Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

15 ágúst 2003

Íslenskir stafir
Það er margt bölið hjá mörgum og misjafnt hvað fólk kallar vandamál. Haukurinn sendi mér þessa síðu en þarna er einhver tölvuleikjaguttinn að velta fyrir sér vandamáli sem hann á í við íslenska leikmenn. Í nöfnum íslenskra leikmanna er nefnilega tákn sem hann kannast engan veginn við og er viss um að sé einhverskonar villa:
It's like a hat turned clockwise 90 degrees.
Og um hvað er blessaður maðurinn að tala? Jú hann er að tala um Þ. Það er alveg brilljant að lesa þessa síðu því þarna kom inn margir aðila og svara honum og reyna að finna lausn á þessu vandamáli eins og t.d. þessi:
Suggest you take it over to PC Support as they are usually very good at sorting out even these small niggles!

Mér finnst þetta fyndið ;)

Jamm haldi menn svo bara áfram að gera grín að mér og Interpol

Interpol
Vissir aðilar hafa verið að hlægja að óförum mínum á alþjóðlegum flugvelli og gefið í skyn að ég hljóti að vera á lista hjá Interpol eins og hinir hryðjuverkamennirnir. Ég get nú ekki annað en svarað þessu hátíðlega, ég er nefnilega ekki á sakaskrá.

Systir mín elskuleg, það er sko allt önnur Ella. Í gær sótti hún um aukavinnu hjá ónefndu fyrirtæki hér í borg, þetta var allt gert á netinu ægilega fínt og hún nokkuð sátt með sjálfa sig. Í kjölfar umsóknarinnar fær hún símtal frá ráðningarstjóra umrædds fyrirtækis og gengur það einhvern veginn svona fyrir sig:
-Jaa þú skilur að ég get nú ekki ráðið þig þar sem þú ert á sakaskrá.
-Sakaskrá?
Já, sakaskrá.
- Guð minn góður! Er ég á sakaskrá? Fyrir hvað? Hvernig sérðu það? Ó guð minn góður hringdir þú í lögguna (þegar hér er komið sögu þá hefði mig sem ráðningarstjóra verið farið að gruna að hún hefði stórvægilegt magn afbrota á sinni svörtu sál)
-Nei ég hringdi ekki neitt, ég þurfti þess ekki.
- Hvað meinar þú? Hvernig? Hvað?

_ Nú á umsókninni er reitur þar sem merkja á já eða nei við það hvort menn séu á sakaskrá og þú merktir JÁ!

14 ágúst 2003

Rannsóknir vísindamanna
Ég er eiginlega farin að sjá eftir að hafa ekki orðið einhverskonar vísindamaður. Þeir fá nefnilega að rannsaka svo margt spennandi (eða þannig). Það er ein rannsókn í gangi núna sem er sérlega spennandi. Það er búið að kalla eina sem ég þekki í þessa rannsókn og hún fer núna á eftir og lætur tappa af sér fullt af blóði í þágu vísindanna. Og hvað er verið að rannsaka?

Fitugenið

Það er að segja, þessi rannsókn snýst um það að finna fitugenið! Skil ekki af hverju það er ekki haft samband við mig, ég er örugglega með þetta gen og það þyrfti ekkert að leita að því mjög lengi.

Hins vegar er auðvitað gott að ég þekki þessa konu, ég fæ þá að vita frá fyrstu hendi þegar búið er að finna þetta fitugen og get farið og látið fjarlægja mitt!!

Tölvan er komin í lag, húrra
Hinsvegar er tölva foreldranna í messi og mér tókst ekki að eiga neitt við hana í gær. Ég systirin sátum í fleiri tíma eða þar til öll þolinmæði var löngu þrotin og reyndum að eiga við hana. Reynum aftur í kvöld.

13 ágúst 2003

VÍRUS ALERT
Vinnutölvan mín smitaðist af vírus og er illa haldin. Þetta lýsir sér þannig að tölvan slekkur á sér í tíma og ótíma. Gjörsamlega óþolandi og óvinnandi. Ég get ekki gert við hana sjálf þó ég viti hvernig á á að gera það því ég er ekki með réttindi til þess að gera svoleiðis "stuna". Nenni ekki að vinna neitt því það er augljóst að það óvinnandi þegar kerfið lokast með reglulegu millibili. Aðeins eitt jákvætt og það er að maður hefur möguleika á að vista áður en allt lokast. Huggulegur af vírusstjórnandanum að hafa það svoleiðis eða þannig!

12 ágúst 2003

Leigubílstjórinn og ástkær systir mín fara hamförum í gestabókinni þar sem þær hlægja að tilburðum mínum á hinum alþjóðlega flugvelli Heathrow. Persónulega finnst mér ennþá að þær ættu að vera þakklátar fyrir þessa kennslu í hegðun á flugvelli sem var þeim algjörlega að kostnaðarlausu. Verð samt að viðurkenna að ég man enn tilfinninguna sem ég fann fyrir þegar mér var skipað að lyfta upp höndunum. Í gegnum hugann runnu öll minniháttar afbrot sem ég hef framið um ævina og ég lofaði sjálfri mér að gera aldrei neitt af mér aftur (hef að vísu gleymt því fyrir löngu síðan enda langur tími síðan þetta var).

Heita vatnið
Bæ þe vei get eiginlega ekki annað en hrósað þessum gaur:
"Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að menn muni að sjálfsögðu taka málið til athugunnar aukist notkun landsmanna á heitu vatni á ný. "
Þetta hljómar eins og hótun sem ekki er neitt að marka: Ég ætla að hækka verðið og EF þið notið meira heitt vatn þá KANNSKI lækkum við aftur.

Akranes here æ komm
Fór um sveitir landsins með fríðu föruneyti í dag og skoðaði veitingahús og söfn. Þetta var ægilega gaman. Við fórum þrjár; ég, Armor og háttvirtur yfirmaður okkar. Hún (yfirmaðurinn) hélt uppi fjöri alla leiðina með því að fræða okkur um ýmis mál og vorum við andaktugar yfir reynslu hennar. Að vísu þagnaði hún einu sinni og sagðist vera farin að tvítaka sig því hún hefði sagt okkur þetta allt áður, við þrættum fyrir það og hvöttum hana áfram og varð hún við þeim óskum. Mjög spennandi.

Fyrsti staðurinn sem við heimsóttum var Skessubrunnur rétt hjá Akranesi. Þvílíkt grand staður. Við vorum næstum orðlausar (það er mjög erfitt að gera okkur orðlausar) og viljum endilega halda þarna góða ráðstefnu. Þetta er alveg rosalega fínn staður til þess.

Við vorum rétt komnar inn þegar húsráðandi bauð okkur hvítvín. Við urðum hálf hissa og neituðum kurteislega, alveg óþarfi að bjóða okkur hvítvín. Húsráðandi var hálf hissa og sagði:
"En það er alveg ómissandi að hafa hvítvín með humarsúpunni"
"Hvaða humarsúpu'"
"Nú humarsúpunni sem ég er að elda fyrir ykkur" (hún vissi að von væri á okkur)
Við störðum hver á aðra í forundran og hálfhikandi sögðum við - já, auðvitað með súpunni!
Húsráðandi opnaði nú litla hvítvín og yfirmaðurinn sagði "nei, nei ekki fyrir mig ég er á bíl, stelpur fáið þið ykkur!"
Ég sagði strax að ég vildi ekki heldur en hvatti Armour til að fá sér. Húsráðandinn hlustaði ekki á þetta væl í okkur og skipti flöskunni í þrjú glös og skipaði okkur síðan að fara í næsta sal og fá okkur sæti meðan hún næði í súpuna. Við gerðum það.

Eftir augnablik birtist húsráðandinn með angandi humarsúpu í lokuðu brauði. Ég hugsa að svipurinn á okkur hafi verið dýrðlegur. Þarna sátum við uppi í sveit, með dýrðlega súpu og hvítvín. Hvað verður lífið betra?

Jæja við kláruðum súpuna (og hvítvínið sem við vildum ekki af því við vorum á bíl) og þetta var ægilega gott. Gerðum tilboð í leigu á salnum og spurðum af rælni hvernig það væri með kokteila (fínar dömur drekka kokteila á góðum stundum). Húsráðandi spratt á fætur og sagðist vilja gefa okkur að smakka kokteil hússins (eitthvað voða sterkt með vodka og flottheit), við sátum eins og prinssessur og smökkuðum kokteilinn (hún gerði hálfan kokteil sem við supum allar á). Yfirmaðurinn hvítvínshræddi hafði nú gjörsamlega gleymt því að hún væri á bíl og saup stórum á kokteilnum.
"Þetta er frábær drykkur"
Við horfðum á hana í forundran og náðum ekki að segja neitt áður en hún las í svip okkar að það væri nú kannski ekki alveg eðlilegt fyrir bílstjórann að segja nei við hvítvínslögg og já við vodka. Glasinu var skilað í flýti!

Eftir þetta vorum við eiginlega búnar þarna og brunuðum því næst á Akranes að skoða Safnasvæðið. Við fórum nú ekki inn (sem betur fer fyrir mig sem er með eindæmum safnahrædd) en fengum upplýsingar hvernig við ættum að haga okkur ef við vildum koma með stóran hóp og skoða.

Fengum okkur ís á Akranesi enda orðnar svangar eftir að hafa borðað hádegismat tvisvar í dag og brunuðum í bæinn.

Í gærkvöldi brunuðum við niður á Reykjavíkurhöfn að skoða bát (snekkju eða skútu ég man bara ekki hvort þetta var og þar sem ég er leiðrétt í hvert skipti sem ég segi það ætla ég bara að kalla þetta bát). Þetta er rosalega flottur bátur (einhvernveginn finnst mér þetta vera snekkja) frá Ástralíu. Hann er á tveimur hæðum og í honum eru m.a. tveir léttabátar og fullt af róðrabátum. Báturinn er glansandi fínn og ekki er ryðtaum að sjá neinstaðar. Kallinn sem á hann langaði til að fara til Íslands og sagan segir að hann hafi þá bara hringt í krjúfið á bátnum og sagt þeim að sigla honum þangað. Sjálfur tók hann flugvél og flaug þegar báturinn var hingað kominn. Nokkuð grand.

11 ágúst 2003

Upp með hendur
Leigubílstjórinn er að gera grín að mér fyrir að hafa kennt fólki hvernig það á að hegða sér á Heatrow. Þetta er alls ekki fyndið og mér finnst alveg furðulegt að fólkið sem þarna kom við sögu skyldi ekki hafa nefnt þakkir sínar fyrir löngu því nú á tímum hryðjuverka og almennrar glæpastarfsemi getur þetta verið nauðsynlegur eiginleiki til þess að komast af!

Þetta var fyrir langt um löngu síðan en ég er þekkt fyrir að vera alltaf aðeins á undan minni samtíð í flestu sem ég tek mér fyrir hendur (nema í því að finna mann það beið ég með í mörg mörg ár eða þangað til ég fann haukinn). Við vinkonurnar, leigubílstjórinn og ég ásamt fríðu föruneyti vorum í London á heimleið. Ég man nú ekki alveg hverjir voru með en það var allavega systir mín ástúðleg, Hjartað og Bjargey, man hreinlega ekki hvort við vorum fleiri en það skiptir minnstu máli því það var þarna fullt af fólki sem við þekktum alls ekki neitt (og mundi ekki vilja þekkja eftir þessa uppákomu).
Ég og Hjartað (og að vísu hinar líka) höfðum verslað okkur forláta hatta sem við bárum með miklum glæsibrag eins og flest annað sem fellur yfir okkar yndifríðu og stæltu skrokka (þetta var að vísu á höfuð en þau er líka stælt og fín). Höfðum þegar vakið nokkra athygli með þessa hatta og töldum víst að það væri sökum þess hversu einstaklega glæsilegar við værum (nema hvað). Nema þarna erum við á heimleið. Leigubílstjórinn var kominn í gegnum hliðið þar sem leitað er að byssueign og annarri óáran sem við gætum hugsanlega smylgað úr landinu (fundu samt ekki handjárnin góðu) og ekkert fannst hjá henni.
Næst í röðinni kem ég undirrituð og eins og þið munið sem hafið lesið svona langt, þá var ég einstaklega glæsileg með hattinn minn og þá æpir tollarinn að mér "Lift your Hands". Guð hvað mér brá og ég skellti höndunum upp fyrir höfuð, var næstum því komin að veggnum til vera tilbúin þegar hans næsta setning yrði "spread your legs" (mín horfir sko á löggumyndir í sjónmartinu sínu og veit alveg hvernig svona hlutir ganga fyrir sig). Þarna stend ég alveg eins og dauðadæmd, stari beint fram fyrir mig (því annars getur mar verið skotinn, það gerist í sjónmartinu) og þori ekki að hreyfa litla fingur. Þá tek ég eftir því að tollarinn sem er að æpa er farinn að hristast eitthvað einkennilega og ég reyni að píra augun og sjá hvað er að gerast, hélt kannski að hann væri búin að handtaka systur mína litlu eða hina förunauta mín, nema meðan ég reyni að átta mig á aðstæðum þá fatta ég að maðurinn (tollarinn) er kominn í keng af hlátri. Ég skil ekki neitt, held höndunum hátt yfir höfði mér og kíki svona aðeins í kringum mig og verð þá vör við það mér til mikillar skelfingar að það er gjörsamlega allt stopp í kringum okkur og að fólk er gjörsamlega að fara yfir um að hlátri.
Tollararnir sem vinna hinum megin við hliðið voru farnir að kíkja inn og hlæja og allir skríktu með nema ég. Tollarinn sagði eitthvað sem hljómaði eins og ekkert sem ég skildi (held helst að enskan mín hafi dottið úr forritinu eitt andartak) og í gegnum þokuna heyrði ég að Hjartað var að hvísla einhverju að mér (held að vísu að hún hafi hrópað en bómullinn í eyrunum á mér gerði mér ófært að heyra neitt). Það sem hún sagði var:
"Lyftu hattinnum, lyftu hattinum".
Ég var enn ekki farin að skilja neitt og lét því aðra hendina síga til að lyfta hattinum en hélt hinni hendinni enn hærra yfir höfði mér svo þeir héldu ekki að ég væri að ná mér vopn og skytu mig í misgripum fyrir eitthvað annað. maðurinn hélt áfram að hlæja og bandaði mér áfram, sá næsti í röðinni heimtaði að fá að sjá í töskuna mín og þegar þarna var komið voru mínar stáltaugar eitthvað að gefa sig þannig að þegar ég tæmdi töskuna var ég svo skjálfhent að filofaxið mitt datt og úr því þyrluðust allir lausir miðar sem ég hafði skrifað mér til minnis þetta ár (þetta var í ágúst) og enn fóru allir að hlæja.
Mér var bandað fram og um leið og ég lít við sé ég að Hjartað lyftir hattinum sínum með virðulegu handtaki, ekkert upp með hendur eða neitt og í gegnum þokuna heyrði ég orðin sem ég hafði ekki heyrt áður
"Lift your HAT"

Það er nornakvöld næsta föstudag. Held að vættirnir hljóti að fara koma með skýr skilaboð til mín hvers sé að vænta á komandi mánuðum, eða þannig! Það er ekki hægt að skrönglast í gegnum lífið nema að fá að vita annað slagið að gjörðir manns séu samþykktar. Held að það sé nornin í Vesturbænum sem taki á móti okkur í þetta skiptið. Við höfum nefnilega ekki hist síðan í júní vegna sumarleyfa og utanlandsferða starfandi norna. En þetta stendur sem sagt allt til bóta.

Haukurinn þarf sem betur fer ekki að vera lengi atvinnulaus. Hann sótti um á fjórum stöðum í síðustu viku og fékk þrjú nei og eitt já. Það var hringt í hann um hádegisleyti á laugardag og hann ráðinn. Fór í viðtal í dag og leist vel á það sem hann sá. Hann veit að vísu ekki hvenær hann á að byrja því þeir gleymdu að ræða það hehe

Hann er líka búinn að fá leiðréttingu frá skattinum og þarf því ekki að borga alla hundraðþúsundkallana sem þeir rukkuðu hann um, eins gott. Annars hefði svo sem ekkert munað um að bæta því við.

Fórum í matarboð til foreldranna í gær og þar var læknirinn með RönnsuPönnsu. Ægilega gaman. Gullmolinn varð svo undrandi yfir öllu þessu fólki að hann steinþagnaði og fékkst ekki til að koma ofan í sig matarbita. hann var alltof önnum kafinn að horfa á þessa ljóshærðu og lokkafínu frænku sem hann var allt í einu búinn að eignast. Aðeins einu sinni reyndi hann að næla hendinni í lokkana en hún var fljót að öskra á hvasst á hann þannig að hann kippti að sér hendinni. Greyið litla. Hann þekkir nefnilega engar konur með sítt hár nema mömmu sína. Allar aðrar eru stutthærðar og því ekkert gaman að klappa þeim um hárið. Því sá hann sér leik á borði en því var ekki tekið fagnandi, en svona er lífið.

10 ágúst 2003

Hrotur
Það er eitt sem ég held að flest allir séu sammála um að geti komið í veg fyrir heilbrigðan nætursvefn og það eru hrotur meðborgara okkar! T.d. ef mar fer í útilegu þá er alltaf einhver í næsta tjaldi sem hrýtur eins og andskotinn (ég er viss um að í helvíti hrjóta allir). Hef einnig nokkrum sinnum sofið í ferðaskálum hingað og þangað um landið og þar er sama sagan, rétt eftir að mar sofnar loksins þá vaknar mar við hrotur mannsins í næsta herbergi eða næstu koju.

Þetta er sem sagt hugðarefni mitt þessa dagana og ástæðan er einföld. Við haukurinn hrjótum nefnilega ekki saman, ó nei. Við hrjótum nefnilega sitt hvora nóttina og þá vakir það okkar sem ekki hrýtur! Nóttina eftir er svo sá sem hefur vakið nóttina áður svo gjörsamlega úrvinda að hann/hún fellur í djúpan hrotusvefn og hvað gerist þá? Jú það okkar sem svaf fyrri nóttina getur nú ekki einu sinni deplað augum fyrir hrotum þess úrvinda. Annað okkar er sem sagt alltaf á ferðinni hálfa nóttina þessa dagana (næturnar).

Í nótt svaf ég í hrotusamloku. Það er sérstaklega góð uppfinning og gerð til þess að kvelja lífið úr óviðbúnum svefnpurkum. Í þessari hrotusamloku voru a. haukurinn b. meinvill sjálf c. Gullmolinn Vittorino.
Gullmolinn var nefnilega hjá okkur í nótt því systirin fór í þrítugsafmæli. Um miðja nótt vaknaði ég við að hann stóð í einu horninu á fína rúminu sem við höfum fyrir hann (honum finnst það ekki fínt) og sendi frá sér einhver ámátleg hljóð. Svo auðvitað kippti ég honum upp í til okkar.
Þar sem þessi litli gullmoli tekur þvílíkt ofurpláss í rúmi er ekki hægt að hafa hann á milli því það verður til þess að við húsráðendur og eigendur rúmsins sofum upp á rönd á sitt hvorum gaflinum meðan gullmolinn teygir úr sér og sefur eins og engill. Því var það ráð mitt að hafa hann ystan þessa nótt. Það var rosa fín hugmynd þangað til hann sofnaði aftur og byrjað að hrjóta því um svipað leyti byrjaði haukurinn líka að hrjóta og ég þarna á milli þeirra og átti mér enga undankomu! Hvað gerir mar í svona tilfellum? Ekki er hægt að berja í 11 mánaða og skipa honum að hætta og ekki er betra að berja í hinn því hann verður svo sár og þar að auki hætta á að báðir vöknuðu.

Úff, hvernig geta lítil börn hrotið svona hátt? Ég vissi ekki einu sinni að þau hefðu svona mikið loft (að vísu er gullmolinn Þingeyingur að stórum hluta þannig að það skýrir eflaust margt). Haukurinn er hinsvegar ekki Þingeyingur að neinum hluta, nei í honum ríkir nær ómengað hafnfirskt alþýðuloft (hans orð en ekki mín) en það er greinilegt að þetta hafnfirska alþýðuloft er ekkert betra en þingeyska eðalloftið sem býr í mér. Alla vega þá hrjótum við hvort í kapp við annað...til skiptis!


Powered by Blogger