Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

11 ágúst 2003

Upp með hendur
Leigubílstjórinn er að gera grín að mér fyrir að hafa kennt fólki hvernig það á að hegða sér á Heatrow. Þetta er alls ekki fyndið og mér finnst alveg furðulegt að fólkið sem þarna kom við sögu skyldi ekki hafa nefnt þakkir sínar fyrir löngu því nú á tímum hryðjuverka og almennrar glæpastarfsemi getur þetta verið nauðsynlegur eiginleiki til þess að komast af!

Þetta var fyrir langt um löngu síðan en ég er þekkt fyrir að vera alltaf aðeins á undan minni samtíð í flestu sem ég tek mér fyrir hendur (nema í því að finna mann það beið ég með í mörg mörg ár eða þangað til ég fann haukinn). Við vinkonurnar, leigubílstjórinn og ég ásamt fríðu föruneyti vorum í London á heimleið. Ég man nú ekki alveg hverjir voru með en það var allavega systir mín ástúðleg, Hjartað og Bjargey, man hreinlega ekki hvort við vorum fleiri en það skiptir minnstu máli því það var þarna fullt af fólki sem við þekktum alls ekki neitt (og mundi ekki vilja þekkja eftir þessa uppákomu).
Ég og Hjartað (og að vísu hinar líka) höfðum verslað okkur forláta hatta sem við bárum með miklum glæsibrag eins og flest annað sem fellur yfir okkar yndifríðu og stæltu skrokka (þetta var að vísu á höfuð en þau er líka stælt og fín). Höfðum þegar vakið nokkra athygli með þessa hatta og töldum víst að það væri sökum þess hversu einstaklega glæsilegar við værum (nema hvað). Nema þarna erum við á heimleið. Leigubílstjórinn var kominn í gegnum hliðið þar sem leitað er að byssueign og annarri óáran sem við gætum hugsanlega smylgað úr landinu (fundu samt ekki handjárnin góðu) og ekkert fannst hjá henni.
Næst í röðinni kem ég undirrituð og eins og þið munið sem hafið lesið svona langt, þá var ég einstaklega glæsileg með hattinn minn og þá æpir tollarinn að mér "Lift your Hands". Guð hvað mér brá og ég skellti höndunum upp fyrir höfuð, var næstum því komin að veggnum til vera tilbúin þegar hans næsta setning yrði "spread your legs" (mín horfir sko á löggumyndir í sjónmartinu sínu og veit alveg hvernig svona hlutir ganga fyrir sig). Þarna stend ég alveg eins og dauðadæmd, stari beint fram fyrir mig (því annars getur mar verið skotinn, það gerist í sjónmartinu) og þori ekki að hreyfa litla fingur. Þá tek ég eftir því að tollarinn sem er að æpa er farinn að hristast eitthvað einkennilega og ég reyni að píra augun og sjá hvað er að gerast, hélt kannski að hann væri búin að handtaka systur mína litlu eða hina förunauta mín, nema meðan ég reyni að átta mig á aðstæðum þá fatta ég að maðurinn (tollarinn) er kominn í keng af hlátri. Ég skil ekki neitt, held höndunum hátt yfir höfði mér og kíki svona aðeins í kringum mig og verð þá vör við það mér til mikillar skelfingar að það er gjörsamlega allt stopp í kringum okkur og að fólk er gjörsamlega að fara yfir um að hlátri.
Tollararnir sem vinna hinum megin við hliðið voru farnir að kíkja inn og hlæja og allir skríktu með nema ég. Tollarinn sagði eitthvað sem hljómaði eins og ekkert sem ég skildi (held helst að enskan mín hafi dottið úr forritinu eitt andartak) og í gegnum þokuna heyrði ég að Hjartað var að hvísla einhverju að mér (held að vísu að hún hafi hrópað en bómullinn í eyrunum á mér gerði mér ófært að heyra neitt). Það sem hún sagði var:
"Lyftu hattinnum, lyftu hattinum".
Ég var enn ekki farin að skilja neitt og lét því aðra hendina síga til að lyfta hattinum en hélt hinni hendinni enn hærra yfir höfði mér svo þeir héldu ekki að ég væri að ná mér vopn og skytu mig í misgripum fyrir eitthvað annað. maðurinn hélt áfram að hlæja og bandaði mér áfram, sá næsti í röðinni heimtaði að fá að sjá í töskuna mín og þegar þarna var komið voru mínar stáltaugar eitthvað að gefa sig þannig að þegar ég tæmdi töskuna var ég svo skjálfhent að filofaxið mitt datt og úr því þyrluðust allir lausir miðar sem ég hafði skrifað mér til minnis þetta ár (þetta var í ágúst) og enn fóru allir að hlæja.
Mér var bandað fram og um leið og ég lít við sé ég að Hjartað lyftir hattinum sínum með virðulegu handtaki, ekkert upp með hendur eða neitt og í gegnum þokuna heyrði ég orðin sem ég hafði ekki heyrt áður
"Lift your HAT"

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger