Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

27 júní 2003

Ég hef enga afsökun lengur fyrir því að taka ekki upp línuskautana mína! Enga alveg sama hvernig ég leita og trúið mér ég hef leitað með logandi ljósi að einhverju sem mögulega gæti veitt mér afsökun! Ég held að hræðsla við að detta teljist ekki fullgild ástæða!!!! En sem sagt ég er búin að segja Armour vinnufélaga mínum ástkærum að nú sé ekki eftir neinu að bíða nú séum við að fara á skauta! Hún maldar í móinn með einhverri fáránlegri afsökun um að hún eigi enga skauta en ég hlusta nú ekki á slíkt og gæti verið búinn að redda henni skautum til að prufa! Við ætlum að prófa þetta þegar ég kem til baka frá Svíþjóð, get sem sagt látið mér kvíða fyrir því, ég er nenfilega hrædd um að ég endi svona:

Jájá, þá er ástkær systir mín búin að fara til fyrrverandi tengdafjölskyldunnar og sýna þeim prins Vittorio. Hann vakti mikla gleði og hans ítalska amma gerði náttúrulega það sem ítalskar konur gera gjarnan í bíómyndum: Hún byrjaði að troða í hann mat. Einn rétturinn birtist af öðrum; kartafla sérbökuð fyrir hann, spaghetti sérstaklega fyrir hann, vatnsmelóna, einhver annar dularfullur ávöxtur og svo frv. Og alltaf tók hann við. Það er gaman að gefa honum að borða. Þetta var víst heilmikið fjör og þau voru gjörsamlega í andarslitrunum eftir þessa kvöldheimsókn. Hitinn er sá sami um og yfir 30 stig. Hljómar skemmtilega hehe
Ég fór í gærkvöld með Marín aað heimsækja Hrönn en við erum meðlimir í átthagafélagi Breiðholtskvenna-Ísbjarnardeild. það félag telur nú þrjá. Þetta var hið ágætasta kvöld og um miðnætti hrukkum við upp við að klukkan væri kannski að verða soldið margt og hunskuðumst heim.
Ég er enn að hugsa um hundinn, veit bara ekki hvaða tegund það ætti að vera því það verður helst að vera einhver ræfill því ég er hrædd við hunda!!! Hvaða hundtegund gæti það verið? Og já hann má ekki vera stór því þá étur hann svo mikið og ég tími því ekki. Haukurinn sagði jájá fáðu þér bara hvolp..haha hvað gerir hann ef ég tak hann á orðinu??
Og í kvöld er nornaklúbbur hjá Marín, spá í spilin og allt það!

26 júní 2003

Ég er að hugsa um að fá mér frekar hvolp!!! Þeir eru mikla minna mál og það er hægt að kaupa sæt föt á þá, svona Burberrys dæmi og svo þarf maður ekki lengur að fara í heimsóknir því það vill enginn fá hundinn í heimsókn! Já ég er sterklega að hugsa um það!!!
Og hvað varð til þess að snúa mér? Jú, það var þetta með rauðuhunda sprautuna! Hver sagði að lífið yrði auðvelt? Ja, ég er allavega búin að finna það út að fyrir síðasta sumar þá átti ég MJÖG auðvelt og þægilegt líf. Ég hafði sjaldan þurft að fara til læknis og ekkert þurft að eiga við kerfið annað en borga skattana míns sem ég gerði samviskusamlega (að vísu alltaf með smá tuði yfir þeim en borgaði samt)! En síðasta ár breyttist þetta allt! Þá fór ég að eiga við lækna og kerfið og það verður að viðurkennast að um tvo kosti er að velja, annað hvort að grenja eða hlæja (eða hvoru tveggja)! Ég valdi seinni kostinn en verð samt að viðurkenna að það er farið aðeins að stirðna á mér brosið upp á síðkastið. Eiginlega þá verð ég að æfa það soldið á morgnana áður en ég skrönglast út til þess að ég fipist ekki yfir daginn og detti yfir í hinn kostinn!
Nýjasta nýtt í læknasögunni er rauðuhundasprautan. Málið er að þar sem ég mældist með lág gildi í mótefni vegna rauðra hunda þá er mér eindregið ráðlagt að fá sprautu! Og um leið sagt, þú ferð bara til heimilislæknis og þar er þetta gert! Gott mál og einfalt! En er lífið nokkurn tíma svona svakalega einfalt? Nei aldeilis ekki! Ég hringi sem sagt til heimilislæknis (sem ég hef ekki talað við í 5-6 ár sökum þess að ég hef ekki þurft á því að halda en það hefur sem sagt allt breyst) og panta mér svona sprautu. Þar segir vingjarnlegur hjúkrunarfræðingur að lyfið sé ekki til en það sé ekkert mál hun bara panti það og vinsamlega hringdu eftir 2-3 daga. Ahhh loksins eitthvað einfalt! Í morgun var dagur 3 í 2-3 dagar svo ég hringdi og fékk að tala við vingjarnlega hjúkrunarfræðinginn. Hún var áfram vingjarnleg en líka vandræðaleg "Ég veit að þú trúir því ekki en þetta er ekki alveg svona einfalt að panta þetta lyf, þetta er nefnilega undanþágulyf"!!!!!
WHAT? og HVAÐ?
Ég meina það segir mér ekki svo mikið að eitthvað lyf sé undanþágulyf. Hún skýrði það út fyrir mér: Þegar um undanþágulyf er að ræða verður læknisr að senda sérstaka beiðni á sérstöku eyðublaði með einhverju númeri og láta vita hver sjúklingurinn er sem á að fá lyfið (hún vissi auðvitað ekkert hver ég var þar sem ég hafði bara talað við hana sem Akr ekki nein kennitala og ekki neitt). Hún bað margfaldlega afsökunar á þessu (eins og það sé hennar sök) og sagði að það væri erfitt að trúa þessu þar sem dóttir sín væri búin að fá svona sprautu og það hefði ekki verið nein undanþága á að fá sprautuna heldur ættu allar stúlkur að fá hana. Ég sagði henni að hafa ekki áhyggjur þetta væri bara í takt við alla þessa sögu, ég hefði bara gleymt mér augnablik og haldið að loksins væri komið að einhverju auðveldu. Hún sem sagt var að hringja í mig aftur rétt áðan og sagði að heimilislæknirinn hefði eftir mikla leit fundið eintak af svona beiðni (greinlega ekki oft að fá undanþágusjúklinga) og þetta væri komið af stað. Hún hefði þar á eftir fengið númerið á beiðninni og hringt það inn til að flýta fyrir og því mætti reikna með að lyfið kæmi eftir hádegi á morgun eða á mánudagsmorgun. Er þetta líf nokkuð flókið?????
Er einhver hissa á því að mig er farið að langa í hvolp, ætla að fara aðeins á netið og skoða hundaföt!!!!!!

Ok búin að laga það, efast um að nokkur maður hafi tekið eftir því að eitt micróaugnablik var ekki hægt að lesa síðuna mína af því allir íslensku stafirnir duttu út ;)
Gunna lenti í Veróna á miðnætti í gær og þá var 30 stiga hita á miðnætti spáið í því og vittorino var ekki búinn að sofa neitt, enda á mar ekkert að vera að sofa á ferða lögum (jætes)!!
Við haukurinn fórum ekki í merkjagöngu í gær vegna gífurlegrar leti af okkar hálfu enda byrjaði að rigna rétt á eftir eldi og brennisteini þannig að við höfum eflaust fundið það á okkur. Einu sinii fyrir mörgum árum sagði Auður K. að mar yrði svo fallegur á því að labba í rigningu en það hefur aldrei átt við mig, ó nei!

Jæja Blogger bara búinn að breyta, ætla að pósta eitt til prufu og sjá hvort það sé rétt sem ég held að íslensku stafirnir hafi dottið út hjá þeim

25 júní 2003

Ég bætti nokkrum myndum í Lundúnamyndirnar (af því Árni er alltaf að kvarta). Þetta eru kannski ekki alveg týpískar stórborgarmyndir en þar sem við sátum í görðum mest allan tímann þá er þetta svona það helsta.
Í dag fer minn kæri guðsonur Vittorino (Viktor Orri) til heimalands mafíósa og annarra bófa og verður í burtu í heila T'IU daga. Ég verð komin með fráhvarfseinkenni þegar hann kemur til baka. Til sárabóta reyndi hann að æla yfir mig tvisvar í gær, tókst einu sinni en ég rétt náði að henda honum í mömmu í fyrra skiptið og því fór sem fór, öll gusan yfir hana. Þegar þessi prins var búinn að æla yfir virðulega móðursystur sína og guðmóður, þá setti hann hendina í sullið og klappaði mér elskulega í framan. Fallegt af honum og að ég tel alveg örugglega ekki úr minni fjölskyldu, hlýtur að vera mafíósahliðin sem þarna brýst fram. En hann fer sem sagt til Flórens í dag með móður sinni. Þar er brjálaður hiti, í Róm er t.d. heitasti júnímánuður í 213 ár (og svo erum við að tala um hita). Vittorino fer vopnaður sandölum og stuttmönnum þannig að hann geti sýnt á sér bestu hliðina (hann á svo sem engar verri) ;))
Það kom neikvætt út hjá okkur hauknum þannig að við verðum að fara aftur í sprautur í haust (oj bara) og til að kóróna allt saman verð ég að fara í rauðu hunda sprautu núna í vikunni því í blóðprufu reyndist ég vera með of lág gildi fyrir rauðum hundum. Það væri allt í lagi nema að einu leyti, það verður að vera extra varkár í þrjá mánuði sem þýðir væntanlega að það er bið hjá okkur í þá mánuði. En sem betur fer er allt lokað núna og fram í ágúst þannig að ég get látið vera að pirra mig yfir því (geri það samt og hana nú)!!!
Ég er samt mest hissa á öllu þessu læknisbulli. Það er eins og enginn lesi skýrslurnar um mann fyrr en maður sest fyrir framan þá og samt fá þeir sendar niðurstöður úr blóðprufunum. Hvað gera þeir við þær? Stinga þeim undir stól og hugsa "wow þetta er ekkert sem henni kemur við". Ef einhver hefði asnast til að segja mér frá öllum þessum blóðprufum í fyrra þá hefði ég gert þetta síðasta sumar þegar ég var hvort eð er á lyfjadrasli að bíða eftir að komast í aðgerð. Hefði notað tímann þá og það hefði munað því að við hefðum getað byrjað að vinna í þessu alla vega fimm mánuðum fyrr. ARG ARG stundum verð ég svo fúl út í þetta læknalið!!!!!!

24 júní 2003

Í fyrrinótt fékk ég hræðilega martröð, gat ekki skrifað hana hér því ég var búin að skemma bloggið en þar sem það er komið í lag ætla ég að bæta úr því. Sem sagt forsagan er sú að það var strákur að hætta hjá fyrirtækinu og svo sem allt í lagi með það. Þetta er sætur strákur og það er líka í lagi með það en í martröðinni minni var Birna Rebekka komin með kærasta. Jamm hún Birna okkar og hún vildi ekki segja okkur fyrst hver það væri en síðan kemst ég að því mér til skelfingar að það er þessi strákur sem var að hætta. Í draumnum varð ég alveg skelfingu lostin, því ekki nóg með að hann væri atvinnulaus og myndi því lifa á Birnu (og laununum úr Bæjarvinnunni) heldur er hann líka alltof gamall fyrir hana (að verða þrítugur). Ég vissi ekkert hvernig ég átti að snúa mér og sem betur fer vaknaði ég þá!
Birna Rebekka viltu gjöra svo vel að PASSA þig á strákunum. Ég vil ekki fá svona hjartstopp eins og ég fékk í draumnum. Þú mátt svo sem alveg finna þér kærasta en hann má EKKI vera svona gamall og VERÐUR að hafa vinnu. Og hana Nú!!!!!

Ég verð nú aðeins að fá að velta mér upp úr fyrirsögnum þar sem dagurinn í gær datt alveg út. Þessi greip huga minn á Visi:
Salernið víkur ekki
Úff eins gott að maður mæti því ekki! Ég reikna með að nógu erfitt sé að mæta einu slíku á fleygiferð þó maður þurfi ekki að reikna með að það víki ekki, hvað sem á gengur.

USSSSSSSSS ég lagaði bloggið sjálf..þetta hyski sem sér um Blogger lét ekki svo lítið að lesa beiðnina mína og þegar ég var búin að bíða í 12 tíma (frá 9-9) þá gafst ég upp, fór og eyddi beiðninni og setti síðan upp nýtt template. Held að mér hafi tekist að gera þetta svona nokkuð eins nema að teljarinn lenti á vitlausum stað. En ég nenni ekki að ergja mig á því, ætla bara að hafa hann þarna í bili!!!!!!!!
Gærdagurinn var sem sagt rosa skrítinn, ekkert skrif og allt það! Ég hélt mér samt við með því að skrifa í gestabókina hennar Hörpu, takk fyrir það ;))
Núna ætla ég að vinna smá og skrifa síðan góða romsu á eftir.....

23 júní 2003

Úff það hefur eitthvað gerst með bloggið mitt. Ég ætlaði að laga myndasíðuna mína og setti inn nýjan link en þá hvarf allt úr templeitinu mínu! Úff scary, ég veit ekki alveg hvað ég á að gera og sendi því fyrirspurn á blogger sjálfann (jamm rosa klár en þar sem það er hánótt hjá honum fær ég ekki svar fyrr en einhvern tíma í kvöld). En sem sagt ætlunin var að setja inn nýja myndasíðu því ég sá hjá Árna að hann er búinn að finna nýja síðu sem er auðveldari í meðförum en sú gamla. Ég prufaði hana í gær og hún er MIKLU betri. Er búin að setja inn nokkrar myndir til að prufa en linkurinn hjá mér er bilaður þar sem ég get ekki sett neitt inn í templeitið..en slóðin er hér svona til að byrja með: myndir


Powered by Blogger