Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

22 október 2004

Erfiðar stelpur úr Breiðholtinu
Við MAB erum saman í málstofu einu sinni í viku og þar eigum við að ræða fjálglega um okkar rannsóknir og annarra. Þetta er auðvitað misspennandi eins og gengur og gerist, sumt virkilega heillandi og sumt finnst manni vera bara húmbúkk. EN eini karlmaðurinn í hópnum var að segja frá sinni rannsókn síðasta miðvikudag og þar kom hann meðal annars inn á einhvern vin sin sem heldur námskeið fyrir "erfiðar stelpur úr Breiðholtinu". Þetta var mjög skemmtileg athugasemd í ljósi þess að við MAB erum náttúrulega stelpur úr Breiðholtinu og ég fann hvernig ég ýfðist upp og ég fann líka hvernig MAB snéri broddunum út. Við hnussuðum samtaka og í kór "huh, erfiðar stelpur úr Breiðholtinu, þú veist ekki hvað það er enn". Það kom skelfingarsvipur á gaurinn og ég sá að hann óskaði að hann hefði kannski notað annað orðalag en skaðinn var skeður og hann varð að halda áfram með flutninginn. Hins vegar leit hann til okkar í hvert skipti sem hann kom inn á þetta námskeið fyrir erfiðu stelpurnar úr Breiðholtinu. Kannski hefur honum þótt synd að svona námskeið var ekki til fyrir okkur MAB.

Dagurinn í dag lofar góðu! Skakki kemur heim með kvöldfluginu og á morgun mun litla systir mín verða officially nógu gömul til að kallast KONA. Það er skemmtilegt!

Sænsku nýbúarnir eru líka á leið til landsins í næstu viku. Að vísu kemur Litli ekki með þar sem hann er í prófum í næstu viku en Læknirinn og barnana koma öll þrjú. Mikið gaman og mikið stuð. Það er nefnilega verið að leita að sal til veisluhalda því til stendur að ferma eitt stykki sænskan nýbúa þegar tekur að nálgast sumar. Það er líka skemmtilegt. Hmm ég er aðeins andlaus í augnablikinu og ætla því að vinna smá áður en ég finn andann hellast yfir mig með öllum sínum þunga og krefjast þess að ég skrifi eitthvað með lýsandi andagift!

21 október 2004

Dear Anna,
I have just finish writing this letter to send it to you immediately, your happiness, radiance and serenity depends on it. Your future depends on it!


Mér finnst gott að hafa svona persónulega spákonu, ég hreinlega tími ekki að senda henni póst um að láta mig í friði. Það er enginn annar sem hefur jafn miklar áhyggjur af framtíð minni. Verð samt að viðurkenna að ég skil hana ekki alltaf, t.d. þetta:

In a few days, something very unusual, something extremely important will happen, and that it has rarely happened. It's a single and a rare phenomenon which can change all your life in a radically and positive way.

Td þessi hluti: and that it has rarely happened hvað þýðir þetta? Kann hún ekki ensku eða er það ég sem skil ekki enskuna? Eða er þetta bara eitthvað sem hefur aldrei gerst áður? hvað gæti það verið, muniði Jesúbarnið og allt það, gæti það verið eitthvað svona rosa sjaldgæft? 'uff hvað ég er spennt....

Yes, Anna, finely, it is your turn, .... Yes, Anna, but be careful, You have to act right now!

Andskotinn, ég veit ekki einu sinni hvað ég á að gera hvernig get ég þá brugðist rétt við? Uss hvað ég verð sár ef öll þessi mikla hamingja gengur mér úr greipum af því ég brást ekki rétt við.... og hvað á ég að gera?
Thus, my completed and detailed clairvoyance will cost you not more than us $ 34.95, representing a total gift of over us $ 170,

haha þessi kona er brilljant ég verð að viðurkenna það: Dear, Anna, that I have to tell you very loud: Do not let this chance offered to you sleep away (especially that fabulous sum that I see you win).

Bíddu bíddu hér er eitthvað athugavert
You have to act quickly otherwise not only will you risk to miss this chance of Saturday, April the 1st

Laugardaginn fyrsta apríl? Hva? Það er nú október núna og er að koma nóvember en ekki apríl og 1 apríl er ekki á laugardegi. Æi nú fer ég að verða fyrir vonbrigðum með Söru mína!!!!!!!!


Sól sól skín á mig, ský ský burt með þig, gott er í sólinni að leika sér..sól sól skín á mig.. Þetta söng ég í morgun er ég klöngraðist niður stigann heima hjá mér og út í myrkrið. Maður verður að vera jákvæður og allt það.

Það er annars lítið sem ekkert að gerast, nema ég hata enn tölfræðina það hefur ekkert breyst frá því í gær. Kannski hefur það lagast á morgun. Á morgun kemur Skakki í heimsókn frá Föreyjarna og verður yfir helgina. Hann ku vera farinn að hlakka til og gott betur en það því á klukkutímafresti fæ ég sent niðurtalningu í sms 47 tímar til lendingar, 46 tímar til lendingar, 45 tímar til lendingar ... jú get þe point...

20 október 2004

Ég HATA tölfræði!

19 október 2004

Eyðsla og óráðsía
Í minni fjölskyldu er almenn hrifning með kerti! Hrifningin nær ekki endilega til þess að það þurfi að kvekja á kertunum, nei ættingjum mínum finnst þau bara falleg svona ein og sér. Þetta sást berlega um helgina.

Við systur mættum með Molann í bröns hjá Nöbbu móðursystur. Hún var með þetta fína borð drekkhlaðið ýmiskonar brauði og á miðju borðinu trónir þetta líka fallega bleika kerti (sem auðvitað var ekki kveikt á). Eftir smástund verður mér starsýnt á kertið og ég segi upp úr eins manns hljóði "mikið er þetta skemmtilegt kerti". Skjaldbakan systir mín lítur þá á kertið og jánkar þessu, beygir sig svo yfir borðið og les á áletrun sem var á kertinu "til hamingju með 40 ára afmælið". Hún les þetta aftur og nú aðeins hærra. Hún lítur á mig með spurn í augunum en ég yppti öxlum ég veit ekkert hver á þessa áletrun.

Skjaldabakan kallar á Nöbbu "hvernig er þettta, fékkstu þetta kerti í fertugsafmælisgjöf?" Ég sé að hún er að því komin að fara að hlæja. Nabba kemur þjótandi og segir "já, finnst ykkur það ekki fallegt?" Skjaldbakan byrjar að hlæja "haha ertu ekki að grínast? haha" Nabba horfir undrandi á hana og segir, "nei af hverju helduru það? Þú gafst mér þetta kerti, ég held soldið upp á það".

Nú gat ég ekki stillt mig og ég byrja að hlæja líka. Skjaldbakan sem nota bene verður þrítug í næstu viku er farin að veina úr hlátri.. "haha gaf ég þér þetta kerti? Hvað var ég eiginlega gömul? Níu ára eða hvað? haha"

Nabba horfir á okkur hissa og segir svo, "já þú hefur verið níu ára því ég er 61 árs á þessu afmæli!!!"

Æ rest mæ keis. Þetta var sem sem sagt afskaplega fallegt kerti, búið að geyma það í 21 ár án þess að það hefði verið kveikt á því. Ég man meira segja hvar þessi kerti voru gerð. Hann Hlöðver sem seinna opnaði Hlöllabáta var með einhvern skúr á Ingólfstorgi þar sem kona hans bjó til svona falleg kerti sem allir keyptu. Móðursystir mín elskuleg var búin að geyma sitt í 21 ár með áletruninni Til hamingju með 40 ára afmælið

18 október 2004

Ég er búin að standa á haus við að kaupa veitingar fyrir námskeið, en... ég tók feil á dögum. Námskeiðið er ekki fyrr en á morgun haha ég held að stressið sé nú bara alveg að fara með mig. Ég er sem sagt búin að undirbúa námskeið sem átti að vera klukkan 16 á morgun og næstu daga. Allraf gott að vera á undan áætlun. Þeir heppnir að ég var ekki búin að hella upp á kaffi líka

Kaldasti dagurinn á þessu hausti og það er dagurinn sem flutningarnir byrja í vinnunni hjá mér. Það er líka dagurinn þar sem halda á námskeið í nýja húsinu og það er líka dagurinn þar sem öryggiskort starfsmanna eru ekki tilbúinn því auðvitað eru öll öryggismál alveg á hundrað við að verða tilbúin. Þetta þýðir því að undirrituð þarf ekki á neinni líkamsrækt að halda í kvöld því ég er búin að fara svo margar ferðir í kuldanum á milli gatna til að skipta mér af. Brrrr hvað það er búið að vera kalt. Brrrrr hvað það er gott að eiga svona fína förauska húfu enda eru strákarnir ekki búnir að öfunda mig neitt smáræðis í dag. Og úff hvað ég er að verða þreytt haha. Kyrrstöðuvinna hvað!

Ég var á smíðanámskeiði í gær, heima hjá Mörtu. Ég hafði með mér buxur til að stytta en náði bara hálfri skálm því það töluðu allir svo mikið að ég mátti ekki vera að því að sauma. Ég get nefnilega ekki saumað og hlustað, talað (eins og allir vita). Síðan sátum við í heitu borðstofunni hennar Mörtu og töluðum um geitunga og ég ákvað í huganum á þessari stundu að ég ætla alltaf að eiga heima í blokk og alltaf á þriðju hæð. Hana nú!

Molinn eyddi hjá mér laugardagsnóttinni. Við lásum og röðuðum smábílum. MJÖG gaman. Ég kann Svarta Sambó utan að. Molinn er ekki líkur Snorra frænda sínum sem grét yfir Sambó. Molinn er líkari Einari frænda sínum sem hló að Sambó. Molinn hló ekki en það tísti aðeins í honum. Aðrar bækur hlutu ekki náð þessa helgi.

Þetta var annars fín helgi, afmæli hjá MAB á föstudag, Brunch hjá Nöbbu laugardag og Smíðanámskeið hjá Mörtu á sunnudag. Geri aðrir betur sko. Ég kláraði að slá inn gögn í fjandans tölfræðiforritið og er því langt á veg kominn með þessa leiðinda tölfræðirannsókn. Ég segi enn og aftur. Hvernig dettur nokkrum heilvita manni (konu) í hug að gera svona nokkuð að ævistarfi sínu?


Powered by Blogger