákvæmlega eins og ég vildi hafa hana (það voru til tvær típur: önnur var dýr og hún var keypt, hin var FOKDÝR og ekki keypt sem betur fer því þetta er taskan mín).

Nú á ég æðislega skiptitösku, fullt af smekklegum smábarnafötum, komin með rúm í láni en hmmm andskotinn ég gleymdi BARNINU!

En hey, ef þið sjáið flotta konu á ferð með flotta skiptitösku þá er það örugglega ég (ekki víst að barnið verði með í för þar sem það er ekki komið í mína fylgd ennþá).

11 júní 2007

Mikið svakalega fór ég í fína kvennaveislu um helgina. Ein konan af námskeiðinu átti stórafmæli og bauð öllum konum í lífi sínu (vinnu, námskeiði, einkalífi ogsfrv). Þetta var stór hópur fríðra og glæsilegra kvenna og veitingar æðislegar. Það besta var samt að eftir að heim var komið var hægt að hengja kjólinn inn í skáp en ekki setja beint í þvott. Þetta reykingarbann er FRÁBÆRT!!


Powered by Blogger